Nær að mótmæla á vettvangi í alheimssjónvarpinu

Eins og fram hefur komið í máli margra um hvort Íslendingar eigi að sniðganga Eurovisionkeppnina í Aserbaídsjan, sökum meintrar spillingar og mannréttindabrota þar, er næsta öruggt að lítið myndi heyrast þar eða á opinberum vettvangi alheimsmála um andúð góðra og óspilltra Íslendinga á mannréttindabrotunum með því að mæta ekki á þann vettvang en sitja þess heldur með samanbitna jaxla úti í horni einhvers staðar í Reykjavík; Þótt halda mætti að sumir teldu hana miðpunkt alheimsathygli og viðhorf Íslendinga jafnast á við vægi ríkja með neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Vilji Páll Óskar og aðrir sem koma að væntu framlagi Íslands til Eurovision söngvakeppninnar koma á framfæri mótmælum við meint mannréttindabrot hjá gestgjöfum keppninnar í ár og láta þannig í ljós stuðning við kúgað fólk þar og annars staðar þá ætti hann og þeir að fara út og tala sem mest og víðast þar á torgum um málið. Ætla mætti að það væri áhrifaríkara en að láta ekki sjá sig þar og þegja heima.

Mér þykir afar líklegt að Páll Óskar melti þessi og þvílík rök og snúist hugur um að sniðganga keppnina. Hann er það greindur og hugrakkur maður. Ég sé hann fyrir mér djarfastan manna með gjallarhorn fyrir utan hina nýju sönghöll útskýrandi fyrir viðstöddum og í beinni útsendingu á rásum alheimssjónvarpsins að hún sé byggð á rústum heimila alþýðufólks sem rutt hafi verið í burtu undir yfirskini hátíðarhaldanna.


mbl.is Evróvisjón í skugga kúgunar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband