Færsluflokkur: Matur og drykkur

Matarvenjur mannkyns

Á hverju halda menn og sérfræðingar á þessu sviði að börn og ungabörn hafi lifað á árdögum mannkyns og undangengnum áratugaþúsundum? Seríós, kókópöffs eða nestle-barnamat, vítamínspillum og gerilsneyddum mjólkurvörum?!

Ætli það hafi ekki verið það sem handbært var á hverjum stað og tímaskeiði auk móðurmjólkunnar. Það „framleiddi“, ásamt náttúru og erfðavali og félagslegum þáttum, bókstaflega þann mannslíkama sem við höfum í dag. Hvernig væri að horfa betur til þessara og slíkra þátta og draga af því ályktanir í stað þess að einblína einvörðungu á atriði í nánustu fortíð núverandi kynslóðar?


mbl.is Börnin mega aftur „borða allt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landbúnaður til landvinninga

Tilefni er til að óska nýjum formanni Bændasamtaka Íslands, Sindra Sigurgeirssyni bónda í Bakkakoti Borgarfirði, velfarnaðar í því mikilvæga embætti.

Við tekur það verkefni að sýna fram á að íslenskar landbúnaðarvörur standist íslenskar og alþjóðlegar kröfur um gæði og uppruna og hafi sérstaka sérstöðu á alþjóðlegum markaði að teknu tilliti til gæða og verðs þannig að þær séu því samkeppnisfærar á verði sem færir íslenskum bændum og efnahagslífi arð og blóm í haga - og Íslendingum og útlendingum góðan mat á disk.


mbl.is Sindri formaður Bændasamtakanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverra hagsmuna gætir Matvælastofnun í reynd?

Sú fáránlega spurning vaknar við lestur frétta um að Matvælastofnun (MAST) hafi ákveðið að leyfa dreifingu skilgreinds iðnaðarsalts til matvælaframleiðslu, þá loks að hún áttaði sig á því hvers kyns var eftir tilvist saltsins á markaði í um 13 ár frá því árið 1998, hverra hagsmuna stofnunin gætir fyrst og fremst í reynd: Kostnaðar- og viðskiptahagsmuna innflutningsaðila umrædds salts og viðskiptavina hans, eða neytenda.

Þar sem við ættum að geta gert ráð fyrir því að virðulegir 80 starfsmenn stofnunarinnar kunni að lesa og ættu jafnframt að geta skilið að umbúðamerkingin "Industrisalt" á dönsku þýðir iðnaðarsalt á íslensku þá kemur eitthvað annað til með leyfisveitingunni.

Að stofnunin skuli, samkvæmt fréttum, hafa vísvitandi leyft áframhaldandi dreifingu iðnaðarsaltsins í mat landsmanna í nóvember s.l. í bága við reglur þar um er stórfurðulegt mál, hliðstætt og á við um málið um of mikið kadmíum í áburði sem upp kom fyrir nokkrum vikum þegar landsmenn voru fyrir löngu búnir að borða viðkomandi matarafurðir með blessun MAST. 

Semur stofnunin eigin vinnureglur við hlið laga og reglugerða sem fara í bága við lögin eða er starfsfólkið búið að vera á frívakt gagnvart þessum málaflokki undanfarin 13 ár og ekki gert eigin athuganir á innflutningnum?

Hægt væri að álykta að annað hvort séu viðmiðunarreglur um flokkun á iðnaðarsalti og matarsalti rangar (að mati stofnunarinnar) og hún því farið eftir að sínu mati á "réttum" viðmiðum, eða að skilningur stjórnenda og starfsmanna stofnunarinnar á hlutverki sínu sé rangur.
Sé hið fyrrnefnda tilfellið þarf að endurskoða viðkomandi lagasetningu um viðmiðunarmörk, en hitt stendur upp úr að samkvæmt fréttum virðist MAST ekki hafa farið eftir settum reglum - og ekki í fyrsta skipti.
Ráðherra, sem stofnunin heyrir undir, hlýtur að átta sig á því að eftirlitsstofnun sem veitir falskt öryggi er verri en engin.


mbl.is Stofnanir deila um salt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirbyggjandi eftirlit eða eftir-lit þegar skaðinn er skeður?

Það blasir auðvitað við hverjum heilvita manni að svona eftirlit, eins og Matvælastofnun á að hafa með höndum varðandi áburð, þarf að vera fyrirbyggjandi; Enda er kveðið á um það á verkefnalista stofnunarinnar, sbr. neðar.

Það er til lítils að taka sýni af áburði þegar hann er kominn í dreifingu á tún í sveitum eða greina sýni eftir á þegar áburðurinn er kominn á tún og jafnvel búið að slátra og éta búfénað sem át grasið og heyið af viðkomandi túnum og fólk búið að neyta meintra eiturefna í kjötafurðunum.

Sýni þarf að taka og greina áður en áburðurinn fer í dreifingu, alveg eins og háttar til um greiningu og athugun lyfja fyrir menn og dýr hjá Lyfjastofnun áður en lyfin fá markaðsleyfi og fara í sölu hérlendis.

Ekki ætti að vera erfiðara að hafa eftirlit með innflutningi á áburði heldur en kjötvörum, nema síður sé!

Það sem maður spyr sig um er hvort þetta meinta aðgerðaleysi, um að stöðva ekki sölu og notkun hins meinta eitraða áburðar og þagnar um málið í kjölfarið samkvæmt fréttum í dag, sé um að kenna einhverjum mistökum hjá Matvælastofnun, og hverjum þá, eða skorti á laga- og regluramma þar að lútandi. Hefur stofnuninni ekki tekist að uppfylla öll gildi sín af einhverjum ástæðum, t.d. "árvekni", sem er tilgreint þar efst á lista?
Skortir e.t.v. líka eftirlit með eftirlitsstofnuninni?

Á vefsetri MAST segir um hlutverk stofnunarinnar:

"Matvælastofnun sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla."

Um verkefni MAST segir þar ennfremur:

"MAST vinnur að matvælalöggjöf í samvinnu við ráðuneytið og á þetta við um löggjöf í allri fæðukeðjunni, þ.e. frá heilbrigði og velferð dýra, þ.m.t. sjávarafurða, plöntuheilbrigði, fóðri, vinnslu og dreifingu og þar til matur er borinn á borð neytenda. Stofnunin fer með eftirlit með frumframleiðslu búfjárafurða, sláturhúsum og kjötvinnslum sem þeim tengjast, eftirlit með sjávarafurðum og allt inn- og útflutningseftirlit með matvælum. MAST fer einnig með yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og eftirlit með störfum dýralækna sem veita almenna dýralæknaþjónustu. Einnig fer stofnunin með fóðureftirlit og önnur verkefni eins og sjá má á eftirfarandi lista yfir helstu verkefni MAST".


mbl.is Hagsmunir bænda og neytenda í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er tilgangurinn með eftirliti Matvælastofnunar?

Þau atriði sem koma fram í fréttinni sem rök Matvælastofnunar fyrir því að stöðva ekki dreifingu áburðar sem talinn er skaðlegur heilsu manna og jafnvel krabbameinsvaldandi eru þvílík steypa að furðu sætir.

Rökleysan í útskýringum MAST fyrir því að stöðva ekki dreifingu áburðarins er yfirþyrmandi:
Svona mengun í áburði "hefði ekki gerst áður" hjá viðkomandi innflytjanda, og að í kjölfar gossins í Grímsvötnum "hefði ekki þótt ábætandi að valda frekari erfiðleikum og hugsanlegum áburðarskorti"!

Felst eftirlit MAST í einhverju öðru en að verja heilsu og hagsmuni neytenda, eða á sjónvarpsfrétt RÚV í kvöld 3.1.2012 um krabbameinsvaldandi efni í áburðinum ekki við rök að styðjast?


mbl.is MAST upplýsti ekki um mengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægi íslensks landbúnaðar

Á sama tíma og það blasir við að mannkyn skortir mat á tímum þverrandi auðlinda þá tala sumir fræðimenn og aðrir gegn hagsmunum íslensks landbúnaðar með því að tala hástöfum fyrir óheftum innflutningi landbúnaðarmatvæla; Uppátæki er myndi rústa íslenskum landbúnaði til skamms tíma litið.

Í ljósi heilbrigðrar skynsemi og sterkra vísbendinga eins og þeirra er fram koma í meðfylgjandi frétt hlýtur slík þröngsýni talsmanna óhefts innflutnings landbúnaðarafurða að teljast furðu sæta.
Það er eins og þeir gefi sér þá forsendu að ætíð yrði hægt að fá nægjanlegar og jafn góðar matvörur eftir hendinni erlendis frá. Það er af og frá!

Það verður þvert á móti "barist" um góðar matvörur í náinni framtíð. Hvers lags orðræða er það þá hjá fólki sem gefur sér fráleitar forsendur til rökstuðnings væntingum sínum um skammtímaávinning í formi lægra verðs á matvörum erlendis frá? Hvaða ástæður og hagsmunir liggja þar að baki?

Í ljósi mikilla verðhækkana á matvælum á heimsmarkaði og yfirgnæfandi líkum á vaxandi eftirspurn eftir góðum ómenguðum mat við vistvænar aðstæður ætti Þvert á móti að leggja áherslu á að efla íslenskan landbúnað sem mest og best með bættri landnýtingu til matvælaframleiðslu og renna þar með styrkum stoðum undir framleiðslu innanlands til eflingar á þjóðarhag.

Hagstæðara væri að bretta upp ermar við það og tilsvarandi verkefni sem liggja fyrir fótum okkar heldur en að láta fækkandi vinnandi hendur og hausa vinna fyrir afurðasnauðum og niðurdrepandi atvinnuleysisbótum.


mbl.is Mannkynið sprengir skuldaþak náttúrunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skima frekar eftir reykingum

Ég er ekki frá því að fyrr ætti að ráðast með harkalegum hætti gegn reykingum fólks heldur en eyða fjármunum í svona skimun sem vísbendingar eru um að ekki gagnast sem skyldi, nema þeim sem selja slíka þjónustu.

Bæði er þörf á sterkum áróðri og upplýsingamiðlun gegn reykingum og öflugu forvarnarstarfi gegn því að börn, unglingar og aðrir hefji reykingar. Fremur bæri því að skima eftir því hvar reykingar eru stundaðar og bregðast við með viðeigandi hætti.

Reykingar eru almennasti sjúkdómsvaldur sem um getur, enda ekki nema von þar sem í tóbaki finnast á fjórða þúsund eða um 4000 eiturefni. Um 4000!

Ef fólk hugsar sig vandlega um þá ætti það að svara eftirfarandi spurningu, hver fyrir sig:

"Vil ég anda að mér banvænum og hægdrepandi eiturefnum af fúsum og frjálsum vilja, oft á dag?" Eiturefnum, sem eru einn helsti sjúkdómsvaki af hvers kyns tagi, svo sem lungnasjúkdóma, blóð- og æðasjúkdóma, taugasjúkdóma, geðröskunarsjúkdóma, krabbameins og margra fleiri sjúkdóma. - Hvað getur þú nefnt til viðbótar? - Að ekki sé minnst á kostnaðinn og lífshættulega mengunina fyrir aðra en bara sjálfan reykjandann.

Einn óbeinn "kostur" við reykingar eru þó sá að hann styrkir framleiðendur og seljendur tóbaks fjárhagslega. Væri samt þeirri fjárhagsaðstoð ekki betur varið til góðgerðarsamtaka, eða bara fjölskyldunnar sjálfrar. Ekki veitir henni og "náunganum" í samfélaginu af stuðningi. Tóbaksframleiðendur eiga nú þegar digra sjóði eftir dyggan stuðning fórnarlamba sinna, reykingaþrælanna og -fiktaranna, lífs og liðinna gegnum árin.

Því hefur verið haldið fram að helsta og öflugasta og almennasta atriðið til þess að skera niður kostnað í heilbrigðiskerfi lands til lengri tíma litið sé að stemma stigu við reykingum fólks og stuðla að minnkun þeirra. Í kjölfarið minnkar afleiddur kostnaður vegna hvers kyns krankleika fólks af völdum reykinga.
Þeim fjármunum sem þannig sparast væri betur varið til annarra hluta, t.d. lækninga og meðferðar á "óumbeðnum" sjúkdómum og öðrum aðkallandi heilsufars- og þjónustumálum.


mbl.is Skimun fyrir blöðruhálskrabba sætir gagnrýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband