Færsluflokkur: Tónlist

Viðurkenningar í lifanda lífi

Það eru ótal styttur af heimsþekktum og löngu liðnum tónskáldum og fleira afreksfólki í heimaborgum þeirra í Evrópu og víðar, enda "lifa" þau áfram í sígildum verkum sínum og afrekum.

Það er sómi af og skáldlegt réttlæti í því að tónskáld og aðrir listamenn njóti verðskuldaðrar viðurkenningar fyrir viðurkennd afrek sín í lifanda lífi og þjóð þeirra og samborgarar þar með.

Hið góða sem í afrekunum felst er góð fyrirmynd fyrir aðra núlifandi, sem og kynslóðir framtíðar. 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

María óbrotin undan austur-evrópskum drunga

María er frábær söngkona og tónlistarflytjandi sem á framtíðina fyrir sér. Svo sannarlega.

María stóð sig fjarska vel við flutninginn ástamt þéttum bakröddunum og í ljósi magnaðs sjónarspils að baki. Það stendur upp úr.

Ólíku er saman að jafna og erfitt er að vera í riðli með keppendum sem flestir tilheyrðu hinni austur-evrópsku ný-tónlistarhefð og smekk þarlendra kjósenda. Þeim er enn mikið niðri fyrir eftir dökka áratugi undir hömlum ömurlegs stjórnarfars og flytja og taka kröftuglega undir tónlistarflutning í þeim bitra anda í uppgjöri sínu við hann á þessum vettvangi.

Fróðlegt verður að sjá hvernig atkvæði úreltrar dómnefndar féllu samanborið við símaatkvæði einstaklinga og hvort þar megi rekja einhver súr Evrópusambandsspor gagnvart Íslendingum.


mbl.is „Ég söng af mér rassgatið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrelt dómnefnd

Úrslitin í EuroVision söngkeppni Sjónvarpsins og aðdragandi þeirra sýna að það er gjörsamlega úrelt og rangt að vera að flækja málin með því að hafa dómnefnd og ofaníkaupið með svo þungt vægi eins og verið hefur; Dómnefnd sem lýsir aðeins persónulegum sjónarmiðum þeirra fáu einstaklinga sem í henni sitja og eru greinilega ekki fulltrúar meirihlutaálits þeirra sem kusu í símakosningunni eðli málsins samkvæmt. Að mínu mati kaus dómnefndin kolrangt, eins og kom sem betur fer á daginn.

Mér persónulega finnst furðulegt hvað mikið hefur verið látið með framlag þess sem varð númer tvö í úrslitunum. Lagið Lítil skref, á ensku Unbroken, var lang-skemmtilegasta lagið í keppninni, sbr. síðasta pistil minn hér, og líklegast til að vekja athygli almennings svo um munar heldur en vögguvísulagið sem varð númer tvö og ég næstum sofnaði undir er það var flutt. Það sem hélt mér vakandi á meðan var hneykslan mín vegna hins illa gruns um að það væri villandi duttlungum dómnefndarinnar að kenna að lagið varð annað tveggja í úrslitunum.


mbl.is Friðrik Dór fékk fleiri stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil skref

Að mínu mati er lagið "Lítil skref" áberandi flottasta lagið, meðal annarra flottra og góðra laga í riðlinum í gærkveldi, 7.2.2015; Gott "grúv", hlý og glaðleg og blæbrigðagóð melódía og góður söngur.

Söngurinn og sviðsframkoman eiga bara eftir að styrkjast og magnast með þrotlausum æfingum fram að lokakeppninni í Eurovision ytra.

Já, lagið Lítil skref er stórt skref í áttina að hlutdeild Íslendinga í lokatónleikum EuroVision í Austurríki í vor.


mbl.is 4 af 6 lögum áfram (MYNDIR)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við ætlum að vinna!

Já, ekki dugir að segjast og hugsa sér að "gera sitt besta" vegna þess að í því felst fyrirfram afsökun á að ná ekki markmiðinu.

Réttara viðhorf er að ætla sér að vinna, að ásetja sér það að ná markmiðinu og einblína á það. Í því er ekki gefinn neinn afsláttur. Á þessari vegferð er maður þó yfirleitt ekki einn, sem betur fer, til dæmis ekki fótboltalið.

Um þetta fjallar textinn við samnefnt lag mitt "Við ætlum að vinna", sem hægt er að hlusta á hér í spilaranum mínum (næst-neðsta lagið í röðinni); Helst með góðum hátölurum.

Gangi ykkur vel við að ná góðum og jákvæðum markmiðum ykkar!

Texti lagsins er eftirfarandi:

Við ætlum að vinna
ISRC: IS-V44-08-06714, á plötunni Lífsins gangur á gogoyoko.com
Höf. (c) Kristinn Snævar Jónsson
 
Við erum hér á óralangri leið, 
sem ekki verður talin bein og greið.
Á henni hljóta óteljandi ör
allir þeir sem þangað beina för.

En hugurinn og viljinn veita styrk
á veginum þótt glætan sé oft myrk.
Og fókusinn er festur markið á,
að fullkomna sitt verk og sigri ná.

Við ætlum að vinna og engu að sinna,
öðru en því, en að vinna á ný.
Það er svo gaman að sigra allt saman
og svo koma heim í fagnandi geim.
 
Í lífsins mörgu þrautum enginn er
alveg hjálparlaus sem betur fer.
Því fjölskyldan og fornvinirnir sjá
fyrir því sem orð og hvatning tjá.

::Við ætlum að vinna og engu að sinna,
öðru en því, en að vinna á ný.
Það er svo gaman að sigra allt saman
:: og svo koma heim í fagnandi geim.:: ::
:: Og koma svo heim í fagnandi geim.::


mbl.is Eiður og Birkir byrja í Zagreb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónulegur smekkur um Eurovision-úrslit

Í Eurovision-forkeppninni í Svíþjóð 1973 fóru tveir ljóshærðir og stæðilegir piltar með meðalsítt hár með nauman sigur af hólmi með hæg-þungu og væmnu ballöðu-lagi "Sommaren ..." (eitthvað svoleiðis). 

Ég var þvílíkt svekktur yfir þessum úrslitum fyrir mína hönd og Svíþjóðar og það kom (mér) mjög á óvart að þeir og lag þeirra var valið fram yfir fjörugt lag sem maður greip strax við fyrstu hlustun, en það var lagið "Ring, ring" flutt af tveimur óþekktum piltum og tveimur stúlkum (a.m.k. í Danmörku þar sem ég dvaldist þá og fylgdist vel með hinum vikulegu Top 20 með Jörgen Mylius og Dansktoppen í DR). Önnur stúlkan, síð-ljóshærð, var kasólétt, en það hefur e.t.v. ekki skipt máli. Hvað um það, að ári liðnu (1974) sigruðu þau fjórmenningarnir síðan sömu keppni verðskuldað með lagi sínu "Waterloo", efld að afli. Aðalkeppnina tóku þau svo með húð, klæðnaði og hári, þar sem þau komu, sungu og sigruðu. Flestir ættu að skilja hvers vegna. Þetta var smella-hópurinn ABBA! 

Þessi lagasaga hvarflaði að mér þegar óvænt úrslitin voru kunngerð í gærkveldi um sigurlag Íslands sem framlag til Eurovision-keppninnar í ár. Þau finnast mér furðuleg (auðvitað bara smekksatriði hjá mér) í ljósi þess að mér finnst keppinauturinn á lokasprettinum, lagið "Ég syng", margfalt líflegra og meira grípandi en hitt og ekki eins leiðigjarnt. (Burtséð frá ýmsum fleiri flutningslegum atriðum sem vissulega skipta máli). Hliðstæðan við sigur keimlíkrar einsskiptis ballöðu sænsku piltanna yfir langlífu stuðlagi ABBA 1973 finnst mér sláandi.
Einnig get ég ekki stillt mig um að taka fram að ég átti allt eins von á því að hið mikla og gæsahúðarmagnaða lag Birgittu Haukdal, "Meðal andanna", kæmist í úrslitin og þaðan af lengra ef "fönnið" í laginu "Ég syng" yrði ekki ofan á. Ég hefði verið mjög sáttur við það, enn talandi út frá algjörlega persónulegum smekk auðvitað og að hinum lögunum ólöstuðum.
Það kæmi mér ekki á óvart að "fön"-lagið "Ég syng" og "Meðal andanna" verði langlífari en það sem valið var (af einhverjum) til aðalkeppninnar í vor, en það verður önnur lagasaga.

Sænsku piltarnir tveir frá Svíþjóð sem framar er getið náðu reyndar, furðulegt nokk, 5. sæti í Eurovision-keppninni það ár með enskum texta á lagi sínu, "You are summer", en þá sigraði Luxemborg með "Tu te reconnaîtras" og Cliff Richard var í 3. sæti með "Power to all our friends". (Man ekki einhver eftir því fjöruga stuð-lagi með Cliff? Ég man hins vegar ekkert eftir sigurlaginu sem var hæggengt, dapur-angurvært og dramatískt í dæmigerðum "Mið-Eurovískum" stíl þess tíma en flutt af góð-kröftugri söngkonu í rauðum síðum kjól. Cliff var reyndar líka í rauðri skyrtu!).
Það er því ekki með öllu vonlaust að hæægvirk sykurlöððrandi ballaðan frá Íslandi komist í efri hluta úrslitalistans í Eurovision á sænskri grundu í vor.  

En, að sjálfsögðu óska ég sigurlaginu nú velfarnaðar og aðstandendum þess og góð-kröftugum söngvara þess til hamingju. Það er ekki spurning. Það er næsta víst að söngvarinn á gott sönglíf framundan. 


mbl.is „Ég á líf“ verður framlag Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deep Purple í Rokki

Það er dapurlegt að horfa á eftir góðkunningjum sínum, miðlurum eyrnaormanna, sem sett hafa mark sitt á tónlistarhlustun og -upplifun manns á ævinni. En, þetta er lífsins gangur og sígildu verkin þeirra lifa áfram meðan tónlist verður miðlað.

Platan Deep Purple in Rock (1970) markaði viss tímamót í minni tónlistarupplifun þá loks að ég komst í tæri við hana, en það var heilu ári síðar (ásamt Aqualung með Jethro Tull sem ég sömuleiðis missti óafvitandi af í heilt ár, en það er önnur saga).
Orgelsólóin hans Jon Lord á plötunni voru nýstárleg á þessum tíma, sérstaklega "sándið" og hljómflæðið sem honum tókst að gusa út úr Hammondinum sínum, sbr. t.d. í intróinu á laginu "Living wreck". Það er hliðstætt hver sem er að fara að gjósa. Auk hraðra sólóa með tilheyrandi fingrafimi á nótnaborðinu gat hann einnig töfrað fram af list dulmagnaða stemningu með einföldum og lágstemmdum laglínum eins og í upphafi "Child in time". 

Það er samt heildarmyndin af hljómsveitinni allri sem situr eftir, þar sem Jon Lord var umvafinn hópi snillinga hverjum á sínu sviði. Jon Lord var hluti af "gömlu" Deep Purple og saman sköpuðu þeir hina eftirminnilegu töfra. Það liggur við að ég sé enn með hellu fyrir vinstra eyranu eftir tónleika sem ég fór á með þeim í KB-Hallen í Kaupmannahöfn 20. mars 1972, en þar var stuð. Það kom skemmtilega á óvart áratugum síðar að upptaka einmitt af þeim tónleikum gefin út á myndbandi - sem mér og áskotnaðist mér til mikillar ánægju.


mbl.is Jon Lord úr Deep Purple allur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaðar nætur

Þær eru dulmagnaðar næturnar í tunglskini, ekki síst þegar horft er út um húsgluggann yfir trjátoppana í kjarri vöxnum dal og alls kyns hugrenningar taka á sig mynd í skímunni.

Þannig háttaði tímamótaárið 2000 á húmfagurri júlínótt í þvölu daggarröku bláberjalyngi og puntstráum sem bærðust í hægum andvaranum af heiðinni niður dalinn, fjarri amstri hins daglega lífs þar sem tárin streyma.
Varð þá til eitt versið í lagi mínu Lífsins gangur á samnefndri plötu, sem hlusta má á hér á spilaranum mínum í flutningi KrisJons:

Tunglið yfir trjánum skín
töfrandi um nætur.
Trúföst móðir tárin sín
tregablandin lætur.

"En, það líður allt sína leið ..." Ekki seinna vænna að búast til þjónustu fyrir land og þjóð, gott fólk.

 

 


mbl.is Ofurmáni á himni í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taktu af skarið!

Við þessu á ég eitt svar í texta sem ég samdi við eitt laga minna. Það svar felst í nafni lagsins:

"Taktu af skarið",

með því að hefjast handa t.d. við undirbúning!

(sbr. vefsetur mitt á gogoyoko.com þar sem hægt er að hlýða á þá hvatningu á plötunni Kveikjurhttp://www.gogoyoko.com/artist/KrisJons )


mbl.is Hættum að fresta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær að mótmæla á vettvangi í alheimssjónvarpinu

Eins og fram hefur komið í máli margra um hvort Íslendingar eigi að sniðganga Eurovisionkeppnina í Aserbaídsjan, sökum meintrar spillingar og mannréttindabrota þar, er næsta öruggt að lítið myndi heyrast þar eða á opinberum vettvangi alheimsmála um andúð góðra og óspilltra Íslendinga á mannréttindabrotunum með því að mæta ekki á þann vettvang en sitja þess heldur með samanbitna jaxla úti í horni einhvers staðar í Reykjavík; Þótt halda mætti að sumir teldu hana miðpunkt alheimsathygli og viðhorf Íslendinga jafnast á við vægi ríkja með neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Vilji Páll Óskar og aðrir sem koma að væntu framlagi Íslands til Eurovision söngvakeppninnar koma á framfæri mótmælum við meint mannréttindabrot hjá gestgjöfum keppninnar í ár og láta þannig í ljós stuðning við kúgað fólk þar og annars staðar þá ætti hann og þeir að fara út og tala sem mest og víðast þar á torgum um málið. Ætla mætti að það væri áhrifaríkara en að láta ekki sjá sig þar og þegja heima.

Mér þykir afar líklegt að Páll Óskar melti þessi og þvílík rök og snúist hugur um að sniðganga keppnina. Hann er það greindur og hugrakkur maður. Ég sé hann fyrir mér djarfastan manna með gjallarhorn fyrir utan hina nýju sönghöll útskýrandi fyrir viðstöddum og í beinni útsendingu á rásum alheimssjónvarpsins að hún sé byggð á rústum heimila alþýðufólks sem rutt hafi verið í burtu undir yfirskini hátíðarhaldanna.


mbl.is Evróvisjón í skugga kúgunar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband