Icesave-reiknirinn - Hvernig greiðum við?

Ég fagna framtaki mbl.is við gerð Icesave-reiknisins til að meta upphæð skuldbindingar Íslendinga. Þetta spannar þó auðvitað ekki allt dæmið og það sem hangir á spýtunni, heldur aðeins örfá atriði.

Nú auglýsi ég eftir framhaldinu og viðbótar Icesave-reikni: Greiningu afleiðinga þess hvernig farið yrði að því að greiða þær upphæðir sem mat á skuldbindingunum leiðir til. Þar værum við komin inn á kafla sem almenningur skilur og skynjar á eigin skinni.
Í Icesave-reikninum fyrir "Hvernig greiðum við?" (eða "Svona greiðum við!") væri til dæmis gott að gefa okkur notendum og almenningi möguleika á að greina afleiðingar mismunandi forsendna um t.d. þróun fólksfjölda (þ.á.m. vinnandi fólks), hagvöxt (sundurliðað eftir atvinnugreinum), landsframleiðslu (þ.á.m. fjölgun atvinnutækifæra), launakjör, viðskiptakjör (þróun á verðhlutfalli milli útflutnings- og innflutningsvara), vaxtastig, gengisþróun, niðurskurð/(eða aukningu!) á tilteknum sviðum í heilbrigðiskerfi og menntunarkerfi og tryggingakerfi og lífeyrissjóðsgreiðslum og skattlagningu (tiltekna skattstofna), svo nokkur atriði séu nefnd. (Hvað t.d. með greiðslubyrði heimilanna m.v. mismunandi forsendur um þróun á fasteignamarkaði? !!). Þetta þyrfti að setja fram á skiljanlegu máli fyrir almenning með hugtökum sem allir skilja í daglegri umræðu.

Á grunni þessara og annarra mikilvægra forsendna myndi síðan koma út á grunni reiknisins hverjar afleiðingarnar yrðu þá fyrir m.a. atvinnustig, skattabyrði, þróun ráðstöfunartekna og kaupmáttar heimila, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta má útfæra og spinna við á ótal vegu.
Þannig mætti spyrja, á niðurstöðu fyrirliggjandi reiknis um að skuldbindingin yrði t.d. um 40 milljarðar á ári (fyrstu árin), hvort sú upphæð yrði greidd af þjóðinni með X mikilli aukningu á tilteknum skattaálögum, Y miklum niðurskurði í tilteknum útgjöldum hins opinbera (t.d. til heilbrigðiskerfis og menntakerfis - eða hvað?), tiltekinni framleiðsluaukningu í tilteknum atvinnugreinum og þar af leiddum skattagreiðslum til ríkisins, o.s.frv., sem hefði þá afleidd og tiltekin áhrif á greiðslubyrði og ráðstöfunartekjur fólks...

Reiknilíkan með greiningum á beinum forsendum og afleiðingum af ofangreindu tagi myndi segja fólki mikið við mat á valkostum sem fyrir liggja. Þetta yrði að sjálfögðu varla mjög fullkomið líkan fremur en fyrsti umræddi reiknirinn sem nú hefur verið boðið upp á fyrir mat á skuldbindingunum, en væntanlega gott innlegg fyrir almenning til að byggja pælingar sínar og umræðu á.

PS: Svona reiknilíkön eru nú þegar til staðar í einhverri mynd, skyldi ég ætla, í t.d. opinberum stofnunum eins og Seðlabanka Íslands, Fjármálaráðuneytinu og Hagfræðistofnun. Málið er að setja þau fram í búningi sem almenningur getur "handfjatlað" sjálfur að einhverju leyti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Þetta yrði mjög flókið, en hugmyndin góð og það sem reiknilíkanið segði okkur væri sannleikurinn sem pólitíkusar þora ekki að tala um.

Nú þegar er búið að hækka gjöld í heilbrigðiskerfinu, hækka skatta og lækka niðurgreiðslu lyfja, svo dæmi séu nefnd. Þetta er bara byrjunin.

Útgangspunkturinn í IceSave (óbreyttum samningi) á að vera: Þetta er ekki hægt!

Mér er sama hvernig menn reyna að reikna sig framhjá raunveruleikanum, það er útilokað að íslensk þjóð geti staðið undir þessu. Algerlega útilokað.

Haraldur Hansson, 6.8.2009 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband