Færsluflokkur: Umhverfismál

Ókeypis náttúruparadís liggur undir skemmdum

Þessu verður að breyta þar sem svona háttar til, eins og lýst er í meðfylgjandi frétt um slæma umgengni og sóðaskap í einni af náttúruparadísum Íslands.
Tekjur verða að fylgja tilkostnaði. Sá sem ber kostnað af ferðamannastraumi ætti að njóta tilhlýðilegra tekna fyrir.

Ég spyr ágæta og greiðuga landeigendur Hreðavatnslands hvort þeir hafi íhugað að stofna t.d. "Sveitagarð" með einhverri ferðavænni aðstöðu sem þeir síðan gætu haft einhverjar tekjur af til að fjármagna aðstöðu og eftirlit, hliðstætt og eigendur Bláa lónsins hafa gert þar. Þar kemst enginn inn nema þeir sem kaupa sér aðgang að því sem þar er í boði - og fuglinn fljúgandi.

Það er t.d. skömm hópferðafyrirtækja að hagnýta sér þessa aðstöðu án þess að greiða fyrir.
Fyrir utan frábært og fallegt landslag og gróðursælt unaðslegt umhverfi þarna, sem indælt er að ganga um niður að fossinum Glanna og lautarferðastaðnum Paradísarlaut, þá hafa landeigendur látið reisa flottan útsýnispall ofan við fossinn Glanna á sinn kostnað. Fyrir utan annað er hægt að fylgjast þar með löxunum undir fossinum og stórlöxunum á árbakkanum neðar. Mér skilst að landeigendurnir hafi fengið einhverja hungurlús í styrk frá hinu opinbera upp í framkvæmdina á sínum tíma og er það allt og sumt.
Þarna kemur sægur hópferðabíla og ferðafólks á einkabílum daglega yfir allt sumarið og meira en það þannig að oft myndast örtröð á bílastæðinu sem er við golfskála Golfklúbbsins Glanna (GGB). Golfskálinn býður einnig upp á þrifalega salernisaðstöðu sem opin er allan sólarhringinn. Þar er notendum þó í sjálfs vald sett hvort þeir leggi fram einhverja aura fyrir aðstöðuna og fá skálaeigendur þannig lítið fyrir sinn snúð. 

Langlundargeð forráðamanna svæðisins við Glanna í Hreðavatnslandi er aðdáunarvert. Vonandi verður dásamlegt umhverfið þarna ekki skemmt með óhóflegum átroðningi vegna hinna frjálsu ókeypis afnota og eftirlitsleysis.
Þetta á náttúrulega við um aðrar náttúruparadísir þar sem svona háttar til.


mbl.is Slæm umgengni og sóðaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur og mannfjölgunarvandi heimsins

Er óheftur hagvöxtur á heimsvísu lausn alls?

Í frétt á mbl.is 6. júní 2016 með yfirskriftinni „Þrjú börn að minnsta kosti“ er greint frá því að Tyrklandsforseti hafi eindregið hvatt þegna sína og trúbræður til barneigna. Haft er eftir honum „að „engir múslimar“ ættu að íhuga að nota getnaðarvarnir“ og að hann hafi „hvatt konur til þess að eignast að minnsta kosti þrjú börn“. „Við munum margfalda afkomendur okkar“ er haft eftir honum.

Þessi frétt ber með sér að þar fari saman hvatningar íslamsks þjóðhöfðingja, í anda íslam, og kaþólsku kirkjunnar um aukningu barneigna og gegn notkun getnaðarvarna. Fátt er sterkara en hvatningar og trúarleg "lög" og kennisetningar á grunni trúarbragða og hvers kyns innræting um breytni fólks á þeim grunni.

Með slíkum innrætingarhvatningum er skellt skollaeyrum við fólksfjölgunarvanda heimsins sem er ein af frumorsökum ágangs á auðlindir Jarðar og staðbundinnar og hnattrænnar mengunar. Hvað trúboð og áróður, ef ekki valdboð, umrædds forseta varðar í krafti síns embættis sem leiðtoga lands síns hefur það væntanlega einnig einhver áhrif á alla landa hans og trúbræður þeirra hvar sem þeir eru, líka í öðrum löndum Evrópu þar sem þeir eru fjölmennir.

Páfinn ásamt öðrum kaþólskum trúarleiðtogum hefur hliðstæð trúarleg hvetjandi áhrif innan kaþólsku kirkjunnar, hvar í heimi sem hún teygir anga sína.

Spurning er hvernig hægt er að bregðast við þessari hvatningastefnu um barneignir í nafni trúarbragða, ekki síst ofangreindra, áður en fólksfjölgunin og fólksfjöldinn í heiminum verður til slíkrar eyðingar á gæðum Jarðar að skaðinn verði óafturkallanlegur með tilheyrandi hörmungum fyrir allt líf í vistkerfi okkar, Flóru og Fánu.

Reyndar hafa þær skoðanir verið viðraðar fyrir áratugum síðan af fræðimönnum og fólki, sem lætur sig þessi vandamál varða, að í óefni stefni og jafnvel að þegar hafi verið farið yfir mörk hnattrænnar sjálfbærni til lengri tíma litið. Í tímamótaskýrslu á vegum Rómarklúbbsins, The Limits to Growth frá 1972 eftir Dennis L. Meadows o.fl. (í danskri þýðingin Grænser for vækst, Gyldendal 1974), voru dregnar upp dökkar horfur í þessum efnum ef fram færi eins og horfði þá. Sbr. einnig bókin Mankind at the Turning Point eftir Mesarovic & Pestel (í danskri þýðingu Hvilke grænser for vækst?, Gyldendal 1975). Mannfjöldinn í heiminum hefur vaxið með veldisvexti og heldur enn áfram á þeirri braut. Það gengur náttúrulega ekki til lengdar endalaust án hörmulegra afleiðinga.

Lítið raunhæft umfram umræður og ráðstefnur er samt aðhafst í alþjóðasamfélaginu til að stemma stigu við þessari óheillavænlegu þróun.
Fulltrúar þjóðríkja tala á alþjóðlegum ráðstefnum um hnattræn vandamál en ekki virðist þar komist nægilega beinskeytt að rótum þessa vanda, sem er offjölgunarvandamál mannkyns. Lýsandi dæmi um þetta er til dæmis alþjóðleg ráðstefna um sjálfbæra þróun á vegum einnar deildar Sameinuðu þjóðanna, „The Third International Conference on Financing for Development“, sem haldin var í Addis Ababa 13.-16. júlí 2015. Þar voru sett fram 17 stefnumið og þar undir 169 markmið, „Sustainable Development Goals“, sem meðlimalöndin myndu stefna að varðandi velferð Jarðarbúa og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum, sbr. The Addis Ababa Action Agenda (AAAA, A/RES/69/313). Þessi markmið voru einnig sundurliðuð í sér skjali þar sem tiltekin áform um tilsvarandi aðferðir og aðgerðir eru tengd við hvert markmið um sig. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fylgdi niðurstöðum ráðstefnunnar eftir með meðal annars ályktun 22. desember 2015.

Fljótt á litið er þó í þessum gögnum því miður hvergi minnst berum orðum á undirliggjandi offjölgunarvanda mannkyns eða sérstök viðbrögð við honum; eins og hann sé ekki til staðar.

Í viðtalsþætti Sjónvarpsins 14. júní 2016 við umhverfissérfræðinginn dr. Jane Godall kom fram hjá henni að ef allir íbúar Jarðar nytu sömu lífskjara og viðhefðu sama lífsstíl og við Evrópubúar nú þyrfti um fjórar til fimm plánetur á við Jörð til að standa undir og viðhalda þeirri neyslu og auðlindanýtingu. (birt 18.6.2016 á Sarpinum á RÚV).

Til samanburðar sýna útreikningar Global Footprint Network á vistspori („Ecological Footprint“) mannkyns á Jörðu að núverandi notkun auðlinda og losun koltvísýrings krefst ígildis 1,6 Jarða til að viðhalda sjálfbærni. Þar sem við höfum vitanlega einungis eina Jörð sést að í mikið óefni er komið og virkra aðgerða er þörf.

Að hvetja stóran hluta mannkyns til enn hraðari fjölgunar, eins og leiðtogar og fylgjendur ofangreindra trúarbragða gera, þegar þörf er á hinu gagnstæða, er augljóslega óábyrg og veruleikafirrt stefna sem bætir á vanda mannkyns að öðru óbreyttu. Ábyrgð allra þeirra þjóða og alþjóðlegra stofnana sem aðhafast ekki með virkum aðferðum til að stemma stigu við fólksfjölgunarvanda mannkyns er mikil og meiri en orð fá lýst.

Í ofangreindu ljósi ber að huga að nýjum lausnum fyrir vegferð og velferð mannkyns heldur en áframhaldandi óheftum hagvexti á heimsvísu meðan stætt er, en sú feigðarstefna endar að óbreyttu með hörmungum fyrir alla.
Nú er spurning hvort m.a. afleiðingar af „Brexit“ með tilkomandi endurskipulagningu efnahagskerfa landanna geti beint þjóðríkjum heims inn á farsælli brautir í þessum efnum.


mbl.is Obama: Brexit ógnar hagvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir borgi sem njóta

Ég hef áður ritað pistil um gjaldtöku á (vinsælum) ferðamannastöðum á Íslandi þannig að aðgangseyrir þar af renni til uppbyggingar og viðhalds á viðkomandi stöðum. Þetta verði framkvæmt samkvæmt reglum sem settar verði af hinu opinbera þar um og háð eftirliti. Þannig er þetta víða erlendis.

Það er glórulaust að fyrirtæki í ferðamannabransanum geti gert út á þessa staði án þess þeir eða viðskiptavinir þeirra kosti nokkru til sjálfir. Hingað til og enn þá eru þeir að gera út á náttúru Íslans og opinber framlög skattgreiðenda hérlendis.
Það er ennfremur í anda óhefts og stjórnlauss aðgangs allra að sömu auðlindinni sem leiðir að lokum til mettunar á vinsælum stöðum og óhagræðis fyrir alla þegar staðirnir missa aðdráttarafl sitt vegna ásóknar, átroðnings, mannmergðar og niðurníðslu.


mbl.is Milljónirnar 50 ekki nóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið sem lengi var

Ómar Ragnarsson bendir á það á bloggsíðu sinni í sambandi við óvarkárt bruðl á náttúruauðlindum að við skulum ekki gleyma því að við höfum aðeins eina jörð.

Hegðun þjóða heims í þeim efnum gæti þó fremur bent til að litið væri á auðlindirnar sem óþrjótandi.

Það er hins vegar sannarlega svo að við höfum aðeins þessa einu undursamlegu Jörð til að lifa á og af.  Þó hefur hún bókstaflega verið fótum troðin og aldrei eins og nú, af um fjórtán milljörðum fótum manna sem fer enn ört fjölgandi. Þá eru ótaldir fætur dýranna og landnýtingarvélar og farartæki mannanna og síétandi munnar milljarða manna og dýra. Þetta getur ekki gengið til langframa með sama hætti og hingað til.

Vandamálin sem blasa við eru þverrandi auðlindir sem nauðsynlegar eru mannkyni (og dýrum) til lífsviðurværis, landeyðing og mengun lífrýmisins á landi, í lofti og höfum. Þessu veldur, eðli málsins samkvæmt, sívaxandi mannfjöldi og nánast stjórnlaus mannfjölgun og ósjálfbærir lifnaðarhættir og rányrkja.
Skýrsla Rómarklúbbsins svonefnda frá 1972, sem fram kemur í bókinni The Limits to Growth (Meadows o.fl.; Hjá Gyldendal 1974 Grænser for vækst) olli ýmsum “léttu” sjokki á sínum tíma, þar á meðal mér sem ásamt fleiru hefur haft varanleg áhrif á mig í þessum efnum.
Það var ekki síst vegna þess að í kjölfar hennar skall á svokölluð “olíukreppa” í Evrópu 1973 vegna tímabundinnar minnkunar á framboði á olíu meðal OPEC-ríkjanna sem vildu fá meira fyrir sinn snúð. Þá varð t.d. í Danmörku að grípa til skömmtunar á olíu og bensíni og takmörkunar á raforkunotkun. Á Íslandi varð fólk að vísu ekki mikið vart við þetta ástand vegna þess að olía rann þangað óhindrað annars staðar frá (Rússlandi) eftir sem áður.
Ég var þá við nám í Kaupmannahöfn á þessum tíma og þar var olía til húshitunar skömmtuð veturinn 1973-‘74 og sömuleiðis eldsneyti á bíla. Íbúðir voru því án miðstöðvarhitunar meirihluta vikunnar og einungis kalt vatn úr krönum og sturtum samhliða því og rafmagn þurfti að spara eins og mögulegt var.
Þetta ástand sýndi “svart á hvítu”, beint í æð, hvers gæti verið að vænta er auðlindir eins og olía væru raunverulega orðnar af skornum skammti.

Árið 1998 gaf ég út plötuna Kveikjur (CD) með eigin efni flutt af “landsliði” tónlistarmanna, sem inniheldur m.a. nokkur lög með textum með náttúrulegum hugvekjum, en þá stóðu deilur um fyrirhugaða Eyjabakkavirkjun sem hæst og vildi ég með þessum hætti leggja lóð á vogarskálar. Þar á meðal er lagið “Landið sem lengi var”, þar sem varpað er fram nokkrum “sviðsmyndum” um þessi efni. Hægt er að hlusta á það hér í spilaranum mínum.

Textinn við lagið er eftirfarandi:

 

Landið sem lengi var

Kveikjur 1998. © Höf. Kristinn Snævar Jónsson)

 

Hve yndisleg sýnir sig okkar Jörð,

þar sem ósnortin náttúran rís.

Um árþúsundir hafa erjað svörð:

Eldur, vatn, vindur og ís.

 

Og fallega hefur svo flóran klætt

fjöll og merkur í snilldarlegt skrúð.

En öllu þessu er orðið mjög hætt,

ef ekki er betur að hlúð.

 

(Viðlag):

 

Því landið, sem svo lengi var;

laust við mannanna umrót og þrengingar.

Það er svo viðkvæmt og auðveld bráð;

öllu umturnað verður ef ekki - að er gáð.

 

Grandað er lífi, af gróðri sneitt,

og geigvænleg mengun er leyfð.

Rist er í jörð og regnskógum eytt,

við rányrkju spornað með deyfð.

 

(Viðlag)

 

Þá börnunum okkar við bjóðum stað,

þar sem bergmálar aldanna kyrrð.

Þeim ómetanlegt er að upplifa það,

sem ósnortið kom úr ára firð.


mbl.is Galið að eyða helíum í partíblöðrur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirspurn mætt með framboði á Þingvöllum

Í frétt af viðvarandi og vaxandi bílastæðaskorti á Þingvöllum og nágrenni ætti að vera augljóst mál að úr því þarf að bæta hið snarasta og þó fyrr hefði verið.

Gera má afgirt bílastæði eins og við flugstöð Leifs Eiríkssonar með hæfilegri gjaldtöku, jafnvel háð tíma dagsins, dögum innan vikunnar og mánuðum ársins. Allt einfalt og skilvirkt í framkvæmd.
Sérstök bílastæði yrðu fyrir hópferðabíla, bæði við Hakið og niðri á Þingvöllum, og hærra gjald fyrir stærri bíla þannig að einhvers konar meðalgjald pr. mann verði í æskulegu samræmi bæði fyrir fólk í litlum og stórum bílum.
Miðað við upplýsingar um fjölda ferðamanna yrði fjárfesting í bílastæðum fljót að greiða sig upp og verða að varanlegri tekjulind til hagsbóta fyrir svæðið og ferðafólk. Ef til vill þyrfti ekki að viðhafa frekari gjaldtöku á Þingvöllum en fyrir bílastæðin.

Einhver kann að benda á að sumir myndu reyna að komast hjá því að leggja í gjaldskyld bílastæði. Yfirvofandi rassíur umferðarlögreglu á svæðinu með viðeigandi sektum ættu að slá á þær freistingar ferðafólks.
Einnig mætti hreinlega gera ráð fyrir slíkum "ofur-sparendum" með því að breikka vegkantinn á síðustu kílómetrunum að fólkvanginum sem hægt væri að leggja á og gera gangstíga frá þeim inn á svæðið. Þar með væri þeirri bílaánauð að nokkru létt af fólkvanginum án þess að gera sérstök áberandi og jafnvel illa þokkuð malbikuð bílastæði í náttúruperlunni til að anna öllum umferðarþunganum þar.


mbl.is Bílastæðaskortur á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænar prédikanir

Það er hið besta mál hjá sr. Pálma Matthíassyni að lesa prédikanir sínar beint af spjaldtölvu í stað þess að prenta þær út á pappír til aflestrar. Það eru umhverfisvænar prédikanir að formi til. Það er til fyrirmyndar og eftirbreytni almennt.

Ekki síður skiptir það þó máli hvað um er rætt í prédikunum og hvað söfnuðinum er boðað. Vonandi er það allt umhverfisvænt og heilsusamlegt fyrir áheyrendur, bæði andlega og efnislega velferð þeirra, þeim til hjálpar, fyrirmyndar og eftirbreytni. Ekki fara sögur af prédikunarefni í viðhangandi frétt, en ekki er ástæða til að ætla annað en að það sé í uppbyggilegum anda og víðsýni.


mbl.is iPadinn gagnlegur í guðsþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak á Blönduósi

Þetta eru ánægjulegar fréttir sem berast úr hvamminum fagra. Þarna er fyrrum kostnaði breytt í tekjulind. Ég er handviss um að fleiri slík tækifæri leynast ef vel er að gáð og hugsað út fyrir kassann og út fyrir gamla farið.

Gamli bærinn er alltaf flottur með gömlu kirkjuna og Helgafell í forgrunni.
PS. Ég vona að ekki sé búið að eyðileggja og farga innviðum kirkjuhússins, súlunum og milligólfinu og kórnum - né heldur prédikunarstólnum.


mbl.is Fitan auðlind en ekki vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sinubruni hjá bændum í Borgarfirði

Nú brennur sina í Borgarfirði og leggur þykkan dauðmengandi reykjamökk upp eftir Norðurárdal í hægum andvara af suð-suðvestan.

Dimmir verulega í lofti og sést varla til sólar, sem skein glatt á heiðskírum himni áður en ófögnuðurinn gaus upp.

Ekki kemur fram í lélegri fréttinni hvort bændur hafi sjálfir kveikt ósómann eða hvort eldur hafi kviknað fyrir slysni.

Hafi þetta verið vísvitandi gert af bændum eru viðkomandi  varla með fullu viti og búnir að gleyma stórbrunanum í gróðri á Borgarfjarðarmýrum fyrir nokkrum árum. Einnig kæra þeir sig þá kollótta og sauðflekkótta um það að einmitt um helgar eru hinir fjölmörgu sumarbústaðir í hinum fagra Borgarfirði sneisafullir af fólki sem komið er langt að til að njóta paradísarinnar þar í sveit og súrefni; Hefði þá verið viti nær að brenna sinu ekki um helgar af tillitssemi við gestina.

Spurningin er: Kveiktu bændur umhverfismengandi og lífeyðandi ófriðarbálið af ásetningi?


mbl.is Sinueldur í Borgarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða um íslenska almannahagsmuni í hnattvæddum heimi

Pistlahöfundurinn Páll Vilhjálmsson bendir á það í pistli sínum í dag að norskur fréttamiðill hafi metið tilsvör bankastjóra Seðlabanka Íslands nýverið um EES-samninginn að hann væri hreint “brjálæði”. Páll spyr í því ljósi hvort sama brjálæðið felist í hugsanlegum samningi við Evrópusambandið.

Þessar spurningar vekja athygli á “glóbaliseringu” eða hnattvæðingu efnahagslífsins yfirleitt og afleiðingum hennar fyrir nærsamfélagið í víðara samhengi.
Í ljósi samninga íslenskra stjórnvalda við EFTA 1970 og EES upp úr 1990 og algleymi hnattvæðingar undanfarna áratugi er við hæfi að spyrja sig hvað hafi valdið hruni iðnaðarins á t.d. Akureyri sem þar blómstraði um miðja 20. öld og enn kringum 1970.
 Hvort vildu Akureyringar og fleiri sem þannig háttar um hafa iðnaðinn sinn þar enn starfandi og blómstrandi, með heimafólki í launuðum störfum og rótgróna verkþekkingu, eða halda atvinnulausu fólki þar og annars staðar á landinu uppi með atvinnuleysisbótum og annarri félagslegri aðstoð eins og nú er?
Í hnotskurn er hið síðarnefnda (ásamt óhagræðinu af brottflutningi fólks) gjaldið sem nærsamfélagið greiðir nú fullu verði fyrir "ódýran" innflutningsvarning undanfarna áratugi.
Í ofanálag eru framleiðslutæki og verkþekking sem áður stóðu undir velmegun horfin á braut.
Sömuleiðis vald yfir eigin högum að umtalsverðu leyti.

Eftir fjármálahrunið hérlendis 2008 og gjaldeyrisþurrð ætti fólk að vera betur í stakk búið til að átta sig á raunverulegu verðmæti heimaframleiðslu þegar til lengri tíma er litið og í víðara samhengi en skammtímaávinnings.
Hverjir standa nú með pálmann, fyrrum laun og skattfé, í höndunum?
Er það atvinnulaust og sífækkandi heimafólk?
Er það vinnufólkið í Austurlöndum og víðar sem nú framleiðir hinn ódýra innflutningsvarning fyrir Vesturlönd á þrælakjörum og lúsarlaunum?
Hvað með fjölþjóðafyrirtækin? Hafa þau ekki komið hverjum þætti starfsemi sinni fyrir í þeim löndum sem þeim hentar og hagstæðast er frá þeirra eigin hagnaðarlega sjónarhorni, eðli málsins samkvæmt, allt frá öflun hráefna og úrvinnslu til sölu og dreifingar afurða og útgreiðslu arðs til eigenda sinna? Að hvaða leyti hirða þau um velferð nærsamfélagsins og þjóðríkja á hverjum stað? (Vissulega er þó ekki allt slæmt og fyrirtækin eru mismunandi að því leyti).
Að hvaða leyti hefur þessi þróun eflt nærsamfélagið á hverjum stað þar sem uppsprettur virðisaukningarinnar er að finna?

Ekki er að sjá annað en að skörp rýni hagfræðingsins John Kenneth Galbraith t.d. í bók hans Economics and the Public Purpose frá 1973 um þessi mál hafi komið illyrmislega fram í reynd síðan þá. (Galbraith var m.a. hagfræðiprófessor í Harvard og efnahagslegur ráðgjafi nokkurra forseta demókrata í Bandaríkjunum, þ.á.m. Kennedy).

Ekki er heldur hægt að segja annað en að á stefnuskrá hinna nýju stjórnmálasamtaka Samstöðu sé tekið vel á þessum og tengdum atriðum. Það sem ber að undirstrika er að efnahagsleg samskipti og viðskipti Íslands við útlönd séu á forsendum þjóðhagslegra almannahagsmuna Íslendinga.


mbl.is Samstaða er í skýjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr og heftur kapítalismi

Það er löngu kominn tími til að bregðast við aðsteðjandi vanda sem hlotist hefur af skefjalausum ágangi manna og sérstaklega fyrirtækja á vistkerfi Jarðar.
Meðan ekki eru reistar viðhlýtandi og öflugar skorður við hagnýtingu auðlinda og þröngsýnum aðferðum í því sambandi halda fyrirtæki, sérstaklega fjölþjóðafyrirtæki, áfram á sömu braut og hingað til: Að starfa fyrst og fremst út frá eigin hagnaðarmarkmiði án tillits til illa bætanlegs eða óbætanlegs skaða fyrir nærsamfélag manna, umhverfið og vistkerfið í heild, sem hlýst af starfseminni.
Hefta verður og koma í veg fyrir skaðleg áhrif óhefts kapítalisma. Til að skilja það þurfa Íslendingar ekki að líta lengra en til banka- og efnahagshrunsins hérlendis 2008 sem rústaði tilvistarlegar aðstæður fjölmargra fjölskyldna og fyrirtækja sökum m.a. óprúttinna manna/fyrirtækja, of rúmra leikreglna og laga og skorti á opinberu eftirliti.

Vandi umhverfis og vistkerfis Jarðar er þó öllu alvarlegri en hið afmarkaða íslenska hrun. Það er vandi allra jarðarbúa.
Allir íbúar Jarðar eiga að hafa eitthvað um það að segja hvernig efnahagskerfið sem hver og einn býr við tekur á þessum vanda. "Markaðurinn" leysir ekki þennan vanda af sjálfsdáðum ef ekki kemur til viðeigandi kostnaðarliður vegna umhverfisáhrifa sem allir ákvörðunaraðilar innan efnahagskerfisins, allt frá einstaklingum til stærstu fjölþjóðafyrirtækja og ríkisstjórna landa, verða og neyðast til að taka tillit til við rekstur fyrirtækja sinna, hvort sem um er að ræða rekstur heimilis eða fjölþjóðafyrirtækis.

Spurningin er að hvaða leyti samræmd og viðeigandi skattlagning og regluverk í öllum löndum dugi til.
Einnig þarf að verða hugarfarsbreyting hjá öllu fólki, hvort heldur sem er í hlutverki neytanda eða starfsmanns og framleiðanda.
Huga þarf og að nærsamfélaginu alls staðar, í öllum löndum. Ef til vill er það einn besti aðilinn til að hafa með höndum virkt eftirlitshlutverk í þessu samhengi - EF það virkar sem skyldi alls staðar í öllum löndum.

En, skapandi hugur og orð eru til alls fyrst. Viðtengd frétt um umræður um "umhverfisvænan kapítalisma" á alþjóðavettvangi í minningu hinnar fjörgömlu Ríó-samþykktar frá 1992 er liður í umhverfisvænni sköpun manna.
Hefjast þarf handa áður en jarðarbúar deyja unnvörpum úr mengun, súrefnis- og matarskorti af mannavöldum.

Ýmsir aðilar hafa í gegnum aldirnar vísað til orða Biblíunnar um það ráðsmennskuhlutverk manna á Jörðu að "gera sér hana undirgefna". Þessi orð hafa löngum verið mis- og rangtúlkuð bókstaflega í réttlætingarskini með þeim hörmulegum afleiðingum að vistkerfi er stórskaðað eða eyðilagt með óafturkræfum hætti. Rangtúlkunin felst í því að það að gera jörðina sér "undirgefna" felur ekki í sér að eyðileggja hana við það.
Eða, hvaða gagn hefur maður t.d. af hesti sínum með því að temja hann og gera hann sér þannig undirgefinn og drepa hann svo strax í kjölfarið t.d. með illri meðferð?!!!


mbl.is Umhverfisvænn kapítalismi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband