Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Samstaða um íslenska almannahagsmuni í hnattvæddum heimi

Pistlahöfundurinn Páll Vilhjálmsson bendir á það í pistli sínum í dag að norskur fréttamiðill hafi metið tilsvör bankastjóra Seðlabanka Íslands nýverið um EES-samninginn að hann væri hreint “brjálæði”. Páll spyr í því ljósi hvort sama brjálæðið felist í hugsanlegum samningi við Evrópusambandið.

Þessar spurningar vekja athygli á “glóbaliseringu” eða hnattvæðingu efnahagslífsins yfirleitt og afleiðingum hennar fyrir nærsamfélagið í víðara samhengi.
Í ljósi samninga íslenskra stjórnvalda við EFTA 1970 og EES upp úr 1990 og algleymi hnattvæðingar undanfarna áratugi er við hæfi að spyrja sig hvað hafi valdið hruni iðnaðarins á t.d. Akureyri sem þar blómstraði um miðja 20. öld og enn kringum 1970.
 Hvort vildu Akureyringar og fleiri sem þannig háttar um hafa iðnaðinn sinn þar enn starfandi og blómstrandi, með heimafólki í launuðum störfum og rótgróna verkþekkingu, eða halda atvinnulausu fólki þar og annars staðar á landinu uppi með atvinnuleysisbótum og annarri félagslegri aðstoð eins og nú er?
Í hnotskurn er hið síðarnefnda (ásamt óhagræðinu af brottflutningi fólks) gjaldið sem nærsamfélagið greiðir nú fullu verði fyrir "ódýran" innflutningsvarning undanfarna áratugi.
Í ofanálag eru framleiðslutæki og verkþekking sem áður stóðu undir velmegun horfin á braut.
Sömuleiðis vald yfir eigin högum að umtalsverðu leyti.

Eftir fjármálahrunið hérlendis 2008 og gjaldeyrisþurrð ætti fólk að vera betur í stakk búið til að átta sig á raunverulegu verðmæti heimaframleiðslu þegar til lengri tíma er litið og í víðara samhengi en skammtímaávinnings.
Hverjir standa nú með pálmann, fyrrum laun og skattfé, í höndunum?
Er það atvinnulaust og sífækkandi heimafólk?
Er það vinnufólkið í Austurlöndum og víðar sem nú framleiðir hinn ódýra innflutningsvarning fyrir Vesturlönd á þrælakjörum og lúsarlaunum?
Hvað með fjölþjóðafyrirtækin? Hafa þau ekki komið hverjum þætti starfsemi sinni fyrir í þeim löndum sem þeim hentar og hagstæðast er frá þeirra eigin hagnaðarlega sjónarhorni, eðli málsins samkvæmt, allt frá öflun hráefna og úrvinnslu til sölu og dreifingar afurða og útgreiðslu arðs til eigenda sinna? Að hvaða leyti hirða þau um velferð nærsamfélagsins og þjóðríkja á hverjum stað? (Vissulega er þó ekki allt slæmt og fyrirtækin eru mismunandi að því leyti).
Að hvaða leyti hefur þessi þróun eflt nærsamfélagið á hverjum stað þar sem uppsprettur virðisaukningarinnar er að finna?

Ekki er að sjá annað en að skörp rýni hagfræðingsins John Kenneth Galbraith t.d. í bók hans Economics and the Public Purpose frá 1973 um þessi mál hafi komið illyrmislega fram í reynd síðan þá. (Galbraith var m.a. hagfræðiprófessor í Harvard og efnahagslegur ráðgjafi nokkurra forseta demókrata í Bandaríkjunum, þ.á.m. Kennedy).

Ekki er heldur hægt að segja annað en að á stefnuskrá hinna nýju stjórnmálasamtaka Samstöðu sé tekið vel á þessum og tengdum atriðum. Það sem ber að undirstrika er að efnahagsleg samskipti og viðskipti Íslands við útlönd séu á forsendum þjóðhagslegra almannahagsmuna Íslendinga.


mbl.is Samstaða er í skýjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær að mótmæla á vettvangi í alheimssjónvarpinu

Eins og fram hefur komið í máli margra um hvort Íslendingar eigi að sniðganga Eurovisionkeppnina í Aserbaídsjan, sökum meintrar spillingar og mannréttindabrota þar, er næsta öruggt að lítið myndi heyrast þar eða á opinberum vettvangi alheimsmála um andúð góðra og óspilltra Íslendinga á mannréttindabrotunum með því að mæta ekki á þann vettvang en sitja þess heldur með samanbitna jaxla úti í horni einhvers staðar í Reykjavík; Þótt halda mætti að sumir teldu hana miðpunkt alheimsathygli og viðhorf Íslendinga jafnast á við vægi ríkja með neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Vilji Páll Óskar og aðrir sem koma að væntu framlagi Íslands til Eurovision söngvakeppninnar koma á framfæri mótmælum við meint mannréttindabrot hjá gestgjöfum keppninnar í ár og láta þannig í ljós stuðning við kúgað fólk þar og annars staðar þá ætti hann og þeir að fara út og tala sem mest og víðast þar á torgum um málið. Ætla mætti að það væri áhrifaríkara en að láta ekki sjá sig þar og þegja heima.

Mér þykir afar líklegt að Páll Óskar melti þessi og þvílík rök og snúist hugur um að sniðganga keppnina. Hann er það greindur og hugrakkur maður. Ég sé hann fyrir mér djarfastan manna með gjallarhorn fyrir utan hina nýju sönghöll útskýrandi fyrir viðstöddum og í beinni útsendingu á rásum alheimssjónvarpsins að hún sé byggð á rústum heimila alþýðufólks sem rutt hafi verið í burtu undir yfirskini hátíðarhaldanna.


mbl.is Evróvisjón í skugga kúgunar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr og heftur kapítalismi

Það er löngu kominn tími til að bregðast við aðsteðjandi vanda sem hlotist hefur af skefjalausum ágangi manna og sérstaklega fyrirtækja á vistkerfi Jarðar.
Meðan ekki eru reistar viðhlýtandi og öflugar skorður við hagnýtingu auðlinda og þröngsýnum aðferðum í því sambandi halda fyrirtæki, sérstaklega fjölþjóðafyrirtæki, áfram á sömu braut og hingað til: Að starfa fyrst og fremst út frá eigin hagnaðarmarkmiði án tillits til illa bætanlegs eða óbætanlegs skaða fyrir nærsamfélag manna, umhverfið og vistkerfið í heild, sem hlýst af starfseminni.
Hefta verður og koma í veg fyrir skaðleg áhrif óhefts kapítalisma. Til að skilja það þurfa Íslendingar ekki að líta lengra en til banka- og efnahagshrunsins hérlendis 2008 sem rústaði tilvistarlegar aðstæður fjölmargra fjölskyldna og fyrirtækja sökum m.a. óprúttinna manna/fyrirtækja, of rúmra leikreglna og laga og skorti á opinberu eftirliti.

Vandi umhverfis og vistkerfis Jarðar er þó öllu alvarlegri en hið afmarkaða íslenska hrun. Það er vandi allra jarðarbúa.
Allir íbúar Jarðar eiga að hafa eitthvað um það að segja hvernig efnahagskerfið sem hver og einn býr við tekur á þessum vanda. "Markaðurinn" leysir ekki þennan vanda af sjálfsdáðum ef ekki kemur til viðeigandi kostnaðarliður vegna umhverfisáhrifa sem allir ákvörðunaraðilar innan efnahagskerfisins, allt frá einstaklingum til stærstu fjölþjóðafyrirtækja og ríkisstjórna landa, verða og neyðast til að taka tillit til við rekstur fyrirtækja sinna, hvort sem um er að ræða rekstur heimilis eða fjölþjóðafyrirtækis.

Spurningin er að hvaða leyti samræmd og viðeigandi skattlagning og regluverk í öllum löndum dugi til.
Einnig þarf að verða hugarfarsbreyting hjá öllu fólki, hvort heldur sem er í hlutverki neytanda eða starfsmanns og framleiðanda.
Huga þarf og að nærsamfélaginu alls staðar, í öllum löndum. Ef til vill er það einn besti aðilinn til að hafa með höndum virkt eftirlitshlutverk í þessu samhengi - EF það virkar sem skyldi alls staðar í öllum löndum.

En, skapandi hugur og orð eru til alls fyrst. Viðtengd frétt um umræður um "umhverfisvænan kapítalisma" á alþjóðavettvangi í minningu hinnar fjörgömlu Ríó-samþykktar frá 1992 er liður í umhverfisvænni sköpun manna.
Hefjast þarf handa áður en jarðarbúar deyja unnvörpum úr mengun, súrefnis- og matarskorti af mannavöldum.

Ýmsir aðilar hafa í gegnum aldirnar vísað til orða Biblíunnar um það ráðsmennskuhlutverk manna á Jörðu að "gera sér hana undirgefna". Þessi orð hafa löngum verið mis- og rangtúlkuð bókstaflega í réttlætingarskini með þeim hörmulegum afleiðingum að vistkerfi er stórskaðað eða eyðilagt með óafturkræfum hætti. Rangtúlkunin felst í því að það að gera jörðina sér "undirgefna" felur ekki í sér að eyðileggja hana við það.
Eða, hvaða gagn hefur maður t.d. af hesti sínum með því að temja hann og gera hann sér þannig undirgefinn og drepa hann svo strax í kjölfarið t.d. með illri meðferð?!!!


mbl.is Umhverfisvænn kapítalismi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruleg og manngerð eyðingaröfl

Sú spurning verðu sífellt áleitnari við fréttir af pólitískri þöggun eins og þeirri sem hér um ræðir,
auk þeirrar sem á sér stað varðandi þverrandi auðlindir jarðar og versnandi lífsskilyrði sökum hitnunar í lífhvolfinu og lífshættulegra afleiðinga hennar, sem og hnattrænnar mengunar,
hvort það sé ekkert nema mengun,  náttúruhamfarir og súrefnisskortur í lífhvolfi jarðar sökum afleiðinga loftslagsbreytinga sem geti þaggað niður í órökstuddum áróðri andstæðinga þeirra vísindamanna sem vara við hættunni.

Ef svo fer getur sérhagsmunagæsla viðkomandi manngerðu eyðingarafla ekkert gert lengur til að bjarga fólkinu þar að baki né öðrum íbúum jarðar. Hversu lengi á blekkingin að líðast?


mbl.is Íhaldsmenn stöðvuðu kafla um loftslagsbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirbyggjandi eftirlit eða eftir-lit þegar skaðinn er skeður?

Það blasir auðvitað við hverjum heilvita manni að svona eftirlit, eins og Matvælastofnun á að hafa með höndum varðandi áburð, þarf að vera fyrirbyggjandi; Enda er kveðið á um það á verkefnalista stofnunarinnar, sbr. neðar.

Það er til lítils að taka sýni af áburði þegar hann er kominn í dreifingu á tún í sveitum eða greina sýni eftir á þegar áburðurinn er kominn á tún og jafnvel búið að slátra og éta búfénað sem át grasið og heyið af viðkomandi túnum og fólk búið að neyta meintra eiturefna í kjötafurðunum.

Sýni þarf að taka og greina áður en áburðurinn fer í dreifingu, alveg eins og háttar til um greiningu og athugun lyfja fyrir menn og dýr hjá Lyfjastofnun áður en lyfin fá markaðsleyfi og fara í sölu hérlendis.

Ekki ætti að vera erfiðara að hafa eftirlit með innflutningi á áburði heldur en kjötvörum, nema síður sé!

Það sem maður spyr sig um er hvort þetta meinta aðgerðaleysi, um að stöðva ekki sölu og notkun hins meinta eitraða áburðar og þagnar um málið í kjölfarið samkvæmt fréttum í dag, sé um að kenna einhverjum mistökum hjá Matvælastofnun, og hverjum þá, eða skorti á laga- og regluramma þar að lútandi. Hefur stofnuninni ekki tekist að uppfylla öll gildi sín af einhverjum ástæðum, t.d. "árvekni", sem er tilgreint þar efst á lista?
Skortir e.t.v. líka eftirlit með eftirlitsstofnuninni?

Á vefsetri MAST segir um hlutverk stofnunarinnar:

"Matvælastofnun sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla."

Um verkefni MAST segir þar ennfremur:

"MAST vinnur að matvælalöggjöf í samvinnu við ráðuneytið og á þetta við um löggjöf í allri fæðukeðjunni, þ.e. frá heilbrigði og velferð dýra, þ.m.t. sjávarafurða, plöntuheilbrigði, fóðri, vinnslu og dreifingu og þar til matur er borinn á borð neytenda. Stofnunin fer með eftirlit með frumframleiðslu búfjárafurða, sláturhúsum og kjötvinnslum sem þeim tengjast, eftirlit með sjávarafurðum og allt inn- og útflutningseftirlit með matvælum. MAST fer einnig með yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og eftirlit með störfum dýralækna sem veita almenna dýralæknaþjónustu. Einnig fer stofnunin með fóðureftirlit og önnur verkefni eins og sjá má á eftirfarandi lista yfir helstu verkefni MAST".


mbl.is Hagsmunir bænda og neytenda í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markviss merkantilismi?

Frakklandsforseti talar hér í gátum. Orð sem hann notar hér í ræðu sinni um efnahagsstefnu landsins og landa Evrópusambandsins eru afar athyglisverð fyrir þær sakir að þau virðast benda til þess að hverfa eigi aftur til markvissari merkantilisma, þ.e. einhvers konar sjálfsþurftarstefnu sem muni leiða til þess að þjóðin/þjóðirnar fari að beina neyslu sinni í innlendar vörur og þjónustu á kostnað innflutnings;
Eða, hvernig ætla þær annars að auka atvinnu heima fyrir jafnhliða því að rétta viðskiptahalla sinn af, sbr. ummæli forsetans "að losna undan skuldum, sem mun koma jafnvægi á hagkerfi eins og þörf krefur, í átt að vinnu og framleiðslu".
Ein spurning sem vaknar er hvort Evrópusambandið sé að spá í að loka sig meira af gagnvart utanaðkomandi samkeppni á neysluvörumarkaði og nýta þannig eiginleika sinn sem tollabandalag. Það þýðir m.a. að reynt yrði að loka sem mest fyrir flóð ódýrs varnings frá Asíu sem ódýrt vinnuafl þar framleiðir og framleiða í staðinn tilsvarandi vörur heima fyrir með vinnuafli sem hingað til hefur gengið atvinnu- og iðjulaust. Það er reyndar viss viska í því. Ummæli forsetans um að „ný efnahagstíð er hafin" gætu bent til þessa og vissulega yrði hún "ólík þeirri fyrri".
Það yrði athyglisvert innlegg í rökræður um frjálsa samkeppni og blandað (frekar en segja miðstýrt) hagkerfi. Er það ekki einmitt þetta sem hann á við er hann segir upp muni renna tíð "sem er eitthvað sem þróuð ríki eiga til með að fórna um of“, þ.e. lítt heft milliríkjaviðskipti leiða til þess að þau lönd sem hafa farið halloka í samkeppni við innflutning sitja uppi með gömlu framleiðslugreinarnar sínar í rúst, atvinnulaust vinnuafl og stórfelldan halla á viðskiptajöfnuði sínum. Blasir þá ekki við að skella í lás gegn innflutningi og hefja framleiðsluna í staðinn heima fyrir?

Það verður spennandi að fylgjast með hvað Frakklandsforseti er að leggja hér drög að! 


mbl.is Sarkozy: Óttinn lamar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægi íslensks landbúnaðar

Á sama tíma og það blasir við að mannkyn skortir mat á tímum þverrandi auðlinda þá tala sumir fræðimenn og aðrir gegn hagsmunum íslensks landbúnaðar með því að tala hástöfum fyrir óheftum innflutningi landbúnaðarmatvæla; Uppátæki er myndi rústa íslenskum landbúnaði til skamms tíma litið.

Í ljósi heilbrigðrar skynsemi og sterkra vísbendinga eins og þeirra er fram koma í meðfylgjandi frétt hlýtur slík þröngsýni talsmanna óhefts innflutnings landbúnaðarafurða að teljast furðu sæta.
Það er eins og þeir gefi sér þá forsendu að ætíð yrði hægt að fá nægjanlegar og jafn góðar matvörur eftir hendinni erlendis frá. Það er af og frá!

Það verður þvert á móti "barist" um góðar matvörur í náinni framtíð. Hvers lags orðræða er það þá hjá fólki sem gefur sér fráleitar forsendur til rökstuðnings væntingum sínum um skammtímaávinning í formi lægra verðs á matvörum erlendis frá? Hvaða ástæður og hagsmunir liggja þar að baki?

Í ljósi mikilla verðhækkana á matvælum á heimsmarkaði og yfirgnæfandi líkum á vaxandi eftirspurn eftir góðum ómenguðum mat við vistvænar aðstæður ætti Þvert á móti að leggja áherslu á að efla íslenskan landbúnað sem mest og best með bættri landnýtingu til matvælaframleiðslu og renna þar með styrkum stoðum undir framleiðslu innanlands til eflingar á þjóðarhag.

Hagstæðara væri að bretta upp ermar við það og tilsvarandi verkefni sem liggja fyrir fótum okkar heldur en að láta fækkandi vinnandi hendur og hausa vinna fyrir afurðasnauðum og niðurdrepandi atvinnuleysisbótum.


mbl.is Mannkynið sprengir skuldaþak náttúrunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðvörun Einars Þveræings

Þessi fréttaskýring Financial Times minnir vel á röksemdafærslu Einars Þveræings forðum er hann varaði Íslendinga við að selja nafna Grímsstaða á Fjöllum, Grímsey á hafi úti, til erlends konungsríkis. Benti hann m.a. á að þar gæti erlendur her komið sér fyrir í tengslum við undirbúning á innrás í landið án þess að Íslendingar gætu fengið við það ráðið.
Það er opin spurning hvort svo er í pottinn búið nú og virðist sem svo að við stöndum nú í sömu sporum og landar Þveræingsins varðandi hvað gera skuli. Var þetta rætin þjóðernishyggja hjá Einari sem átti sér ekki stoð í raunveruleikanum eða raunveruleg ógn?

Ekki skal ég segja um hvort "landtaka" vaki fyrir Kínverjum, þ.e. kínverska ríkinu, sem efalítið tengjast einkaframtaki Nubo meira en minna. Hitt er annað að mjög líklega yrði hér um að ræða "innrás" kínversks vinnuafls í tengslum við uppbyggingu aðstöðu þeirrar sem Nubo segist muni ráðast í fái hann landið til eignar. Það yrði bara að koma í ljós hve stór hluti það yrði af heildarmannafla á svæðinu til skemmri og lengri tíma.

Hér er væntanlega ekki einungis um að ræða uppbyggingu ferðamannaaðstöðu á Grímsstöðum til skamms tíma litið heldur hlýtur Nubo og þeir sem að baki honum standa að horfa til þess að skipaleið um Norður-Íshaf opinist í náinni framtíð með umskipunarhöfnum og tilheyrandi uppbyggingu í tengslum við það á Norð-Austurlandi í kjölfarið. Einnig gæti það tengst auðlindanýtingu á austurströnd Grænlands er þá kæmi til. Þá kemur sér vel að hafa land til umráða í grennd þar sem hægt er að byggja upp heilan kaupstað, heilan "her" íbúa. Spurning er hvort íbúar þeirrar byggðar yrðu (kínverskir) ferðamenn eða starfsmenn.

Þá er einnig óljóst ennþá hvernig háttar til með nýtingu auðlinda á svæðinu, svo sem vatns.

Það er rétt hjá innanríkisráðherranum að hér þarf að skoða mál frá öllum hliðum, bæði kosti og galla til bæði skamms og langs tíma og taka síðan yfirvegaða ákvörðun á þeim grunni. Þar koma sjálfsagt einnig tilfinningaleg rök til álita ásamt þeim pólitísku.

Hitt er annað að ekki ber að slá spennandi möguleika út af borðinu fyrirfram að óathuguðu máli vegna pólitískra fordóma. Menn skulu ekki gleyma því að ef á annað borð er óskað eftir almennum erlendum fjárfestingum hérlendis þá verður ekki bæði haldið og sleppt.
Ef kemur á daginn við athugun að þetta snúist einfaldlega um uppbyggingu einstakrar ferðamannaparadísar á fjöllum eins og Nubo talar um sem laðar að gull er verður að grænum skógum, en ekki aðstöðu fyrir "innrásarher" a la Einar Þveræing eða auðlindatöku án fyrirfram gerðra nýtingarsamninga við íslenska ríkið, þá virðist þetta spennandi kostur.

Nú þarf að leggjast undir feld - en samt ekki lengur en í "þrjá daga". M.a. þarf að huga að lögum og hugsanlegri viðbótar lagasetningu er varða nýtingu erlendra aðila á auðlindum og aðstöðu hérlendis, svo að hagsmunir Íslendinga verði ekki (óvart) fyrir borð bornir.


mbl.is Gæti aukið áhrif Kínverja í N-Atlantshafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært

Það var kominn tími til að hátt settir fulltrúar íslenska ríkisins tali formlega við Kínverja um gagnkvæm viðskipti milli landanna. Hér er seint betra en allt of seint og fagnaðarefni að loksins skuli hafa orðið af þessu, þótt hér sé "einungis" um einkaaðila að ræða.
Það var hins vegar bagalegt að forsætisráðherrann okkar gat ekki fundið tíma til að hitta æðsta mann Kína í sumar með formlegum hætti til eflingar á viðskiptum og samskiptum milli þjóðanna. Þar tapaðist dýrmætur tími til uppbyggingar viðskipta, að því er séð verður.

En, hér fær utanríkisráðherra vor plús fyrir sína fyrirhöfn. Gott er að hann skuli hafa fundið tíma til þess nú frá annríki sínu á öðrum vettvangi.


mbl.is Funduðu um fjárfestingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnakona talar - Og með Lennon og Ingólfi á Rás eitt

Kjarnakonan og Íslandsvinurinn Yoko Ono bendir hér hinum kjarnorkuvædda heimi á dæmi þar sem Ísland og ráðsmenn þess og ábúendur geti verið gott fordæmi á jákvæðan hátt, en væntanlega ef skynsamlega er að verki staðið. Hafi hún þakkir fyrir það.

Það er mikið gleðiefni að nú skuli vera hafin útsending á þáttum Ingólfs Margeirssonar heitins og Bítlaaðdáanda á Rás 1 í Ríkisútvarpinu um tónlist og texta og boðskap bónda hennar og fyrrverandi Bítils, John Lennon. Þar fjallar Ingólfur um feril Lennons eftir að Bítlarnir hættu saman sem hljómsveit um 1970 og hann fór á vit örlaga sinna vestur um haf með konu sinni og sálufélaga, Yoko. Þar fléttast inn í þáttur hennar og sameiginleg og ódauðleg og hughraust barátta þeirra beggja fyrir friði í heiminum. Þá, ekki síður en nú, var á brattann að sækja í þeim efnum.

Ímyndið ykkur hina djúpu visku um forsendur friðar sem kemur fram í lagi hans Imagine. "Hugsa sér frið"!, eins og Þórarinn Eldjárn túlkaði inntak textans í tengslum við friðarsúluna í Viðey.


mbl.is Hvetur Japani til að horfa til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband