Viðvörun Einars Þveræings

Þessi fréttaskýring Financial Times minnir vel á röksemdafærslu Einars Þveræings forðum er hann varaði Íslendinga við að selja nafna Grímsstaða á Fjöllum, Grímsey á hafi úti, til erlends konungsríkis. Benti hann m.a. á að þar gæti erlendur her komið sér fyrir í tengslum við undirbúning á innrás í landið án þess að Íslendingar gætu fengið við það ráðið.
Það er opin spurning hvort svo er í pottinn búið nú og virðist sem svo að við stöndum nú í sömu sporum og landar Þveræingsins varðandi hvað gera skuli. Var þetta rætin þjóðernishyggja hjá Einari sem átti sér ekki stoð í raunveruleikanum eða raunveruleg ógn?

Ekki skal ég segja um hvort "landtaka" vaki fyrir Kínverjum, þ.e. kínverska ríkinu, sem efalítið tengjast einkaframtaki Nubo meira en minna. Hitt er annað að mjög líklega yrði hér um að ræða "innrás" kínversks vinnuafls í tengslum við uppbyggingu aðstöðu þeirrar sem Nubo segist muni ráðast í fái hann landið til eignar. Það yrði bara að koma í ljós hve stór hluti það yrði af heildarmannafla á svæðinu til skemmri og lengri tíma.

Hér er væntanlega ekki einungis um að ræða uppbyggingu ferðamannaaðstöðu á Grímsstöðum til skamms tíma litið heldur hlýtur Nubo og þeir sem að baki honum standa að horfa til þess að skipaleið um Norður-Íshaf opinist í náinni framtíð með umskipunarhöfnum og tilheyrandi uppbyggingu í tengslum við það á Norð-Austurlandi í kjölfarið. Einnig gæti það tengst auðlindanýtingu á austurströnd Grænlands er þá kæmi til. Þá kemur sér vel að hafa land til umráða í grennd þar sem hægt er að byggja upp heilan kaupstað, heilan "her" íbúa. Spurning er hvort íbúar þeirrar byggðar yrðu (kínverskir) ferðamenn eða starfsmenn.

Þá er einnig óljóst ennþá hvernig háttar til með nýtingu auðlinda á svæðinu, svo sem vatns.

Það er rétt hjá innanríkisráðherranum að hér þarf að skoða mál frá öllum hliðum, bæði kosti og galla til bæði skamms og langs tíma og taka síðan yfirvegaða ákvörðun á þeim grunni. Þar koma sjálfsagt einnig tilfinningaleg rök til álita ásamt þeim pólitísku.

Hitt er annað að ekki ber að slá spennandi möguleika út af borðinu fyrirfram að óathuguðu máli vegna pólitískra fordóma. Menn skulu ekki gleyma því að ef á annað borð er óskað eftir almennum erlendum fjárfestingum hérlendis þá verður ekki bæði haldið og sleppt.
Ef kemur á daginn við athugun að þetta snúist einfaldlega um uppbyggingu einstakrar ferðamannaparadísar á fjöllum eins og Nubo talar um sem laðar að gull er verður að grænum skógum, en ekki aðstöðu fyrir "innrásarher" a la Einar Þveræing eða auðlindatöku án fyrirfram gerðra nýtingarsamninga við íslenska ríkið, þá virðist þetta spennandi kostur.

Nú þarf að leggjast undir feld - en samt ekki lengur en í "þrjá daga". M.a. þarf að huga að lögum og hugsanlegri viðbótar lagasetningu er varða nýtingu erlendra aðila á auðlindum og aðstöðu hérlendis, svo að hagsmunir Íslendinga verði ekki (óvart) fyrir borð bornir.


mbl.is Gæti aukið áhrif Kínverja í N-Atlantshafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Í alþjóða milliríkja viðskipum gildir jafnvægi. Vilji Kínversk  kenntala einast parti grunni reiðfjár ávöxtunar á Íslandi, er fyst sem kemur í huga að tryggja sér part í jafnvirðis part í í Kínverskum grunni sem tryggir sömu reiðfjárávöxtun.  Allvega til að heyra Kínversk rök.  Ég sé mér fiskréttarverksmiðju sem sellur inn á Lúxus Kínversk Hótel.

Fyrirvari um að eignaréttur sé alltaf gagnkvæmur sami gróði fara úr Íslandi og kemur inn í það frá Kína.

Júlíus Björnsson, 30.8.2011 kl. 00:48

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kannski hefðu íslenskir stjórnmálamenn átt að taka í sig kjark og þora að opna umræðu um samskipti við útlendinga á breiðum grundvelli.

Stjórnmálamenn okkar hafa ævinlega skriðið í felur og drepið þessu umræðuefni á dreif af ótta við að fá á sig stimpil rasisma og þjóðernishyggju.

Þjóðernishyggja er nú reyndar hugtak sem fæstir þeir skilja sem bera sér það í munn en það hefur náð fælingarstigi svarta- dauða í umræðu fólks.

Árni Gunnarsson, 30.8.2011 kl. 09:00

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Já, Júlíus. Kínverjar virðast vera opnir fyrir gagnkvæmni í samskiptum við íslenska ríkið. A.m.k. bendir samningur um gagnkvæmni íslensks og kínversks gjaldmiðils í viðskiptum til þess. Kínverjar hugsa í áratugum og hlutfallslega mannmargt sendiráð þeirra hérlendis bendir til að þeir hafi miklar hugmyndir um Ísland í langtímaáætlun sinni.

Undraverð og nánast ótrúleg tilkoma kínverskra auðmanna, athafnamanna og fjárfesta að vestrænni fyrirmynd, í kínversku kommúnistísku miðstýrðu samfélagi og út á við vekur spurningar um hvort þetta sé skipulögð og dulbúin aðferð kínverska ríkisins til að koma ár sinni fyrir borð á erlendum vettvangi þar sem ekki væri stætt fyrir opinbera fulltrúa þess að athafna sig í nafni þess og Kína. Það væri "tær snilld". Augljós leið til þess arna væru fjárfestingar kínverkra fjárfesta í landi, auðlindum og aðstöðu undir yfirskini ferðaiðnaðar.

Ef eitthvað í þessa átt er að gerast í dæmi Nubo er þeim mun nauðsynlegra að rætt sé um málið á réttum forsendum. Erum við þá ekki komin í hliðstæðar umræður og Íslendingar áttu við NATO um að reisa herstöð á Miðnesheiði og Keflavíkurvelli á sínum tíma?

Kristinn Snævar Jónsson, 30.8.2011 kl. 11:55

4 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Árni. Þetta með hugsanlegar ástæður Einars Þveræings til andófs í Grímseyjarsölumálinu er verðugt íhugunarefni, ekki síst nú. Ekki hef ég rannsakað það neitt og byggi einungis á minni úr Íslandssögunni Fyrsta hefti sem við öll lærðum af andagt í barnaskólanum forðum. Þetta er eitt af þeim atriðum þar sem vöktu athygli mína þá.

Hvað segja sagnfræðingarnir, bókmenntafræðingarnir og heimspekingarnir sem kunna að hafa pælt í Einari Þveræingi? Er þessi frásögn e.t.v. dæmi um mælskufræðilega skáldsögu eins og margt annað þess legt í Íslendingasögunum, sem er kjörin aðferð til að koma viðkomandi boðskap á framfæri við áheyrendur og lesendur? (Hér erum við að vísu komin nokkuð langt út fyrir frumtilefni þessa bloggpistils, þ.e. um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi, en þetta er samt flötur sem tengist íslenskri orðræðu um slík mál).

Kristinn Snævar Jónsson, 30.8.2011 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband