Færsluflokkur: Kjaramál

Um flís af kjöti og stafla af bjálkum skulda og vaxta

Það sætir furðu með hve mikilli hörku forseti ASÍ ræðst gegn viðleitni sauðfjárbænda við að bæta tekjur sínar, eins og Ásmundur Daði bendir á, en í fréttum hefur komið fram að bændur hyggist leitast við að fá meira frá milliliðum án þess að það fari samsvarandi út í verðlagið til neytenda.
Þessu virðist forseti ASÍ horfa framhjá og hótar þessum bændum því að sparka öllum þessum tekjugrundvelli þeirra undan þeim og þar með farga gjaldeyrissparandi framleiðslu og hluta gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar, þ.e. með því að hvetja félagsmenn ASÍ til að sniðganga innlent lambakjöt.

Þar sem það er efalaust ásetningur ASÍ að bæta kjör félagsmanna sinna væri e.t.v. nær að ráðast hatrammlega gegn t.d. vaxtaoki heimila. Þar er um margfalt hærri kostnað og útgjaldalið að ræða fyrir heimilin og launþega heldur en neyslukostnaður þeirra vegna lambakjöts er.


mbl.is Vill sniðganga Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lántakar bera alla áhættu - Sanngjarnt?

Verðtrygging lána eins og viðgengist hefur hérlendis undanfarna áratugi byggir á botnlausu óréttlæti.

Það felst í því að lántakar bera ALLA áhættuna af þróun verðlags, 100%, en lánveitendurnir, fjármagnseigendur, bera enga áhættu í því sambandi. Í ofanálag fá þeir sína vexti, sem í þokkabót eru breytilegir í mörgum tilvikum.

Sanngjarnara væri að aðilar skiptu þessari áhættu með sér með einhverjum hætti í ljósi þess að til algjörra undantekninga heyrir að verðhjöðnun eigi sér stað og þá aðeins í einn eða örfáa mánuði hverju sinni. Verðbólga er ríkjandi.

Eygló Harðardóttir alþm., Framsóknarflokki, hefur borið fram athyglisverðar tillögur í tengslum við skiptingu þessarar áhættu milli aðila, en þær virðast ekki hafa náð eyrum þingheims til frekari umræðu og ákvörðunar þar á bæ.


mbl.is Vilja afnám verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsandi dæmi um launastefnu

Innihald meðfylgjandi fréttar um stefnu í kjaramálum og skiljanlegt og réttmætt andóf forystumanna Verkalýðsfélags Akraness er lýsandi dæmi um það sem ég fjallaði stuttlega um nýlega um að hugsunarháttur og viðhorf í kjarabaráttu þarf að breytast í grundvallaratriðum hér á landi, sbr. pistil minn "Hugarfarsbreytingar er þörf um kjarasamninga".

Komast þarf út úr þeim vítahring hugarfarsins að ekki sé hægt eða ekki megi hækka laun eða bæta kjör með öðrum hætti hjá tilteknum hópi launþega nema það sama gangi eftir fyrir alla aðra samtímis. Slík sjónarmið, og sem hafa verið ríkjandi hérlendis undanfarna áratugi, halda í reynd launum allra niðri til lengri tíma litið miðað við það sem þau gætu verið. 
Þannig kerfi er við haldið með allsherjar samtökum atvinnurekenda og launþega þar sem stefnan virðist vera að semja um einhvers konar "meðal-samninga". Þar er gjarnan tekið mið af lægstu mögulegu kjarabótum sem byggja og taka mið af lélegustu rekstrargreinum á hverjum tíma; því sem sú atvinnugrein sem verst stendur er sögð geta "varla" staðið undir.

Í þessu skjóli skáka síðan atvinnugreinarnar og fyrirtækin með bestu afkomuna sem sleppa þar með við að hækka laun og bæta kjör í samræmi við getu sína. Þannig virðist hátta með sjávarútvegsfyrirtækin núna. Ekki er nema von að launþegar og starfsmenn þeirra fyrirtækja telji sig órétti beitta.
Í næstu umferð gæti dæmið síðan hafa snúist við afkomulega séð meðal atvinnugreina og fyrirtækja.
Þannig fengju launþegar í hverri grein, stað eða fyrirtæki, kjarabætur sínar á mismunandi tímum í misstórum stökkum. Nákvæmlega þarna liggur nauðsynin á breyttu hugarfari til kjarasamninga.
Afleiðingin er augljóslega sú að í heildarsamningum eins og hér hafa tíðkast er tilhneiging til þess að kjarabætur taki ávallt mið af lélegustu greinunum hverju sinni.
Hættan við þessa stefnu er ennfremur sú að ef samtökum launþega tekst að herja í gegn t.d. meiri launahækkanir en t.d. helmingur atvinnulífsins getur staðið undir einhverju sinni leiðir það óhjákvæmilega til ófarnaðar og kreppu og í versta falli gjaldþrots þeirra fyrirtækja. Sú afleiðing er ekki góð fyrir launþega, a.m.k. til skamms tíma litið.

Niðurstaðan af þessum vangaveltum er augljóslega sú að taka ber tillit til rekstraraðstæðna og afkomuhorfa í hverri atvinnugrein, stað eða fyrirtæki, fyrir sig við kjarasamninga.
Afleiðingin er eðlilega sú að heildarsamtök og heildarsamningar eiga ekki við, sé markmarkið að hámarka kjör launþega til lengri tíma litið og þannig að fyrirtækin lifi af til frambúðar þrátt fyrir það.

Aftur á móti er annað mál að í heildarsamtökum felst mikill samtakamáttur, að sagt er.
Það er tvíbent fullyrðing. Hún er það í orði, en er hún það á borði? Hvað sýnir reynslan undanfarið? Skynsamir launþegar á hverjum stað sjá það í hendi sér að ekki er viturlegt að herja í gegn launahækkanir sem þeir sjá að fyrirtæki þeirra getur ekki með sanngjörnum hætti staðið undir til frambúðar. Þess vegna halda þeir að sér höndum þegar þannig háttar, trúir hagsmunum sínum og fyrirtækis síns sem þeir starfa hjá.
Á hinn bóginn ber þeim hinum sömu ekki sömuleiðis að halda að sér höndum í launakröfum sínum þegar betur og vel árar hjá fyrirtæki þeirra, "vegna þess að illa árar í atvinnulífinu almennt"! Að fara fram á það er ekki réttlátt.
Mýtan eða goðsögnin sem felst í slagorðinu um samtakamátt sem tæki í kjarabaráttu hefur undanfarið snúist upp í andhverfu sína þar sem sá samtakamáttur hefur stuðlað að því að halda niðri launum launþega til lengri tíma litið og rústa þeim óburðugri fyrirtækjum sem hafa ekki getað staðið undir þeim (lágu) meðaltalskjarabótum sem þó eru herjaðar út hverju sinni. Það er því bæði launþegum og atvinnurekendum, sérstaklega hinum smærri, í hag að semja á grundvelli aðstæðna í hverju tilviki. Heildarsamtök launþega þurfa í því samhengi að fylgjast með, afla upplýsinga um atvinnugreinar og fyrirtæki og styðja við bakið á staðbundnum launþegasamtökum að því leyti með ráðum og dáð og hafa eftirlit með því að réttindi launþega og möguleikar séu ekki fótum troðnir. Áherslur þurfa þannig að breytast á vettvangi heildarsamtakanna, en með markvissum hætti.

Stefna sem tekur mið af rekstrargrundvelli fyrirtækja á hverjum "stað" er lífvænlegri til lengri tíma litið, bæði fyrir fyrirtækin í heild og launþega í heild.
Í slíkri stefnu eiga litlu fyrirtækin eða þau sem ekki eru fjárhagslega sterk betri framtíðarhorfur en í núverandi "miðjumoðs"-stefnu þar sem sterkari fyrirtækin ráða för og halda á pálmanum þegar upp er staðið og til lengri tíma litið. Kennitöluflakk fyrirtækja sem umtalað er hérlendis er ef til vill að nokkru leyti ein afleiðing af þeirri allsherjar miðjumoðs-launastefnu. 

Við erum hér að tala um upplýstar og skynsamar og réttlátar ákvarðanir, bæði fyrir alla launþega og alla atvinnurekendur á hverjum tíma til lengri tíma litið.


mbl.is Vilhjálmur hótar úrsögn úr ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugarfarsbreytingar er þörf um kjarasamninga

Blasir ekki við hið augljósa að allherjarviðræður launamannasamtaka við samtök atvinnulífsins í "einum pakka" er aðferð sem gengur ekki? Sú aðferð er órökræn.
Ástæðan er einfaldlega sú að mismunandi atvinnugreinar eru mismunandi vel á sig komnar efnahagslega séð á hverjum tíma. Sumar hafa meira borð fyrir báru til hækkunar launagreiðslna en aðrar, en á öðrum tíma getur dæmið hafa snúist við. Það er því vitfirring að ætla sér semja fyrir alla heildina um sömu kjarabætur samtímis og halda því fram að þá sé réttlæti fullnægt.

Það verður að brjóta þetta upp og semja um kjör á hverjum vettvangi fyrir sig. Ef samið er fyrir alla heildina um sömu kjarabætur á sama tíma rústar það einfaldlega þeim fyrirtækjum sem ekki hafa forsendur til að verða við þeim á þeim tíma. Vilja launþegar það?
Á hinn bóginn sleppa vel stæð fyrirtæki með mun minni kjarabætur til síns starfsfólks en þau gætu með réttu staðið undir. Það launafólk verður því af kjarabótum í það skiptið vegna niðurkeyrðra miðjumoðs-heildarsamninga. Vilja (þeir) launþegar það?

Við þurfum að losna út úr þeim hugsunarhætti að ef einn aðili ætti og getur með rétti fengið góða kjarabót í formi launahækkana þá eigi allir aðrir launþegahópar að fá sömu launahækkun án tillits til getu viðkomandi fyrirtækja og stofnana til að standa undir því.
Slík meðaltals-pólitík felur í sér landeyðandi stefnu sem rústar mörgum fyrirtækjum og efnahag viðkomandi starfsfólks í leiðinni, eða heldur öllum niðri í launum ella.

Þessi aðferð heildarsamninga hefur á hinn bóginn fært atvinnurekendum þá vígstöðu að geta viðhaft þá hræðslupólitík að allt fari á hliðina sökum óðaverðbólgu ef orðið yrði við "of háum" launakröfum tiltekinna hópa; á þeirri forsendu "að þá muni þetta ganga yfir allar stéttir launafólks". Viðmælandinn í þessari frétt viðhefur þau rök. Hann hefur að vísu rétt fyrir sér ef þetta myndi gerast.
Þannig er reynt að halda öllum niðri í launum, líka þeim sem með réttu hafa forsendur til þess að fá meira á tilteknum tíma.

Hver hópur launamanna verður því að semja fyrir sig til að ná raunverulegum árangri og án þess að keyra fyrirtæki sín í þrot vegna launahækkana.
Hins vegar geta hópar verið mismunandi samansettir: Þeir geta verið bundnir við allt starfsfólk tiltekins eins fyrirtækis, tiltekinnar og einsleitrar atvinnugreinar, staðar, og jafnvel afmarkaðrar stéttar launafólks sem fylgir lægri töxtum kjarasamninga starfsgreinar. En, ekki alla þjóðina samtímis!
Nema þá og því aðeins að allar atvinnugreinar blómstri samtímis og hafi því sömu forsendur til sömu kjarabóta samtímis. Það væru náttúrulega kjöraðstæður fyrir góða heildarsamninga með réttu.


mbl.is Fá ekki meiri hækkanir en aðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilvita menn og hávaxtastefna

Þeir sem sjá vilja og hafa efni til hugsunar milli eyrnanna og skynsemi til að nýta það gera sér grein fyrir því að þær forsendur sem sagðar hafa verið fyrir hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands frá því skömmu eftir bankahrunið í október 2008 hafa ekki átt við rök að styðjast, svo vægt sé til orða tekið. 
Klifað hefur verið á því af hálfu Seðlabankans og stjórnvalda að verja þyrfti gengið með því að halda uppi háu vaxtastigi.
Á móti þeim rökum hefur margoft verið bent á að meðan gjaldeyrishöft eru við lýði þarf ekki jafnframt himinháa vexti til þess.
Þetta var vitað mál fyrirfram og reynslan sannar þá skoðun.
Það er ekki seinna vænna en að málsmetandi aðilar fari að andmæla þessari vitleysu. (Það eru náttúrulega aðrir en þeir sem hagnast hafa á hávaxtastefnunni).

Á þessari bloggsíðu hefur margoft verið bent á hugsunarvilluna sem hefur verið allsráðandi um vaxtastefnuna hjá Seðlabankanum. Stefna Seðlabankans hefur verið þveröfug við gamlar og góðar kenningar um fjármála- og vaxtastefnu hins opinbera, sem og heilbrigða skynsemi.
Þar má benda á pistil um Hundalógik hávaxtastefnunnar og pistil um Haldlaus hávaxtarök.

Heilvita menn sjá þessa vitleysu, eins og hún snýr að almenningi og skuldugum heimilum og skuldugum fyrirtækjum ekki síður.
Mér dettur ekki í hug annað en að gefa mér þá forsendu að starfsmenn og stjórnendur Seðlabankans séu bæði þrælmenntað og skynsamt fólk.
Í ljósi þess verður að spyrja: Hvers vegna hefur þá hávaxtastefnan verið við lýði úr því að gjaldeyrishöftin hafa staðið óhögguð áfram?

Ef við útilokum að þekkingarleysi og dómgreindarleysi  í Seðlabankanum valdi, þá hlýtur Seðlabankinn að vera undir aga og stjórn annarra aðila.
Hverjir gætu þeir þá verið?
Er það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða fjármagnseigendur, innlendir og erlendir, sem eiga fé og digra sjóði á háum innlánsvöxtum eða "traustum" hávaxtaberandi skuldabréfum íslenska ríkissjóðsins? Hvað um það, afleiðingin er sú sama fyrir skuldara.

Með hávaxtastefnunni hafa allir skuldarar á Íslandi, heimili og fyrirtæki, verið að greiða þeim sem best eru staddir fjárhagslega háar vaxtagreiðslur, þegar síst skyldi í þokkabót.
Vaxtagreiðslurnar hafa nánast verið millifærðar beint frá þrælpíndum skuldurum (skuldaþrælum) til innistæðueigenda. Það sem kórónar vitleysuna er svo verðtrygging lána sem hingað til hefur verið útfærð þannig að allri áhættu af verðlagsþróun er velt yfir á skuldara 100%.
Þetta er það réttlæti sem almenningi á Íslandi í góðri trú hefur verið boðið upp á.

Almenningur, skuldugu heimilin og skuldugu fyrirtækin, geta ekki staðið undir þessu til lengdar. Hvers vegna ættu þau að gera það?


mbl.is Telja eitthvað bogið við íslenska peningastefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabærar tillögur um lánamál

Meðal þess sem felst í þessum tillögum Framsóknarflokksins er almenn skuldaleiðrétting, vaxtalækkun og að áhættu verði skipt milli lánveitanda og lántaka.

Þetta þykir mér afar gott útspil hjá Framsóknarflokknum og er löngu kominn tími til að svona tillögur sjáist á Alþingi varðandi skuldaleiðréttingu, vaxtalækkun og ekki síst að áhættu verði skipt milli lánveitenda og lántakenda.

Um þetta allt og þau markmið sem að baki liggja hef ég ritað og fært rök fyrir í fyrri pistlum mínum og er ánægjulegt að sjá fleiri og málsmetandi fólk taka undir þessi markmið með merkjanlegum hætti. Þau eru til þess fallin að gera bæði heimilum og fyrirtækjum í landinu kleift að sigrast á þeim fjárhagslegu hindrunum sem hingað til hafa verið að hrannast upp frá árinu 2008, sérstaklega eftir bankahrunið. Bráðnauðsynlegt er að efla framleiðslukerfi landsins en í því felst viðsnúningur til hins betra fremur en að byggja á hinni röngu og rakalausu hávaxtastefnu með tilsvarandi skuldsetningarhugmyndum tengt gömlu IMF-áætluninni fyrir Ísland.

Ég er margoft búinn að benda á fáránleikann í hávaxtastefnunni, sbr. t.d. nýlega pistla mína um haldlaus hávaxtarök og hundalógík hávaxtastefnunnar.

Einnig hef ég oftar en einu sinni rætt um ósanngirni þess að lántakendur einir beri alla áhættu af verðbólgu og lánveitendur enga.
Þvert á móti er einmitt sanngjarnara og engin rök til annars en að þessir aðilar skipti með sér þessari áhættu, sérstaklega því sem bætt hefur verið við höfuðstól lána í formi verðbóta. Það er óverjandi að lántakandinn beri einn þá áhættu, sbr. pistil minn um það efni.

Ég fagna því svo sannarlega löngu tímabærum tillögum Framsóknarflokksins um þessi efni.

Það er tilefni til þess að óska tillöguflytjendum og flokknum og þjóðinni allri, sérstaklega langþjáðum skuldurum, til hamingju með þessar tillögur.


mbl.is Þjóðarsátt Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundalógík hávaxtastefnunnar

Já, vissulega er svigrúm til frekari vaxtalækkunar. Það sem meira er, þá er hægt að skapa þær forsendur, en Seðlabankinn vill ekki viðurkenna þann möguleika sökum trúfesti sinnar við ídealiseruð hagfræðilíkön sem byggja á tilsvarandi ídealiseruðum forsendum. Þær forsendur eiga ekki við þær aðstæður sem eru í efnahagskerfi Íslands núna. Hér eru í gildi gjaldeyrishöft og gengi krónunnar er ekki ákvarðað á fullkomnum markaði framboðs og eftirspurnar. Auk þess eru hendur þorra almennings þrælbundnar með skuldafjötrum þannig að flestir geta sig lítið hrært í neyslu og fjárfestingum nema til daglegra nauðsynja; sumir alls ekki neitt! Hér er því ekki fyrirliggjandi hætta á ofþenslu með tilheyrandi verðbólguhvata, nema síður sé. Á þetta hafa margir bent, margsinnis, en það er eins og að tala við dauðan svartan stein.

Það er bráðnauðsynlegt að skera á þann Gordionshnút hávaxtastefnu sem Seðlabankinn hefur rígbundið efnahagskerfi landsins í, atvinnulífi og heimilum til óbóta. Hún er varin með óviðeigandi rökum sem hvíla á forsendum sem ekki eiga við í íslensku atvinnulífi núna. Það er ekki mikil hætta á að efnahagskerfið snöggræsist og þjóti í ofþenslu við hressilega vaxtalækkun niður í svipað stig og er í viðskiptalöndum Íslands.

Hvernig væri að menn ryfjuðu upp það dæmi þegar verðbólgu hérlendis var nánast kippt úr tveggja stafa tölu, er hún snarlækkaði við það að tekin var ákvörðun um að lækka vexti í 5% ? Þar var minnkuð verðbólga afleiðing af snarlækkuðu vaxtastigi og væntingum um að það héldist lágt.
Í dag virðist Seðlabankinn hins vegar alfarið vinna eftir þeirri hugmynd að verðbólguvæntingar eigi að stjórna vaxtaákvörðunum. Miðað við íslenskar aðstæður núna og undanfarið ár eru hér höfð endaskipti á hlutunum.

Ekki er furða að hægt gangi að koma þessu hvorutveggja niður á við, verðbólguvæntingunum og vöxtunum, meðan svona "hundalógík" ræður ríkjum.


mbl.is Svigrúm til frekari lækkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðingar og pólitík

Eftir því sem ég hugleiði það meir hallast ég að því að þessi umrædda grein Jóns Steinssonar í Morgunblaðinu í gær hafi hreinlega verið pólitískur pistill en ekki hlutlaus umfjöllun fræðimanns, eins og hann leit út fyrir að vera í ljósi fyrri greina Jóns.
Þessi misvísandi framsetning hans um að að afturvirkt afnám verðtryggingar fram fyrir hrun sé árás á "þá sem skulda lítið" er fræðimanni ekki sæmandi nema honum hafi yfirsést svona hrapalega eða að hér sé um vísvitandi misvísun að ræða til að framkalla samúð með "egginu" en ekki "hænunni", þ.e. þeim sem verða fyrir óbeinum áhrifum en ekki þeim sem urðu strax fyrir beinum áhrifum, lántakendum.
Eins og ég bendi á í fyrri pistli var skuldaklafa í formi "handrukkaðra" verðbóta skellt á varnarlausa lántakendur og eignasafn lánveitenda hækkað sem því svarar; á pappírnum og með tölum í tölvum samkvæmt snarvitlausri og brostinni vísitölu. Jón horfir alveg framhjá þessu atriði og því réttlæti sem um er að ræða við að bakfæra þetta óréttlæti með því að fjarlægja hruns-verðbæturnar af baki viðkomandi lántakenda.

Þá má velta fyrir sér hvers vegna fræðimaðurinn, þ.e. í hlutverki hins pólitíska skríbents í þessu tilviki, skautar svo áberandi fram hjá þessu grundvallaratriði. Er það vegna þess að bakfærsla á umræddum verðbótum myndi afhjúpa með greinilegri hætti slæma stöðu bankanna (og þar með ríkisins) og lífeyrissjóðanna? Jón hrósar aðgerðum ríkisstjórnarinnar hingað til í hástert, þegar ýmir aðrir virðulegir fræðimenn gera það ekki, þannig að deildar fræðilegar meiningar eru nú um ágæti þeirra. Þetta bendir því miður til þess að grein Jóns sé of lituð pólitískum skoðunum og virðist það hafa afhjúpast í þessari grein. - Líklega má segja hið sama um þá virtu hagfræðinga í Kastljós-viðtali í gærkveldi, þá Þórólf Matthíasson og Tryggva Þór Herbertsson.

Lífeyrissjóðirnir hafa tapað óhemju fé á falli bankanna, t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna á Kaupþingi og Exista, svo eitt dæmi sé nefnt, eins og Ragnar Þór Ingófsson rekur í grein sinni í Morgunblaðinu í dag 4. sept., "Brennt barn forðast eldinn", á s. 26. Það er hryllileg saga sem hann rekur þar um krosstengsl sjóðsins, banka og fyrirtækja og persónana og fjölskyldna þar að baki. Það er ekki furða að Evu Joly skuli hafa blöskrað persónu- og hagsmunatengslin í íslenska fjármálakerfinu.
Afleiðingar af glötuðum fjárfestingum og vafasamri stjórn þeirra mála kæmu betur í ljós ef lífeyrissjóðir myndu neyðast til að horfa á eftir of-bókfærðum verðbótum á lánum heimilanna í ofanálag, eins og hér er til umræðu. Það er því ekki furða að andstaðan sé mikil gegn þessum hugmyndum.

Vonandi tekst ekki að viðhalda blekkingum gagnvart almenningi um vankanta á bakfærslu oftekinna verðbóta með því að færa misvísandi rök í fræðilegan búning virðulegra fræðimanna í háskólum hérlendis og erlendis sem almenningur kann ekki svör við.


Ekki algjört greiðsluverkfall, en halda áfram að greiða m.v. stöðu lána fyrir hrun?

Það er alveg bráðnauðsynlegt að fara þá almennu leið að endurstilla verðbótaútreikninginn á lánum til baka til þess tíma um það bil er lánskjaravísitalan (neysluvísitalan) var að hefja sig til flugs snemma árs 2008, þegar krónan var farin að veikjast alvarlega og verðbólgan að snaraukast frá því sem áður var. Ég ræddi um þetta í pistli í gær, vegna greinar sem Júlíus Sólnes ritaði í Morgunblaðið í gær. Í samræmi við þessa endurstillingu yrðu reiknaðar verðbætur frá þessum tíma og til dagsins í dag bakfærðar. Þetta eru bara tölur í tölvu. Engin viðbótareign hefur verið afhent lántakendum, aðeins bætt við skuldir þeirra sem forsendubrestinum nemur. Þess vegna væri ekki verið að taka peninga frá lánveitendum, aðeins lækka eftirstöðvar sem ofteknum verðbótunum nemur.

Að reikna verðbætur ofan á höfuðstól lánanna eftir að þessi forsendubrestur átti sér stað, og sem stigmagnaðist við bankahrunið s.l. haust, er óverjandi óréttlátt og ósanngjarnt. Það lýsir sér hreinlega eins og glæpsamlegu athæfi að hækka eftirstöðvar lána í takt við vísitöluna samtímis því að hækka eignir lánveitendanna sem því nemur.
Þetta hef ég fjallað um í öðrum pistli um það hvernig þeir sem skulda lán eru látnir hjálpa þeim sem eiga fé.

Í stað þess að fara í greiðsluverkfall, eins og fólk hefur verið að hóta samkvæmt fréttum og hér er til umræðu, þá væri ef til vill skynsamlegra og skárra fyrir fólk að halda áfram að greiða af láninu, með fyrirvara, miðað við stöðu lánsins á fyrri hluta ársins 2008 eða þann tímapunkt sem sanngjarnt væri að miða við. Sumir hafa bent á 1. janúar 2008. Með því móti væru lántakendur að sýna vilja sinn til að standa við upphaflegar forsendur eins og þær voru er lánið var tekið í hverju tilviki.


mbl.is Háskalegt að borga ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárfestingasjóður ríkis og atvinnulífs kemur í ljós

Hér kemur á daginn það sem ég fjallaði áður um í pistli um það hvort lífeyrissjóðsiðgjöld væru í reynd skattlagning. Þar bendi ég á m.a. að íslensku lífeyrissjóðirnir séu að miklu leyti nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkisins og atvinnulífsins, en að nafninu til í eigu launþega, þótt þeir séu á ábyrgð launþega. Þeir hafa þó aðeins takmörkuð óbein áhrif á stjórn þeirra.
Launþegar tapa ef sjóðirnir ávaxta fé þeirra illa. Slíkt tap birtist í skerðingu lífeyrisréttinda sjóðsfélaga, eins og dæmin sanna. Það er til lítils að kallast eigandi að einhverju sem maður ræður ekki yfir! Sá sem ræður yfir því og stjórnar á það í raun og veru til lengri tíma litið; Í tilviki íslensku lífeyrissjóðanna ríkið og atvinnurekendur að miklu leyti.
Í pistlinum rek ég hvernig þetta kerfi er fjármagnað með hluta launa og launaígildis launafólks í landinu, eða allt að rúmlega 14% af launatekjum. Þar við mætti jafnvel bæta drjúgum hluta tryggingagjaldsins sem er núna orðið 7 % af launum starfsfólks hjá fyrirtækjum í almennri starfsemi.

Í hnotskurn er dæmið þetta: Launafólk á féð í lífeyrissjóðunum eins og það leggur sig, en hefur ekki fullan ráðstöfunarrétt yfir því. Hverjir þá? Að hálfu leyti atvinnurekendur og þar að auki hið opinbera í gegnum regluverk sitt um starfsemi lífeyrissjóða og tilmæli til stjórna lífeyrissjóðanna eins og nú er til umræðu.

Það hefur verið í höndum stjórna lífeyrisstjóðanna að ráðstafa þessu óhemju mikla fé sem þannig er sífellt að safnast upp. Um það má deila hvort þetta sé réttlátt fyrirkomulag, en það er annað mál.

Í umræddu máli um áformaða og þegar gerða sölu orkuauðlinda á gjafverði og missi á stjórn auðlinda úr höndum Íslendinga þá er hér gott tækifæri til að nýta sjóði landsmanna, lífeyrissjóðina, til að hamla gegn þeirri óheillaþróun og nýta féð í þágu þessara fjáreigenda, launafólksins, Íslendinga.

Til þess bærir aðilar hefðu betur athugað þetta fyrr og í tæka tíð áður en staðið var frammi fyrir orðnum hlut og skertum og glötuðum yfirráðarétti yfir auðlindinni. "Bónusinn" af þessum mistökum og þar af leiddu óhagræði mun því miður koma í ljós síðar í formi hækkaðra orkureikninga til almennings ef að líkum lætur.

Þetta sorglega og forkastanlega dæmi um sölu á hlutum í orkuauðlindunum á Reykjanesi úr landi og þar að auki á gjafverði og fáránlegum afborgunarkjörum ætti þó að vekja menn í stólum sínum í stjórnum lífeyrissjóðanna og minna þá á að þeim hefur verið falin mikil ábyrgð og trúað fyrir stórfé, ævisparnaði almennings sem hann hefur unnið fyrir í sveita síns andlitis við raunverulega vinnu. Þeim hefur verið falið það til varðveislu og ávöxtunar og góðra hluta; ekki til að taka þátt í fjárhættuspili einkarekinna fjármálafyrirtækja eins og gerðist fyrir bankahrunið íslenska.

Launþegar, formlegir eigendur á fé lífeyrissjóðanna, eiga heimtingu á að fé þeirra sé notað í þeirra þágu og því sé varið vel. - Eða er að koma í ljós núna að launþegar eigi í raun og veru ekki sparifé sitt? Að þetta sé í raun og veru dulinn fjárfestingasjóður ríkis og atvinnurekenda sem fjármagnar sig með skattlagningu á launþega í formi "iðgjalda" og launatengdra gjalda? Það er þá innlegg í kjaramálaumræðuna framvegis um endurskoðun forsendna um þessi mál, sem um munar .


mbl.is Vilja hlut Geysis Green
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband