Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Átakamál tekin haustaki

Frábært framtak þetta haustaksskokk hjá Vigdísi Hauksdóttur alþingismanni; Og að skora á fleiri málsmetandi konur að gera hið sama til að vekja athygli á málinu, því lykilhlutverki sem unglingsstúlkur og ungar konur og mæður gegna í svökölluðum þróunarlöndum við mótun samfélagsins og umbreytingu til betri og lífvænlegri lifnaðarhátta á mörgum sviðum svo sem heilbrigðismála og mannréttinda.
Ekki síst á það við um baráttu fyrir breytingu og umbyltingu forneskjulegs hugarfars karlaveldis og klerkaveldis þar sem það hefur verið ríkjandi frá örófi alda.
mbl.is Vigdís Hauks bar vatn á höfðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið sem lengi var

Ómar Ragnarsson bendir á það á bloggsíðu sinni í sambandi við óvarkárt bruðl á náttúruauðlindum að við skulum ekki gleyma því að við höfum aðeins eina jörð.

Hegðun þjóða heims í þeim efnum gæti þó fremur bent til að litið væri á auðlindirnar sem óþrjótandi.

Það er hins vegar sannarlega svo að við höfum aðeins þessa einu undursamlegu Jörð til að lifa á og af.  Þó hefur hún bókstaflega verið fótum troðin og aldrei eins og nú, af um fjórtán milljörðum fótum manna sem fer enn ört fjölgandi. Þá eru ótaldir fætur dýranna og landnýtingarvélar og farartæki mannanna og síétandi munnar milljarða manna og dýra. Þetta getur ekki gengið til langframa með sama hætti og hingað til.

Vandamálin sem blasa við eru þverrandi auðlindir sem nauðsynlegar eru mannkyni (og dýrum) til lífsviðurværis, landeyðing og mengun lífrýmisins á landi, í lofti og höfum. Þessu veldur, eðli málsins samkvæmt, sívaxandi mannfjöldi og nánast stjórnlaus mannfjölgun og ósjálfbærir lifnaðarhættir og rányrkja.
Skýrsla Rómarklúbbsins svonefnda frá 1972, sem fram kemur í bókinni The Limits to Growth (Meadows o.fl.; Hjá Gyldendal 1974 Grænser for vækst) olli ýmsum “léttu” sjokki á sínum tíma, þar á meðal mér sem ásamt fleiru hefur haft varanleg áhrif á mig í þessum efnum.
Það var ekki síst vegna þess að í kjölfar hennar skall á svokölluð “olíukreppa” í Evrópu 1973 vegna tímabundinnar minnkunar á framboði á olíu meðal OPEC-ríkjanna sem vildu fá meira fyrir sinn snúð. Þá varð t.d. í Danmörku að grípa til skömmtunar á olíu og bensíni og takmörkunar á raforkunotkun. Á Íslandi varð fólk að vísu ekki mikið vart við þetta ástand vegna þess að olía rann þangað óhindrað annars staðar frá (Rússlandi) eftir sem áður.
Ég var þá við nám í Kaupmannahöfn á þessum tíma og þar var olía til húshitunar skömmtuð veturinn 1973-‘74 og sömuleiðis eldsneyti á bíla. Íbúðir voru því án miðstöðvarhitunar meirihluta vikunnar og einungis kalt vatn úr krönum og sturtum samhliða því og rafmagn þurfti að spara eins og mögulegt var.
Þetta ástand sýndi “svart á hvítu”, beint í æð, hvers gæti verið að vænta er auðlindir eins og olía væru raunverulega orðnar af skornum skammti.

Árið 1998 gaf ég út plötuna Kveikjur (CD) með eigin efni flutt af “landsliði” tónlistarmanna, sem inniheldur m.a. nokkur lög með textum með náttúrulegum hugvekjum, en þá stóðu deilur um fyrirhugaða Eyjabakkavirkjun sem hæst og vildi ég með þessum hætti leggja lóð á vogarskálar. Þar á meðal er lagið “Landið sem lengi var”, þar sem varpað er fram nokkrum “sviðsmyndum” um þessi efni. Hægt er að hlusta á það hér í spilaranum mínum.

Textinn við lagið er eftirfarandi:

 

Landið sem lengi var

Kveikjur 1998. © Höf. Kristinn Snævar Jónsson)

 

Hve yndisleg sýnir sig okkar Jörð,

þar sem ósnortin náttúran rís.

Um árþúsundir hafa erjað svörð:

Eldur, vatn, vindur og ís.

 

Og fallega hefur svo flóran klætt

fjöll og merkur í snilldarlegt skrúð.

En öllu þessu er orðið mjög hætt,

ef ekki er betur að hlúð.

 

(Viðlag):

 

Því landið, sem svo lengi var;

laust við mannanna umrót og þrengingar.

Það er svo viðkvæmt og auðveld bráð;

öllu umturnað verður ef ekki - að er gáð.

 

Grandað er lífi, af gróðri sneitt,

og geigvænleg mengun er leyfð.

Rist er í jörð og regnskógum eytt,

við rányrkju spornað með deyfð.

 

(Viðlag)

 

Þá börnunum okkar við bjóðum stað,

þar sem bergmálar aldanna kyrrð.

Þeim ómetanlegt er að upplifa það,

sem ósnortið kom úr ára firð.


mbl.is Galið að eyða helíum í partíblöðrur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnarmiðaðir Íslendingar

Þessi dæmi sem hinn að eiginn mati ofurskipulagði Norðmaður tíundar hér (óskipulega) og af handahófi sýna í aðra röndina einkar vel hversu lausnarmiðaðir Íslendingar geta verið, a.m.k. sumir. Þegar vandamál blasir við er gengið í að leysa það fljótt og vel af einbeitni og krafti.

Á þessu eru að vísu undantekningar, eins og t.d. lausn snjóhengjuvandans sem skeikaði að sköpuðu heilt íslenskt kjörtímabil og á enn eftir að leysa. Ný ríkisstjórn mun samkvæmt kosningaloforðum sínum og stefnuskrá væntanlega sanna hið lausnarmiðaða eðli Íslendinga sem Norðmaðurinn, konan Gry Ek Gunnarsson, vísar til og rennir greinilega hýru auga til í hina röndina.

Maður gæti haldið að Gry Ek sé að gera gys að þeim sem hún kallar "óskipulega Íslendinga" þar sem hún vísar til leiðtogafundar Reagans og Gorbatsjof í Reykjavík 1986 með þeirri kenningu sinni að líklega hefðu Íslendingarnir ekki getað haldið fundinn klúðurslaust ef þeir hefðu haft til þess langan fyrirvara eins og t.d. Norðmenn hefðu þurft að hafa fyrir slíkan stór-viðburð í heimssögunni.

Á móti má spyrja hvaða þjóð hefði getað gert þetta á sínum tíma með jafn góðum árangri og einmitt Íslendingar. Að vísu voru hér erlendir ráðgjafar og öryggissveitir með við hinn skamma undirbúning þannig að ekki voru Íslendingar einir á báti, en þeir komu þessu heim og saman við sínar aðstæður.

Hitt er annað að þar að auki skiptu einmitt aðstæður hér verulegu máli varðandi öryggisatriði. Landið er eyja og þá var landamæranna gætt með öflugu vegabréfaeftirliti; Þá var engin Schengen-gátt með opin hlið fyrir öll aðildarlönd þess, einungis heiðarlega Norðurlandabúa eins og Norðmenn meðal annarra.


mbl.is „Þetta er Íslendingum í blóð borið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn talar óhræddur fyrir málstað Íslendinga í ljónagryfjunni

Það má með sanni segja að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands geri það ekki endasleppt í að halda uppi vörnum fyrir málstað Íslands í Icesave-deilunni á erlendum vettvangi. Sækir þar að auki ótrauður fram með því að færa rök fyrir stefnu Íslands gagnvart fjármálaheiminum í sjálfri ljónagryfjunni á breskri grund.

Þá er einkar athyglisvert sem hann bendir eðlilega og réttilega á sem helstu rök fyrir því hvers vegna hann veitti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins umboð til stjórnarmyndunar í kjölfar nýafstaðinna kosninga, þ.e. áhersla flokksins á skuldamál heimilanna og herör hans gegn vogunarsjóðunum í því sambandi, "eða hvað sem þið viljið kalla þá".


mbl.is Forsetinn hreifst af Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við orustulok

Guðni Ágústsson, hinn dyggi framsóknarmaður, lætur mörg sannleikskornin falla í nokkrum athugasemdum í grein sinni í Morgunblaðinu í dag (s. 25) í tilefni þess að erlendir aðilar segja nú Ísland hafa sparað sér um 335 milljarða ISK við að vinna dómsmálið um Icesave-deiluna. Þar fá óvæntir aðilar hrós og væntir minna hrós.

Það var góð von á því að Guðni skyldi minnast á þetta þar sem það munar um minni upphæð en þessa. Harla vel reyndist því að fylgja ráðum réttsýnna og þjóðhollra baráttumanna landsins í Icesave-deilunni sem sáu hvar hagsmunir Íslands lágu og liggja, þótt heillum horfnir ríkisstjórnarflokkarnir sem slíkir ásamt forystuliði þeirra virðast ekki hafa gert það lengi vel meðan bardaginn stóð við erlent vald sem þeir töldu ofurefli.
Berja sumir málsvarar þeirra jafnvel enn höfði við þann úrtölustein sér til réttlætingar og svo mikið hafa þeir rifið klæði sín af vandlætingu sinni út í mótþróalýðinn og forsetann allan tímann að þeir standa nú næsta klæðalitlir í kosningamonsúninum sem er að skella á.
Það verður þó að segjast, þeim til mikilla málsbóta og hugrekki þeirra til hróss, að í síðustu orustunni, undirbúningi landsins fyrir réttarhöldin fyrir EFTA-dómstólnum, stóðu þeir ekki í vegi fyrir vörn Íslands heldur tóku upp gifturíkt samstarf við baráttufólkið og -félögin gegn Icesave-samningunum og góð og höggþétt rök þeirra. Góðu heilli!

Í fremstu víglínu í stríðinu fyrir land og þjóð var baráttuviljugt ungt fólk í nýrri framvarðarsveit Framsóknarflokksins og grasrótarfélög á vegum hans og fleiri sjálfstæðishugsandi aðila í reynd, stutt af forseta Íslands og þegar kvatt var til lokaorustu um síðustu samningslögin um Icesave 60% þjóðarinnar. Þeim sé öllum virðuleg þökk. 

En, saman förum við, íslenska þjóðin 100%, sterkari á vit léttbærari framtíðar. Það er gott.


mbl.is 336 milljarðar eru miklir peningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn Tími til?

Jú, það er sko kominn tími til?

Að fá umsagnir um sannleikann frá fleiri sjónarhornum er hið besta mál, enda getur verið hið versta mál að finna út hver sannleikurinn er á hinu pólitíska sviði.

Þá er e.t.v. hægt að vænta fleiri gullkorna frá Guðna Ágústssyni framsóknarmanni á prenti.

Í því sambandi má benda á að Guðni lætur mörg sannleikskornin falla í nokkrum athugasemdum í grein sinni í Morgunblaðinu í dag (s. 25) í tilefni þess að erlendir aðilar segja nú Ísland hafa sparað sér um 335 milljarða ISK við að vinna dómsmálið um Icesave-deiluna. Sjálfsagt verður að vanda deilt um þau korn.


mbl.is Tíminn endurvakinn á netinu og kemur á pappír aðra hverja viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS mælir fyrir eignaupptöku á Íslandi fyrir braskara

Þessar hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt og rakalausri hækkun stýrivaxta eins og kom fram í viðtölum fulltrúa sjóðsins í sjónvarpsfréttum í gær bera allar að sama brunni:
Að koma sem mestu af upphæð svonefndrar "snjóhengju" yfir í erlendan gjaldeyri til að tilgreindir eigendur innstæðnanna sem hér um ræðir (vel yfir 1000 milljarðar kr) geti flutt þær úr landi í erlendri mynt. Eftir sæti íslenskt efnahagslíf á heljarþröm og íslenskur almenningur í skulda- og skattaklöfum til frambúðar. Þarna er ekki verið að hugsa um velferð íslensku þjóðarinnar heldur hagsmuni viðkomandi innstæðueigenda sem eru samkvæmt þessu ómótmælanlega undir styrkum verndarvæng AGS, eðli málsins samkvæmt.

Lilja Mósesdóttir, í Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar, hefur ítrekað bent á úrræði sem duga til lausnar á þessum yfirvofandi snjóhengjuvanda.
Sú lausn felst í því að "verðfella" þessar inneignir á sanngjarnan hátt með því að taka upp nýja íslenska mynt, Nýkrónu, þar sem þessar innistæður fengjust ekki yfirfærðar í hina nýju mynt (og í framhaldi af því e.t.v. í gjaldeyri) nema á ca. 90% lægra gengi en aðrar innstæður og fjármunir. Upptaka á Nýkrónu yrði nauðsynleg ef ekki reynist löglegt að setja tilsvarandi háan "útgönguskatt" á snjóhengju-innstæðurnar þannig að aðeins lítill og bærilegur hluti hennar færi úr landi í erlendri mynt. Tilgangurinn er að verja hagsmuni almennings á Íslandi og komast hjá hörmungum.

Þessi bráðnauðsynlega niðurskrift á snjóhengjuinnistæðunum ber að skoða í ljósi þess að þeir aðilar sem eiga hana munu hafa fengið þessa fjármuni fyrir "slikk" eða um 4% af nafnverði í kjölfarið á hruni bankanna! Þeir ætla sér hins vegar að græða margfalt (25-falt) á braski sínu á kostnað almennings á Íslandi og hafa hingað til notið dyggilegrar aðstoðar AGS og talsmanna sjóðsins erlendis og hérlendis við það. Þetta má þeim aldrei takast.
Þeir íslensku stjórnmálamenn sem vísvitandii eða af óvitahætti ætla sér að styðja þessa stefnu AGS og framfylgja henni í reynd eru ekki sannir fulltrúar íslensku þjóðarinnar. Þeir myndu þá opinbera sig sem hagsmunagæslumenn annarra nú í aðdraganda næstu kosninga.

Alþingismenn hafa ráð landsins í hendi sér. Þeir skulu hugleiða það vandlega og aldrei gleyma að þjóðin kýs þá hverju sinni til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í heild.


mbl.is AGS styður útgáfu skuldabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samviskubit og friðþæging með þjóðarauði

Fréttir herma að meðlimur kúveisku konungsfjölskyldunnar ætli að “gefa” dágóða upphæð til landa sinna sem uppfylla tiltekin skilyrði. Það er gott mál út af fyrir sig og mættu allir slíkir gera slíkt hið sama.
En, að kalla þetta “gjafmildi” er fullyrðing sem tekur út yfir allan þjófabálk þegar haft er í huga hvaðan féð er komið sem konungsmeðlimurinn ætlar að “gefa”. Uppspretta auðæfa hans eru olíulindir landsins sem konungsættin og hirð hennar hefur sölsað undir sig og ráðtafað eins og um einkaeign væri að ræða en ekki eign allrar þjóðarinnar eins og náttúruauðlindir eru eðli málsins samkvæmt.
Ja, öllu má nú nafn gefa!
Því má segja að hér sé ekki um að ræða raunverulega gjafmildi konungsmeðlimsins heldur síðbúna friðþægingu hans með þessum hætti á ævikvöldi þar sem hann seint um síðir iðrast óréttlátrar sjálftöku sinnar af þjóðarauðnum með því að skila örlitlu broti af honum til baka; En, vel að merkja einungis til skilgreinds hluta þjóðarinnar samkvæmt duttlungum hans sjálfs. Jafnræðisreglan er nú ekki meiri en svo.
Spurning er hvort almenningur í Kúveit geri sér grein fyrir hvernig raunverulega er í pottinn búið varðandi arðrán konungsveldisins á náttúruauðlindum landsins.
Við Íslendingar ættum einnig að líta okkur nær um hvernig náttúruauðlindum okkar er ráðstafað!
Hefur verið stundað arðrán á grunni náttúruauðlinda hér? Má ekki greina vissa hliðstæðu í þeim efnum við ástandið í Kúveit? Hvað gerum við í því?
Mun einhver fá samviskubit í því sambandi og vilja friðþægja af eigin dáðum?


mbl.is Gjafmildi í Kúveit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarstefna eða helferðarstefna

Sífellt fleiri taka undir þessar leiðir sem Lilja ásamt Samstöðu hefur bent á til að losna við þann yfirvofandi skaðvald sem 1000 milljarða "snjóhengja" af innlyksa fé hérlendis er, ef viðkomandi fjármagnseigendur sjá ekki sóma sinni í því að fjárfesta þá hér viljugir til langs tíma.

Þennan púka þarf að losna við sem fyrst vegna þess að meðan ekkert er aðhafst heldur hann áfram að mala sér gull í formi inneignarvaxta með hávaxtamaskínu peningastefnunefndar Seðlabankans. 

Til að halda þessari gífurlegu fjárupphæð "sjálfviljugri" hérlendis þarf reyndar markvisst að bjóða upp á fjárfestingarkosti á móti. 
Þar duga ekki sýndaráform eins og nýlega voru kynnt af ríkisstjórninni sem á að hrinda í framkvæmd einhvern tímann eftir fyrirsjáanlega lífdaga hennar, enda gerast "bjargráðin" varla hallærislegri.

Ekkert annað en ömurleg helferð fyrir íslenskan almenning fylgir þeirri hugmynd og áformum Samfylkingar að einhvers konar (ennþá óljós) fyrirgreiðsla ESB muni leysa vandann, v.þ.a. þar er reiknað með að greiða niður alla þessa fjárhæð á einhverjum ótilteknum tíma með vöxtum.
Hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um snögga afléttingu gjaldeyrishafta þar sem fjárhæðin yrði leyst út með lánsfé gjaldeyrisforða Seðlabankans er heldur ekkert annað en snögg kollsteypuhelferð. Gjaldeyrisforði landsins yrði þá upp urinn og hátt í jafnháar vaxtaberandi skuldir sætu eftir hliðstætt og á við um afleiðingar hörmungarstefnu Samfylkinngar.

Það sem blasir við að þurfi að gera ef komast á hjá efnahagslegri helferð Íslendinga er einmitt þetta sem Lilja með Samstöðu að bakhjarli bendir á.
Fari snjóhenguféð ekki með góðu í langtíma raunfjárfestingar hérlendis getur það heldur aldrei farið óskert úr landi.

 


mbl.is Vill hóta eigendum snjóhengjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keppinautar frystir

Nóbelsverðlaunahafinn Nouriel Roubini, Doktor Dómsdagur eins og dárungarnir kalla hann, bendir hér á vandamál evru-myntkerfisins í Evrópu sem hann telur að muni fyrr en síðar splundrast niður í upphaflegar frumeindir sínar, eigin gjaldmiðla landanna.
Þetta muni fyrst gerast hjá þeim löndum sem eigi nú erfiðast með að aðlagast nýjum veruleika á lánsfjármörkuðum þar sem þau standa á tánum í skuldasúpu sinni  upp í háls.

Þessi erfiða og sársaukafulla staða verst settu landanna á evrusvæðinu er ekki síst sökum þess að þau hafa ekki eigin gjaldmiðil til að nýta til að bregðast versnandi samkeppnisstöðu.
Hvað það var, sem helst orsakaði verri samkeppnisstöðu sumra evrulanda í samanburði við önnur evrulönd eftir upptöku þeirra á hinni sameiginlegu mynt, þá blasir sú nakta staðreynd við núna að þau geta ekki gripið til gengisfellingar til að laga samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum löndum þar sem þau hafa ekki eigin mynt; Eðli málsins samkvæmt.

Það blasir auðvitað við að með þátttöku í sameiginlegu myntbandalagi og með því að taka upp sameiginlega mynt eins og evru er búið að frysta þetta fljótvirka samkeppnistæki, taka það úr umferð hjá meðlimalöndunum.
Það kemur sér vel fyrir þau lönd sem standa sterkast í bandalaginu og hafa öflugustu og hagkvæmustu framleiðslukerfin. Það er óskastaða fyrir þau að geta í krafti sameiginlegrar myntar fryst samkeppnisstöðu keppinautanna hvað það varðar.
Það er hliðstætt því og að losna á einu bretti við hættu af hugsanlegum skæruhernaði í stríði. Og, þetta er stríð, efnahagslegt stríð um markaði og áhrif og önnur tengd atrið milli landanna.


mbl.is Dr. dómsdagur spáir efnahagslegu stórslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband