Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Forkastanlegar yfirhylmingar

Vonandi er það liðin tíð að yfirvöld innan kirkjunnar, hvar sem er, hylmi yfir með mönnum, sem hefur verið treyst fyrir þjónustu við söfnuði og skjólstæðinga kirkjunnar, en sem reynst hafa verið níðingar af verstu gerð. Kirkjuyfirvöld sem það hafa gert vitandi vits eru beinlínis samsek í glæpnum.


mbl.is Níðingsverk í skjóli kirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordómar eða túlkandi skoðun?

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 14.5.2015 er viðtalsgrein við sr. Hildi Eir Bolladóttur með yfirskriftinni „Segir presta ekki hafa frelsi til fordóma“. Er viðtalið til komið vegna þess að „nokkrir prestar og kirkjuþing unga fólksins vilja að biskup beiti sér fyrir afnámi umdeildrar reglu sem heimilar prestum að neita samkynhneigðum pörum um giftingu“, en um þetta hefur biskup ekki tjáð sig ennþá.

Þar viðrar sr. Hildur þá skoðun sína að „þjónusta okkar prestanna við náungann getur ekki verið háð fordómum okkar. Það er ekki hægt að gefa prestum rými til að þjóna út frá fordómum sínum.“

Þarna finnst mér ítrekað koma fram misnotkun á orðinu „fordómar“.
Hliðstæð misnotkun á orðinu hefur reyndar einnig verið mjög áberandi í opinberri almennri orðræðu undanfarið ár um til dæmis innflytjendamál og framandi trúarbrögð og trúarmenningu og menningarhefðir í því sambandi; en það er önnur saga.

Með notkun sinni hér á orðinu „fordómar“ er sr. Hildur óbeint að ásaka presta um vanþekkingu á helgiritum kirkjunnar að því er varðar atriði um samkynhneigð. Þar hlýtur hún að hafa rangt fyrir sér.
Bæði hún sjálf og aðrir prestar og guðfræðimenntaðir einstaklingar (og fleiri) vita væntanlega vel hvað fram kemur í Biblíunni um þessi atriði, bæði í Gamla testamentinu (Biblíu Hebrea) og í bréfum Páls postula í Nýja testamentinu sem er meginrit kristninnar. Mér finnst því að ekki sé hægt að ásaka prestana og þjóðkirkjuna um „fordóma“ vegna þessa.
Þetta sem sr. Hildur bendir á og gagnrýnir hjá ofangreindum aðilum ber hins vegar fremur að líta á sem túlkun þeirra og skoðun á þessum textum Biblíunnar varðandi samkynhneigt fólk. Það sem sr. Hildur kallar hér „fordóma“ þeirra vil ég þannig heldur kalla skoðun og túlkun viðkomandi aðila sem byggir á þekkingu þeirra og viðhorfum. Þetta er með öðrum orðum túlkandi skoðun þeirra.

Fordóma einhvers ætti aftur á móti að kalla það þegar hann heldur fram einhverri skoðun eða yfirlýsingu án þess að vera búinn að afla sér upplýsinga og þekkingar um viðkomandi atriði og slær einhverri fullyrðingu fram að óathuguðu máli eða hefur eftir skoðanir annarra án eigin ígrundunar. Má í því sambandi benda á skilgreiningu í Íslenskri orðabók þar sem segir um orðið fordóm: „Ógrundaður dómur eðs skoðun ... andúð, óbeit sem ekki styðst við reynslu, rök eða þekkingu, hleypidómur“ Íslensk orðabók 3. Útg., ritstj. Mörður Árnason. Edda 2002, s. 365). Takið eftir: „... sem ekki styðst við reynslu, rök eða þekkingu.

Að því er varðar umræðuefni sr. Hildar þá er ég sammála henni og formanni Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, sr. Sigurvini Lárusi Jónssyni, og fleirum skoðanasystkinum hans sem vísað er til í grein um málið í ofangreindu blaði á s. 6. Mér finnst núgildandi regla þjóðkirkjunnar um „samviskufrelsi presta“ sem heimilar prestum Þjóðkirkjunnar að neita pörum af sama kyni um hjónavígslu á grundvelli eigin samvisku ekki viðunandi. Þessa reglu ætti Þjóðkirkjan að afnema. Hún samræmist einfaldlega ekki anda kærleiksboðskapar meistarans frá Nasaret sem er í anda „Gullnu reglunnar“.
Í því sambandi má benda á einn af grundvallartextum Nýja testamentisins sem kirkjan hvílir á og byggir kærleiksboðskap sinn á. Þar segir í Jóhannesarguðspjalli í 13. kafla þar sem Jesú eru lögð í munn orð um boð hans til fylgjenda sinna: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh 13.34-35).
Að vilja útskúfa fólki vegna meðfæddra og eðlislægra eiginleika sinna, útskúfa þeirri „sköpun Guðs“, samrýmist ekki þessum boðskap. Það samrýmist heldur ekki almennum mannréttindum í lýðræðisríkjum í dag. Þeir sem það vilja gera, með tilvísunum í tiltekin textabrot í helgiriti sem rituð voru í fornu og ævafornu samhengi og samfélagi, endurspegla þröngsýna og óviðeigandi bókstafshyggju að hætti ýmissa sértrúarsafnaða. Þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum, eða kjósa svo.
Raunveruleg „þjóðkirkja“, eins og sú íslenska segir sig vera í merkingu þess hugtaks, er fyrir alla.


mbl.is Hvað gerðist á uppstigningardaginn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hlustun afar lítil." - ?

Dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins réttlætir niðurfellingu rótgróinna daglegra dagskrárliða á Rás 1 um stutt innskot úr ranni Þjóðkirkjunnar um andleg efni með ummælum sínum: "Hlustun á þá hefur verið afar lítil", sbr. frétt í Morgunblaðinu 14.8.2014 bls. 2. Um er að ræða þættina "Orð kvöldsins" og "Morgunbæn".

Ekki kemur fram á hvaða könnunum sú fullyrðing er byggð og hvort þær kannanir hafi náð til allra aldurshópa, þ.e. einnig hóps "aldraðra" sem stundum eru ekki með í skoðanakönnunum. Nauðsynlegt er að fá það upplýst áður en yfirlýsingar dagskrárstjórans eru kokgleyptar hráar, ekki síst í ljósi þess að líklega er það einmitt sá hópur sem mest hefur hlustað á umrædda útvarpsþætti.

Hitt er annað að vel mætti ræða um breytta nálgun og efnistök í þáttunum þótt þeir hafi fyrst og fremst skírskotað til kristinnar hefðar með því tungutaki og orðfæri sem þar tíðkast.


mbl.is Vilja hafa hin kristnu gildi í heiðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Fjármálamarkaðir "Tortímandi" trúarbrögð nútímans?

 

 

Dr. Mark C. Taylor, forseti trúarbragðafræðideildar Columbia háskóla í New York, hélt athyglisverðan fyrirlestur á málþingi með yfirskriftinni "Fjármálamarkaður: Trúarbrögð nútímans?" þ. 16. maí 2013 í boði Guðfræðistofnunar HÍ og Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar.
Hann tengist mjög því efni sem væntanlega verður til umfjöllunar hjá Jim McTague, fréttastjóra hjá bandaríska fjármálablaðinu Barron's á fyrirlestri hans í dag, en hann bendir á að um helmingur viðskipta í kauphöllum í Bandaríkjunum fari fram í gegnum tölvukerfi og forrit sem taka "sjálfstæðar ákvarðanir" á augabragði. - Það er að sjálfsögðu samkvæmt þeim reiknireglum sem forritaðar eru af fjármálafyrirtækjum verðbréfakaupmanna.
Dr. Mark C. Taylor hefur líkt þessu ástandi við þær vélrænu aðstæður sem leiddu ófremdarástand yfir mannkyn í sögu kvikmyndarinnar The Terminator og sem þar eru gagnrýndar.

 

 

Taylor heldur því fram að ávallt séu tengsl á milli trúarbragða og efnahagsmála, eða hagrænna atriða. Með siðbreytingu Lúthers hafi trúarbrögðin verið „einkavædd“, eða færð til einstaklingsins. Taylor benti á þá söguskoðun að auðsöfnun hafi komið til í kalvínisma, þar sem trúuðum var uppálagt að vinna og spara. Þarna séu rætur hins fjármálalega kapitalisma eða fjármálamarkaða sem komið hafa í ljós undanfarna áratugi.
Nú séu tæknin og hraðinn orðinn slík að viðskipti með hlutabréf fyrirtækja og verðpappíra eru framkvæmd á örskotshraða með reiknikerfum í tölvum; Það minni á kvikmyndina um Tortímandann (The Terminator). Þetta hafi átt sinn þátt í hruni fjármálamarkaða 2008.

 

Á grunni greiningar Taylors spyr maður sig hvort og þá hvað trúarbrögð geti gert við þessu ófremdarástandi í samtímanum, í ljósi þess að visst upphaf þess megi rekja til þeirra sjálfra, nánar tiltekið siðbreytingarinnar (Lúthers og Kalvíns) á 16. öld!

 

Nánar tiltekið komu eftirfarandi skoðanir Taylors fram í fyrirlestrinum, en inntaki hans var lýst þannig í tilkynningu frá aðstandendum fyrir málþingið:

„In the past several decades a new form of capitalism has emerged: finance capitalism.  This has been the result of a combination of factors ranging from technological innovation to changes in regulatory policies. The critical variable is speed. Today's high-speed, high-frequency ttrading has created a system that has already brought devastation and now threatens to collapse.

While apparently hyper-modern, financial capitalism has its roots in modernity.  Speed is, in fact, a modern invention. But modernity, in turn, was initiated by Luther.  From Wittenberg to Reykjavik - an unlikely but timely trajectory.“ 


mbl.is Forrit ákveða um helming viðskipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjórn og mannréttindi

Í stað tilburða til að hafa áhrif á erlend stjórnvöld varðandi mannréttindi samkynhneigðs fólks væri öllu nærtækara fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að endurskoða þá ákvörðun sína að úthluta íslömskum trúflokki lóð fyrir trúartákn þeirra, mosku, nánast við eitt aðalborgarhliðið inn í borgina við megin umferðaræð íbúa og erlendra gesta, einum besta stað í borginni fyrir auglýsingaskilti; Þar sem ætti öðru fremur að reisa merki Reyjavíkurborgar, ef nokkuð, en allra síst tákn trúarhefða sem eru framandi íslenskri menningu og ýmsum grundvallargildum á sviði mannréttinda. Eða, gera borgarstjórnarfulltrúar sér ekki grein fyrir því að meðal annars fordæma íslamskir trúarleiðtogar samkynhneigð og samkynhneigt fólk með tilvísun í helgirit sín?
mbl.is Endurskoða samstarfið við Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tutu fordæmir fordóma

Þessa myndrænu yfirlýsingu Tutu mætti kalla að taka afstöðu með sjálfsögðum mannréttindum og gegn fordómum sem grundvallaðir eru á túlkun á ritum trúarbragða.

Að því er kristni varðar eru venjulegar Biblíutilvísanir fordæmandi fólks sem elur á samkynhneigðarfælni byggðar á misskilningi og vanþekkingu og/eða, það sem verra er, vísvitandi rangtúlkun. Stök vers í Biblíunni sem yfirleitt er vísað í sem fordæmandi fyrir samkynhneigð segja alls ekki alla söguna þar að lútandi og ekki allan sannleikann nema síður sé. Um það er almenningur því miður ekki meðvitaður, frekar en von er til, og er þess vegna varnarlaus gagnvart slíkum fullyrðingum í anda bókstafstrúar.


mbl.is Kysi frekar helvíti en hommafælna himna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænar prédikanir

Það er hið besta mál hjá sr. Pálma Matthíassyni að lesa prédikanir sínar beint af spjaldtölvu í stað þess að prenta þær út á pappír til aflestrar. Það eru umhverfisvænar prédikanir að formi til. Það er til fyrirmyndar og eftirbreytni almennt.

Ekki síður skiptir það þó máli hvað um er rætt í prédikunum og hvað söfnuðinum er boðað. Vonandi er það allt umhverfisvænt og heilsusamlegt fyrir áheyrendur, bæði andlega og efnislega velferð þeirra, þeim til hjálpar, fyrirmyndar og eftirbreytni. Ekki fara sögur af prédikunarefni í viðhangandi frétt, en ekki er ástæða til að ætla annað en að það sé í uppbyggilegum anda og víðsýni.


mbl.is iPadinn gagnlegur í guðsþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða með hinu góða gegn hinu illa

Kolbrún Bergþórsdóttir ritar góðan og síþarfan pistil í Morgunblaðið í dag, 20.12.2012 s. 24, sem ber yfirskriftina "Trúin og blóm við dómkirkju". Þar bendir hún m.a. á nauðsyn þess að standa með hinu góða og hafna því illa, sérstaklega þegar áföll dynja yfir, svo sem hryðjuverk af manna völdum eins og í Noregi í fyrra og í Bandaríkjunum nýverið. Fólk bregðist við á mismunandi hátt og hafi mismunandi aðferðir við það. Sumir sæki í trú sína og finni þar huggun í trúarskoðunum sínum. Annað vel innrætt fólk sýni einfaldlega jákvæð viðbrögð og samhygð af því að það er því eðlilegt. Það hafi jákvæða afstöðu til lífsins og trúi "á góð öfl í tilverunni og vilji standa með þeim"; Þrátt fyrir úrtöluraddir samtaka sem sé "í nöp við kristna trú og kirkju", en þau eigi ekki upp á pallborðið hjá fólki sem sé einfaldlega gott og leggi t.d. blóm við kirkju til að sýna samhug með þolendum voðaverka í verki og gegn illskunni.
- Þetta eru spekiorð sem Kolbrún fer hér með.

Menn geta endalaust deilt um trú og trúarbrögð og sannleika í því sambandi, enda fer sú umræða oft fram á röngum forsendum.
Hitt er annað að heiðarlega iðkuð trúarbrögð sem er einnig heiðarlega stjórnað eru eitt sterkasta og áhrifaríkasta "tækið" eða aðferðin til að móta siðferðislega, jákvæða og uppbyggilega afstöðu einstaklinga gagnvart hver öðrum í mannlegu samfélagi til að viðhalda sátt og friði. Á þetta hafa félagsfræðingar eins og Emile Durkheim (1858-1917) bent. Landslög um siðferðisleg málefni þurfa þó vissulega einnig að vera til staðar, þeim til leiðsagnar, eftirbreytni og ögunar sem siðblindir eru. Um það ritaði t.d. Lúter (1483-1546) á sínum tíma, en það ætti að vera augljóst öllum mönnum í dag.

Sem betur fer gerir þorri fólks sér grein fyrir muninum á góðu og illu og tekur afstöðu með hinu góða og gegn hinu illa eða illskuverkum. Það virðist því dálítið öfugsnúin afstaða hjá afmörkuðum trúarandstæðum hópum eða öðrum sem segjast hafa uppbyggilega og jákvæða siðmenningu að leiðarljósi að berjast gegn stórum hópum trúaðra í stað þess einfaldlega að leggjast á árarnar með þeim sem liðsmenn hins góða í altækri baráttunni gegn hinu illa; Hver eftir sinni leið að sama marki.


Menningarleg innræting og alræðisvald

Frétt um óhugnanlegt morð á 14 ára unglingsstúlku, þar sem gerendur eru sagðir tveir bónleiðir karlmenn er biðluðu hennar við föður hennar, vekur upp spurningar um hvernig svona lagað getur átt sér stað. Við sem Vesturlandabúar, sem hérlendis byggjum á siðrænum lúterskum menningararfi, hneykslumst stórum og fórnum höndum í spurn yfir illskunni eða aðstæðunum sem þarna búa að baki.

Það virðist vera einhvers konar hömluleysi í samfélaginu þarna sem leiðir til þess að menn skirrast ekki við að myrða samborgara sína, jafnvel barnunga unglinga, með þessum hryllilega hætti og af svona tilefni eins og lýst er í viðtengdri frétt. 

Í þessu umrædda landi virðist þó íhaldssamt karlaveldið halda samfélaginu föstum tökum í krafti trúarlegrar túlkunar og hefða og sérstaklega konur eiga þar verulega undir högg að sækja, eðli málsins samkvæmt, einnig unglingsstúlkur eins og í þessu tilviki.

Sjálfsagt spilar menningarinnræting að stofni til lykilhlutverk almennt séð, en spurning er hvort þetta atvik snúist um hefndarmorð af trúarlegum toga eða hreina siðblindu. Hins vegar fara gerendurnir hér þvert gegn Gullnu reglunni sem þó er einn af hornsteinum íslam eins og kristni.
Beinast böndin þá ekki jafnframt að óprúttnum trúaleiðtogum sem innræta öfgafullar og jafnvel rangar túlkanir sínar með trúarsetningum sínum meðal þegna samfélagsins? Trúarsetningum sem eiga sér ekki stoð í helgiritum sem sögð eru liggja til grundvallar viðkomandi trúarbrögðum.

Hitt er annað að þar sem alræðisvald er annars vegar og raunverulegt lýðræði víðs fjarri eru almenn mannréttindi fótum troðin og mótmælum og mótmælendum rutt úr vegi. Birtingarmyndir alræðis eru margvíslegar en margar eru blóði drifnar; Engin furða t.d. að Picasso hafði ádeilumálverk sitt Guernica í svart-hvítu.

mbl.is 14 ára stúlka afhöfðuð í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hefði hvinið í Dönum

Ég sé fyrir mér vandlætingarsama vinnufélagana í Danmörku taka bakföll af hneykslan og heilagri reiði ef þeir samfara fréttum um hækkun verðvísitölu hefðu þurft að kyngja því að skuldir þeirra hefðu hækkað samsvarandi af þeim sökum. Skiptir þá engu máli þótt ársverðbólgan mælist "aðeins" 2,3%, hvað þá heldur upp í tveggja stafa tölu.

Hérlendis var fólk orðið all-dofið gagnvart þeim íslenska veruleika og áþján að neytendalán eru tengd neysluverðsvísitölu þegar verðbólgan tók stökk upp á við snemma árs 2008 og með vaxandi hraða við bankahrunið um haustið og gerði leiftursnögga árás - eins og þungvopnuð herþota í stungu sinni að árásarmarkinu - beint á skuldum hlaðið fólkið og fyrirtæki, almenning, varnarlauan á jörðu niðri. 

SKEMMST er frá því að segja að verðbólguþotan hitti gjörsamlega eins og ávallt með beinskeyttum og sértækum og skuldarasæknum verðbólguskotum sínum beint í verðtryggð mörk sín, verðtryggð lán, og tókst að tvístra fórnarlömbunum í allar áttir og skilja mörg heimili og fyrirtæki eftir í rústum. Afleiðingarnar koma æ betur í ljós eftir því sem árásarreykurinn stígur upp frá rústunum. Eldar loga þó enn og, það sem verra er, fara vaxandi en ekki minnkandi.

Því miður reynist skaðinn mun víðtækari en bjartsýnustu ríkisstjórnarmenn óraði fyrir, enda virðast röng greiningargleraugu hafa villt þeim sýn.
Ekki var gripið til ráðstafana sem blöstu við í síðasta lagi á fyrsta bankahrunsdeginum, þ.e. að frysta verðtryggingarvísitölur sökum forsendubrestsins.
Þess í stað voru þær látnar óáreittar og leyft að leika lausum hala í höfuðstól verðtryggðra lána í samræmi við gengishrun og stýrivaxtahækkanir og aðrar kostnaðarhækkanir og álögur innanlands.

Með þessu glórulausa aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og plástursaðgerðum hennar, sem aðeins lengja í hengingaról illa staddra skuldara, hefur eyðingarbál verðtryggingar lána rústað fjárhag tugþúsunda skuldara, heimila og fyrirtækja. Og áfram er haldið á þeirri feigðarbraut meðan siðapostular verðtryggingar hrópa af fjárhaugum sínum að siðlaust væri að afnema verðtryggingu lána þar sem þá myndi sparifé brenna upp á verðbólgubálinu. Engu er líkara en að þeim sé sama þótt verðtryggingin sé á hinn bóginn að ræna viðkomandi lántakendur með hliðstæðum hætti öllum eignum þeirra, og meira en það, þar sem þeir sitja þess utan uppi með himinháar skuldir reiknaðra verðbóta þegar eiginfé þeirra er upp urið með engar eignir á móti nema von um framtíðarvinnutekjur.

Ljóst ætti að vera að hér þarf að fara bil beggja þannig að sæmileg sátt náist um þessi mál í landinu. Báðir aðilar, bæði lánveitendur og lántakar, verða að bera sameiginlega áhættuna af verðþróun á lánstíma lána. Það verður enginn friður annars.
Undanfarnir áratugir allt frá tíma óverðtryggðra lána og langvarandi verðbólgu upp á tugi prósenta á ári samhliða verðtryggðum lánum og óverðtryggðum launum hafa opinberað hina tvo eyðandi öfga tengt verðbólgu: Bruna sparifjár sparifjáreigenda fyrir tíma verðtryggingar lána annars vegar og eignabruna skuldara eftir tilkomu verðtryggðra lána hins vegar.

Löngu tímabært er að þessu stríði lánveitenda og lántakenda linni með sátt og nauðsynlegri leiðréttingu nú þegar nægilega langt aftur í tímann. Núverandi ríkisstjórn gerir sér ekki grein fyrir þessum vanda, eða aðhefst a.m.k. ekki með viðhlýtandi hætti.
Samstaða með báðum aðilum þarf að koma til.
Yfirvofandi endurnýjuð hrunstjórn S-S (Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar) er ekki líkleg til að leysa málið farsællega með ásættanlegri lausn fyrir báða aðila. Hvorugur þessara flokka gerði það í þeim ríkisstjórnum sem starfað hafa í kjölfar bankahrunsins.
Eða, er ástæða til að ætla að þeir muni hafa breytt um grundvallaráherslur í þessum málum næsta vor og taki þá sniðgenginn hluta kjósenda, skuldum þjakaðan almenning, einnig í hóp skjólstæðinga sinna?


mbl.is Dregur úr verðbólgu í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband