Færsluflokkur: Kjaramál

Óverðtryggð lán, vextir og virkur húsaleigumarkaður

Þetta er "ódýr" umræða sem fram kemur í viðhangandi frétt á mbl.is um samanburð á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Þar er sagt að verðtryggð lán séu "dýrari" en óverðtryggð lán þegar átt er við að greiðslubyrðin sé þyngri af óverðtryggðum lánum á fyrri hluta lánstímans að gefnum forsendum um nægilega háa nafnvexti á hinum síðar nefndu.

Þegar búið er að bæta öllum verðbótum við höfuðstólinn á verðtryggðu láni og öllum vöxtum til viðbótar og bera það saman við vaxtabyrði af óverðtryggðu láni á öllum greiðslutímanum kemur annað í ljós. Þetta sést betur í frétt í Morgunblaðinu í dag, 14.2.2014 bls. 12, þar sem borin eru nokkur dæmi um verðtryggð og óverðtryggð lán. Þar kemur fram að heildargreiðsla ("Samtals greitt") fyrir verðtryggð lán á lánstímanum er umtalsvert hærri en fyrir óverðtryggð lán.

Hérlendis þurfa stjórnvöld að vinda sér í það, og þó mörgum árum fyrr hefði verið, að stuðla að virkum leigumarkaði fyrir húsnæði. Hagstæður húsnæðisleigumarkaður er gott svar sem uppbyggilegur valkostur í stað kaupa á "eigin" húsnæði vegna vaxtabyrði og kostnaðar af lánum. – Jafnframt þarf að leggja af verðbólguhvetjandi hávaxtastefnu Seðlabankans sem enn er við haldið þrátt fyrir kirfilegt skipbrot hennar við hrunið og afleiðingar hennar hingað til. Þar á bæ er nú hótað vaxtahækkunum á nýjan leik; Og hvað gerist? Verðbólguvæntingar aukast samstundis og vaxtakostnaður í kjölfarið og útkoman verður meiri verðbólga! Samfara aflagningu verðtryggingu neytendalána þyrfti að breyta um stefnu í Seðlabankanum þannig að meginmarkmið hans verði að viðhalda efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika með viðunandi atvinnustigi í stað „verðbólgumarkmiða“.

Þeir sem hallmæla óverðtryggðum lánum og mæra verðtryggð lán gefa sér gjarnan þá forsendu að vextir á óverðtryggðum lánum myndu rjúka upp í hæstu hæðir til frambúðar og vaxtakostnaður óverðtryggra lána því verða miklum mun hærri en samanlögð áhrif af verðbólgu og vöxtum á verðtryggðu lánum.
Þetta er ekki raunsæ forsenda ef allt er með felldu. Eins og fylgjendur verðtryggðra lána (bankar og lánveitendur og taglhnýtingar þeirra) hampa nú í fréttum horfist fólk í leit að húsnæði í augu við tiltölulega þunga greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum með háum nafnvöxtum og sér því strax hvort það geti staðið undir henni eða ekki og tekur þar af leiðandi (og vonandi) rétta ákvörðun í samræmi við það, hver í sínum aðstæðum. Verði verðtryggðir fjármögnunarkostir af lagðir við kaup á húsnæði og sala á húsnæði drægist saman vegna óviðráðanlegra vaxta, þá yrði eðlilegt svar lánveitenda lækkun vaxta (sem stuðlar jafnframt að lækkandi verðbólgu); Fái lögmál framboðs og eftirspurnar að njóta sín óbjagað. Virkur og hagstæður húsaleigumarkaður flýtir fyrir því ferli.


mbl.is Greiðslubyrðin er of þung
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðakerfi og fjárfestingar

Í pistli sínum í dag, 8.2.2014, heldur Páll Vilhjálmsson því fram að lífeyrissjóðir séu í gíslingu forstjóra stórfyrirtækja og færir fyrir því sterk rök með nærtækum dæmum. Vitnar Páll í því sambandi í merkilega og umhugsunarverða grein Einars Sveinbjörnssonar stjórnarmanns í Söfnunarsjóði lífeyristrygginga í Morgunblaðinu í dag (Lífeyrissjóðirnir og N1, bls. 34) sem varar þar við myndun „elítulífeyriskerfis“ fyrir hálaunaða stjórnendur eins og dæmi er um hjá olíufélaginu N1 (sem áður seldi vörur sínar undir merkjum Esso).
Jafnframt ábendingum um hættu á þvílíkri og annars háttar spillingu innan núverandi lífeyrissjóðakerfis bendir Páll á að breytinga á því sé knýjandi þörf með tilheyrandi lagabreytingum. Ég er sammála ábendinum Páls í þessa veru.

Núverandi lífeyrissjóðakerfi með söfnunarsjóðum er komið út í algjörar ógöngur eftir áföll við hrunið 2008 og nú orðið innan gjaldeyrishaftanna þar sem fjárfestingarmöguleikar sjóðanna takmarkast við atvinnulíf og valkosti á Íslandi. Gífurlegt tap varð hjá lífeyrissjóðum við hrunið upp á mörg hunduð milljarða króna og í kjölfarið kom núverandi ástand með stórlega skertum ávöxtunarmöguleikum og óásættalegri fjárfestingaráhættu undir gjaldeyrishöftunum með fyrirsjáanlega hörmulegum afleiðingum fyrir lífeyrissjóðina/spariféð og efnahagslífið í heild. Og, áfram er stórfé (12% eða meira af öllum launum) dælt mánaðarlega í stútfulla lífeyrissjóðina! Þetta ætti að vekja hugsandi fólk til umhugsunar. Spurningin er hvort nægilega margir  þingmenn átti sig á þessu.

Augljósasta leiðin til skoðunar út úr þessum ógöngum er að taka upp gegnumstreymiskerfi eins fljótt og verða má, eins og tíðkast í flestum löndum Evrópu/erlendis. Þar með ætti jafnframt að sparast óhemju rekstrarkostnaður sem nú fer í rekstur lífeyrissjóðanna og ævintýralega há laun stjórnenda þeirra í stað þess að gagnast launafólki beint; Að ekki sé talað um að fjarlægja þar með möguleika á spillingu eins og þeirri sem Páll og Einar benda á. 
Að öðrum kosti til bráðabirgða hreinlega að stöðva iðgjaldagreiðslur launafólks í lífeyrissjóðakerfið að umtalsverðu leyti meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði, með lögum. Það yrði jafnframt gott innlegg á launareikning og séreignarsparnaðarreikninga fólks núna.

Í pistli frá 2009 á þessari blogsíðu varpa ég fram spurningum um hvort lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks ásamt mótframlagi launagreiðenda séu skattlagning í reynd og færi rök fyrir því að svo sé, ekki síst þar sem launþegar hafa sjálfir afar lítið um það að segja hvernig fénu er varið og fá það ekki allt til baka aftur á ævi sinni. Síðar bæti ég svo við athugasemdum um að lífeyrissjóðirnir séu í reynd nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkis og atvinnulífs (Fjárfestingasjóður ríkis og atvinnulífs kemur í ljós).

Þetta vekur spurninguna um að hve miklu leyti sparnaður launþega í formi iðgjalda til lífeyrissjóða ásamt mótframlagi atvinnurekenda, alls 12% eða meira, sé í reynd „eign“ launþega eftir greiðslu þeirra gjalda sem frádráttar frá launaútborgun hverju sinni.
Þetta atriði er einn sterkur liður raka fyrir upptöku gegnumstreymiskerfis í stað núverandi uppsöfnunarkerfis í umsjá sérstakra lífeyrissjóða. Sbr pistillinn 
Eru lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks skattlagning í reynd?


mbl.is Kaupa Höfðatorg af Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging neytendalána hamlar launahækkunum

Ein helstu rökin nú, eins og áður, fyrir "hóflegum" launahækkunum er yfirvofandi ógnin um hækkun verðtryggðra lána vegna afleiddrar aukningar á verðbólgu í kjölfarið. - Að sjálfsögðu hefur verðbólga af öðrum almennum ástæðum eins og verðhækkun vöru og þjónustu þar sitt að segja til viðbótar.

Meðal annars í auglýsingum undanfarið hefur verið hamrað á því að launahækkanir muni meðal annarra verðbólguvalda leiða til hækkunar á verðtryggðum skuldum launþega og þess vegna verði launþegar að stilla kröfum sínum um launahækkanir í hóf, sjálfum sér til hagsbóta.
Þessi rök hafa ávallt verið uppi á samningaborðinu við gerð almennra kjarasamninga undanfarna áratugi. 

Þetta sýnir enn og aftur að launþegar (og almenningur) þurfa að komast út úr vítahring verðtryggðra lána svo að lánamál og skuldastaða þeirra standi ekki í vegi fyrir kjarabótum þeim til handa í formi launahækkana.

Framsóknarflokkurinn hafði þetta sem eitt af stefnumálum sínum fyrir síðustu kosningar, að stemma stigu við verðtryggingu neytendalána, enda er það réttlætismál að lántakendur beri ekki einir sér 100% áhættu af verðþróun eins og verið hefur og greiði fullar verðbætur samkvæmt henni auk vaxta.
Nú er starfandi nefnd sérfræðinga á vegum forsætisráðherra um hvernig hægt verði að koma því við. Á nefndin að skila niðurstöðum sínum og tillögum á næstunni. Allir hlutaðeigandi bíða spenntir; Lántakendur fullir eftirvæntingar, en lánveitendur ef til vill ekki eins hressir.


mbl.is Rjúfa verður vítahring verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsþjónusta innan seilingar

Sjúkrahjálp og samfélagsstoðir innan seilingar - Hver vill það ekki?
Er einhver sem vill neita sumum íbúum þessa lands um jafnan aðgang að samfélagsþjónustu, verandi sjálfur í skjóli?

Þegar hugað er að kostnaði við rekstur samfélagsþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu sem allir landsmenn eiga að njóta ber að skoða heildardæmið, en ekki aðeins afmarkaða þætti einangrað.
Síðan ber að ræða og taka ákvarðanir um útfærslu og skipulag þjónustunnar í því ljósi og með heildarhagkvæmni að leiðarljósi. Ætla mætti að það væri afar skynsamleg nálgun - ekki satt?

Þegar verið er að tala um kostnað hins opinbera við að veita nauðsynlega grunnþjónustu þarf að taka tillit til allra mikilvægra þátta sem varða þjóðhagslega hagkvæmni, en ekki einvörðungu beinan kostnað við stjórnsýslu og afhendingu þjónustunnar af hálfu hins opinbera.
Þar skiptir ekki síður máli aðgengi almennings eða notenda að þjónustunni og kostnaður þeirra og fyrirhöfn við að nálgast þjónustuna. Ekki gengur að horfa fram hjá því. Allar hliðar kostnaðar þjóðarinnar skulu upp á borðið og með í umræðuna.

Ekki er nema von að landsbyggðarþingmenn snúist til varnar ef ráðast á í einhliða sparnað á þessum sviðum af hálfu ríkisins.


mbl.is Styður heimamenn gegn ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlátara greiðsluþátttökukerfi fyrir lyfjakostnað sjúkratryggðra

Þetta er löngu tímabær lagabreyting til hins betra varðandi greiðsluþátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði sjúkratryggðra, sem hér er fjallað um í örstuttri viðhangandi frétt.

Hið nýja fyrirkomulag, sem taka á gildi í maí n.k., leiðir til réttlátara niðurgreiðslukerfis fyrir lyf. Dregur það dám af t.d. greiðsluþátttökukerfinu í Danmörku, en reynslan af því er löng og góð.

Í gamla kerfinu var sjúklingum mismunað eftir sjúkdómum sem er fyrir neðan allar hellur.

Sjá má hvernig nýja kerfið virkar að því er varðar skiptingu lyfjakostnaðar milli sjúkratryggðra einstaklinga og Sjúkratrygginga Íslands á t.d. vefsíðu Lyfjavers (sbr. almennar upplýsingar á http://www.lyfjaver.is/greiðsluþátttökukerfi og reiknivél fyrir útreikning dæma um framvindu lyfjakostnaðar yfir árið á http://www.lyfjaver.is/reiknivel/greidsluthatttaka/reiknivel ).

Einnig má sjá dæmi um skiptingu lyfjakostnaðar milli aðila í nýja kerfinu á vef Sjúkratrygginga Íslands, sbr. http://www.sjukra.is/lyf-og-hjalpartaeki/lyf/nytt-greidsluthatttokukerfi-vegna-lyfja-i-vaentanlegt/

 


mbl.is Greiðsluþátttöku lyfja breytt í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingismenn bregðast við í orði - En á borði?

Svo er að sjá að alþingismenn, a.m.k. nokkrir hjartagóðir og vel hugsandi, bregðist hér í orði kveðnu við hjartnæmum og sláandi lýsingum af kjörum og úthaldi hjúkrunarfræðinga á íslenskum sjúkrahúsum sem myndir hafa verið dregnar upp af í fréttum.

Vonandi ná góð viðbrögð alþingismanna líka inn á jólaborð langþreyttra hjúkrunarfræðinga.


mbl.is Laun hjúkrunarfræðinga rædd á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða úrlausn fengju þeir?

Það fólk sem hefur sjálft þurft á að halda þjónustu og líknandi þjónustu starfsfólks á sjúkrahúsum landsins, og þeir sem heimsótt hafa sjúklinga þar, gerir sér grein fyrir hinu mikilvæga og fórnfúsa starfi starfsfólksins þar, ekki síst hjúkrunarfræðinga.
Þeim er rétt lifandi lýst í orðum Hörpu Þallar Gísladóttur í meðfylgjandi fréttapistli.

Verst er að ráðamenn og aðrir sem véla um kaup og kjör hjúkrunarfræðinga virðast ekki gera sér grein fyrir þessu og/eða hafa "syndgað upp á náð" starfsfólksins til þessa í þeirri von að það starfi þrátt fyrir það áfram á hugsjónarlegum forsendum að hálfu eða miklu leyti.
Svo virðist sem alþingismenn og ráðherra heilbrigðis- og velferðarmála þurfi að leggjast veikir inn á sjúkrahús í a.m.k. nokkra daga til að horfast í augu við raunveruleikann og gera sér grein fyrir málinu.

Hvað myndi gerast ef ráðherra sjúkrahússmála fengi sjúkur og ósjálfbjarga þau svör í sjúkrarúmi sínu með vökvaflösku tengda við handlegg sinn, í ys og þys á göngum spítalans, að hann þyrfti að bíða í daga eða vikur eftir æskilegri og réttri meðferð, eða verða fluttur veikur til útlanda, vegna þess að viðeigandi tæki eru biluð eða ekki til eða starfsfólk ekki til staðar til að framkvæma tiltekna aðgerð o.s.frv.?
Eða, ef loka þyrfti deildum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum?

Hvað ef ráðherra sjúkrahússmála þyrfti að fara erlendis til læknismeðferðar vegna manneklu á LSH? Að ekki sé minnst á aðra sjúklinga! Hvaða úrlausn fengju þeir?


mbl.is „Ekki hægt að útskýra allt með kreppu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísir í Undralandi

Nú hafa stýrivextir enn einu sinni verið hækkaðir af Seðlabanka Íslands á óviðeigandi forsendum til þess m.a. að "sporna við verðbólgu og vegna minnkandi slaka í efnahagslífinu", eins og það í grófum dráttum er útskýrt af óslökum Seðlabankastjóra!
Hin liðaða Peningastefnunefnd skipuð að því sagt er vísu fólki, Hin vísa nefnd, virðist hrærast í einhverjum allt öðrum veruleika en þeim sem efnahagslíf Íslands býr við; Einhverju Undralandi þar sem allt aðrar forsendur og kenningar eiga við heldur en í íslenskum raunveruleika nú.
Hinum vísu í þessu Undralandi virðist fyrirmunað að skilja eða gegna því að vaxtahækkanir hækka kostnað fyrirtækja og einstaklinga og kynda þar með undir verðbólgunni í stað þess að draga úr henni. Vaxtahækkunin er einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar, sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum o.s.frv.
Þannig hefur virkni þessara þátta verið hjá Íslendingum sem búa við neysluvöruverðstengda verðtryggingu
Þetta er hringavitlaus vítahringur sem samt er endurtekinn sí og æ með sömu hringlandi óviðeigandi rökunum.
Með þessu framferði sínu gera Hin vísu í Undralandi þungbæra skuldabyrði enn þyngri, enda kunna öll skuldug heimili og fyrirtæki landsins þeim litlar þakkir fyrir og er þá vægt til orða tekið.
Samtímis auka hins vegar vaxtahækkanir tekjur þeirra sem best standa fjárhagslega, þ.e. fjármagnseigenda. Þeir fagna væntanlega vaxtahækkunum dagsins kampakátir í kampavíni og tilheyrandi, þannig að til einhvers er barist af Hinum vísu.
Þessar öfugsnúnu hækkanir á stýrivöxtum nú þegar almennur slaki er enn viðvarandi í efnahagslífinu gefa því miður vísbendingar um að hin vísa Peningastefnunefnd og/eða stjórn Seðlabankans með seðlabankastjóra í broddi félegrar fylkingar hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar bankahrunsins 2008. 
Þessir aðilar skella þvert á móti skollaeyrum við því hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur á Íslandi. Að minnsta kosti fara þeir hvorki eftir heilbrigðu innsæi né grundvallar- hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu (kostnaðardrifinni eins og hér um ræðir en síður eftirspurnardrifinni), eins og t.d. hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra (sbr. frétt á mbl.is 12.7.2011). 
Það ætti að vera augljóst hverjum skynsömum manni, jafnvel fávísum, að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, gerir erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og leggur fleiri að velli. Ef það er stefna Peningastefnunefndar er þessi vaxtahækkun náttúrulega skiljanleg, en hún er ekki í þágu almennings sem nú mótmælir réttilega hástöfum.


mbl.is Stýrivextir hækka um 0,25 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hefði hvinið í Dönum

Ég sé fyrir mér vandlætingarsama vinnufélagana í Danmörku taka bakföll af hneykslan og heilagri reiði ef þeir samfara fréttum um hækkun verðvísitölu hefðu þurft að kyngja því að skuldir þeirra hefðu hækkað samsvarandi af þeim sökum. Skiptir þá engu máli þótt ársverðbólgan mælist "aðeins" 2,3%, hvað þá heldur upp í tveggja stafa tölu.

Hérlendis var fólk orðið all-dofið gagnvart þeim íslenska veruleika og áþján að neytendalán eru tengd neysluverðsvísitölu þegar verðbólgan tók stökk upp á við snemma árs 2008 og með vaxandi hraða við bankahrunið um haustið og gerði leiftursnögga árás - eins og þungvopnuð herþota í stungu sinni að árásarmarkinu - beint á skuldum hlaðið fólkið og fyrirtæki, almenning, varnarlauan á jörðu niðri. 

SKEMMST er frá því að segja að verðbólguþotan hitti gjörsamlega eins og ávallt með beinskeyttum og sértækum og skuldarasæknum verðbólguskotum sínum beint í verðtryggð mörk sín, verðtryggð lán, og tókst að tvístra fórnarlömbunum í allar áttir og skilja mörg heimili og fyrirtæki eftir í rústum. Afleiðingarnar koma æ betur í ljós eftir því sem árásarreykurinn stígur upp frá rústunum. Eldar loga þó enn og, það sem verra er, fara vaxandi en ekki minnkandi.

Því miður reynist skaðinn mun víðtækari en bjartsýnustu ríkisstjórnarmenn óraði fyrir, enda virðast röng greiningargleraugu hafa villt þeim sýn.
Ekki var gripið til ráðstafana sem blöstu við í síðasta lagi á fyrsta bankahrunsdeginum, þ.e. að frysta verðtryggingarvísitölur sökum forsendubrestsins.
Þess í stað voru þær látnar óáreittar og leyft að leika lausum hala í höfuðstól verðtryggðra lána í samræmi við gengishrun og stýrivaxtahækkanir og aðrar kostnaðarhækkanir og álögur innanlands.

Með þessu glórulausa aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og plástursaðgerðum hennar, sem aðeins lengja í hengingaról illa staddra skuldara, hefur eyðingarbál verðtryggingar lána rústað fjárhag tugþúsunda skuldara, heimila og fyrirtækja. Og áfram er haldið á þeirri feigðarbraut meðan siðapostular verðtryggingar hrópa af fjárhaugum sínum að siðlaust væri að afnema verðtryggingu lána þar sem þá myndi sparifé brenna upp á verðbólgubálinu. Engu er líkara en að þeim sé sama þótt verðtryggingin sé á hinn bóginn að ræna viðkomandi lántakendur með hliðstæðum hætti öllum eignum þeirra, og meira en það, þar sem þeir sitja þess utan uppi með himinháar skuldir reiknaðra verðbóta þegar eiginfé þeirra er upp urið með engar eignir á móti nema von um framtíðarvinnutekjur.

Ljóst ætti að vera að hér þarf að fara bil beggja þannig að sæmileg sátt náist um þessi mál í landinu. Báðir aðilar, bæði lánveitendur og lántakar, verða að bera sameiginlega áhættuna af verðþróun á lánstíma lána. Það verður enginn friður annars.
Undanfarnir áratugir allt frá tíma óverðtryggðra lána og langvarandi verðbólgu upp á tugi prósenta á ári samhliða verðtryggðum lánum og óverðtryggðum launum hafa opinberað hina tvo eyðandi öfga tengt verðbólgu: Bruna sparifjár sparifjáreigenda fyrir tíma verðtryggingar lána annars vegar og eignabruna skuldara eftir tilkomu verðtryggðra lána hins vegar.

Löngu tímabært er að þessu stríði lánveitenda og lántakenda linni með sátt og nauðsynlegri leiðréttingu nú þegar nægilega langt aftur í tímann. Núverandi ríkisstjórn gerir sér ekki grein fyrir þessum vanda, eða aðhefst a.m.k. ekki með viðhlýtandi hætti.
Samstaða með báðum aðilum þarf að koma til.
Yfirvofandi endurnýjuð hrunstjórn S-S (Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar) er ekki líkleg til að leysa málið farsællega með ásættanlegri lausn fyrir báða aðila. Hvorugur þessara flokka gerði það í þeim ríkisstjórnum sem starfað hafa í kjölfar bankahrunsins.
Eða, er ástæða til að ætla að þeir muni hafa breytt um grundvallaráherslur í þessum málum næsta vor og taki þá sniðgenginn hluta kjósenda, skuldum þjakaðan almenning, einnig í hóp skjólstæðinga sinna?


mbl.is Dregur úr verðbólgu í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamlegt fiskveiðikerfi?

Athyglisverð tillaga Magnúsar Thoroddsen skv. grein hans í Morgunblaðinu í dag, 17.4.2012 s.19, felur í sér þá  grundvallarforsendu að allar aflaheimildir yrðu settar á uppboð á frjálsum markaði. Það myndi fullnægja "ákvæðum mannnréttinda um atvinnufrelsi og jafnrétti allra manna".

Þetta væri hægt að útfæra þannig að heimildum væri fyrirfram skipt í fjóra jafna aflaflokka eftir tegund útgerðar:

1) Togarar
2) Trillubátar
3) Fiskiskip önnur en togarar og trillubátar, öll þar á milli.
4) Strandveiðar landsfjórðungum og löndun eftir þeirri svæðaskiptingu.

 Magnús bendir réttilega á að í slíku uppboðskerfi byðu útvegsmenn og -fyrirtæki í aflaheimildir hver eftir sinni getu og kostnaðarstrúktúr og myndi það væntanlega tryggja hámarksleiguverð fyrir ríkið. Ekki væri um pólitíska úthlutun að ræða og möguleikar opnir fyrir nýliðun, eðli málsins samkvæmt. Leigutími aflaheimilda yrði að vera til nægilega langs tíma, t.d. 15-20 ára, og heimildir til framsals aflaleyfa væru eðlilegar innan hvers útgerðarflokks.
Þá telur Magnús rétt að skylda beri að allur landaður afli fari á fiskmarkað til að tryggja jafna aðstöðu hlutaðeigandi aðila.

Sú skynsemi felst í ofangreindum tillögum að svipaðar hugmyndir hefur bloggari hlerað í umræðum við nokkra sjómenn, bæði varðandi skiptingu aflaheimilda eftir útgerðaflokkum og það réttlætismál að allur afli fari á markað.


mbl.is Magnús Thoroddsen: Pólitískt möndl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband