Færsluflokkur: Umhverfismál

Náttúruleg og manngerð eyðingaröfl

Sú spurning verðu sífellt áleitnari við fréttir af pólitískri þöggun eins og þeirri sem hér um ræðir,
auk þeirrar sem á sér stað varðandi þverrandi auðlindir jarðar og versnandi lífsskilyrði sökum hitnunar í lífhvolfinu og lífshættulegra afleiðinga hennar, sem og hnattrænnar mengunar,
hvort það sé ekkert nema mengun,  náttúruhamfarir og súrefnisskortur í lífhvolfi jarðar sökum afleiðinga loftslagsbreytinga sem geti þaggað niður í órökstuddum áróðri andstæðinga þeirra vísindamanna sem vara við hættunni.

Ef svo fer getur sérhagsmunagæsla viðkomandi manngerðu eyðingarafla ekkert gert lengur til að bjarga fólkinu þar að baki né öðrum íbúum jarðar. Hversu lengi á blekkingin að líðast?


mbl.is Íhaldsmenn stöðvuðu kafla um loftslagsbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er tilgangurinn með eftirliti Matvælastofnunar?

Þau atriði sem koma fram í fréttinni sem rök Matvælastofnunar fyrir því að stöðva ekki dreifingu áburðar sem talinn er skaðlegur heilsu manna og jafnvel krabbameinsvaldandi eru þvílík steypa að furðu sætir.

Rökleysan í útskýringum MAST fyrir því að stöðva ekki dreifingu áburðarins er yfirþyrmandi:
Svona mengun í áburði "hefði ekki gerst áður" hjá viðkomandi innflytjanda, og að í kjölfar gossins í Grímsvötnum "hefði ekki þótt ábætandi að valda frekari erfiðleikum og hugsanlegum áburðarskorti"!

Felst eftirlit MAST í einhverju öðru en að verja heilsu og hagsmuni neytenda, eða á sjónvarpsfrétt RÚV í kvöld 3.1.2012 um krabbameinsvaldandi efni í áburðinum ekki við rök að styðjast?


mbl.is MAST upplýsti ekki um mengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðvörun Einars Þveræings

Þessi fréttaskýring Financial Times minnir vel á röksemdafærslu Einars Þveræings forðum er hann varaði Íslendinga við að selja nafna Grímsstaða á Fjöllum, Grímsey á hafi úti, til erlends konungsríkis. Benti hann m.a. á að þar gæti erlendur her komið sér fyrir í tengslum við undirbúning á innrás í landið án þess að Íslendingar gætu fengið við það ráðið.
Það er opin spurning hvort svo er í pottinn búið nú og virðist sem svo að við stöndum nú í sömu sporum og landar Þveræingsins varðandi hvað gera skuli. Var þetta rætin þjóðernishyggja hjá Einari sem átti sér ekki stoð í raunveruleikanum eða raunveruleg ógn?

Ekki skal ég segja um hvort "landtaka" vaki fyrir Kínverjum, þ.e. kínverska ríkinu, sem efalítið tengjast einkaframtaki Nubo meira en minna. Hitt er annað að mjög líklega yrði hér um að ræða "innrás" kínversks vinnuafls í tengslum við uppbyggingu aðstöðu þeirrar sem Nubo segist muni ráðast í fái hann landið til eignar. Það yrði bara að koma í ljós hve stór hluti það yrði af heildarmannafla á svæðinu til skemmri og lengri tíma.

Hér er væntanlega ekki einungis um að ræða uppbyggingu ferðamannaaðstöðu á Grímsstöðum til skamms tíma litið heldur hlýtur Nubo og þeir sem að baki honum standa að horfa til þess að skipaleið um Norður-Íshaf opinist í náinni framtíð með umskipunarhöfnum og tilheyrandi uppbyggingu í tengslum við það á Norð-Austurlandi í kjölfarið. Einnig gæti það tengst auðlindanýtingu á austurströnd Grænlands er þá kæmi til. Þá kemur sér vel að hafa land til umráða í grennd þar sem hægt er að byggja upp heilan kaupstað, heilan "her" íbúa. Spurning er hvort íbúar þeirrar byggðar yrðu (kínverskir) ferðamenn eða starfsmenn.

Þá er einnig óljóst ennþá hvernig háttar til með nýtingu auðlinda á svæðinu, svo sem vatns.

Það er rétt hjá innanríkisráðherranum að hér þarf að skoða mál frá öllum hliðum, bæði kosti og galla til bæði skamms og langs tíma og taka síðan yfirvegaða ákvörðun á þeim grunni. Þar koma sjálfsagt einnig tilfinningaleg rök til álita ásamt þeim pólitísku.

Hitt er annað að ekki ber að slá spennandi möguleika út af borðinu fyrirfram að óathuguðu máli vegna pólitískra fordóma. Menn skulu ekki gleyma því að ef á annað borð er óskað eftir almennum erlendum fjárfestingum hérlendis þá verður ekki bæði haldið og sleppt.
Ef kemur á daginn við athugun að þetta snúist einfaldlega um uppbyggingu einstakrar ferðamannaparadísar á fjöllum eins og Nubo talar um sem laðar að gull er verður að grænum skógum, en ekki aðstöðu fyrir "innrásarher" a la Einar Þveræing eða auðlindatöku án fyrirfram gerðra nýtingarsamninga við íslenska ríkið, þá virðist þetta spennandi kostur.

Nú þarf að leggjast undir feld - en samt ekki lengur en í "þrjá daga". M.a. þarf að huga að lögum og hugsanlegri viðbótar lagasetningu er varða nýtingu erlendra aðila á auðlindum og aðstöðu hérlendis, svo að hagsmunir Íslendinga verði ekki (óvart) fyrir borð bornir.


mbl.is Gæti aukið áhrif Kínverja í N-Atlantshafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýtur að vera skáldskapur

Meðfylgjandi myndir sem sagðar eru teknar í nánasta umhverfi Hafnarfjarðar gætu (ó)hreinlega verið uppspuni Hafnfirðingum til hnjóðs; Svo ömurlegan vitnisburð sýna þær um umgengni íbúa staðarins (og e.t.v. annarra) við sitt nánasta umhverfi í náttúrunni. Er þetta ekki aprílgabb?

Ef þetta er raunverulegur sannleikur og sóðaskapur en ekki skáldskapur vantar einhvern jákvæðan þátt í umgengnisvenjur þeirra sem þarna sóða til og menga og ekki síður eftirlitsþátt í fegrunardeild bæjarins.

Hafnarfjörður er fagur staður frá náttúrunnar hendi, en allir mengandi staðir og umgengniskæruleysi breiða yfir og fela þá fegurð og svína út sómakæra íbúa, sem eru ómeðvitaðir um slíkt athæfi eða andæfa því, með ómaklegum hætti.

Nú þegar hljóta stjórnendur bæjarins að vera búnir að senda mannskap til að þrífa til og uppfræða íbúana um til hvers sorphirðudeilir bæjarins eru.


mbl.is Yfirgengilegur sóðaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með jöklana?

Mér finnst athyglisvert á þessari gervihnattamynd af Íslandi í dag hvernig jöklarnir líta út. Samanborið við dæmigert skóla-landakort af Íslandi sem hékk uppi á vegg alla daga í mínum skóla á sjöunda áratug 20. aldar með æpandi hvítar og stórar skellur jöklanna finnst mér áberandi hversu þeir hafa skroppið saman; Eins og mig minnir að þeir hafi litið út á gamla kortinu.
Sérstaklega finnst mér Langjökull og Hofsjökull orðnir "veimiltítulegir", að ekki sé minnst á Snæfellsjökull sem nú er orðinn nánast að punkti. Norðurhliðin á Vatnajökli virðist einnig ekki eins bungulaga norður á við eins og var. Þá finnst mér lögunin á Langjökli einnig orðin umtalsvert önnur en áður var.

Ef til vill er myndin af landinu dálítið tognuð á þverveginn og hlutföll þess vegna ekki alveg rétt á að líta hér og einnig gæti hafa tognað á minninu hjá mér, en ég spyr: Hvat es með jöklum?


mbl.is Ísland baðað sól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnakona talar - Og með Lennon og Ingólfi á Rás eitt

Kjarnakonan og Íslandsvinurinn Yoko Ono bendir hér hinum kjarnorkuvædda heimi á dæmi þar sem Ísland og ráðsmenn þess og ábúendur geti verið gott fordæmi á jákvæðan hátt, en væntanlega ef skynsamlega er að verki staðið. Hafi hún þakkir fyrir það.

Það er mikið gleðiefni að nú skuli vera hafin útsending á þáttum Ingólfs Margeirssonar heitins og Bítlaaðdáanda á Rás 1 í Ríkisútvarpinu um tónlist og texta og boðskap bónda hennar og fyrrverandi Bítils, John Lennon. Þar fjallar Ingólfur um feril Lennons eftir að Bítlarnir hættu saman sem hljómsveit um 1970 og hann fór á vit örlaga sinna vestur um haf með konu sinni og sálufélaga, Yoko. Þar fléttast inn í þáttur hennar og sameiginleg og ódauðleg og hughraust barátta þeirra beggja fyrir friði í heiminum. Þá, ekki síður en nú, var á brattann að sækja í þeim efnum.

Ímyndið ykkur hina djúpu visku um forsendur friðar sem kemur fram í lagi hans Imagine. "Hugsa sér frið"!, eins og Þórarinn Eldjárn túlkaði inntak textans í tengslum við friðarsúluna í Viðey.


mbl.is Hvetur Japani til að horfa til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænt Prentmet

Til hamingju Prentmet og starfsfólk með merkið til staðfestingar á umhverfisvænum viðhorfum ykkar.

Það var í stíl við leiftursnögg viðbrögð ykkar við að þjónusta viðskiptavini með hagstæðum og góðum árangri að einhenda ykkur í að öðlast Svansmerkið. Þessu ber að fagna.


mbl.is Prentmet fær Svansvottun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varða í rétta átt

Semjum óð til náttúrunnar, móður jarðar, sem hefur alið okkur og þá sem á undan komu. Hún mun einnig ala afkomendur okkar, þá sem á eftir okkur koma, en aðeins EF við ölum önn fyrir henni og rústum ekki vistkerfinu í skammsýni okkar og þröngsýni.
Hætturnar blasa við og viðvörunarlúðrarnir gjalla, samanber hending í texta í lagi mínu Landið sem lengi var, sem hægt er að hlusta á í spilaranum mínum:

"Grandað er lífi, af gróðri sneitt,
og geigvænleg mengun er leyfð.
Rist er í jörð og regnskógum eytt,
við rányrkju spornað með deyfð."

Ekki er þessi sýn lífvænleg.

Hins vegar blasa þó við dásemdir á ýmsum stöðum jarðar sem minna á heimanmund mannkyns í árdaga, sjálfbært vistkerfi, sem dugað hefur til viðhalds mannlífi (og öðru lífi) hér á jörð hingað til.
Framtak Vina Vatnajökuls er varða á leið í rétta átt í því samhengi.

En, hvernig bregðumst við mannkyn við svo að við förumst ekki úr fæðuskorti og mengun og siðmenning líði undir lok?
Hvað getum við gert til að sporna við feigðarþróuninni?


mbl.is Stór styrkur til Vina Vatnajökuls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segullinn að Bifröst

Bifrestingar, núverandi, fyrrverandi og verðandi: Til hamingju með nýjan rektor. Allar góðar óskir í hið gamla og virðulega hlað Bifrastar um jákvæðan árangur við uppbyggingarstarfið sem framundan er.

Það er hins vegar hörmulegt að hin gamla og fagra götumynd Bifrastar sem blasir við á meðfylgjandi mynd fréttarinnar skyldi að miklu leyti hafa verið eyðilögð með þeim kassalaga húsablokkum sem reistar voru illu heilli þvert fyrir framan gamla skólahúsið. Það lítur þó alltaf út eins og nýtt í glæsileik sínum innan um þá fáu birkirunna sem eftir standa í kring. Það ber af eins og gull; enda var ævigull fólgið í námsdvöl þar.

Algjörlega nauðsynlegt er að bæta úr því sem hægt er úr því sem komið er varðandi hina nýju götumynd skólans. Gamla götumyndin er nánast horfin á þessum stað nema þétt upp við skólahúsið og í æpandi stílbroti standa nú tvær 2ja hæða L-laga íbúðablokkir þar sem hinir stoltu runnar standa á myndinni og girða gamla skólahúsið af eins og virkisveggir. Í stað grænna birkirunna í náttúrulegum forgrunni skólahússins blasa nú við tveir húsakassar með neon-græna spanskgrænutauma lekandi niður veggi (það hefur e.t.v. verið "snilldarhugmynd" arkitektanna með því að hafa málmfleka á veggjum). 
Ganga þarf sómasamlega frá í kringum nýju blokkirnar, en aðkoman er enn hryllilega fráhrindandi. Fjarlægja þarf drasl sem þar er enn að finna gestum og íbúum til ama, ganga frá jarðveginum umhverfis og móta tilhlýðilega og planta gróðri eins og líflegum og bústnum birkirunnum í staðinn. Lífga umhverfið!
Gera þarf aðkomuna sem mest aðlaðandi þrátt fyrir þann skaða sem orðinn er og reyna að lágmarka hann sem mest að þessu leyti.

Ég fullyrði að gamla og magnaða götumyndin að Bifröst sem blasti við langt að er keyrt var upp Norðurárdalinn og opinberaðist í skrúða sínum er nær dró átti drjúgan þátt í því að laða nemendur að skólanum, að þeim töfrum sem þar voru fólgnir á staðnum og í því samfélagi nemenda og starfsfólks sem þar vann hverju sinni. Dvöl á staðnum í nærsamfélaginu þar var yndislegt dæmi um "paradís á jörð", sem þeir skildu best er það upplifðu; ef til vill þeir einir! Sá skilningur kom ekki síst eftirá. Námsdvöl þarna var einstök gæfa þeirra er hennar nutu og lagði grunninn að svo mörgu í lífinu.
Svo getur enn orðið!

Ef nýjum skólayfirvöldum tekst að laga þessi atriði og stuðla að öðru leyti að því að endurvekja töfra staðarins og dvalar þar getur hann aftur orðið sá segull sem hann var. Þá verða umsækjendur um námsvist í staðarnámi aftur fleiri en hægt verður að taka á móti.


mbl.is Bryndís verður rektor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskilgreining á sjálfstæði þjóðar í samhengi samtímans

Þátturinn Silfur Egils í gær, 31.10.2010, er allrar athygli verður. Ekki síst fyrir þá sem fyrirfram hafa tekið upp þá skoðun að vera á móti ESB og jafnvel á móti umræðum um kosti þess og galla, sem er enn verri afstaða og hættuleg hagsmunum þjóðarinnar. Slík afstaða manna virðist mótast af rómantískum tilfinningum einum saman en ekki raunsæi.
Eða, hvernig er hægt að taka vitræna afstöðu um þýðingarmikil mál án þess að skoða þau á sem hlutlausastan hátt áður en tilfinningum er hleypt að dómarasætinu?!

Heitustu þjóðernissinnarnir ganga ekki erinda föðurlandsvinarins Einars Þveræings um að halda "sjálfstæði" landsins, telji þeir svo, með því að hafna samstarfi við stórveldin umhverfis. Þvert á móti.
Við stöndum frammi fyrir því nú að endurskilgreina hvað felst í "sjálfstæði" þjóðar í heimsþorpinu Jörð, efnahagslega og stjórnmálalega séð, og hvernig því sjálfstæði í skilningi samtímans verður helst náð og varðveitt til lengri tíma litið í friði.

Ég er að sjálfsögðu fylgjandi sem mestri og bestri upplýstri umræðu um ESB-aðild. Viðmælendur Egils í þættinum í dag drógu upp afar þýðingarmikil atriði, sem ekki hafa verið áberandi í "umræðunni" (gagnstæðum upphrópunum) hérlendis hingað til:
Að hugsa til framtíðar í langtímasamhengi og láta af "stórveldið Ísland"-hugsunarhættinum.

Einnig held ég að almenningur geri sér ekki fulla grein fyrir því að núverandi stefnuleysi og óvissa um efnahagslegan ramma um atvinnulífið á Íslandi, séð frá bæjardyrum hugsanlegra erlendra fjárfesta og viðskiptaaðila, er þess valdandi að þeir halda að sér höndum. Stöðnunin og afturförin hérlendis undanfarin tvö ár sannar það.
Hér mun ekkert afgerandi gerast til að koma framleiðslu- og gjaldeyrisskapandi atvinnulífi landsins á gott og uppbyggilegt skrið fyrr en þessir þættir eru komnir í fastar og trúverðugar skorður. Tal um annað er blekking! Eða, hver vill stinga hendinni í bullandi suðupott, þar sem ekki sést einu sinni hvað er verið að sjóða?

Það er auðvitað hárrétt sem Michel Rocard, fyrrv. forsætisráðherra Frakklands, bendir á að Ísland er peð á vettvangi stjórnunar alþjóðlegra efnahagsmála og stjórnmála. Það mun lítið verða um meint sjálfstæði og fullveldi Íslands utan stórra sambanda í því kapphlaupi og keppni stórþjóða sem er í uppsiglingu hér á norðurslóðum nú þegar og í sívaxandi mæli í framtíðinni. Hrokafullur þjóðarrembingur frá Íslands hálfu mun mega sín lítils í þeim leik.
Halda menn til dæmis að þorskastríð Íslendinga við Breta á áttunda áratug 20. aldar hefði verið eins “friðsælt” ef bæði löndin hefðu ekki verið í sama hernaðarbandalaginu?

Þeir sem hafna raunverulegri umræðu um ESB-aðild og allri hjálp til að efla þá umræðu og fela sig á bak við lítt ígrundaða eða órökræna sleggjudóma ættu að hugsa sinn gang og íhuga hina miklu ábyrgð sína. Þar er um að ræða aðila bæði til sjávar og sveita. Þeir ættu einnig að íhuga það alvarlega hvort farsælla sé að finna bestu lausnina fyrir þjóðarheildina og almenning í landinu eða halda sérhagsmunum til streitu. Hvernig er vænlegast að varðveita sið og frið í landinu?

Ég held að það sé ekki fleipur sem hinn reyndi stjórnmálamaður Rocard hélt fram um að horft verði til reynslu og hæfni Íslendinga í hinum ýmsu málefnum sem varða veru og lífsbjargir á norðurslóðum, ekki síður en Norðmanna. Þetta áréttaði hann í fyrirlestri í dag í Háskóla Íslands og bætti við þeirri ráðleggingu til okkar Íslendinga, að hvað svo sem við ákvæðum að gera í utanríkismálum og á alþjóðlegum vettvangi að þá þyrftum við að fylkja okkur í liði einhverrar stórrar efnahagsheildar svo ekki yrði einfaldlega vaðið yfir okkur og hagsmuni okkar.
Í fyrirliggjandi viðhorfum stórvelda um mikilvægi norðurslóða liggja ýmis spennandi tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf á flestum sviðum efnahagslífsins. Hvernig væri að fara að huga markvisst að þeim möguleikum og uppbyggingu þar að lútandi til lands og sjávar í samvinnu við viðeigandi þjóðir? Það er ekki seinna vænna.

Og, gera einnig eitthvað róttækt í því að fá hærra og sanngjarnara verð fyrir raforkuna, sem hingað til hefur farið fyrir slikk ofan í einhæfa arðránshít þar sem málmbræðslurnar eru. Þar verður að huga að öðrum kostum án tafar. Úrelt hreppapólitík skammsýnna stjórnmálamanna og annarra ráðamanna um “álver heim í hérað”, eins og ríkti um kaup skuttogara hér fyrir nokkrum áratugum án tillits til heildarhagkvæmni, verður að víkja.

Það er tímabær og grafalvarleg áminningin sem röksnjall Njörður P. Njarðvík benti á í lokin í umræðuþætti Egils um það hvers vegna "dýrin" á bænum urðu um síðir að taka völdin: Láta lífið ella!
Vilja stjórnmálamenn og ráðandi öfl í þjóðfélaginu framkalla slíkt ástand á Íslandi? (Það er að vísu þegar brostið á í formi atgervisflótta frá landinu eins og Andri Geir benti á!). Ég held ekki, en þau gera sér ef til vill ekki grein fyrir þeim möguleika; sjá ef til vill ekki út fyrir hina háu múrveggi sérhagsmunanna að tímar slíkra þröngsýnna sjónarmiða meðal lítillar þjóðar eru taldir.


mbl.is Össur fundaði með Rocard
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband