Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Hagvöxtur og mannfjölgunarvandi heimsins

Er óheftur hagvöxtur á heimsvísu lausn alls?

Í frétt á mbl.is 6. júní 2016 með yfirskriftinni „Þrjú börn að minnsta kosti“ er greint frá því að Tyrklandsforseti hafi eindregið hvatt þegna sína og trúbræður til barneigna. Haft er eftir honum „að „engir múslimar“ ættu að íhuga að nota getnaðarvarnir“ og að hann hafi „hvatt konur til þess að eignast að minnsta kosti þrjú börn“. „Við munum margfalda afkomendur okkar“ er haft eftir honum.

Þessi frétt ber með sér að þar fari saman hvatningar íslamsks þjóðhöfðingja, í anda íslam, og kaþólsku kirkjunnar um aukningu barneigna og gegn notkun getnaðarvarna. Fátt er sterkara en hvatningar og trúarleg "lög" og kennisetningar á grunni trúarbragða og hvers kyns innræting um breytni fólks á þeim grunni.

Með slíkum innrætingarhvatningum er skellt skollaeyrum við fólksfjölgunarvanda heimsins sem er ein af frumorsökum ágangs á auðlindir Jarðar og staðbundinnar og hnattrænnar mengunar. Hvað trúboð og áróður, ef ekki valdboð, umrædds forseta varðar í krafti síns embættis sem leiðtoga lands síns hefur það væntanlega einnig einhver áhrif á alla landa hans og trúbræður þeirra hvar sem þeir eru, líka í öðrum löndum Evrópu þar sem þeir eru fjölmennir.

Páfinn ásamt öðrum kaþólskum trúarleiðtogum hefur hliðstæð trúarleg hvetjandi áhrif innan kaþólsku kirkjunnar, hvar í heimi sem hún teygir anga sína.

Spurning er hvernig hægt er að bregðast við þessari hvatningastefnu um barneignir í nafni trúarbragða, ekki síst ofangreindra, áður en fólksfjölgunin og fólksfjöldinn í heiminum verður til slíkrar eyðingar á gæðum Jarðar að skaðinn verði óafturkallanlegur með tilheyrandi hörmungum fyrir allt líf í vistkerfi okkar, Flóru og Fánu.

Reyndar hafa þær skoðanir verið viðraðar fyrir áratugum síðan af fræðimönnum og fólki, sem lætur sig þessi vandamál varða, að í óefni stefni og jafnvel að þegar hafi verið farið yfir mörk hnattrænnar sjálfbærni til lengri tíma litið. Í tímamótaskýrslu á vegum Rómarklúbbsins, The Limits to Growth frá 1972 eftir Dennis L. Meadows o.fl. (í danskri þýðingin Grænser for vækst, Gyldendal 1974), voru dregnar upp dökkar horfur í þessum efnum ef fram færi eins og horfði þá. Sbr. einnig bókin Mankind at the Turning Point eftir Mesarovic & Pestel (í danskri þýðingu Hvilke grænser for vækst?, Gyldendal 1975). Mannfjöldinn í heiminum hefur vaxið með veldisvexti og heldur enn áfram á þeirri braut. Það gengur náttúrulega ekki til lengdar endalaust án hörmulegra afleiðinga.

Lítið raunhæft umfram umræður og ráðstefnur er samt aðhafst í alþjóðasamfélaginu til að stemma stigu við þessari óheillavænlegu þróun.
Fulltrúar þjóðríkja tala á alþjóðlegum ráðstefnum um hnattræn vandamál en ekki virðist þar komist nægilega beinskeytt að rótum þessa vanda, sem er offjölgunarvandamál mannkyns. Lýsandi dæmi um þetta er til dæmis alþjóðleg ráðstefna um sjálfbæra þróun á vegum einnar deildar Sameinuðu þjóðanna, „The Third International Conference on Financing for Development“, sem haldin var í Addis Ababa 13.-16. júlí 2015. Þar voru sett fram 17 stefnumið og þar undir 169 markmið, „Sustainable Development Goals“, sem meðlimalöndin myndu stefna að varðandi velferð Jarðarbúa og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum, sbr. The Addis Ababa Action Agenda (AAAA, A/RES/69/313). Þessi markmið voru einnig sundurliðuð í sér skjali þar sem tiltekin áform um tilsvarandi aðferðir og aðgerðir eru tengd við hvert markmið um sig. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fylgdi niðurstöðum ráðstefnunnar eftir með meðal annars ályktun 22. desember 2015.

Fljótt á litið er þó í þessum gögnum því miður hvergi minnst berum orðum á undirliggjandi offjölgunarvanda mannkyns eða sérstök viðbrögð við honum; eins og hann sé ekki til staðar.

Í viðtalsþætti Sjónvarpsins 14. júní 2016 við umhverfissérfræðinginn dr. Jane Godall kom fram hjá henni að ef allir íbúar Jarðar nytu sömu lífskjara og viðhefðu sama lífsstíl og við Evrópubúar nú þyrfti um fjórar til fimm plánetur á við Jörð til að standa undir og viðhalda þeirri neyslu og auðlindanýtingu. (birt 18.6.2016 á Sarpinum á RÚV).

Til samanburðar sýna útreikningar Global Footprint Network á vistspori („Ecological Footprint“) mannkyns á Jörðu að núverandi notkun auðlinda og losun koltvísýrings krefst ígildis 1,6 Jarða til að viðhalda sjálfbærni. Þar sem við höfum vitanlega einungis eina Jörð sést að í mikið óefni er komið og virkra aðgerða er þörf.

Að hvetja stóran hluta mannkyns til enn hraðari fjölgunar, eins og leiðtogar og fylgjendur ofangreindra trúarbragða gera, þegar þörf er á hinu gagnstæða, er augljóslega óábyrg og veruleikafirrt stefna sem bætir á vanda mannkyns að öðru óbreyttu. Ábyrgð allra þeirra þjóða og alþjóðlegra stofnana sem aðhafast ekki með virkum aðferðum til að stemma stigu við fólksfjölgunarvanda mannkyns er mikil og meiri en orð fá lýst.

Í ofangreindu ljósi ber að huga að nýjum lausnum fyrir vegferð og velferð mannkyns heldur en áframhaldandi óheftum hagvexti á heimsvísu meðan stætt er, en sú feigðarstefna endar að óbreyttu með hörmungum fyrir alla.
Nú er spurning hvort m.a. afleiðingar af „Brexit“ með tilkomandi endurskipulagningu efnahagskerfa landanna geti beint þjóðríkjum heims inn á farsælli brautir í þessum efnum.


mbl.is Obama: Brexit ógnar hagvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta hringavitleysa hjá ESB?

Í samningi ESB við Tyrklandsstjórn kemur m.a. fram:

"Ef sýr­lensk­ir flótta­menn eru send­ir aft­ur til Tyrk­lands fær sýr­lensk­ur flóttamaður sem er í Tyrklandi að fara í hans stað til Evr­ópu."

Ef Tyrklandsstjórn vill "losna við" flóttamenn og hælisleitendur úr landi sínu þá mun hún alls ekki standa í vegi fyrir fólkinu sem þangað er komið og sem vill fara frá landinu norður til annarra Evrópulanda "út í óvissuna". Ætli Tyrkjar muni þá ekki einmitt fremur hjálpa fólkinu áfram "út í óvissuna"?

Samkvæmt þessum samningi, og ef svona er í pottinn búið hjá glúrnum Tyrkjum, mun því stöðugt fækka í hópnum í Tyrklandi með þessum hætti. Þetta verður þá bókstafleg hringavitleysa þar sem sumt fólk þvælist fram og til baka og annað (Sýrlendingar) til ESB-landa í staðinn.
Eða, er einhver krókur á móti þessu hugsanlega bragði Tyrkja hjá hinu eitursnjalla ESB?
Eða, er þetta e.t.v. einmitt tilgangurinn hjá stjórn ESB, að "smygla" með þessum hætti fólkinu til andsnúinna ESB-landa?


mbl.is Lögðu af stað út í óvissuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hlutverk alþingismanna

Hlutverk alþingismanna er fyrst og fremst að huga að hagsmunum Íslands og velferð Íslendinga og standa að stjórn mannlífs og efnahagslífs á Íslandi með góðri og skynsamlegri og þjóðhollri lagasetningu og umfram allt standa með þjóð sinni á hverju sem gengur, allt á grundvelli stjórnarskrár íslenska lýðveldisins.
Til þess eru þeir kosnir og treysta kjósendur væntanlega á að alþingismenn verji tíma sínum og tímanotkun á vettvangi Alþingis til þess en ekki einhvers annars. 
Það myndi því skjóta skökku við ef það yrði að forgangsmáli hjá alþingismönnum að leitast við að stjórna öðrum þjóðríkjum í anda stórveldis. Spurning er hvort einhverjir hafi ef til vill afhjúpað alvarlegan misskilning sinn á þessu hlutverki sínu og vettvangi, eða vilji misnota aðstöðu sína, með því að setja slík mál á oddinn.
Sé það svo mætti þá í því sambandi ætla að viðkomandi hafi ekki fullan skilning á því hvernig efnahagskerfi landsins virkar né því að innanlandsframleiðsla landsmanna og utanríkisviðskipti landsins eru grundvöllur hagsældar og velferðar þegnanna. Einnig mætti halda þessu tengt að viðkomandi geri sér heldur ekki grein fyrir hvaðan launin þeirra sjálfra og annarra landsmanna koma að grunni til.
Það yrði lítið um utanríkisverslun Íslands ef farið yrði að fullu eftir hugmyndum um viðskiptabann á allar þjóðir sem lægju undir grun um brot á þegnum sínum, því væntanlega myndu viðkomandi aðilar vilja hafa jafnræði þar á á milli landa. Ekki væri þá hægt að láta staðar numið við bein viðskiptalönd okkar heldur væru þá einnig undir þau viðskiptalönd okkar sem hafa viðskipti við bannlöndin.
Ætli þeir sem tala fyrir viðskiptabanni Íslands gagnvart viðskiptalöndum okkar nær og fjær geri sér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir íslenskt efnahagslíf og mannlíf? Væntanlega er þeim ekki sama um hag Íslands í því sambandi.
 

mbl.is Vill sniðganga vörur frá Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um aðferðir við móttöku flóttamanna

Einkar forvitnilegt og athyglisvert viðtal er í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 20.9.2015 bls. 42-43. Það er við íranska unga konu Nazanin Askari í tilefni sýningar sem sett hefur verið upp í Tjarnarbíói og ber nafn hennar. Sýningin fjallar um sögu hennar tengt flótta hennar frá heimalandinu 2009, vegna pólitískra skoðana hennar sem féllu í grýttan jarðveg hjá ráðamönnum í Íran, og komu hennar til Íslands í kjölfarið og veru hennar hér síðan. - Margt fróðlegt kemur fram í viðtalinu. Hér eru dregin fram nokkur atriði. 

Sökum ofsókna stjórnvalda í Íran gegn foreldrum hennar og samanburðar við Vesturlönd fannst henn lengi vel að trúin, íslam, væri meginástæðan fyrir kúgandi stjórnmálaástandinu sem hefur "sent Íran langt aftur í aldir", en komst um síðir að þeirri niðurstöðu fyrir sína parta að þar réði mestu um sjálf stjórnvöldin sem væru einfaldlega vondir menn sem noti trúarbrögðin sem tæki í pólitískum tilgangi og skáki í því skjóli. Enda er lærdómur hennar á þeim grunni sá að aldrei skuli blanda íslam saman við pólitík. - Það ætti að vera flestum kunn sannindi í ljósi reynslu nágrannalanda okkar í Evrópu af íslömskum hópum sem leitast við að halda í m.a. öfgakenndar íslamskar kennisetningar sem sumar hverjar brjóta algjörlega í bága við lýðræðisleg landslög.

Um móttöku á flóttamönnum til Íslands hefur hún nokkur góð ráð að gefa íslensku þjóðinni (bls. 43):
"Þeir eru ekki allir menntaðir, og illa upplýstir flóttamenn geta verið meinsemd í samfélaginu... Gera þarf þá kröfu til flóttamannanna að þeir læri að skilja og virða menningu þjóðarinnar sem tekur við þeim, þar með talin trúarbrögð.
Til þess að tryggja þetta þurfi íslensk stjórnvöld að koma upp kerfi sem allir flóttamenn sem hingað koma eru skyldugir að fara í gegnum. Það er að segja, menntum þá fyrst, hleypum þeim síðan út í samfélagið. Þannig má komast hjá árekstrum í framtíðinni, eins og Norðmenn eru að glíma við núna. Ef öfgamúslímum er hleypt inn í landið án athugasemda eða viðeigandi ráðstafana gæti Ísland orðið annað Íran. Hver kærir sig um það?"

Það er um að gera að taka þessum góðu ráðum Nazanin, sem byggjast á hennar eigin reynslu, opnum örmum. Ekki satt?


mbl.is Taka verði heildstætt á vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hornsteina í stjórnarskrá fullvalda Íslands

Frábært var ávarp forseta Íslands við þingsetningna.

Þar benti hann m.a. á þá gömlu hornsteina sem standa sem höggnir í stein í stjórnarskrá Íslands og sem fullveldi landsins byggir á og landsstjórnin hefur byggt á sem grundvelli við stóra sigra á fjölþjóðlegum vettvangi og gegn yfirgangi erlendra þjóða, svo sem við langvinna en farsæla útfærslu landhelginnar út í 200 sjómílur og nýlega er þjóðinni var forðað frá martraðarkenndri ógn Icesave-skulda einkabanka sem erlendar þjóðir og meira að segja sumir ráðvilltir alþingismenn ásamt þáverandi ríkisstjórn vinstri manna og fleiri vildu ranglega leggja á þjóðina eftir bankahrunið 2008.
Þingfréttamaður rúv var þó ekkert að segja frá þessum mikilvægu þungavigtaratriðum í ræðu forsetans í hádegisfréttunum, heldur frá einhverjum útfærsluatriðum í væntum kosningum um hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar sem liggja þó alls ekki fyrir.


mbl.is Varar við breytingum á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáttir flóttamannahjálpar Íslands

Mér virðist að forsætisráðherra vor hafi tekið svipaðan pól í hæðina í þessum málum og ég ýja að í pistli mínum fyrr í dag, sbr. Miskunnsami Miðnæturkúrekinn. Þetta þarf að gaumgæfa mjög vel með áhrif á íslenskt samfélag til lengri tíma í huga þar sem m.a. þarf að huga að menningarlegum og félagslegum atriðum.

Við megum ekki láta leiðast út í sömu félagslegu forarpytti og nágrannaþjóðir okkar hvað málefni innflytjenda varðar, hvað svo sem einfaldur hugsunarháttur í anda "miskunnsama miðnæturkúrekans" stendur til og kallar á að gert sé hér og nú með með opna arma og Ísland upp á gátt.

Gáttir flóttamannahjálpar Íslands geta verið af hjálplegri og margskonar toga öðrum en einungis þeim að stefna fjölda flóttamanna hingað til lands, eins og mér sýnist forsætisráðherra benda á. 


mbl.is Talan 50 var aldrei föst í hendi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miskunnsami Miðnæturkúrekinn

Ég sá kvikmyndina The Midnight Cowboy (TMC, frá 1969) í Sjónvarpi rúv í gærkveldi 4.9.2015, með Jon Voight og Dustin Hoffman í aðalhlutverkum. Einhvern veginn hefur það atvikast svo að ég hafði aldrei séð hana áður og er það með ólíkindum.

Ekki er að furða að kvikmyndin hafi unnið til þriggja Óskarsverðlauna á sínum tíma, auk þess að vera tilnefnd þar til fjölda annarra verðlauna. Meðal annars voru báðir aðalleikararnir tilnefndir sem besti karlleikari í aðalhlutverki, og það verðskuldað. Á Óskars-hátíðinni 1970 vegna mynda frá 1969 fékk hún sem sé verðlaun fyrir „Besta kvikmyndin“, „Besti leikstjórinn“ og „Besta handrit“.
Þarna keppti hún m.a. við „grín“-hasarkvikmyndina „Butch Cassidy and the Sundance Kid“ sem að vonum var einnig tilnefnd til margra verðlauna auk annarra góðra.
Þá finnst mér einnig athyglisvert að TMC hafði þá verið flokkuð sem X-mynd, þ.e. ekki sýningarhæf fyrir fólk yngra en 18 eða 21 árs. Ekki er það furða þar sem stungið er á ýmsum viðkvæmum þjóðfélagsmeinum og tabúum og fordómum sem þá voru ríkjandi í Bandaríkjunum og víðar, og eru jafnvel enn.

Það sem mér finnst einna athyglisverðast við TMC á heildina litið er persóna Joe Buck sem Jon Voight leikur, þ.e. persónueinkenni hans sem koma fljótlega og sífellt betur í ljós í viðbrögðum hans við nýjum og óvæntum aðstæðum.
Þrátt fyrir hans persónlegu drauma um fjárhagslega velmegun sem í upphafi hvöttu hann til að leita á nýjar slóðir „hinum megin við girðinguna“ þar sem hann telur „grasið grænna“, í stórborginni New York fremur en í heimabæ sínum einhvers staðar „hvergi“ í Texas, þá er hann í eðli sínu fljótur að fórna eða fresta uppfyllingu þeirra drauma í staðinn fyrir hjálp við aðra. Jafnvel þá sem svíkja hann og pretta og hafa af honum fé vegna þess hve auðtrúa hann er og ætlar engum illt að fyrra bragði vegna eigin eðlislægu góðmennsku; Hann kemst yfirleitt alltaf við þegar hann upplifir og skilur eymd þeirra og fyrirgefur þeim þá eða hjálpar eftir efnum og aðstæðum fremur en að hefna sín eða láta þá eiga sig.
Hann fórnar meira að segja fjárhagslegum „frama“ sínum, sem hann loks eygir innan seilingar, fyrir félaga sinn sem í upphafi samskipta þeirra hafði þó blekkt hann lúalega og miskunnarlaust. Síðustu peninga sína notar hann til að kaupa lyf og föt handa honum og fara síðan af stað með hann úr kuldanum í New York í hlýjuna suður í Flórída, draumalands félagans. Út í óvissuna þar sem hann hugðist breyta lífsstíl sínum til að sjá þeim félögunum báðum farborða.

Í þessari sögu í TMC finnst mér afar skýr og greinileg skírskotun til hinnar áhrifamiklu dæmisögu um „Miskunnsama Samverjann“ sem frá er greint í Nýja testamentinu (Lk 10.29-37). Varla getur verið tilviljun að þessi magnaða kvikmynd skuli vera valin til sýningar í Sjónvarpinu einmitt nú þegar þar og víðar er með ýmsu móti hvatt til samhygðar með flóttafólki úti í heimi og rekinn sterkur áróður fyrir móttöku á því hérlendis án þess að búið sé að ræða hvernig að því skuli staðið.
Spurningin er þó hverjum eigi helst að hjálpa og hvernig og hvar svo að raunverulegu og góðu gagni komi. Óðagot og skammtímahugsun mega ekki verða til þess að stundarfriður í samviskunni verði keyptur dýru verði með ósætti og ófriði í samfélaginu í kjölfarið og til lengri tíma litið.


mbl.is Fóru yfir stöðu flóttamannamála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða hagsmunir vega þyngst?

Alþingi og ríkisstjórn þurfa meðal annars að pæla í og svara eftirfarandi spurningu:

Hvaða hagsmunir eiga að tróna ofar í forgangsröð Íslands þegar á reynir varðandi hvers kyns átök erlendra ríkja þeirra í millum?:

1) Hagsmunir Íslands og íslenskrar þjóðar, eða

2) hagsmunir annarra ríkja vegna aðildar Íslands að milliríkjasamningum sem Ísland hefur einhvern tímann áður gerst aðili að og sem geta verið andstæðir íslenskum hagsmunum.

Hér koma til álita bæði hagsmunir til skamms tíma litið og hagsmunir til lengri tíma litið.
Mikið veltur á því að hagsmunirnir séu greindir og metnir rétt, bæði í sögu og samtíð.


mbl.is Ísland móti sína eigin stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga mannskæðar farsóttir greiða leið til Íslands?

Í viðtengdri frétt á mbl.is um hælisleitanda, sýktan af alvarlegum sjúkdómi, er haft eftir sóttvarnalækni Íslands:
"„Það eru ekki nein­ar ná­kvæm­ar dag­setn­ing­ar á því hvenær menn eiga að vera komn­ir í skoðun og þess hátt­ar,“ seg­ir Har­ald­ur enda hafa heil­brigðis­yf­ir­völd ekki tök á því að taka fólk í lækn­is­skoðun þegar í stað."

Léleg eru nú rök sóttvarnarlæknis Íslands, þótt hann beri ekki formlega pólitíska ábyrgð á regluverkinu. Öllu alvarlegri eru þó þessi tíðindi hans vegna þess að þau afhjúpa greiða leið mannskæðra farsjúkdóma til Íslands.
Hér er augljóslega alvarleg brotalöm á regluverki og/eða vinnugangi viðkomandi opinberra aðila. Við þessu verður að bregðast tafarlaust og ekki gengur að allir vísi á einhvern annan, hvorki heilbrigðisyfirvöld né innflytjendamálayfirvöld.

Eða, eiga einstaklingar sem e.t.v. eru sýktir af alvarlegum farsóttarsjúkdómi að hafa möguleika á því að umgangast landsmenn að eigin vild, og það í langan tíma eins og í umræddu tilviki, án sóttvarnaraðgerða og einangrunar og í versta falli að verða til þess að leggja marga landsmenn að velli? - Eins og gerðist á miðöldum þegar Svarti dauði barst til landsins og á síðustu öld þegar spænska veikin barst til landsins.
Þessi innflytjendamál eru greinilega í alvarlegum ólestri sem er gjörsamlega óviðunandi.


mbl.is Hafði ekki skilað læknisvottorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðernishyggja eða heimavarnarhyggja

Halda mætti að Eiríkur Bergmann prófessor álíti sig hafa hið eina sanna sjónarhorn um innflytjendamál og fjölmenningu og heimamenningu í málatilbúnaði sínum, eða þá að fréttaveita mbl.is haldi að svo sé. 
Í viðtengdri frétt virðist prófessorinn fyrst og fremst fordæma eða hneykslast á því hversu ríkan þátt umræða og stefnumörkun um innflytjendamál spiluðu í nýafstöðnum kosningum í Danmörku til danska þjóðþingsins og sérsaklega úrslitum þeirra og að það endurspegli hættu á öfgakenndri eða varasamri "þjóðernishyggju". Ekki er rætt um að úrslit kosninganna kunni að hafa endurspeglað viðhorf Dana til þess sem þeir gætu haldið vera aðsteðjandi ógn í samfélagi sínu í ljósi reynslu sinnar.

Ætla mætti að prófessorinn vilji láta að því liggja að Danir og fleiri Norðurlandaþjóðir séu að verða Hitlers-nasisma og ógnandi útþenslustefnu að bráð þar sem haft er eftir honum í fréttinni að "uppgangur þjóðernishyggju" sé "áhyggjuefni" sökum "forsögunnar". - Er eitthvað vit í slíkum málflutningi? Er hér verið að kenna það sem kalla mætti heimavarnarhyggju eða ást á eigin menningu og samfélagi við stríðsógnandi nasisma Hitlers?
Er það ekki enn meiri "barnaskapur" að loka augunum fyrir aðsteðjandi ógn heldur en að ræða ekki um innflytjendavandamál og stefnu?

En, hvað segja fleiri en Eiríkur Bergmann um hylli Danska þjóðarflokksins hjá dönskum kjósendum í nýafstöðnum þingkosningum þar í landi? Einhverjir sem ekki eru heillaðir af óreiðukenndri innrás fjölda innflytjenda eða (efnahagslegra) flóttamanna með framandi menningarhefðir sem gætu ógnað rótgróinni heimamenningu og heimabrag og velferðarkerfi.

Hvers vegna fær mbl.is ekki fram fjölbreyttari rökstuddar skoðanir fleiri málsmetandi manna um þessi mál?


mbl.is Uppgangur þjóðernishyggju áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband