Færsluflokkur: Trúmál

Fólkið í sóknunum er kirkjan

Hárrétt athugað hjá Óskari Magnússyni bónda. Söfnðurinn er kirkjan, en gríska orðið fyrir "kirkju" merkir einmitt söfnuður, eða samsafn fólks.
Bóndinn hefur tekið eftir hinu augljósa, að mannskepnan er félagsvera, og að þannig söfnuður fyrirfinnst fyrst og fremst í nærsamfélaginu, í grasrótinni - enda bóndi kunnugur öllu er lýtur að grasi. 

Þetta er ennfremur sá grundvöllur sem guðfræðingurinn og heimspekingurinn Friedrich Schleiermacher (1768-1834), oft nefndur "faðir þjóðkirkjuhugtaksins", sá einna helst til að sporna við hinu hverfandi kirkjustarfi á sínum tíma í kjölfar Upplýsingastefnunnar. Hann benti m.a. á það að maðurinn er félagsvera og leiti eftir samfélagi við aðra til að deila með hugsunum og tilfinningum sínum. Hin sanna kirkja sé hvar sem trúaðir koma saman.

Meðal annarra hefur Dr. Gunnar Kristjánsson, fv. sóknarprestur, fjallað um hvernig rætur þjóðkirkjuhugtaksins liggi í kirkjuskilningi Schleiermacher. Við viðreisn kirkjunnar í Þýskalandi í byrjun 19. aldar hafi hann álitið að kirkjan þyrfti að verða kirkja fólksins að nýju. Einnig að kirkjan þurfi að ná fótfestu meðal fólksins fyrir boðskap sinn og hann verði því að eiga erindi við einstaklinginn og þar með þjóðina. Kirkjan, söfnuðurinn, þurfi að losna undan kirkjuvaldinu sjálfu (eins og það var þá þar í landi tengt ríkjandi konunglegu einveldi; innskot pistilhöfundar). Það gæti aðeins gerst með því að fólkið axlaði sjálft ábyrgð með nýju skipulagi, svo sem með sóknarnefndum og almennri virkni hins almenna safnaðarmeðlims. Þetta þýddi fráhvarf frá forræðishyggju þess tíma. - Þarna benti Schleiermacher á grunninn að hugmynd að þeirri þjóðkirkju sem síðar náði útbreiðslu, m.a. hérlendis. (Sbr. Gunnar Kristjánsson, 2002 : Rætur þjóðkirkjunnar- Um guðfræði Schleiermachers, Kirkjuritið 2002, 69 (2), s. 7-10.)

- Nú er spurning hvort hluti af því höggi sem íslenska þjóðkirkjan á nú undir að sækja felist í forræðishyggju er birtist í þeirri meintu miðstýringu gegnum Biskupsstofu sem grasrótarbóndinn gerir að umtalsefni.


mbl.is Sóknirnar eru kirkjan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar á föstudaginn langa

Séra dr. Gunnar Kristjánsson flutti að mínu mati stórmerkilega og upplýsandi prédikun í messu í Brautarholtskirkju sem útvarpað var á Rás1 á föstudaginn langa 18. apríl 2014. Hér neðar er vitnað orðrétt í nokkra staði í prédikun hans, en að sjálfsögðu er best að heyra hana og lesa í heild sinni til að meðtaka allan boðskap hennar á öllum forsendum hennar.

Gunnar kemur m.a. inn á trúarhugtakið eins og hann túlkar það að einu leyti (mínar leturbreytingar):

... „Lúther sagði að „aðeins með því að horfa til reynslu mannsins yrði guðfræðingurinn góður guðfræðingur“, það á einnig við um trúna, reynslan staðfestir trúna, hún opnar nýja vídd, þar sem maðurinn skynjar návist Guðs. Trúin snýst ekki um trúarkenningar eða trúarjátningar, heldur ekki um trúarlegt atferli. Hún snýst um reynslu mannsins, trúin er málefni mannsins, hún varðveitir þrá hans og löngun til Hans sem gefur honum hugrekki til að lifa og kjark til að vera manneskja.“ ...

Um hlutverk kirkjunnar í þessu samhengi segir séra Gunnar:

„Sú kirkja sem kennir sig við hinn krossfesta hlýtur að tala mál líðandi stundar, hún hlýtur að fást við reynslu mannsins og tilfinningar hans, spurningar hans um eigin tilvist. Í orðræðu trúarinnar býr sannleikur hennar, inntak og merking. Og „sannleikur trúarinnar birtist – svo ég vitni í franska félagsheimspekinginn Bruno Latour – í því að hún vekur okkur að nýju, hún kemur til móts við tilfinningu okkar fyrir merkingu þess að vera manneskja, merkingu þess að vera til.“ Með öðrum orðum: ekki eins og ég-laus múgurinn við krossinn, heldur eins og Hann sem gaf allt vegna þess sem er gott, fagurt og satt, vegna þeirrar heilögu þrenningar sem hvert mannsbarn þráir innst í hjarta sínu.
Í hinni trúarlegu orðræðu komum við orðum að því sem skiptir okkur mestu máli, já: öllu máli. Við notum trúarlega orðræðu um það dýrmætasta, um mannréttindi sem eru heilög, um virðingu mannsins sem er heilög, um ástina sem er heilög. Síðasta vígi mennskunnar er í hinu heilaga, þar sem maðurinn er óskráður, þar er hann án kennitölu, þar nær enginn til hans nema inn Heilagi, þar finnur hann sér borgið í faðmi hans, í trúnni er mennsku okkar borgið.“ ...

Séra Gunnar leggur áherslu á að greina merkingu krossins og þýðingu hans í samtímanum og segir hér m.a. í því sambandi:

„Hvers vegna er mynd hins krossfesta svo ágeng? Er það ekki vegna þess að hann er maðurinn sem við viljum líkjast, sem við viljum að móti þennan heim. Í mynd hins krossfesta birtist ímynd mennskunnar og mannúðarinnar sem á erindi til allra tíma og allra manna.
Við getum deilt um trúarkenningar og trúfræði – en gegnir ekki öðru máli um þá sem sýna með lífi sínu og dauða hvers eðlis trúarreynslan er, sú reynsla sem gefur lífi mannsins djúpa merkingu. Er það ekki spurning um hvað er satt sem skiptir máli, hvað er gott og hvað er fagurt?
Allt birtist okkur í honum sem lifði og dó eins og lífið hefði óendanlega dýrmætan tilgang. Sú vitund og sú reynsla afhjúpar ekki vonsku mannsins heldur þá von sem honum er gefin, og það er einmitt í voninni, ástinni og í trúnni sem hin góðu gildi verða að veruleika í lífi mannsins og setja í gang vellíðunarhvatana sem gefa honum löngun til að lifa skapandi og gefandi lífi. – Það kostaði Jesúm lífið að koma þeim skilaboðum áleiðis.“

Dr. Gunnar Kristjánsson var, þá er hann flutti ofangreinda prédikun, sóknarprestur í Reynivallaprestakalli í Kjós og prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, en lét af störfum á fyrri hluta árs 2015 fyrir aldurs sakir. Þykir mér þar mikið skarð fyrir skildi, vegna þess að Þjóðkirkja Íslands hefur að mínu mati mikla þörf fyrir kennimenn, uppfræðara og prédikara með túlkandi nálgun sem er hliðstæð þeirri sem séra Gunnar hefur viðhaft bæði í ræðum og ritum um þau efni, eigi hún að kallast þjóðkirkja með réttu eins og það hugtak var upphaflega skilgreint af „föður þjóðkirkjunnar“ Friedrich Schleiermacher snemma á 19. öld og sporgöngumönnum hans. Annars er hætt við að íslenska Þjóðkirkjan verði ekki raunveruleg þjóðkirkja í þeim skilningi, heldur eins og hver annar sértrúarsöfnuður með einstrengingslegar trúarjátningar sínar og trúarkenningar úr fornu samhengi.


mbl.is Þjóðkirkjufólki fækkar hraðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgar innrætingar trúarlegrar bókstafstúlkunar

Já, ég tek heilshugar undir þessa yfirlýsingu páfa kaþólsku kirkjunnar þar sem hann fordæmir bókstafstúlkun innan trúarbragða. Slík yfirlýsing um höfnun á bókstafslegri túlkun á trúarritum og öðru því um líku kemur vonum seinna úr þessum ranni sem er reyndar "kaþólskari en páfinn" - en kom þó! Hvílík undur og stórmerki. Hér eru vatnaskil.

Bókstafstrúarlegir öfgar birtast með misjöfnum hætti og umfangi eftir menningarsamfélögum og trúardeildum og sértrúarsöfnuðum. Í versta falli er innræting af þessum toga slík að hinir trúuðu og áhangendur viðkomandi trúarleiðtoga láta leiðast út í hryðjuverk gegn sjálfum sér og öðrum í því sem þeir hafa látið telja sér trú um að þjóni algóðum guði sínum og eigin "sáluhjálp". - Enn þann dag í dag á 21. öldinni!

Félagsleg útskúfun og sundrun fjölskyldna á grundvelli trúarlegra kennisetninga í sumum trúfélögum vestrænna samfélaga eins og okkar er og af þessum toga.

Það er undarlegt að viti borið og menntað fólk á Vesturlöndum skuli láta leiðast út í slíkan átrúnað og undirgangast félagslegar hömlur, boð og bönn og andlega kúgun, sem í versta falli mætti skilgreina sem brot á mannréttindum.
Sömuleiðis er dapurlegt og hörmulegt að sæmilega og vel upplýst og vel meinandi fólk í Evrópu skuli ekki hafa varann á í þessu sambandi í samfélögum sínum og sínu samhengi.

Í Evrópu og á Vesturlöndum lögðust trúarlegir öfgar innan hinnar ríkjandi kristni að miklu leyti af á tímum Upplýsingarinnar, Upplýsingastefnunnar á 18. öld, þar sem kirkjulegu valdi "rétttrúnaðar" var smám saman ýtt til hliðar. Hins vegar hafa íslömsk trúarsamfélög t.d. í Mið-Austurlöndum ekki gengið í gegnum samsvarandi upplýsingartímabil enda er það nánast dauðasök bókstaflega að gagnrýna trúarritin og tilsvarandi kenningar þar á bæ. Þar eru bókstafslegir öfgar enn ríkjandi og við haldið með harðri hendi trúarleiðtoga.
Þar sem þetta fólk nær að mynda nægilega stóra samfélagshópa sem innflytjendur og afkomendur þeirra innan evrópskra lýðræðissamfélaga virðist engin evrópsk "upplýsingaröld" eiga upp á pallborðið hjá þeim nema síður sé. Trúarleiðtogar þeirra á staðnum sjá um það.

Þessum staðreyndum verður fólk að gefa gaum að og ræða í sannleika og af fullri hreinskilni, en ekki umhugsunarlítið og af rótgróinni gæsku sinni og velvilja undirgangast og jafnvel taka þátt í einhliða áróðri ýmissa aðila undir yfirskini títtnefnds "mannkærleika" og "umburðarlyndis" "fjölmenningarsamfélagsins".


mbl.is Páfinn fordæmdi bókstafstúlkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um aðferðir við móttöku flóttamanna

Einkar forvitnilegt og athyglisvert viðtal er í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 20.9.2015 bls. 42-43. Það er við íranska unga konu Nazanin Askari í tilefni sýningar sem sett hefur verið upp í Tjarnarbíói og ber nafn hennar. Sýningin fjallar um sögu hennar tengt flótta hennar frá heimalandinu 2009, vegna pólitískra skoðana hennar sem féllu í grýttan jarðveg hjá ráðamönnum í Íran, og komu hennar til Íslands í kjölfarið og veru hennar hér síðan. - Margt fróðlegt kemur fram í viðtalinu. Hér eru dregin fram nokkur atriði. 

Sökum ofsókna stjórnvalda í Íran gegn foreldrum hennar og samanburðar við Vesturlönd fannst henn lengi vel að trúin, íslam, væri meginástæðan fyrir kúgandi stjórnmálaástandinu sem hefur "sent Íran langt aftur í aldir", en komst um síðir að þeirri niðurstöðu fyrir sína parta að þar réði mestu um sjálf stjórnvöldin sem væru einfaldlega vondir menn sem noti trúarbrögðin sem tæki í pólitískum tilgangi og skáki í því skjóli. Enda er lærdómur hennar á þeim grunni sá að aldrei skuli blanda íslam saman við pólitík. - Það ætti að vera flestum kunn sannindi í ljósi reynslu nágrannalanda okkar í Evrópu af íslömskum hópum sem leitast við að halda í m.a. öfgakenndar íslamskar kennisetningar sem sumar hverjar brjóta algjörlega í bága við lýðræðisleg landslög.

Um móttöku á flóttamönnum til Íslands hefur hún nokkur góð ráð að gefa íslensku þjóðinni (bls. 43):
"Þeir eru ekki allir menntaðir, og illa upplýstir flóttamenn geta verið meinsemd í samfélaginu... Gera þarf þá kröfu til flóttamannanna að þeir læri að skilja og virða menningu þjóðarinnar sem tekur við þeim, þar með talin trúarbrögð.
Til þess að tryggja þetta þurfi íslensk stjórnvöld að koma upp kerfi sem allir flóttamenn sem hingað koma eru skyldugir að fara í gegnum. Það er að segja, menntum þá fyrst, hleypum þeim síðan út í samfélagið. Þannig má komast hjá árekstrum í framtíðinni, eins og Norðmenn eru að glíma við núna. Ef öfgamúslímum er hleypt inn í landið án athugasemda eða viðeigandi ráðstafana gæti Ísland orðið annað Íran. Hver kærir sig um það?"

Það er um að gera að taka þessum góðu ráðum Nazanin, sem byggjast á hennar eigin reynslu, opnum örmum. Ekki satt?


mbl.is Taka verði heildstætt á vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refsiverðar skoðanir í tjáningar- og trúfrelsi?!

Að sjálfsögðu á að fella þetta forneskjulega ákvæði um refsingar fyrir "guðlast" úr gildi í íslenskum lögum; Þó fyrr hefði verið.


mbl.is Verði ekki refsað fyrir guðlast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjuútvarp

Eitt af svörum þjóðkirkjunnar, væntanlega með biskup í broddi fylkingar, við útspili Ríkisútvarpsins um niðurfellingu morgun- og kvöldorða úr ranni þjóðkirkjunnar hlýtur að vera að setja á laggirnar eigin útvarpsstöð.
Furðu sætir að það skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu síðan.
Ýmsum sértrúarsöfnuðum í landinu, og það jafnvel harla smáum, hefur verið látinn sá vettvangur eftir hingað til. Almenningur gæti haldið að það sem þar er borið á borð sé jafnframt túlkun og áherslur þjóðkirkjunnar í trúarefnum, sem er náttúrulega ekki tilfellið.

Er ekki mál til komið að þjóðkirkjan láti líka í sér heyra á þeim vettvangi?


mbl.is Þjóðin vill hafa Þjóðkirkjuna í friði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarrit og túlkun

Það mætti halda að sumt fólk og trúarsamtök haldi að það sem ritað er í helgirit fornra trúarbragða byggi á nútímalegum mynda- og hljóðupptökum frá þeim sögusviðum og þeim tíma sem þar er lýst. Slík er bókstafshyggjan. Þetta kemur vel fram þegar í hlut eiga kvikmyndir sem byggja að einhverju leyti á frásögnum í trúarritum.

Margir virðast ekki átta sig á því að sögur og lýsingar í helgiritum, sem og trúarlegar kennisetningar og túlkun túlkenda þeirra, eru túlkun manna; Allt frá ævafornum munnlegum geymdum, ritun þeirra og annars efnis um síðir í helgirit til forna af mönnum þar sem efnið var jafnframt valið af aðilum sem í dag myndu kallast ritstjórar, og fram til túlkunar þeirra þaðan í frá og í samtímanum. 

Í stað þess að einbeita sér að því að greina til dæmis (sígildan) siðferðislegan boðskap sem verið er að leitast við að tjá í hinum forna texta með sögum og lýsingum og sviðsetningum persóna í tilteknum aðstæðum eins og þá ríktu, þá heftir bókstafshyggjufólk sig við orðin og sögurnar sjálfar samkvæmt orðanna hljóðan og túlkar textann bókstaflega og tekur í þeirri túlkun sinni meðal annars ekki tilhlýðilegt tillit til þess að aðstæður og samfélag í dag eru ekki eins og það var til forna á ritunartíma sagnanna. Þar með er einnig horft fram hjá því að greina í hvaða tilgangi viðkomandi saga kann að hafa verið rituð eða höfð með í ritunum. Upphugsaðar sögur og lýsingar sem ætlaðar voru til að lýsa æskilegri og friðvænlegri breytni fólks í mannlegu samfélagi við tilteknar aðstæður og/eða byggja ef til vill á lauslegum heimildum eru þá og teknar bókstaflega eins og viðkomandi persónur hafi verið til og viðkomandi atburðir gerst nákvæmlega þannig í raunveruleikanum; Jafnvel lýsingar á hugrenningum og samtölum persónanna orðrétt!

Forfeðrasögur Hebrea/Ísraelsmanna hentuðu öðrum þræði vel til skilgreiningar á sjálfskilningi þeirra til þess að halda ættflokkum og þjóðarbrotum þeirra saman og viðhalda einingu og til aðgreiningar frá öðrum. Sagan af Nóa og arkarsmíði hans og flóðinu í hebresku biblíunni (Fyrstu Mósebók) er dæmi um þetta. Fræðimenn telja ekki ólíklegt að hún hafi dregið dám af enn öðrum og fornari sögnum á sínum tíma, þ.e. babýlonsku sköpunarmýtunni Enuma Elish, en leirtöflur með henni hafa verið tímasettar til um 1100 f.Kr og eru taldar vera afrit af enn eldri töflum. -

Trúarbrögð hafa skipt miklu máli fyrir félagslega mótun í samfélögum manna, en trúarbrögð ei ru öðrum þræði túlkun á tilvistarlegum aðstæðum manna í heiminum, sem og túlkun trúarstofnana, trúarleiðtoga og annarra á helgiritum sínum.

Kvikmyndir sem byggja á túlkunum trúarrita eru sömuleiðis túlkun á þeim, eðli málsins samkvæmt.


mbl.is Noah bönnuð víða um heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjan virkt afl í nærsamfélaginu

Dr. Hjalti Hugason prófessor ritar gagnmerka grein í Fréttablaðinu þ. 18.10.2012, s. 27, undir yfirskriftinni „Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá?“.
Meðal annars bendir Hjalti á að þótt sumir haldi því fram að trúmál séu algjört einkamál fólks þá sé það ekki svo.
Undir það tek ég og ætti að nægja að benda á að undiraldan í ríkjandi viðhorfum í samfélaginu er summan af viðhorfum þegnanna. Þess vegna er mikilvægt að árétta í grundvallarsáttmála þjóðarinnar, stjórnarskránni, að í íslensku samfélagi skuli byggt á gildum gagnkvæms mannkærleika og samfélagsábyrgðar eins og þeim sem lýðræðisleg grasrótarhreyfing eins og þjóðkirkja og hlíðstæð lífsskoðunarfélög starfa eftir, enda stuðli þau að bæði andlegri og almennri velferð þegnanna, friði og samfélagssátt, án kreddukenndra öfga. Eðli sínu samkvæmt styrkir virk þjóðkirkja nærsamfélagið og leggur á sinn hátt grunn að jákvæðri uppbyggingu þess og þar með samfélagsins alls. 
 
Í lokaorðum sínum bendir Hjalti á mikilvæg atriði sem hann telur veigamestu rökin fyrir ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni, en þau lúta að vernd þjóðarinnar. Hann segir:
 
“Vissulega er mögulegt að kveða á um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga þar á meðal þjóðkirkjunnar í almennum lögum án þess að þeirra sé getið í stjórnarskrá. Þjóðkirkjuákvæði eða ígildi þess sem nær til allra trú- og lífsskoðunarfélaga er á hinn bóginn mikilvæg yfirlýsing um að slík lög skuli sett og þannig reiknað með trúarbrögðum í hinu opinbera rými en aðkomu þeirra að því settar skýrar leikreglur. Hlutverk slíks ákvæðis og löggjafar sem reist væri á því er því ekki einvörðungu að vernda trú- og lífsskoðunarfélög almennt og þjóðkirkjuna sérstaklega heldur einnig að vernda þjóðina fyrir ýmsum skuggahliðum trúarbragðanna sem sagt gætu til sín í auknum mæli ef trúmál heyrðu alfarið undir einkamálarétt.” (Mín leturbreyting).

Í ljósi ofangreindra atriða er rökrétt og að mínu mati æskilegt að halda ákvæði um þjóðkirkju inni í stjórnarskránni „enn um sinn a.m.k.“ eins og Hjalti ræðir um. Það kann ekki góðru lukku að stýra að veikja uppbyggjandi og jákvætt afl í nærsamfélaginu sem ásamt öðru virkjar almenning til góðra verka. Þvert á móti ætti að efla það og styrkja með viðeigandi hætti.
 
(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag 20.10.2012, s. 31).


mbl.is Kosning hafin - talningin tímafrek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hjátrú", "aðaltrú" og sálfræði við efnahagsáföllum

Í viðtengdri frétt segir að  "hjátrú" hafi aukist eftir hrun, samkvæmt viðtali við Fjólu Dögg Helgadóttur sálfræðing um samanburðarrannsóknir hennar á "hjátrú" milli landa.

Því miður kemur ekki fram nákvæm útskýring á skilgreiningu sálfræðingsins á þessu hugtaki "hjátrú", utan nokkurra dæma, og hvernig hann aðgreinir hana frá því sem þá hlýtur að vera miðað við, þ.e. "aðaltrú". Þegar talað er um "hjátrú" hvað er þá "aðaltrú" eða "rétttrúnaður"? Hvaða munur er á aðaltrú og hjátrú í þeim skilningi? 
Hvernig hefur þróunin verið á fjölda fólks sem aðhyllist "aðaltrú" samanborið við "hjátrú" á umræddu tímabili? Er ekki samhengi þar á milli? Hvað með heildarfjölda þeirra sem aðhyllist einhvers konar átrúnað? Trúa þeir sem aðhyllast "hjátrú" jafnframt á tilvist guðs? Ef ekki, hvers vegna?
Er sams konar skilningur á hugtökunum "hjátrú" og "aðaltrú" eða átrúnaði almennt í samanburðarlöndunum? Ef ekki, hver er munurinn? Að hvaða leyti skýrir þá sá munur mun á stigi "hjátrúar" milli landanna?

Í greininni er bent á gagnrýna hugsun sem andstæðu við "hjátrúna", en hvar staðsetur sálfræðingurinn "aðaltrúna" í því samhengi? Hvar telur hann mörkin vera milli sálfræði og trúar í víðum skilningi að því er varðar til dæmis atferlisgreiningu og hugræna atferlismeðferð?

Í þessu ljósi eru umræddar rannsóknarniðurstöður afar ónákvæmar, a.m.k. fréttagreinin um þær, og erfitt að sjá hverju þær svara í reynd. Mér virðst það til dæmis afar mikil einföldun að ætla sér að byggja einhverjar vísindalegar kenningar um ráð og/eða aðferðir við persónulegum áföllum einstaklinga, eins og bankahruninu hérlendis, einungis með því að greina stig "hjátrúar" hjá fólki.
Hins vegar væri fróðlegt að sjá hvort og í hve miklu mæli einhvers konar trú, átrúnaður eða "huglægt haldreipi" gagnist einstaklingnum til að kljást við persónuleg áföll sín tengt efnahagskreppu þótt það í sjálfu sér leysi e.t.v. ekki fjárhagsleg atriði út af fyrir sig. 
Hvernig svo sem tekst til með þá hlið mála skiptir meginmáli fyrir einstaklinginn í því samhengi og þar með þjóðina í heild hvernig honum tekst að komast í gegnum slíka erfiðleika. Varast skyldi að gera grín að "hjátrú" fólks, sérstaklega ef hún (í víðum skilningi) gagnast sem tæki til þess meðal annarra aðferða.
Í þessu samhengi greini ég á milli þess sem kalla mætti "trúarlega trú" eða átrúnað/trúarsetningar og "árangursmiðaða trú" eða viðhorf (sbr. sjálfstraust og því að hafa trú á markmiði eða niðurstöðu o.þ.h).

Gott væri að sálfræðingar kæmu upp með eitthvað virkilega bitastætt og skilvirkt í því sambandi sem leggja mætti vísindalega blessun yfir ef önnur blessun þykir ekki duga formlega séð.

Á meðan stjórnvöldum tekst ekki að leysa efnahagsvandamál einstaklinga og þjóðar með sjálfbærum hætti í bráð og lengd þarf fólkið sem er í vandræðum á öllum jákvæðum ráðum að halda til að komast af með einhverju móti sem manneskjur; Og náttúrulega til framtíðar líka.


mbl.is Aukin hjátrú eftir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðseindin og "sköpun úr engu"

Hinir fornu gnóstíkear (e. gnostics) voru inni á því fyrirbæri sem þessu tengist, þ.e. "sköpun úr engu". Að vísu álitu þeir að sköpunin væri ekki úr "engu" heldur kæmi til og gerðist með ákveðnum hætti. Þeir voru þar greinilega inni á því fyrirbæri sem tengjast kenningum skammtafræði í dag um það að "efni" getur birst ýmist sem eindir (e. particles) eða tíðni (e. vibration). 
Ég skoðaði þessi geysilega áhugaverðu og athyglisverðu gnóstísku fræði og tengdar mýtur í tengslum við lokaritgerð mína í guðfræði, Um huglægan sköpunarmátt að fornu og nýju, en ég fer nú ekki nánar út í þá dularfullu sálma hér! Þetta var fyrir innvígða til forna og því leynilegt.
(Hint: Þessar upplýsingar/kenningar voru settar fram af gnóstíkeum í formi mýtu að stofni til sem mönnum hefur reynst erfitt að túlka, eðli málsins samkvæmt).

Kenning kristinnar kirkju um "sköpun úr engu" á rætur að rekja til þessara gnóstísku hugmynda þótt því sé nú ekki flíkað í  þeim ranni. Það finnst mér bagalegt þar sem þær varpa "skiljanlegu" ljósi á kenninguna og reyndar jafnframt aðra grundvallarkenningu kristninnar, Þrenningarkenninguna.


mbl.is Vísbendingar um tilvist Guðseindarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband