Færsluflokkur: Dægurmál

Skrýtið mál(far)

Skrýtið er það málfar sem amazon.com er hér sagt mæla fyrir um varðandi notkun bandstrika í orðum í ritverkum sem boðin eru til sölu á þeim vef. Ekki kemur fram hvort átt sé við bandstrik við skiptingu orða milli lína eða tengibandstrik í orðum eða orðasamböndum.

Hitt þykir mér ekki síður skrýtnara og verra mál ef það er rétt sem mér virðist mega halda við lestur á viðtengdri íslenskri frétt á mbl.is um málið að þar sé e.t.v. Google-þýðandi notaður við ritun fréttarinnar á afar hroðvirknislegan hátt.

Eftirfarandi er dæmi um setningarhluta í íslenskum texta fréttarinnar:

"Í svari til Amazon benti Reynolds á að það væri viður­kennd­ur aðferð í enskri rit­máli ..." !!!

Þetta er ekki eina setningin í fréttinni þar sem ekki er hirt um réttar beygingar í samræmi við íslenskt mál og málfræðireglur. Þykir mér illa komið ef mest lesni íslenski vefmiðillinn vandar ekki betur til verka en þetta. Ég ætla rétt að vona að viðkomandi fréttamaður á mbl.is sé ekki svona illa að sér í íslenskri réttritun.


mbl.is Tekin úr sölu vegna bandstrika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjuútvarp

Eitt af svörum þjóðkirkjunnar, væntanlega með biskup í broddi fylkingar, við útspili Ríkisútvarpsins um niðurfellingu morgun- og kvöldorða úr ranni þjóðkirkjunnar hlýtur að vera að setja á laggirnar eigin útvarpsstöð.
Furðu sætir að það skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu síðan.
Ýmsum sértrúarsöfnuðum í landinu, og það jafnvel harla smáum, hefur verið látinn sá vettvangur eftir hingað til. Almenningur gæti haldið að það sem þar er borið á borð sé jafnframt túlkun og áherslur þjóðkirkjunnar í trúarefnum, sem er náttúrulega ekki tilfellið.

Er ekki mál til komið að þjóðkirkjan láti líka í sér heyra á þeim vettvangi?


mbl.is Þjóðin vill hafa Þjóðkirkjuna í friði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta sumir fréttamenn ekki lesið sér til skilnings?

Það er sýnist mér orðin áleitin og grafalvarleg spurning hvort sumir fréttamenn geti ekki lesið sér til skilnings; Að það sé ekki bara bundið við 15 ára aldur grunnskóladrengja. Maður fer að hafa áhyggjur út af þessu; Ég verð nú að segja það, í ljósi meðtengdrar fréttar og fréttaskýringa.

Þarf að auka yndislestur og/eða taka upp lestrarkennslu í námi fjölmiðlafræðinga?


mbl.is Fullyrti ekki að hegðun fólks breyttist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hlustun afar lítil." - ?

Dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins réttlætir niðurfellingu rótgróinna daglegra dagskrárliða á Rás 1 um stutt innskot úr ranni Þjóðkirkjunnar um andleg efni með ummælum sínum: "Hlustun á þá hefur verið afar lítil", sbr. frétt í Morgunblaðinu 14.8.2014 bls. 2. Um er að ræða þættina "Orð kvöldsins" og "Morgunbæn".

Ekki kemur fram á hvaða könnunum sú fullyrðing er byggð og hvort þær kannanir hafi náð til allra aldurshópa, þ.e. einnig hóps "aldraðra" sem stundum eru ekki með í skoðanakönnunum. Nauðsynlegt er að fá það upplýst áður en yfirlýsingar dagskrárstjórans eru kokgleyptar hráar, ekki síst í ljósi þess að líklega er það einmitt sá hópur sem mest hefur hlustað á umrædda útvarpsþætti.

Hitt er annað að vel mætti ræða um breytta nálgun og efnistök í þáttunum þótt þeir hafi fyrst og fremst skírskotað til kristinnar hefðar með því tungutaki og orðfæri sem þar tíðkast.


mbl.is Vilja hafa hin kristnu gildi í heiðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um ófærur

Um hvern er biskup yfir Íslandi eiginlega að tala er hann tekur svo til orða prédikun sinni á þjóðhátíðardegi Íslands, þegar spjót sumra og furðu lostinna þegna landsins standa á stjórn og skipulagsmálum þjóðkirkjunnar:

„Hann var maður, með sína bresti og takmarkanir. Hvorki hann, né nokkur annar maður, karl eða kona, á kröfu til ginnhelgi og dýrkunar. Oft hefur krafan um ofurmennið, goðumlíka leiðtogann sem öll ráð og lausnir hefur í hendi sér, leitt þjóðir undir ný ánauðarok og helsi. Það eru ófærur."

Er hér verið að reyna að nota sjálfa sjálfstæðisþjóðhetju Íslendinga, persónu hans og afrek, á 200 ára ártíð hans til afsökunar á mannlegum brestum kirkjunnar manna og þeirra verka þeim til upplyftingar?
Og, tengja óeigingjörn og fórnfús afrek þjóðhetjunnar í þágu íslensku þjóðarinnar þar með við einstaklingaharmleiki biskupamála svokallaðra, málsaðilum til sáluhjálpar og frelsunar hér og nú?
Er það ef til vill einnig dæmi um "ófærur" villublindu, dúandi dý og kviksyndi?
Hvað segja þegnar Íslands, ekki síst þeir sem trúa á æðri máttarvöld fremur en kennisetningar og trúarstofnanir manna?
Svara þeir og aðrir einfaldlega með úrsögn úr þjóðkirkjunni?

 


mbl.is Biður þjóðina að horfa fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stormur í spábolla Veðurstofunnar

Þetta reyndist nú aðeins verða "smágustur" og ekkert líkt hvellinum um daginn sem Veðurstofan hótaði okkur veðurleysingjunum með sem í mesta sakleysi ætluðum að keyra niður Norðurárdalinn, fyrir Hafnarfjall og yfir Kjalarnes á Páskadag. Tókum við saman föggur okkar í skyndi um kvöldmatarleytið á laugardagskvöld þegar hin ógnþrungna spá Veðurstofunnar glumdi við og fórum þannig degi fyrr til Reykjavíkur en áformað var. Gusturinn rétt marði 30 m/sek samkvæmt mælinum við Hafnarfjall og rétt hnippti aðeins í bílinn þrotinn hinum ógurlegu kröftum. Hressileg rigning en enginn bíll á flugi. Hundurinn í skottinu geispaði hæðnislega út um opinn gluggann og lék við hvert sitt skott.

Hin ónákvæma frétt í Sjónvarpinu og á veðurkortinu á mbl.is um að hviður gætu farið í 40 m/sek "frá um 21 til 2 í nótt" reyndist því aðeins vera gustur á kortaborði Veðurstofunnar og hefði átt að hafa glugga lokaða þar á bæ. Ónákvæmnin í fréttaflutningnum fólst í því að ekki kom fram hvort "veðurofsinn" ætti að hefjast á þessu tímabili eða vara einungis á þessum umrædda tíma. Þess vegna dreif fólkið sig í bæinn strax og hægt var og var á seinni tímanum í 22 á laugardagskvöldið að gá til veðurs undir Hafnarfjalli á leiðinni heim úr páskafríi - fyrir páska!

Vonandi berast nákvæmari spár og fréttir af veðri í framtíðinni, þótt vissulega megi með einhverjum hnitmiðaðri hætti reyna að koma í veg fyrir að vegvilltir og viti firrtir fjallafarar ani upp á fjöll og firnindi og fari sér þar að voða sökum óaðgætni um veðurhorfur og neyði þar með fórnfúsa björgunarsveitarmenn til að færa þeim fórnir að óþörfu.


mbl.is Búist við hviðum strax í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegt við fyrstu sýn! - Og hlustun?

Manni, sem hefur vit á gæðum hljómburðar tónlistarhúsa, er vísað á dyr af hörku úr Hörpu við fyrstu formlegu hljóðprufu Sinfóníuhljómsveitarinnar þar; Tónlistarhúsi allra landsmanna! Hvað er hér á seyði?
Ég sé ekki betur en að þetta sé í ofanálag einn af sérfræðingunum í sígildri tónlist sem stóð sig frábærlega vel og gat sér og Íslandi gott orð í hinum frábæra sjónvarpsþætti Kontrapunkti Norðurlanda hér um árið.
Það hlýtur að vera ofboðslega góð ástæða hjá tónlistarstjóra Hörpu að neita Ríkharði um að vera viðstaddur, en hver hún er verður fróðlegt að heyra.
Vonandi er ekki hætta á að eitthvað hafi klúðrast í innréttingum tónlistarsala hússins eins og í útréttingum þess!
En, hvað um það. Spennandi er að heyra hvernig hljómburðurinn reynist vera á opnunartónleikunum.

PS. Nokkru síðar eftir birtingu þessarar smellnu "stórfréttar" á mbl.is kom viðbótar frétt með þeirri útskýringu á útkastinu að það hafi verið til komið sökum krafna frá erlenda fyrirtækinu sem hannaði hljómburð hússins. Þetta hafi aðeins verið hljóðprufa til að "stilla salinn", ekki til að gera hljómburðarlega úttekt á honum. Í viðbótarfréttinni segir m.a.:

"Steinunn [tónlistarstjórinn] segir að öllum fjölmiðlum hafi verið vísað burt þegar hljóðprufan hófst, ekki bara gagnrýnendum."

Þar höfum við það! Furðulega að PR-málum tónlistarhússins staðið? Það gæti hljómað þannig. Þarf e.t.v. fínstillingu!


mbl.is Vísað úr Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsleitt tónlistarofríki útvarpsstöðva

Ég tek heilshugar undir með Jóhanni G. Jóhannssyni, hinum dugmikla og færa tónlistarmanni og lagahöfundi, þar sem hann segir um álit sitt á einhæfri tónlistar- og spilunarstefnu á Bylgjunni, 365:

"Þetta fyrirkomulag hefur stuðlað að einhæfu tónlistarvali, sérstaklega á nýrri íslenskri tónlist, ásamt ofspilun ákveðinna laga sem á endanum gengur af þeim dauðum. Ég fullyrði að þetta fælir burt tónlistarunnendur sem hafa annað viðhorf til tónlistar en að hún sé uppfyllingarefni á milli auglýsinga. Tónlistarmenn hafa lengi verið ósáttir við hvernig þessum málum er háttað á Bylgjunni, þó það hafi ekki farið mjög hátt, enda ekki gott að fá tónlistarráðið upp á móti sér."

Hin einhæfa tónlistarstefna á Bylgjunni, sem lýsir sér m.a. í tiltölulega þröngu vali íslenskra tónlistarmanna, er pirrandi og umfram allt það leiðigjörn til lengdar að maður hlustar ekki á Bylgjuna. Þessi stefna ætti fyrir löngu að hafa kafsiglt Bylgjuna fjárhagslega séð ef allt væri með eðlilegum hætti, skyldi maður ætla. En, það er endalaust "dokað við" hið gamalkunna, ofspilaða og væmna.
Það er svo sem allt í lagi út af fyrir sig, þar sem útvarpsstöðin ræður vissulega lagavali sínu, Guði sé lof fyrir tjáningarfrelsið! Stöðin gerir greinilega út á meintan hóp hugsanlegra áheyrenda sem líkar það lagaval. Virðist stöðin jafnframt telja að sá hópur sé tónlistarlega séð staðnaður og vilji ekkert annað og tekur af honum það ómak að þurfa að ákveða að prófa eitthvað nýtt og þroska smekk sinn. En, svar óánægðra hlustenda, sem vita af fjölbreyttri tónlist annars staðar, er einfalt. Þetta er því ekkert vandamál ef framboð á útvarpsstöðvum er nægilegt. Þar stendur hnífurinn þó í kúnni.

Ábendingum Jóhanns G. til Bylgjunnar/365-miðla ætti hins vegar að vera tekið fagnandi þar á þeim bæ þar sem þau sjónarmið sem hann viðrar henta umfram allt til þess að auka líkur á hlustun á hinni oft á tíðum væmnu Bylgju með útvíkkuðum sjóndeildarhring.

Hitt er annað, að dagskrárgerðarmenn á RÚV ættu líka að hugsa sinn gang í þessu sambandi, þar sem allt of oft ber á einsleitri spilun þar líka. Sumir gamalgrónir tónlistarmenn sem mega muna sinn fífil fegri og frumlegri virðast eiga þar endalausa heimkomu og spilun á hverju sem gengur í tímans rás, meðan aragrúi nýrra listamanna með fersk lög og flutning eiga ekki upp á tónlistarborðið þar, hvað þá plötuspilarann.
Það mun koma að því að þessa tónlistarmenn bresti langlundargeð, undirlægjuhátt og minnimáttarkennd og krefjist þess að almennri jafnræðisreglu verði beitt á þessu sviði og allir sitji við sama borð varðandi möguleika á spilun í útvarpi allra landsmanna.


mbl.is Bannar Bylgjunni að spila lög sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt jákvætt tón-fréttastef í Sjónvarpinu

Ég vonaði að kynnt yrði nýtt fréttastef í Sjónvarpinu á ársafmæli hrunsins. Sú von brást - í bili. Þess vegna vek ég athygli á eftirfarandi atriðum og legg fram tillögu til úrbóta, fólkinu í landinu til heilla.

Ástæðan er sú að mér finnst þetta drungalega, ömurlega og niðurdrepandi dómsdagsstef vera samnefnari og boðberi hrollvekjandi tíðinda í hvert einasta sinn sem það heyrist á undan fréttatímum í Sjónvarpinu. Sérstaklega endastefið með dimmmmmmmu hamarshöggunum-mmmm á lágu bassanótunum á píanóinu.
Þetta varð einhvern veginn samofið kvíðvænlegum fréttum oft á dag við hrunið síðasta haust. Í hvert sinn sem það heyrist í aðdraganda fréttatíma taka magavöðvarnir kipp, skrokkurinn stífnar, köldum svita slær út um allan líkamann og stjarfir eða titrandi og á nálum setjast sjónvarpsáhorfendur sem negldir fyrir framan tæki sín eins og fórnarlömb sem bíða dómsins. Þetta er ekki uppbyggilegt fyrir fólk og mál og þörf að linni.

Núna erum við búin að hafa þennan ömurlega og ógnvekjandi drungatón hamrandi í eyrunum í heilt ár sem sífelldan boðbera óheillavænlegra og neikvæðra frétta. Nú er nóg komið. Nú eru tímamót.
Nú þarf að breyta til og skipta yfir í jákvæðari, uppbyggilegri og glaðlegri tón sem vekur bjartsýni og eykur kraft og dug.
Nú þurfum við boðbera góðra frétta klingjandi í eyrunum daglega, oft á dag, sem boðar og undirstrikar nýja,  batnandi og betri tíma. Tíð uppbyggingar.

Undir öllum kringumstæðum er þjóðþrifamál að breyta um tónstef hið snarasta og segja þar með skilið við þetta stikkorðs-ígildi hrunsins.

Væri til of mikils mælst, kæra rúv, að hugleiða málið og fá snjalla tónstefjahöfunda til að framleiða skemmtileg stef í jákvæðum og glaðværum anda í ljósi ofangreindra atriða og taka það í notkun eins fljótt og mögulegt er? Stefin mega gjarnan vera fleiri en eitt, til að hafa til skiptis eftir tilefni.

Hvernig væri til dæmis að efna til samkeppni um svona fréttastef og láta þjóðina síðan kjósa sín stef með því að velja á milli frambærilegra tillagna?

PS. Ég tek það fram, að fyrst þegar umrætt tónstef var tekið upp í Sjónvarpinu fannst mér stefið mjög flott og töff og viðeigandi inngangsstef fyrir fréttatíma, enda er það frábært út af fyrir sig sem slíkt og höfundi sínum til sóma; það er ekki málið. Ég er einungis að benda á að nú finnst mér þetta magnaða stef orðið svo samgróið öllum hinum neikvæðu tilfinningum í tengslum við hrunið, hliðstætt því er góð kvikmyndatónlist nær að magna upp hughrif undir dramatískum og óhugnanlegum atburðum í viðkomandi kvikmyndaratriðum.


Enginn veit

...hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Höldum því friðinn!

Öfund né við illskuþrætu
okkar gjörðir miðum.
Stríð þá aldrei staðið gætu
stór né smá í sniðum.
. . .
Ég bið konur og ég bið menn
og allar þjóðir skilja:
Klikkuð stríð má kæfa enn
með kærleika og vilja.
          (Kristinn Snævar Jónsson; úr textum á plötunni "Lífsins gangur" (C) )

Lifi fagnaðarerindi John Lennon við áheyrendur sína um kærleika og frið: "All you need is love"; .."living life in peace".


mbl.is Yoko Ono blæs til tónleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband