Færsluflokkur: Menning og listir

Viðurkenningar í lifanda lífi

Það eru ótal styttur af heimsþekktum og löngu liðnum tónskáldum og fleira afreksfólki í heimaborgum þeirra í Evrópu og víðar, enda "lifa" þau áfram í sígildum verkum sínum og afrekum.

Það er sómi af og skáldlegt réttlæti í því að tónskáld og aðrir listamenn njóti verðskuldaðrar viðurkenningar fyrir viðurkennd afrek sín í lifanda lífi og þjóð þeirra og samborgarar þar með.

Hið góða sem í afrekunum felst er góð fyrirmynd fyrir aðra núlifandi, sem og kynslóðir framtíðar. 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loforð virkjunarfjárfesta og lifandi menning

Fari svo að verði virkjað þarna skulu heimamenn gera það að skilyrði að fyrst verði staðið við lofaða uppbyggingu á svæðinu áður en virkjunarframkvæmdir hefjast eða a.m.k. jafnhliða þeim. Dæmi eru um að stórfyrirtæki standa ekki við fögur loforð um uppbyggingu á starfsemi eða öðru úti á landi við uppkaup þeirra eða yfirtöku á rekstri á landsbyggðinni. Talandi um fyrirtæki í sjávarútvegi og vinnslu.

En, hins vegar: Í Árneshreppi og þar um slóðir er Lifandi menning á hverfanda hveli. Hvað vill þjóðin gera í þeim efnum?


mbl.is „Engin glóra“ í Hvalárvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifandi menning á hverfanda hveli

Lifandi menning í Árnesi á Ströndum hefur átt undir högg að sækja sökum fækkunar ábúenda jarða og íbúa þar í sveit.

Vonandi taka t.d. ráðamenn ferðamála við sér um möguleika á uppbyggingu ferðaþjónustu í þessu héraði og styrki a.m.k. með þeim hætti byggð og byggðarþróun í þessari mögnuðu sveit. Möguleikarnir eru margir í því sambandi, bæði til lands og sjávar og annarrar náttúru, eins og 1200 ára byggð ætti að sanna.

Maður spyr sig hvort Byggðastofnun, meðal annarra aðila, sé ekkert að pæla í viðhaldi byggðar og menningar á þessu svæði. Eða þingmenn kjördæmisins, reyndar alls landsins, þar sem þetta mál snertir þjóðina alla.

Þetta snýst öðrum þræði um það sem ég kalla lifandi menningu, að halda henni lifandi áfram og samfelldri eins og undanfarnar tólf aldir. Eða, eiga erlendir aðilar, m.a. kanadískur auðjöfur gegnum HS Orku og einhver "ítalskur barón", að hafa í hendi sér að virkja með tilheyrandi jarð- og menningarraski þarna á svæðinu? Vegna einkahagsmuna þeirra?

Þetta er mál sem varðar rammíslenska menningu og menningararfleifð og þekkingu á margvíslegri lífsbjörg á svæðinu, menningu sem enn er lifandi, að hún leggist ekki af og glatist.

Ein nauðsynleg og augljós forsenda fyrir varðveislu byggðar og byggðaþróunar í héraðinu er lagfæring á samgöngukerfinu. Að sjálfsögðu verður að tryggja opnar samgöngur um allt árið. Það gefur augaleið, þó ekki sé nema vegna þess að enginn læknir er þar. Þannig er það fjárveitingavaldi landsins og ráðamönnum til skammar að ekki skuli hafa verið rutt undanfarin ár þegar ófærð hamlar för um landveg norður í Árnes. Kostnaður sem er agnarlítill í samhengi fjárlaga. Betur má ef duga skal og þó löngu fyrr hefði verið. Einnig verður að vera þar til staðar lágmarks verslunarþjónusta og grunnskóli, svo fátt eitt sé nefnt.

Þótt fjárveitingar til fornleifarannsókna, uppgraftar og fleira, hafi að dómi viðkomandi starfstétta ef til vill ekki verið nægilegar gegnum tíðina þá hafa þó verið talsverðar fjárveitingar í þann málaflokk. Maður spyr sig í því sambandi hvort horfin menning sé þá mikilvægari heldur en sú sem enn er lifandi hér á landi. Verður þá fyrst áhugi á menningarsvæði því sem hér um ræðir þegar sú lifandi menning væri horfin og langt um liðið?


mbl.is Eins og óargadýr inn í samfélag í sárum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listaverk í best varðveitta leyndarmáli Reykjavíkur

Styttur eftir Ásmund Sveinsson voru afhjúpaðar af borgarstjóranum með hógværri viðhöfn að viðstöddum fjölmörgum nemendum úr Seljaskóla á nýjum stað í morgun, í Seljahverfi í Reykjavík. Þeim og öðrum viðstöddum fagnendum var síðan boðið inn úr haustkulinu í heitt kakó og kaffi í anddyri Seljakirkju, en þar voru til sýnis m.a. leirstyttur ungra grunnskólabarna sem þau höfðu búið til nýlega í Ásmundarsafni. Voru listaverk þeirra greinilega í stíl við stíl Ásmundar. Á tjaldi í einu horni anddyrisins voru sýndar kvikmyndir er teknar höfðu verið af unga listafólkinu við mótun listaverka sinna.

Sumir hafa kallað Seljahverfi "best varðveitta leyndamálið í Reykjavík" varðandi gæði staðsetningar, sem eru orð að sönnu, enda hefur það tekið margar borgarstjórnir um 35 ár að uppgötva staðinn til varðveislu á fallegum og viðeigandi styttum.

Eins og sjá má er þessi stytta á meðfylgjandi fréttamynd staðsett á litlum grænum og grösugum grasbala við tjörnina skammt frá sælusetrinu Seljahlíð í Suður-mjóumýri. Þar er gott og gaman að vera, ekki síst þegar sólin hlær á hlýjum degi við bekkjasitjurum þar í skjólinu. Annað listaverk var nú og staðsett í hlaði Seljakirkju, andlegrar miðstöðvar í Seljahverfi. Þar er líka gott að draga andann.


mbl.is Tvö verk Ásmundar sett upp í Seljahverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átakamál tekin haustaki

Frábært framtak þetta haustaksskokk hjá Vigdísi Hauksdóttur alþingismanni; Og að skora á fleiri málsmetandi konur að gera hið sama til að vekja athygli á málinu, því lykilhlutverki sem unglingsstúlkur og ungar konur og mæður gegna í svökölluðum þróunarlöndum við mótun samfélagsins og umbreytingu til betri og lífvænlegri lifnaðarhátta á mörgum sviðum svo sem heilbrigðismála og mannréttinda.
Ekki síst á það við um baráttu fyrir breytingu og umbyltingu forneskjulegs hugarfars karlaveldis og klerkaveldis þar sem það hefur verið ríkjandi frá örófi alda.
mbl.is Vigdís Hauks bar vatn á höfðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villulausar fréttir á mbl.is

Greinilegt er að umræddur verðlaunahafi í prófarkalestri og prófarkalesari á Morgunblaðinu er ekki mikið nýttur sem slíkur, ef nokkuð, við birtingu frétta á mbl.is.

Mér finnst að rekstraraðilar Morgunblaðsins ættu að sjá sóma sinn í því að fréttapistlar á mbl.is séu vel prófarkalesnir, bæði með tilliti málvillna og stafsetningar. Eða þá að hafa fréttaritara við þessi störf sem jafnframt eru vel að sér í íslenskri réttritun og sem mega vera að því að yfirlesa eigin skrif áður en þau eru birt á vefnum.

Þar sem mbl.is er einn mest lesni fréttamiðillinn á netinu af þeim sem enn hafa lestrarkunnáttu og nennu til þess að glugga í fréttir þar þá skiptir það miklu máli að þar sé vel vandað til verka. "Það læra börnin sem fyrir þeim er haft", segir máltækið, en það á náttúrulega við um "börn" á öllum aldri.
Það er ömurlegt ef mbl.is elur á og styrkir rangritun hjá þeim sem ekki eru nægilega vel að sér í íslenskri réttritun fyrir.


mbl.is Villulaus prófarkalesari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnarmiðaðir Íslendingar

Þessi dæmi sem hinn að eiginn mati ofurskipulagði Norðmaður tíundar hér (óskipulega) og af handahófi sýna í aðra röndina einkar vel hversu lausnarmiðaðir Íslendingar geta verið, a.m.k. sumir. Þegar vandamál blasir við er gengið í að leysa það fljótt og vel af einbeitni og krafti.

Á þessu eru að vísu undantekningar, eins og t.d. lausn snjóhengjuvandans sem skeikaði að sköpuðu heilt íslenskt kjörtímabil og á enn eftir að leysa. Ný ríkisstjórn mun samkvæmt kosningaloforðum sínum og stefnuskrá væntanlega sanna hið lausnarmiðaða eðli Íslendinga sem Norðmaðurinn, konan Gry Ek Gunnarsson, vísar til og rennir greinilega hýru auga til í hina röndina.

Maður gæti haldið að Gry Ek sé að gera gys að þeim sem hún kallar "óskipulega Íslendinga" þar sem hún vísar til leiðtogafundar Reagans og Gorbatsjof í Reykjavík 1986 með þeirri kenningu sinni að líklega hefðu Íslendingarnir ekki getað haldið fundinn klúðurslaust ef þeir hefðu haft til þess langan fyrirvara eins og t.d. Norðmenn hefðu þurft að hafa fyrir slíkan stór-viðburð í heimssögunni.

Á móti má spyrja hvaða þjóð hefði getað gert þetta á sínum tíma með jafn góðum árangri og einmitt Íslendingar. Að vísu voru hér erlendir ráðgjafar og öryggissveitir með við hinn skamma undirbúning þannig að ekki voru Íslendingar einir á báti, en þeir komu þessu heim og saman við sínar aðstæður.

Hitt er annað að þar að auki skiptu einmitt aðstæður hér verulegu máli varðandi öryggisatriði. Landið er eyja og þá var landamæranna gætt með öflugu vegabréfaeftirliti; Þá var engin Schengen-gátt með opin hlið fyrir öll aðildarlönd þess, einungis heiðarlega Norðurlandabúa eins og Norðmenn meðal annarra.


mbl.is „Þetta er Íslendingum í blóð borið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsmeðvitaðar stjörnur

Þetta er eitt af því frábæra við Bítlana, fyrir utan tónlist þeirra. Á miðjum ferlinum (kringum 1965) eru þeir orðnir sér vel meðvitaðir um áhrifamátt sinn. Þeir ná til fólks á heimsvísu með verkfærum sínum, hrífandi tónlistinni og mannbætandi og -frelsandi viðhorfum í hnyttnum textum.

Í stað texta um "hvolpaást", eins og Bítlafræðarinn Ingólfur Margeirsson kallaði texta fyrstu ára Bítlanna í frábærum útvarpsþáttum á RÚV, fóru að koma textar með mikilvægum fullyrðingum um samfélagið (sbr. Bítlarnir: Sagan ótrúlega. Mark Hertsgaard, Iðunn 1995, s. 135).

Hér hafa þeir greinilega beint kastljósi sínu að aðskilnaðarstefnu kynþátta sem enn var útbreidd í Bandaríkjunum og víða um heim á þessum árum og með því móti vakið athygli á henni svo eftir var tekið og í henni pælt.
Þetta er um þremur árum áður en King heldur hina eftirminnilegu ræðu sína um draum sinn um lausn fólks úr álögum samborgara sinna.


mbl.is Bítlasamningur á 2,6 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

John Lennon skrifar í skýin

Bókin Skywriting by Word of Mouth eftir John Lennon inniheldur efni sem hann skrifaði eftir hendinni þegar andinn blés honum það í brjóst, aðallega á áttunda áratug 20. aldar eftir að hljómsveit þeirra Bítlanna, The Beatles, hætti.
Í bókinni eru alls kyns athugasemdir Lennons um menn og málefni og samskipti hans við umheiminn, smásögur, dæmisögur og pælingar, sem oft eru kaldhæðnislegar og hnittnar í dæmigerðum “Lennon-anda”.
Á einum stað ræðir hann um listræna andagift og heldur því fram að miklir andans menn eins og Albert Einstein, Pýþagóras og Ísak Newton hafi verið dulhyggjumenn (e. mystics) að vissu leyti. Bendir hann í því sambandi á þá aðferð sem hér um ræði (og sperri nú allir skapandi menn og konur augu og eyru!). Lennon skrifar:

“But the main point I was getting at was the fact that in order to receive the “wholly spirit”, i.e. creative inspiration (whether you are labelled an artist, scientist, mystic, psychic, etc.), the main “problem” was emptying the mind. ... You can’t paint a picture on dirty paper; you need a clean sheet.”

Tekur hann sláandi og sorglegt dæmi til útskýringar á því, en segir svo:

“It’s the same with the Christians (so called). They’re so busy condemning themselves and others, or preaching at people, or worse, still killing for Christ. None of them understanding, or trying in the least, to behave like a Christ.”

Sbr. tilvitnanir í  John Lennon Skywriting by Word of Mouth 2010 [1986], s. 33-35. New York, NY: HarperCollins Publishers (It Books).

Blessuð sé minning John Lennon. Gott er að hafa friðarsúluna í Viðey kærleiksboðskap hans til vitnisburðar og minningar.


mbl.is Lennons víða minnst í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hunsa ber kúgun

Allir sem vilja ekki láta kúga sig hunsa hótanir kúgara með samstilltum viðbrögðum.

Ef einhver aðili reynir að kúga aðra eftir sínum vilja, t.d. með hótunum um óhagstæð viðskiptakjör eða um að hætta að kaupa af þeim vörur og þjónustu, geta allir þeir sem hótað er gert slíka kúgunartilraun að engu með því að taka sig saman um að gegna í engu slíkri hótun.
Þá gæti kúgarinn ekki látið verða af hótunum sínum nema með því að skaða sjálfan sig mest, við það að allir þessir aðilar hætta að versla við hann.
Með slíku samstilltu átaki, eða “þegjandi” samkomulagi um að hunsa slíkar hótanir kúgara, er hótunarvald hans gert að engu.
Ef hann vill þá ekki hafa verra af sjálfur mun hann því ekkert láta verða af hótunum sínum.

Ein afleiðing af kúguninni væri sú að hinir kúguðu myndu auka innbyrðis viðskipti sín á milli í staðinn með tilheyrandi vexti í eigin starfsemi, en kúgarinn sæti uppi með sinn varning eins og svartapétur eftir að hafa þannig málað sig út í horn.
Hann félli þar með á eigin bragði.

Enginn á að láta kúga sig með þessum hætti vegna þess að þá gengur kúgarinn á lagið og hinir kúguðu verða kúgaðir áfram í vaxandi mæli. Þar í felst mikið tap fyrir þá, óendanlega mikið meira en það sem þó fólst í upphaflegri kúgun.

Hér á kreiki eru margar hótanir og blikur um kúgun þessa dagana og víða í heiminum, nær og fjær.
Með samstilltu átaki, í hóp eða formlegum sem óformlegum samtökum, er hægt að bregðast við hótunum einfaldlega með því að "gera ekki neitt" annað en að benda á og viðhalda samtakamættinum um þá lýðræðislegu sýn að láta ekki kúgast.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband