Fjárfestingasjóður ríkis og atvinnulífs kemur í ljós

Hér kemur á daginn það sem ég fjallaði áður um í pistli um það hvort lífeyrissjóðsiðgjöld væru í reynd skattlagning. Þar bendi ég á m.a. að íslensku lífeyrissjóðirnir séu að miklu leyti nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkisins og atvinnulífsins, en að nafninu til í eigu launþega, þótt þeir séu á ábyrgð launþega. Þeir hafa þó aðeins takmörkuð óbein áhrif á stjórn þeirra.
Launþegar tapa ef sjóðirnir ávaxta fé þeirra illa. Slíkt tap birtist í skerðingu lífeyrisréttinda sjóðsfélaga, eins og dæmin sanna. Það er til lítils að kallast eigandi að einhverju sem maður ræður ekki yfir! Sá sem ræður yfir því og stjórnar á það í raun og veru til lengri tíma litið; Í tilviki íslensku lífeyrissjóðanna ríkið og atvinnurekendur að miklu leyti.
Í pistlinum rek ég hvernig þetta kerfi er fjármagnað með hluta launa og launaígildis launafólks í landinu, eða allt að rúmlega 14% af launatekjum. Þar við mætti jafnvel bæta drjúgum hluta tryggingagjaldsins sem er núna orðið 7 % af launum starfsfólks hjá fyrirtækjum í almennri starfsemi.

Í hnotskurn er dæmið þetta: Launafólk á féð í lífeyrissjóðunum eins og það leggur sig, en hefur ekki fullan ráðstöfunarrétt yfir því. Hverjir þá? Að hálfu leyti atvinnurekendur og þar að auki hið opinbera í gegnum regluverk sitt um starfsemi lífeyrissjóða og tilmæli til stjórna lífeyrissjóðanna eins og nú er til umræðu.

Það hefur verið í höndum stjórna lífeyrisstjóðanna að ráðstafa þessu óhemju mikla fé sem þannig er sífellt að safnast upp. Um það má deila hvort þetta sé réttlátt fyrirkomulag, en það er annað mál.

Í umræddu máli um áformaða og þegar gerða sölu orkuauðlinda á gjafverði og missi á stjórn auðlinda úr höndum Íslendinga þá er hér gott tækifæri til að nýta sjóði landsmanna, lífeyrissjóðina, til að hamla gegn þeirri óheillaþróun og nýta féð í þágu þessara fjáreigenda, launafólksins, Íslendinga.

Til þess bærir aðilar hefðu betur athugað þetta fyrr og í tæka tíð áður en staðið var frammi fyrir orðnum hlut og skertum og glötuðum yfirráðarétti yfir auðlindinni. "Bónusinn" af þessum mistökum og þar af leiddu óhagræði mun því miður koma í ljós síðar í formi hækkaðra orkureikninga til almennings ef að líkum lætur.

Þetta sorglega og forkastanlega dæmi um sölu á hlutum í orkuauðlindunum á Reykjanesi úr landi og þar að auki á gjafverði og fáránlegum afborgunarkjörum ætti þó að vekja menn í stólum sínum í stjórnum lífeyrissjóðanna og minna þá á að þeim hefur verið falin mikil ábyrgð og trúað fyrir stórfé, ævisparnaði almennings sem hann hefur unnið fyrir í sveita síns andlitis við raunverulega vinnu. Þeim hefur verið falið það til varðveislu og ávöxtunar og góðra hluta; ekki til að taka þátt í fjárhættuspili einkarekinna fjármálafyrirtækja eins og gerðist fyrir bankahrunið íslenska.

Launþegar, formlegir eigendur á fé lífeyrissjóðanna, eiga heimtingu á að fé þeirra sé notað í þeirra þágu og því sé varið vel. - Eða er að koma í ljós núna að launþegar eigi í raun og veru ekki sparifé sitt? Að þetta sé í raun og veru dulinn fjárfestingasjóður ríkis og atvinnurekenda sem fjármagnar sig með skattlagningu á launþega í formi "iðgjalda" og launatengdra gjalda? Það er þá innlegg í kjaramálaumræðuna framvegis um endurskoðun forsendna um þessi mál, sem um munar .


mbl.is Vilja hlut Geysis Green
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband