Hagfræðingar og pólitík

Eftir því sem ég hugleiði það meir hallast ég að því að þessi umrædda grein Jóns Steinssonar í Morgunblaðinu í gær hafi hreinlega verið pólitískur pistill en ekki hlutlaus umfjöllun fræðimanns, eins og hann leit út fyrir að vera í ljósi fyrri greina Jóns.
Þessi misvísandi framsetning hans um að að afturvirkt afnám verðtryggingar fram fyrir hrun sé árás á "þá sem skulda lítið" er fræðimanni ekki sæmandi nema honum hafi yfirsést svona hrapalega eða að hér sé um vísvitandi misvísun að ræða til að framkalla samúð með "egginu" en ekki "hænunni", þ.e. þeim sem verða fyrir óbeinum áhrifum en ekki þeim sem urðu strax fyrir beinum áhrifum, lántakendum.
Eins og ég bendi á í fyrri pistli var skuldaklafa í formi "handrukkaðra" verðbóta skellt á varnarlausa lántakendur og eignasafn lánveitenda hækkað sem því svarar; á pappírnum og með tölum í tölvum samkvæmt snarvitlausri og brostinni vísitölu. Jón horfir alveg framhjá þessu atriði og því réttlæti sem um er að ræða við að bakfæra þetta óréttlæti með því að fjarlægja hruns-verðbæturnar af baki viðkomandi lántakenda.

Þá má velta fyrir sér hvers vegna fræðimaðurinn, þ.e. í hlutverki hins pólitíska skríbents í þessu tilviki, skautar svo áberandi fram hjá þessu grundvallaratriði. Er það vegna þess að bakfærsla á umræddum verðbótum myndi afhjúpa með greinilegri hætti slæma stöðu bankanna (og þar með ríkisins) og lífeyrissjóðanna? Jón hrósar aðgerðum ríkisstjórnarinnar hingað til í hástert, þegar ýmir aðrir virðulegir fræðimenn gera það ekki, þannig að deildar fræðilegar meiningar eru nú um ágæti þeirra. Þetta bendir því miður til þess að grein Jóns sé of lituð pólitískum skoðunum og virðist það hafa afhjúpast í þessari grein. - Líklega má segja hið sama um þá virtu hagfræðinga í Kastljós-viðtali í gærkveldi, þá Þórólf Matthíasson og Tryggva Þór Herbertsson.

Lífeyrissjóðirnir hafa tapað óhemju fé á falli bankanna, t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna á Kaupþingi og Exista, svo eitt dæmi sé nefnt, eins og Ragnar Þór Ingófsson rekur í grein sinni í Morgunblaðinu í dag 4. sept., "Brennt barn forðast eldinn", á s. 26. Það er hryllileg saga sem hann rekur þar um krosstengsl sjóðsins, banka og fyrirtækja og persónana og fjölskyldna þar að baki. Það er ekki furða að Evu Joly skuli hafa blöskrað persónu- og hagsmunatengslin í íslenska fjármálakerfinu.
Afleiðingar af glötuðum fjárfestingum og vafasamri stjórn þeirra mála kæmu betur í ljós ef lífeyrissjóðir myndu neyðast til að horfa á eftir of-bókfærðum verðbótum á lánum heimilanna í ofanálag, eins og hér er til umræðu. Það er því ekki furða að andstaðan sé mikil gegn þessum hugmyndum.

Vonandi tekst ekki að viðhalda blekkingum gagnvart almenningi um vankanta á bakfærslu oftekinna verðbóta með því að færa misvísandi rök í fræðilegan búning virðulegra fræðimanna í háskólum hérlendis og erlendis sem almenningur kann ekki svör við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband