Færsluflokkur: Kjaramál

Bankastjóri gamla Kaupþings segir sannleikann

Batnandi mönnum er best að lifa! Nú hefur sannleikurinn loksins sloppið út hjá fyrrverandi bankastjóra gamla Kaupþings, Hreiðari Má, um það sem er að saxa íslensku þjóðina í spað eftir að ofskuldsetning gömlu einkabankanna lagði hana ásamt þeim sjálfum að velli:
Okurvextir samkvæmt núverandi vaxtastefnu Seðlabankans eru sem sé "á villigötum", segir hann, í viðtali sem birt er á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Forsíðufréttastjóri blaðsins færir þetta meira segja í stílinn þar sem yfirskrift forsíðufréttarinnar er til þess fallin að lýsa á líflegan hátt þeim sem um er rætt, þ.e. höfundum og ábyrgðarmönnum vaxtastefnunnar, en þar segir: "Hreiðar Már segir vaxtastefnu vitleysu"!
Auðvitað er þetta vit-leysa. Það er hárrétt hjá bankastjóranum fyrrverandi. 

Reyndar ber öllu heldur að segja að það eru forsendurnar sem á er byggt sem eru óraunsæjar og því rangar. Rökin að baki hávaxtastefnunni eru á þá leið að hún eigi að bjarga íslensku efnahagskerfi í stöðunni, en því miður er hún að drepa það og þjóðina með! Hún verður löngu dauð áður en hávaxtaráðin virka eins og haldið er uppi vörnum fyrir af Seðlabankanum og öðrum sem hafa þau að ófrávíkjanlegri trúarsetningu.
Lyf sem drepur sjúkling þjónar ekki tilgangi sínum, þ.e. að halda sjúklingnum á lífi og bæta líðan hans. Hvers vegna er það samt notað áfram? Gagnast það e.t.v. einhverjum öðrum en sjúklingnum sjálfum? Til dæmis þeim sem hirða fé hans?! - Er nema von að spurt sé?
Þótt það standi einhvers staðar í ófullkominni kennslubók að hávaxta-"lyfið" eigi að virka við tilteknar útópískar forsendur, þá eru þær aðstæður ekki til staðar hér núna og hávaxtalyfið virkar því eðli málsins samkvæmt ekki á Íslandi í dag. Um það hef ég fjallað í pistlum hér um hávaxtastefnuna, eins og fjölda margir aðrir bæði lærðir og leikir.

Þessa villutrú þarf að uppræta í hinu myrka Seðlabankahúsi og setja hina misvísandi svörtu kennslubók með þessar villukenningar, sem enn virðist notuð þar innan luktra dyra, niður í dýpstu og öruggustu geymslu í kjallara Seðlabankahússins þar sem engir starfsmenn komast í hana. Þar verði hún einungis til sýnis síðar meir til söguskýringa á þeirri plágu sem hún og hennar líkar orsakaði.
Starfsmennirnir verða nú að opna augun og draga tjöldin frá dökkum rúðum á skrifstofum sínum í sínum myrka vinnustað og gá til veðurs í hinu raunverulega íslenska efnahagslífi og fara að beita hyggjuviti sínu og skynsemi sem þeim var gefin í vöggugjöf eins og öðrum Íslendingum, sem reyna nú samviskusamlega af fremsta megni að leita uppi handbærar krónur til að borga okurvextina sem kveðið er á um í þessu húsi. Í besta falli er einhver afgangur eftir hjá fólki til að kaupa mat fyrir; ennþá.

Ég bendi háttvirtum starfsmönnum á að líta t.d. út um frádregna glugga á norðvestur hlið hússins, en þeim til upplýsingar gefur þar á að líta dæmi um rústir góðrar trúar og bjartsýni eftir þær fjárhagslegu hamfarir sem riðið hafa yfir þjóðina undanfarið ár. Þar blasir við sýnishorn af þeim stirðnandi efnahagsveruleika sem við er að eiga.
Reyndar sýnir það dæmi enn fáránlegri rökleysu, vegna þess að af öllum málum sem úr var að velja til að láta leifarnar af fjármagni ríkis og borgar í var tónlistarhús væntanlegra tónleikagesta valið, en ekki t.d. aðgerðir til að rétta við stöðu almennings eða draga úr skerðingum til menntamála; Síðan er spurning hvort íslenskur almenningur komi til með að geta sótt það með erlendum gestum sínum þegar þar að kemur, en það er nú önnur saga.

En, áfram með forsíðustórfréttina í Fréttablaðinu í dag: Þar er sem sé haft eftir hinum uppljómaða og endurleysta fyrrverandi bankastjóra að það sem þurfi að gera í efnahagsstjórn Íslands sé m.a. að afnema verðtryggingar, lækka stýrivexti og breyta lánum í erlendri mynt í krónur. Þarna ratast honum satt orð í munn og sannast hér hið fornkveðna að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott! Þegar meira að segja úthúðaður fyrrverandi bankastjóri, reynslunni ríkari, sér sannleikann í þessum málum,  ásamt sauðsvörtum og þrautpíndum almúganum, þar á meðal skynsömum bloggurum og pistlahöfundum sem lifa í hinum raunverulega íslenska veruleika, þótt sýndarveruleiki sé, en ekki í staðleysu kennslubókardæmis Seðlabankans, þá hlýtur eitthvað að vera til í þessu.


Frum-Gerendum í bankahruninu og Leiksoppum þeirra enn ruglað saman

Hér er enn verið að drepa sannleikanum á dreif með því að saka almenning í góðri trú um vera valdan að bankahruninu á Íslandi en ekki hina raunverulegu upphafsmenn og gerendur í þeim hildarleik. Þetta er dæmi um að hengja saklausan bakara fyrir sekan smið af hlutdrægum ástæðum. Frum-gerendur í orsök bankahrunsins og lánaóráðsíunni í aðdraganda þess eru annars vegar bankaráðsmenn og stjórnendur einkabankanna þriggja, sem féllu óhjákvæmilega og fyrir rest skyndilega vegna ákvarðana og ráðstafana þeirra, og hins vegar erlendu bankarnir sem lánuðu íslensku einkabönkunum ómældar upphæðir til að fjármagna þessa feigðarstefnu þeirra. Um það hef ég fjallað í pistli hér um gerendur í íslenska bankahruninu.

Almenningur hefði ekki "spilað með", eins og látið er liggja að í meðfylgjandi viðtali að sé frumorsök í vandræðum okkar í dag, ef hann hefði ekki haft úr þessu ótæpilega lánsfé að spila árin fram að hruni. Þótt deila megi um "sekt" stjórnvalda sem komu á því regluverki sem fjármálakerfið átti að fara eftir, sem og þeirra eftirlitsaðila sem áttu að hafa virkt eftirlit með fjármálakerfinu, þá var hvorki ríkisstjórn né fjármálaeftirlit í því að lána einstaklingum fyrir kaupum á íbúð og jeppa svo dæmi sé tekið. Það voru bankarnir sem ákváðu að gera það og gerðu það hressilega.
Það var þó aðeins brot af því sem fyrirtæki eigenda bankanna og (tengd) fyrirtæki fengu að láni hjá bönkunum til fjárfestinga m.a. erlendis.
Núna karpa svo örþreyttir Alþingismenn um það hvort íslenskir skattgreiðendur hafi í reynd verið með bakábyrgð á hluta útlána bankanna, þar sem látið hafi verið að því liggja gagnvart erlendum lánveitendum af hálfu a.m.k. eins bankanna.
Þótt bílstjórar hafi fengið ökuleyfi þá er ekki þar með sagt að þeir megi skaða sjálfa sig eða aðra í umferðinni, svo hliðstæða sé nefnd.

Ef hins vegar tala á um "klapplið" með þessum ósköpum í aðdraganda hrunsins ætti fyrst og fremst að beina spjótum að þeim aðilum sem komu þessu regluverki á og eftirlitsaðilum þess, sem báðir horfðu aðgerðalitlir eða "meðvitundarlausir" á kerfið vinda upp á sig þangað til enginn réð við neitt.
Reyndar hefur sá grunur læðst að manni að margir, ekki síst stjórnmálamenn, hafi ekki borið nægilegt skynbragð á það sem var að gerast, sem þeim var þó treyst til að sjá um, og lifað þannig í sæluástandi þekkingarleysis þangað til lánleysi bankanna og þrot kom loks fram í dagsljósið við skyndilega framlagningu ríkisstjórnarinnar á frumvarpi til neyðarlaga varðandi bankainnistæður sparifjáreigenda s.l. haust og er hæstvirtur forsætisráðherra klikkti út með því að biðja Guð að hjálpa andvaralausri íslensku þjóðinni. Þar virtust veraldlegar stofnanir ekki duga til.
Margir segja að þær dugi ekki enn fyrir almenning, aðeins fyrir "fámenning"! Kannske voru sumir á Austurvelli í dag sumpart að mótmæla þeirri stöðu mála.


mbl.is Aðsúgur að Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir illa stæðu styrkja hina vel stæðu í hruninu

Ótrúlegt, en þannig er það einfaldlega. Gallinn er hins vegar sá að þeir geta það ekki til lengdar þótt þeir fegnir vildu af gæsku sinni gagnvart landi og lýð!

Hinir ofurháu vextir sem nú tíðkast valda því að þeir sem skulda, bæði einstaklingar og fyrirtæki, greiða af veikum mætti þeim sem eiga skuldakröfur og peninga í banka há laun í formi okurvaxta og verðbóta. Viðbrögð í fjármálakerfinu, sem stjórnað er af opinberum aðilum og sem greidd eru laun sem þjónum almennings af almenningi, hafa verið að þessu leyti öfugsnúin og almenningi andstæð.

Mörg rök eru tínd til til að verja hávaxtastefnuna, oft með fræðilegu ívafi, sem almenningur skilur ekki. Slíkum málflutningi fylgir oft hroki sem gerir lítið úr almenningi þannig að honum er orða vant. Almenningi er talin trú um að það sé eðlilegt að hann borgi viðbótarálögur á þessum grunni sem í raun eru óréttlátar.

Það sem upp úr stendur er að hávaxtastefnan er að drepa í dróma þá sem skulda, sem er drjúgur hluti þjóðarinnar og flest fyrirtæki landsins. Með þessum hætti er þeim gert ómögulegt að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar er til lengdar lætur; Í staðinn er byrðin sífellt þyngd á grundvelli brostinna forsendna varðandi verðtryggingar.
Upphaflegar skuldbindingar kváðu ekki á um að skuldarar tækju á sig afleiðingar hruns á bankakerfi landsins. Nú er því ekki sanngjarnt að skuldir skuldaranna snögghækki um það sem nemur gengisfalli krónunnar vegna bankahrunsins og þar af leiddri verðbólgu og að eignir kröfueigendanna snögghækki á móti sem því svarar.
Þar að auki var peningainnistæðum þeirra einstaklinga sem áttu sparifé í bönkum bjargað með lagasetningu þannig að þeir töpuðu ekki fé sínu. Hvers vegna eiga skuldararnir einir hins vegar að taka á sig afleiðingar rosaverðbólgu með þessum hætti?

Ég endurtek: Hávaxtastefnan er að saxa niður efnahagslíf Íslendinga með því að bæta sífellt í skuldavafningana um einstaklinga og fyrirtæki. Það er sama hversu "góð" rökin eru fyrir þessari stefnu. Þetta er einfaldlega það sem blasir við. Ef fram fer sem horfir þá mun á endanum enginn vera hér eftir af íslenskum skattgreiðendum til að greiða laun þeirra sem halda þessari stefnu til streitu.
Ef framleiðslukerfi landsins lamast þá verða peningainnistæður fjármagnseigenda ekkert annað en tölur í tölvu og kröfur skuldaeigenda verðlausir pappírar eins og hlutabréf í gjaldþrota fyrirtækjum. Hvað gera stjórnvöld og þeir þá? - Er ekki augljóst að komast þarf hjá slíku ástandi?

Ísland er að öðlast mikilvægari sess en það hefur nokkurn tímann haft vegna legu sinnar og auðlinda, enda bíður fjöldi ríkja allt umhverfis landið sem hugsa sér gott til glóðarinnar að komast til áhrifa á Íslandi með einum eða öðrum hætti.
Það er ógæfa Íslands ef stjórnmálamenn landsins átta sig ekki á því en láti í staðinn blekkjast til að trúa því að samningsstaða Íslands sé slæm. Við þurfum á fleira fólki að halda sem hugsar eins og Einar þveræingur forðum. Ætli allir Alþingismenn hafi heyrt um framsýni og visku hans?
Skurnin á fjöreggi íslensku þjóðarinnar er orðin óhugnanlega þunn.


Icesave-reiknirinn - Hvernig greiðum við?

Ég fagna framtaki mbl.is við gerð Icesave-reiknisins til að meta upphæð skuldbindingar Íslendinga. Þetta spannar þó auðvitað ekki allt dæmið og það sem hangir á spýtunni, heldur aðeins örfá atriði.

Nú auglýsi ég eftir framhaldinu og viðbótar Icesave-reikni: Greiningu afleiðinga þess hvernig farið yrði að því að greiða þær upphæðir sem mat á skuldbindingunum leiðir til. Þar værum við komin inn á kafla sem almenningur skilur og skynjar á eigin skinni.
Í Icesave-reikninum fyrir "Hvernig greiðum við?" (eða "Svona greiðum við!") væri til dæmis gott að gefa okkur notendum og almenningi möguleika á að greina afleiðingar mismunandi forsendna um t.d. þróun fólksfjölda (þ.á.m. vinnandi fólks), hagvöxt (sundurliðað eftir atvinnugreinum), landsframleiðslu (þ.á.m. fjölgun atvinnutækifæra), launakjör, viðskiptakjör (þróun á verðhlutfalli milli útflutnings- og innflutningsvara), vaxtastig, gengisþróun, niðurskurð/(eða aukningu!) á tilteknum sviðum í heilbrigðiskerfi og menntunarkerfi og tryggingakerfi og lífeyrissjóðsgreiðslum og skattlagningu (tiltekna skattstofna), svo nokkur atriði séu nefnd. (Hvað t.d. með greiðslubyrði heimilanna m.v. mismunandi forsendur um þróun á fasteignamarkaði? !!). Þetta þyrfti að setja fram á skiljanlegu máli fyrir almenning með hugtökum sem allir skilja í daglegri umræðu.

Á grunni þessara og annarra mikilvægra forsendna myndi síðan koma út á grunni reiknisins hverjar afleiðingarnar yrðu þá fyrir m.a. atvinnustig, skattabyrði, þróun ráðstöfunartekna og kaupmáttar heimila, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta má útfæra og spinna við á ótal vegu.
Þannig mætti spyrja, á niðurstöðu fyrirliggjandi reiknis um að skuldbindingin yrði t.d. um 40 milljarðar á ári (fyrstu árin), hvort sú upphæð yrði greidd af þjóðinni með X mikilli aukningu á tilteknum skattaálögum, Y miklum niðurskurði í tilteknum útgjöldum hins opinbera (t.d. til heilbrigðiskerfis og menntakerfis - eða hvað?), tiltekinni framleiðsluaukningu í tilteknum atvinnugreinum og þar af leiddum skattagreiðslum til ríkisins, o.s.frv., sem hefði þá afleidd og tiltekin áhrif á greiðslubyrði og ráðstöfunartekjur fólks...

Reiknilíkan með greiningum á beinum forsendum og afleiðingum af ofangreindu tagi myndi segja fólki mikið við mat á valkostum sem fyrir liggja. Þetta yrði að sjálfögðu varla mjög fullkomið líkan fremur en fyrsti umræddi reiknirinn sem nú hefur verið boðið upp á fyrir mat á skuldbindingunum, en væntanlega gott innlegg fyrir almenning til að byggja pælingar sínar og umræðu á.

PS: Svona reiknilíkön eru nú þegar til staðar í einhverri mynd, skyldi ég ætla, í t.d. opinberum stofnunum eins og Seðlabanka Íslands, Fjármálaráðuneytinu og Hagfræðistofnun. Málið er að setja þau fram í búningi sem almenningur getur "handfjatlað" sjálfur að einhverju leyti.


Eru lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks skattlagning í reynd?

Marta B. Helgadóttir ritaði athygliverðan pistil í bloggi sínu þ. 21.7.2009, sem hún kallaði "Nýr ríkiskassi - lífeyrissjóðirnir". Fjallar hún þar m.a. um hvort iðgjöld til lífeyrissjóða séu í raun skattlagning hins opinbera fremur en sparnaður launþeganna sjálfra, þar eð iðgjöldin þeirra eru í reynd ekki þeirra séreign.

Þar sem ég hef líka velt þessum málum fyrir mér hripaði ég niður nokkrar athugasemdir við pistilinn og fara þær hér á eftir:

Það er margt sem rökstyður það að iðgjöld launafólks lífeyrissjóði sé í reynd "dulbúin" skattlagning. Helstu rökin sem tína má til um það eru m.a. eftirfarandi:

- Launþegarnir, þeir sem vinna hörðum höndum fyrir laununum, verðmætaskapendurnir, hafa ekki fullan ráðstöfunarrétt á peningunum eftir að þeir eru inntir af hendi til lífeyrissjóðanna. Flestir sparendurnir deyja áður en þeir hafa fengið allt fé sitt til baka aftur.

- Launþegar geta ekki tekið út þennan sparnað sinn þegar þeim hentar sjálfum. Það er háð lögum sem gilda um lífeyrissjóði. Þeim er reyndar hægt að breyta eins og gerðist í vor varðandi séreignasparnaðinn.

- Launþegarnir hafa í reynd afar takmarkað vald yfir ráðstöfun sparnaðarins meðan hann er (stóran hluta ævi hvers launþega) í vörslu lífeyrissjóðanna. Þeir hafa ekki hver fyrir sig bein áhrif á hvernig sjóðirnir eru ávaxtaðir og hvernig þeir eru reknir. Hins vegar hafa atvinnurekendur og samtök þeirra (!) mikil ítök í stjórn lífeyrissjóðanna; Takið eftir: í sjóðum launþega!

- Dæmið sem upp kom varðandi fulltrúa lífeyrissjóðs VR í gamla Kaupþingi s.l. vetur sýnir að fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum fyrirtækja (sem lífeyrsjóðirnir hafa fjárfest í) verja atkvæði umbjóðanda síns með hætti sem markast af fleiru en algjörum hagsmunum eigenda fjárins í sjóðunum. Hvernig stendur á því?

- Lífeyrissjóðirnir eru að miklu leyti nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkisins og atvinnulífsins, en að nafninu til í eigu launþega. Þeir eru líka á ábyrgð launþega, þótt þeir hafi takmörkuð óbein áhrif á stjórn þeirra, þar sem launþegar tapa ef sjóðirnir ávaxta fé þeirra illa. Slíkt tap birtist í skerðingu lífeyrisréttinda sjóðsfélaga, eins og dæmin sanna.
Það er til lítils að kallast eigandi að einhverju sem maður ræður ekki yfir! Sá sem ræður yfir því og stjórnar á það í raun og veru til lengri tíma litið. Í þessu tilviki ríkið og atvinnurekendur.

Það er í raun og veru fráleitt að launþegar þurfi að una því að geta ekki lagt allan sinn sparnað í séreignasjóði sem þeir eigi að fullu sjálfir hver fyrir sig.

Þeir sem höfðu lagt til hliðar í viðbótarsparnað umfram skyldusparnað sinn áttu svo sannarlega varasjóð sem þeir gátu grípið til við áfall eins og dunið hefur yfir okkur frá því s.l. haust. Opinberi viðbótarsparnaðurinn er hins vegar fastur nema að hluta til. Eins og er getur fólk sem hefur safnað upp slíkum sjóði aðeins tekið út upp undir eina milljón kr. Slíkt þak ætti ekki að líðast. En, ástæðan er einfaldlega sú að féð er tiltölulega fast í langtímafjárfestingum sjóðanna og ekki handbært nema að takmörkuðu leyti. Það þarf einhvern tíma til að losa um það.

Það er fráleitt að þeir sem eiga slíkan viðbótarsparnað erlendis skuli ekki geta tekið hann allan út núna og yfirfært han heim til gjaldeyrissoltins Íslands einmitt nú!
Ég legg eindregið til að fólk fái heimild til að losa hann allan út núna!

Í raun og veru er hinn erlendi sparnaður ígildi útflutnings, en útflytjendurnir, þeir sem spöruðu í erlendum sjóðum, fá bara ekki að flytja útflutningstekjur sínar heim!
Útflutningsfyrirtæki geta hins vegar yfirfært útflutningstekjur sínar strax heim, eins og vera ber! (Á sama tíma eru opinberir aðilar, og fleiri, að hneykslast á því að útflutningsfyrirtæki flytji ekki allan gjaldeyri sinn strax heim, enda er sárt fyrir almenning að þola slíkt brask fyrirtækja).
Þetta er ekki jafnræði milli einstaklinga og fyrirtækja, þ.e. milli einstaklinga sem eru launþegar og einstaklinga sem eiga útflutningsfyrirtækin. Er það réttlátt?

Á ofangreindan rakalista hjá mér um að lífeyrissjóðsiðgjöld eru í reynd ekki að fullu eign launþeganna, heldur skattheimta ríkisins, má einnig bæta eftirfarandi atriðum:

Á meira en 20 undanförnum árum hefur svokallað mótframlag atvinnurekenda hækkað úr 6% í 8% af launum launþega, og munar um minna, þannig að að viðbættu iðgjaldi launþega, 4%, eru mánaðarleg lífeyrissjóðsiðgjöld nú alls 12% af launum.
Einnig er athyglivert að áður hét mótframlagið launaskattur!

Í kjarasamningum launþega og atvinnurekenda hefur hækkun mótframlags atvinnurekenda gjarnan verið liður í launahækkunum þannig að vegna hækkunar á mótframlaginu virðast launþegasamtök hafa fallist á að bein laun hækkuðu þá minna en ella.
Þetta er sýndar-launahækkun, sem skilar sér seint og illa, ef nokkurn tímann, til launþeganna sjálfra. Þegar þannig er í pottinn búið eru lífeyrisjóðsgjöld í formi mótframlags atvinnurekenda fyrst og fremst hækkun ráðstöfunarfjár lífeyrissjóða, sem þar með hafa úr meiru að spila til fjárfestinga. Fyrir hverja? Að vísu að hluta til lána til sjóðsfélaga, en að öðrum hluta til fjárfestinga í atvinnulífinu (sem að vísu gagnast launþegum í formi meiri atvinnu og/eða hærri launa eða launaskriðs). Hvað verður síðan um lán sjóðanna til sjóðsfélaga? Þeir fjárfesta væntanlega að mestu í íbúðarhúsnæði, sem jú byggt er af atvinnurekundum og efnisaðföng til húsbygginga eru seld af atvinnurekendum. (Og allt í lagi með það út af fyrir sig).

Til viðbótar við mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð bætast við allt að um 2,18% af launum í formi ýmissa svokallaðra launatengdra gjalda eða atvinnurekendagjalda.
Heiti þeirra gjaldaliða bera með sér að eiga að vera í þágu launþega, þ.e. Sjúkrasjóður, Orlofsheimilasjóður, Starfsmenntasjóður, Endurhæfingarsjóður, Kjaramálagjald og Félagsheimilasjóður. Hver launþegi getur svo spurt sig að því að hve miklu leyti þessi gjöld, sem stofnað er til til að gagnast honum, skili sér í reynd til hans.

Alls geta því sparnaðar- og gjaldaliðir sem tengjast launum launþega, lífeyrisjóðsiðgjöld og launatengd gjöld, nú numið allt að a.m.k. 14,18%  (það er reyndar mismunandi eftir eðli rekstrar og lífeyrissjóðum hvaða launatengdu gjöld eiga við og geta þau verið lægri en umrædd 2,18% alls í samræmi við það).
Þetta er ekki svo lítill stofn fyrir "fjárfestingasjóð ríkisins og atvinnulífsins", sem ég nefndi svo hér ofar; 14,18% af launum landsmanna!

Ég endurtek síðan tillögu mína til ríkisstjórnarinnar, sem ég hef sett fram hér i öðrum bloggfærslum:

Veitið því fólki sem lagði viðbótar-lífeyrissparnað inn á erlenda ávöxtunarsjóði heimild til að taka hann allan út og flytja til landsins hið fyrsta. Það styrkir íslensku krónuna jafnframt því að gefa fólkinu kost á því að njóta hins háa kaupgengis við sölu gjaldeyris. Það léttir einnig lóði af vogarskál verðbóta og gengistaps lántakenda.
Er hið síðast nefnda ekki einmitt eitt af yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar til hjálpar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum landsins?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband