Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Um flís af kjöti og stafla af bjálkum skulda og vaxta

Það sætir furðu með hve mikilli hörku forseti ASÍ ræðst gegn viðleitni sauðfjárbænda við að bæta tekjur sínar, eins og Ásmundur Daði bendir á, en í fréttum hefur komið fram að bændur hyggist leitast við að fá meira frá milliliðum án þess að það fari samsvarandi út í verðlagið til neytenda.
Þessu virðist forseti ASÍ horfa framhjá og hótar þessum bændum því að sparka öllum þessum tekjugrundvelli þeirra undan þeim og þar með farga gjaldeyrissparandi framleiðslu og hluta gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar, þ.e. með því að hvetja félagsmenn ASÍ til að sniðganga innlent lambakjöt.

Þar sem það er efalaust ásetningur ASÍ að bæta kjör félagsmanna sinna væri e.t.v. nær að ráðast hatrammlega gegn t.d. vaxtaoki heimila. Þar er um margfalt hærri kostnað og útgjaldalið að ræða fyrir heimilin og launþega heldur en neyslukostnaður þeirra vegna lambakjöts er.


mbl.is Vill sniðganga Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augljós galli við Schengen

Það er ekki að ástæðulausu að Danir vilji halda uppi lágmarks landamæraeftirliti. Það sýnir inngróinn galla við Schengen-fyrirkomulagið sem var algjörlega fyrirsjáanlegur.
Að vísu er sá kostur við fyrirkomulagið að vöruflæði gengur hraðar milli samliggjandi landa þar sem eftirlit er lítið eða ekkert. Á því út af fyrir sig hagnast viðkomandi fyrirtæki, en skattborgarar landanna borga fyrir með auknum löggæslukostnaði og þurfa að þola hærri glæpatíðni vegna smygls og frjáls flæðis glæpamanna milli landa með feng sinn og vélabrögð. Það er fráleitt að Dönum eða öðrum löndum, sem vilja verjast glæpamönnum og varningi þeirra, sé meinað að sporna við ófögnuðinum með eðlilegu landamæraeftirliti.

Öllu glórulausari er þó þátttaka Íslands í Schengen þar sem ekki er um að ræða bílaumferð yfir landamærin eins og á meginlandinu, þannig að þau rök um hraða í fólks- og vöruflutningum eiga ekki við hérlendis á eyjunni. Persónulega hef ég ekki merkt aukinn hraða við að komast inn og út úr löndum í Evrópu eftir að Ísland gekk í Shcengen. Til hvers er Ísland þá að kalla yfir sig frjálst flæði óæskilegra atriða? - Að ekki sé talað um kostnað við þátttökuna á alþjóðlegum flugvöllum Íslands.

Í þessu samhengi hefur þátttaka Íslands aðeins létt á ágangi smyglara og eiturlyfjabraskara og annars afvegaleidds fólks í öðrum löndum Evrópu. Það gagnast viðkomandi löndum, en ekki Íslandi.


mbl.is Augljóst brot á Schengen-sáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærdómur seðlabankamanna Íslands

Furðulegar hugmyndir um að hækka stýrivexti, sem seðlabankastjóri viðrar nú í fréttum, gefa því miður vísbendingar um að hann og/eða stjórn Seðlabankans hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í kjölfar bankahrunsins 2008.
Ennfremur að fræðingar þar á bæ hafi ekki einu sinni skilið hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur.
Að minnsta kosti fara þeir ekki eftir hvorki grundvallar hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu, eins og hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra, né heldur heilbrigðu innsæi.
Það ætti að vera augljóst hverjum manni að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, myndi gera erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og gera út af við enn fleiri. Ef það er stefna Seðlabankans þá eru þessar ógnandi yfirlýsingar seðlabankastjóra náttúrulega skiljanlegar. 
Hækkun stýrivaxta við þessar aðstæður hefði hins vegar í sjálfu sér engin áhrif til að minnka verðbólguna, en kyndir þvert á móti undir meiri verðbólgu sem einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar; Sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum.

Það sem skín í gegnum þessar yfirlýsinggar seðlabankastjóra er hins vegar uppeldislærdómur hans hjá AGS um umsýslu fjármagns til að efla hag fjármagnseigenda hinna meiri.
Hækkun stýrivaxta nú eflir fyrst og fremst þeirra hag, en er öllum skuldurum í óhag, bæði fyrirtækjum og heimilum landsins og þar með efnahagslífi landsins.
Þar sem gjaldeyrishöft eru í gildi eru það ekki gild rök að halda því fram að hækka þurfi vexti til að halda inneignum erlendra aðila kyrrum í íslenska bankakerfinu.
Seðlabankinn hækkaði samt stýrivexti í ofurhæðir (eftir að hafa áður hafið lækkunarferli í kjölfar hrunsins) samkvæmt tilmælum AGS þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. Það gaf innistæðueigendunum vaxtatekjur sem sliguðum skuldurum var gert að borga í ofanálag við snögghækkaðar verðbætur lána sinna og stökkbreyttar skuldir.

Þessari viti firrtu hávaxtastefnu seðlabankamanna, lénsherra erlendra fjármálaafla, þessari aðför að skuldsettu efnahagslífi landsins, þarf að andæfa af krafti og hörku. Hvar eru talsmenn Íslendinga?


mbl.is Stýrivaxtahækkanir nú gætu leitt til meiri verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf kúgunin að ganga langt?

Það er með ólíkindum hve heilu þjóðirnar láta kúgast lengi og mikið áður en þær rísa upp sér til varnar og kollvarpa kúgurum sínum.

Það er með ólíkindum hve blekkingar yfirvalda geta gengið langt og lengi áður en nægilega margir þora að andæfa með viðeigandi hætti og afhjúpa blekkingarnar og blekkingarmeistarana.

Það er með ólíkindum hve hermenn láta leiða sig langt gegn eigin þjóð, gegn eigin ættum og eigin fjölskyldu og eigin börnum áður en þeir beina vopnum sínum að kúgurunum í staðinn og varpa hinum mergsjúgandi afætum af sér.

Kúgaðar og arðrændar og langþjáðar arabaþjóðir kringum Miðjarðarhaf eru loks nú að uppgötva hvað kúgarar þeirra, harðstjórnarnir sem kalla sig þjóðhöfðingja, fursta og kónga viðkomandi landa, hafa verið að aðhafast í áratugi gegn eigin þjóðum: Arðrán, kúgun og þjóðarmorð.

Vonandi tekst þeim öllum að varpa kúgurunum af höndum sér og forðast að harðstjórnarsögurnar endurtaki sig.

Allan tímann hefur restin af heiminum staðið hjá án þess að aðhafast marktækt gegn kúgurunum og ógnarstjórnum þeirra. Sum vestræn ríki hafa meira að segja kynt undir harðstjórunum með viðskiptum við þá án þess að láta sig neinu skipta að arðurinn af viðskiptunum með þjóðarauðlindir landanna renni fyrst og fremst til harðstjórnanna sjálfra, einkahers þeirra og fjölskyldna; til að viðhalda kúguninni.

En, upp birtir um síðir; Það er óhjákvæmilegt. Þótt allt of seint sé eru nú loks að komast á lokastig réttarhöld yfir morðóðri og viti firrtri ógnarstjórn Pol Pots og félaga. Aðrir harðstjórar og þjóðníðingar, þjóðarmorðingjar með sverði eða hrokagikkir með penna, geta bara beðið fyrir sér. 


mbl.is Hungur sverfur að Norður-Kóreumönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siglir Ísland inn í nýtt umhverfi réttvísandi?

Það er gefið mál að Ísland er að sigla inn í nýtt og spennandi umhverfi í efnahagslegu tilliti í heimsbúskapnum. Spurningin er hins vegar hvort stjórnendur landsmálanna á Íslandi geri sér grein fyrir hvert heillavænlegast sé að stefna og á hverju skal byggja og hverju að hyggja?
Þessi síendurteknu tákn í fréttum af heimsviðskiptum um stórkostleg tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf og atvinnulíf eru í dúr við pælingar mínar í ýmsum pistlum um þessi efni og grein í Morgunblaðinu 11.5.2009, og koma mér því ekki á óvart. En, skyldu þau koma stjórnendum íslenskra atvinnu- og efnahagsmála á óvart?
mbl.is Ísland að sigla inn í nýtt umhverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekin tákn og gæfa Íslands

Fréttir um vaxandi eftirspurn í heiminum eftir matvælum og öðrum hráefnum og þar af leiðandi hækkandi verð á hinu sama eru endurtekin tákn um sterka og batnandi stöðu Íslands sem framleiðanda og seljanda á þeim vettvangi.
Eins og ég bendi á í "jómfrúarbloggi" mínu um þessi mál höfum við á hendi flesta framleiðsluþætti sem þarf til vaxandi hagsældar og farsældar:
Landgæði og mikla stækkunarmöguleika ræktanlegs lands til stóraukinnar matvælaframleiðslu til útflutnings, ofgnótt ferskvatns, tiltölulega litla mengun, arðbæra matarkistu í fiskiauðlindunum kringum landið sem hægt er að gera enn þjóðhagslega hagkvæmari með frekari fullvinnslu, ódýra innlenda raforku og mikla möguleika til frekari orkuöflunar, hátt menntunarstig almennings og dýrmætt verkvit, þrautsegju og vilja til að vinna. Ekki síst er lega landsins að verða sífellt mikilvægari í tengslum við alþjóðlegar siglingar um Norðurpólinn og þjónustu við þær og auðlindavinnslu á Grænlandi. Og, við erum enn frjáls og höfum enn til þess aðstæður til að gera milliríkjasamninga um viðskipti við hvaða land eða viðskiptablokk í heiminum sem er.

Hins vegar eigum við því miður líka möguleika á að klúðra þessum stórfenglegu möguleikum okkar með rangri stefnumörkum og röngum aðgerðum óviturra eða annarlegra stjórnvalda sem ekki láta stjórnast af þeirri viðleitni að hámarka framgang heildarhagsmuna þjóðarinnar eða sem eru blind á í hverju þeir hagsmunir felast.
Vonandi tekst ávallt að bægja þeirri hættu frá um framtíð alla.
Þess vegna skiptir afgerandi miklu máli að það fólk sem velst til stjórnunar á landsmálunum á Alþingi og í ríkisstjórn sé góðum kostum búið sem íslenskir þjóðfélagsþegnar.
Lítt menntað eða reynslulítið eða að öðru leyti óviturt fólk eða fólk sem er of bjagað af þröngum sérhagsmunum tiltekinna þjóðfélagshópa eða eiginn hégóma ber þó ávallt með sér þá yfirvofandi ógn að illa takist til og illa fari að óþörfu.

Vonandi bera Íslendingar gæfu til þess í framtíðinni að kjósa ávallt vel menntað, reynslumikið, víðsýnt og viturt, gott og þjóðhollt fólk til landsstjórnarinnar, sem hefur gott vit á atvinnurekstri og efnahagsmálum og velferð þjóðarinnar.


mbl.is Ísland á nýjum stað í hagkerfi heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slegnar dularfullri blindu

Við lestur þessarar klásúlu um eðlilegan málatilbúnað varðandi Icesave-málið, sem furðu lostinn lagaprófessor Maria Elvira Mendez Pinedo bendir á í spurn af skiljanlegri ástæðu, virðist erfitt að skilja ráð þeirra óteljandi ráðsala sem þrjár ráðþrota ríkisstjórnir Íslands hafa keypt ráð af í örvæntingarfullri trú sinni á að auðmjúk játning með óttablandinni undanlátssemi við óbilgjarnar kröfur stórþjóða í Evrópu væri hin eina rétta leið "siðaðra og friðelskandi" þjóða eins og þeirra sem hér um ræðir.

Varla er hægt að skýra þá þráhyggju ríkisstjórnanna þriggja, hrunstjórnarinnar 2008, bráðabirgða-búsáhaldastjórnarinnar 2009 og vonarstjórnarinnar sem nú situr, að taka ítrekað upp samningaumleitanir við lagalega órökstuddar kröfur ríkisstjórna Breta og Hollendinga á þeirra forsendum, nema vegna þess að þær hafa allar verið slegnar einhverri dularfullri blindu á hið augljósa sem blasti allan tímann við: Að fara þá leið sem rammskyggnir íslenskir kjósendur hafa tvívegis og ókeypis í krafti þjóðaratkvæðagreiðslu bent þeim á og sem stjórnin verður nú tilneydd og undanbragðalaust að feta af heilindum. Það verður henni vissulega ögrun, en vonandi hefur hún og allir ráðgjafarnir vaknað til fullrar meðvitundar af óværum Undralands-svefni sínum og skafið úr eyrunum til að hlusta vel á heillaráð góðra velvitandi og velvakandi ráðgjafa sem enn eru tiltækir.


mbl.is Ráðgáta að Ísland skyldi ekki vísa í 111. grein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski forsetinn og sænska konungshirðin

Sænskir blaðamenn ættu e.t.v. að skrifa um tilganginn með sænsku konungshirðinni í lýðræðisríki þeirra áður en eða jafnframt því sem þeir gagnrýna íslenska forsetann sem hefur leitast við að verða landi sínu að liði með því að styðja málstað þjóðar sinnar út á við með orðum og gjörðum; Hvort og hvaða munur geti verið þar á. Hið sama á einnig við um konungsdæmin í hinum lýðveldisríkjum Skandinavíu.
mbl.is Sænsk gagnrýni á forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmenn ríkisins um Icesave í læri til forsetans

Í frábærum málflutningi sínum í og varðandi yfirlýsingu sína um stöðu Icesave-málsins varðandi kröfur bresku og hollensku ríkisstjórnarinnar lýsti forseti Íslands helstu rökum frá sjónarhóli Íslendinga í málinu í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það er til fyrirmyndar.

Jafnframt greindi hann frá því að hann væri nú þegar búinn að senda yfirlýsinguna til ýmissa ríkisstjórna í Evrópu og mikilvægra fjölmiðla erlendis, þeim til útskýringar og glöggvunar á málavöxtum. Hann eins og sumir aðrir hefðu tekið eftir því að svo virtist sem einhvers misskilnings gætti í viðbrögðum aðstoðarfjármálaráðherra Bretlands varðandi "greiðslur frá Íslandi"; að menn ytra gerðu sér ekki grein fyrir því að Bretar og Hollendingar fengju risa-upphæðir og lungann af upphæð krafna sinna úr sjálfu þrotabúi hins fallna gamla Landsbanka! Það hlytu að renna tvær grímur á hlutaðeigendur ytra um að höfða mál gegn Íslandi í því lósi og vegna samanburðar við stöðu hliðstæðra mála í þeirra eigin löndum.

Ekki hefur enn heyrst af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar af hliðstæðum toga eins og innihaldsrík og rökstudd yfirlýsing forsetans er, fyrir utan örstutta tilkynningu fjármálaráðherra í morgun.

Ríkisstjórnin og talsmenn hennar gætu ýmislegt lært af forsetanum í röggsemi, viðbragðsflýti, ákveðni, rökfestu og málafylgju við að útskýra og verja málstað íslensku þjóðarinnar. Það er vonum seinna að allt það lið geri það og taki til máls fyrir hönd þjóðarinnar allrar út á við af sömu einurð.


mbl.is Niðurstaðan má ekki sundra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvæntingarfullir Írar

Það er afar afhjúpandi fyrir þá stöðu mála, þegar búið er að hneppa þjóð í fjötra skulda og miskunnarlítilla lánardrottna, að sjá innslag í umræðu á írska þinginu í írskum umræðuþætti, Tonight with Wincent Browne þ. 5.4.2011 (03:15, ..)
Í þættinum er rætt við írska þingmenn um hrikalega skuldastöðu Íra og hvernig fara má að því að endursemja um eða minnka þær skuldir, sem stjórnin yfirtók af bankakerfinu þar í landi án þess að spyrja þjóð sína, í þeirri viðleitni að bjarga landinu úr sligandi kreppu. Mönnum er þar heitt í hamsi svo að minnir á kunnuglegar aðfarir viðmælenda í íslenskum viðræðuþáttum þar sem hver talar ofan í annan.
Lilja Mósesdóttir er á meðal viðmælenda og leggur þar röggsamlega meitluð orð í belg um hvernig brugðist var við á Íslandi og hvað er í gangi nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave og hvað Írar geta lært af reynslu Íslendinga í þessum málum.
Írar horfa eftirvæntingarfullir til úrslita kosninganna á Íslandi í spurn um hvernig íslenska þjóðin bregst við ofurkröfum evrópska fjármálakerfisins; hvort hún reyni að sporna við með því að hafna Icesave-lögunum þar sem hún er ekki komin með snöruna um hálsinn eins og sú írska. Að því leyti virðast þeir horfa öfundaraugum til íslensku þjóðarinnar og að eiga ennþá val.
mbl.is Hafa samúð með Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband