Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Okurvextir á tilhæfulausum forsendum

Undanfarin ár hafa vextir verið mjög háir á Íslandi og miklu hærri en í viðskiptalöndum okkar. Rótin að hinu háa vaxtastigi í landinu er stýrivextir Seðlabanka Íslands, en ákvarðanir um þá eru teknar á vegum peningastefnunefndar Seðlabankans. Þrátt fyrir mjög lága verðbólgu hérlendis undanfarin þrjú ár, sem hefur verið langt og vel undir 2,5%-verðbólguviðmiði Seðlabankans, þá hefur peningastefnunefnd  samt haldið stýrivöxtum bankans viðvarandi háum og ekki farið með þá neðar en nú er, 5%. Helstu rök hennar fyrir hinum háu vöxtum hafa einkum verið yfirlýstur ótti hennar við ofþenslu í efnahagslífi landsins með tilheyrandi aukningu verðbólgu sem leitast er sem sé við að sporna gegn með þetta háu vaxtastigi.

Þessi rökstuðningur hefur ítrekað verið endurtekinn undanfarin ár og mætti segja að sá aðili sem með málatilbúnaði sínum hefur helst alið á verðbólguvæntingum sé einmitt peningastefnu­nefndin sjálf með seðlabankastjóra í broddi fylkingar.

Á hinn bóginn virðist nefndin samt ekki hafa áhyggjur af þeim bagga sem vaxtakostnaður er í kostnaði skuldsettra fyrirtækja landsins sem velta vaxandi kostnaði sínum út í verðlagið og eru að því leyti verðbólguaukandi í sjálfur sér.

En standast þessi rök peningastefnunefndar um hættu á ofþenslu og þar af leiddri verðbólgu í efnahagskerfi landsins? Leiða má að því líkur að svo sé ekki, a.m.k. hvað eftirfarandi atriði varðar.

Í lokuðu hagkerfi þar sem framboð á vörum og þjónustu takmarkast af þeim framleiðsluþáttum, og þar með talið vinnuafli, sem eru til staðar innanlands ættu þessi rök nefndarinnar að sjálfsögðu vel við. Ef bankar veittu lán umfram verðmætasköpun í hagkerfinu við þær kringumstæður myndi framboð og eftirspurn leita jafnvægis með vaxandi verðbólgu að öðru óbreyttu. Erlend lán sem notuð væru til fjárfestinga og neyslu innanlands myndu leiða til hins sama.

Svona aðstæður eru hins vegar ekki til staðar hér í dag, né undanfarin ár. Ísland er ekki lokað hagkerfi. Það er þvert á móti mjög opið. Ísland er í EES sem felur í sér að hingað til landsins hefur verið frjálst flæði á vörum, þjónustu og vinnuafli, og fjármagni að miklu leyti líka. Vexti í hagkerfinu með tilheyrandi aukningu framkvæmda hefur að miklu leyti verið mætt með innflutningi á erlendu vinnuafli, í og með og sérstaklega eftir að “fullu” atvinnustigi meðal landsmanna sjálfra var náð. Sú þróun á sér ýmsar birtingarmyndir hvað áhrif á eftirspurn í efnahagskerfi landsins varðar:

  • Aukinni eftirspurn eftir vörum hefur verið mætt með óhindruðum innflutningi og verslun neytenda í ferðalögum þeirra erlendis, auk þess sem vefverslun neytenda er í örum vexti og leysir þar með hefðbundnar verslanir innanlands að nokkru leyti af hólmi. Umtalsverður hluti neyslu landsmanna á vörum og þjónustu fer því fram utan landsins.
  • Stórframkvæmdir eru boðnar út og að miklu leyti unnar af erlendum verktökum með innfluttu vinnuafli. Mikill hluti greiðslu tilkostnaðar við framkvæmdirnar fer því beint til útlanda en ekki í neyslu innanlands, auk þess sem þær eru fjármagnaðar með erlendum lánum.
  • Aukin notkun fyrirtækja hérlendis á erlendu og (í íslensku samhengi) ódýru vinnuafli hefur út af fyrir sig haldið launakostnaði í skefjum og þar með tekjum og kaupmætti viðkomandi launþega miðað við það sem ella væri. Auk þess hefur þetta ástand veikt stöðu íslensks vinnuafls á vinnumarkaðnum og haldið aftur af launahækkunum sem ella mætti búast við að hefðu orðið reyndin.
    Erlent fólk sem vinnur hérlendis í skamman tíma, eða hefur takmarkað dvalarleyfi, flytur einnig mikið af vinnulaunum sínum til heimahaga sinna erlendis sem þar af leiðandi skila sér ekki í neyslu hérlendis.

 Öll ofangreind atriði leiða til minni þrýstings á framleiðslukerfi landsins, bæði vegna óhefts innflutnings á vörum og vinnuafli, sem og neyslu þegnanna erlendis og innkaupum þeirra framhjá staðbundnum verslunum innanlands. Þetta felur jafnframt í sér tilsvarandi minni verðbólguþrýsting innanlands en ella væri.

 Niðurstaðan af ofangreindu er því sú að rök peningastefnu-nefndar um hættu á ofþenslu með tilheyrandi verðbólgu í efnahagskerfi landsmanna, ef stýrivextir yrðu lækkaðir meira en orðið er, halda ekki vatni hvað það varðar. Eftir stendur þá sú ályktun að hér hhafi verið haldið uppi of háu vaxastigi, raunverulegum okurvöxtum, að tilhæfulausu í því samhengi.


mbl.is „Vextir ógnun við íslenskt atvinnulíf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegið að öllu samningsliði Íslands

Ýmsir aðilar, "upphlaupsfólk", þar á meðal fólk í stjórnarandstöðu og sumir fjölmiðlar, hófu í gær upphlaup nokkurt gegn forsætisráðherra og fjölskyldu hans, og þar með óbeint einnig öðrum hlutaðeigandi aðilum opinberum, er varðar uppgjörið við slitabú föllnu bankanna og þar með hina svokölluðu erlendu hrægammasjóði.
Í því sambandi er vert að benda á eftirfarandi atriði:

Halda mætti að upphlaupsfólkið haldi að forsætisráðherra hafi einn á bekk verið að semja við hina erlendu hrægammasjóði svokölluðu fyrir sína hönd og fjölskyldunnar persónulega.
Fjarri fer því!
Þar á bekk voru að sjálfsögðu fjölmargir aðrir opinberir aðilar, svo sem í ráðuneytum og Seðlabanka Íslands með seðlabankastjóra í broddi fylkingar, auk ýmissa tilkvaddra sérfræðinga innlendra og erlendra sem veittu ráðgjöf.
Þar sem fjöldinn allur af fólki var saman í því að semja við slitabúin er þar af leiðandi út í hött að halda því fram að einn maður, forsætisráðherra, hefði getað komið einhverjum persónulegum sérhagsmunum þar að.

Með því að ásaka forsætisráðherra um linkind gagnvart hrægammasjóðunum, kröfuhöfum bankanna, þá er upphlaupsfólkið í reynd að ásaka allan þennan hóp í samningsliði Íslands um hið sama! Í reynd er vegið að öllu samningsliði Íslands sem tók þátt í undirbúningi samningsdraga og -gagna og samningum við slitabúin. Ætli upphlaupsfólkinu hafi sést yfir þá staðreynd?

Það hlýtur að mega búast við því að eitthvað heyrist frá öllum þessum aðilum í samningsliði Íslands í tengslum við afnám hafta og uppgjörið við slitabúin, sjálfum sér og þar með forsætisráðherra til varnar og til að hreinsa sig og ráðherra af áburðinum.

Fyrir utan ofangreint atriði hafa ýmsir bent á fjölmörg atriði í hnotskurn um ágallana í málatilbúnaði upphlupsfólksins gegn forsætisráðherra og fjölskyldu hans, sem ég læt vera að tíunda hér, en sem sjá má á ljósvakamiðlum ýmsum.


mbl.is Vissi ekki um kröfur félagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggja sjálfir með samtakamætti

Sú öfugsnúna þróun á fasteignaverði sem fyrrv. forstjóri Íbúðalánsjóðs dregur hér upp mynd af og sem hann telur orsakast af lækkandi vöxtum, að íbúðaverð muni hækka með lækkandi vöxtum, undirstrikar hið augljósa að framboð af íbúðarhúsnæði er ekki nóg. Á það er þó ekki minnst í viðtengdum fréttapistli og mætti fremur halda að viðmælandinn sjái lækkandi vöxtum margt til foráttu út af fyrir sig og íbúðakaupendum til íþyngingar. 

Aukið framboð á íbúðahúsnæði myndi hins vegar leiða til breyttrar sviðsmyndar.

Til viðbótar við of lítið framboð á íbúðarhúsnæði sem skýringu á of háu fasteignaverði og of hárri húsaleigu á markaðnum má ef til vill benda á að það sem þó er til af tómu íbúðahúsnæði eða í byggingu sé ekki nægilega mikið í "réttum" höndum séð frá sjónarhóli íbúðarkaupanda, þ.e. of mikið magn í eigu arðs-hámarkandi fjárfestingaraðila og/eða fasteignafélaga eða einstaklinga sem hafa þann tilgang fyrst og fremst að hagnast sem mest á húsnæðinu annað hvort með endursölu eða útleigu. Sá milliliðakostnaður er einstaklingum umtalsverður baggi við kaup og leigu á húsnæði.

Segja má að þetta ástand sé að hluta til um að kenna aðgerðaleysi einstaklinganna sjálfra, sem húsbyggjenda. Ef til vill einnig skorti á viðeigandi hvata og regluverki af hálfu hins opinbera.

Einstaklingar og fjölskyldur sem vantar húsnæði gætu vissulega tekið sig saman, í viðeigandi hópum, um að mynda t.d. byggingarsamvinnufélög með ákveðnar reglur þar sem öll stig undirbúnings- og byggingarvinnunnar upp að tilteknu byggingarstigi íbúða/húsa væru boðin út; til dæmis upp að fokheldisstigi eða "tilbúnu undir tréverk" eða tilbúnu til innflutnings. Með því móti væru einstaklingarnir, húsbyggjendur sjálfir, að fá húsnæði sitt því sem næst á kostnaðarverði, hvort heldur sem er í eigu eða leigu. Þeir væru þar með lausir við milliliðakostnað ávöxtunarkrefjandi fasteignafélaga eða byggingarfélaga þriðja aðila.

Þetta krefst að sjálfsögðu þess meðal annars að einstaklingarnir sem mynda slík byggingarsamvinnufélög hafi aðgang að nægilegu lánsfjármagni fyrir byggingu sína, þ.e. ekki síðri möguleikum en bjóðast ella við kaup á tilbúinni íbúð af annars konar byggingaraðilum sem byggja og selja íbúðir til endursölu. Þar sem of takmarkað framboð ríkir hefur verð hjá hinum síðar nefndu tilhneigingu til að vera tilsvarandi hærra, eðli málsins samkvæmt.

Með nægilegri viðleitni og framtakssemi íbúðakaupenda í þessa veru, að byggja sjálfir með eigin félagi, gætu þeir sjálfir með athafnasemi sinni smám saman og sem heild að miklu leyti komið í stað hinna ávöxtunarkröfuhörðu fasteignafélaga.


mbl.is Vaxtalækkanir hækka íbúðaverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hlutverk alþingismanna

Hlutverk alþingismanna er fyrst og fremst að huga að hagsmunum Íslands og velferð Íslendinga og standa að stjórn mannlífs og efnahagslífs á Íslandi með góðri og skynsamlegri og þjóðhollri lagasetningu og umfram allt standa með þjóð sinni á hverju sem gengur, allt á grundvelli stjórnarskrár íslenska lýðveldisins.
Til þess eru þeir kosnir og treysta kjósendur væntanlega á að alþingismenn verji tíma sínum og tímanotkun á vettvangi Alþingis til þess en ekki einhvers annars. 
Það myndi því skjóta skökku við ef það yrði að forgangsmáli hjá alþingismönnum að leitast við að stjórna öðrum þjóðríkjum í anda stórveldis. Spurning er hvort einhverjir hafi ef til vill afhjúpað alvarlegan misskilning sinn á þessu hlutverki sínu og vettvangi, eða vilji misnota aðstöðu sína, með því að setja slík mál á oddinn.
Sé það svo mætti þá í því sambandi ætla að viðkomandi hafi ekki fullan skilning á því hvernig efnahagskerfi landsins virkar né því að innanlandsframleiðsla landsmanna og utanríkisviðskipti landsins eru grundvöllur hagsældar og velferðar þegnanna. Einnig mætti halda þessu tengt að viðkomandi geri sér heldur ekki grein fyrir hvaðan launin þeirra sjálfra og annarra landsmanna koma að grunni til.
Það yrði lítið um utanríkisverslun Íslands ef farið yrði að fullu eftir hugmyndum um viðskiptabann á allar þjóðir sem lægju undir grun um brot á þegnum sínum, því væntanlega myndu viðkomandi aðilar vilja hafa jafnræði þar á á milli landa. Ekki væri þá hægt að láta staðar numið við bein viðskiptalönd okkar heldur væru þá einnig undir þau viðskiptalönd okkar sem hafa viðskipti við bannlöndin.
Ætli þeir sem tala fyrir viðskiptabanni Íslands gagnvart viðskiptalöndum okkar nær og fjær geri sér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir íslenskt efnahagslíf og mannlíf? Væntanlega er þeim ekki sama um hag Íslands í því sambandi.
 

mbl.is Vill sniðganga vörur frá Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrægammasjóðir og handbendi þeirra gegn hagsmunum Íslendinga

Í viðtali DV 25.6.2015 við forsætisráðherra Íslands er eftirfarandi óhugnanlega afhjúpun höfð eftir honum:

"Ég veit að ákveðnir aðilar sem vildu hafa áhrif á umræðuna út af haftamálunum fóru skipulega að dreifa ýmsum sögum um mig og þá með það að markmiði að reyna að draga úr trúverðugleika mínum og skaða möguleika mína á því að hafa áhrif á gang mála. Og talandi um fjárkúgun og hótanir þá hef ég meira að segja fengið hótanir úr þeim ranni."

Þetta er yfirgengilegt og við öll sem þjóð ættum að fylkja okkur að baki þeim sem há baráttuna fyrir okkar hönd við kröfuhafa í bankakerfinu til að forða þjóðinni frá efnahagslegum ógöngum; Gegn hrægammasjóðum kröfuhafa og handbendum þeirra, útsendurum og kvislingum.


mbl.is Sigmundi hótað vegna haftamála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheildstæð hagstjórn?

Í þeim tilgangi að sporna við þenslu í hagkerfinu væri nær að beita fjármálastjórn ríkisins í gegnum skatta- og bótakerfið og útgjaldastefnu í stað vaxtahækkana, ef raunverulegur tilgangur vaxtahækkana er að verjast væntri þenslu í hagkerfinu eða tilraun til að koma í veg fyrir of mikla þenslu.
Ef eitthvað ýtir undir verðbólguvæntingar og verðbólgu þá eru það stýrivaxtahækkanir Seðlabankans, en með þeim segist hann aftur á móti leitast við að slá á verðbólgu!

Með slagkröftugum tækjum fjármálastjórnar ríkisins er hægt að minnka umsvifin í hagkerfinu með því að auka tekjur ríkisins og/eða draga úr útgjöldum þess, sem kæmi ríkissjóði beint til góða og þar með öllum almenningi óbeint til góða til örlítið lengri tíma litið þar sem ríkið gæti varið auknum fjármunum sem það hefði þá yfir að ráða t.d. til lækkunar á skuldum ríkisins.
Vaxtahækkanir koma hins vegar fyrst og fremst bankakerfinu og fjármagnseigendum beint til góða jafnframt því að draga úr ráðstöfunartekjum einstaklinga/heimila, sérstaklega skuldsettra einstaklinga, og auka kostnað skuldsettra fyrirtækja og dregur þar með úr hvata til atvinnusköpunar og eykur hættu á atvinnumissi einhverra.

Á sama degi og Seðlabankinn tilkynnir umtalsverða vaxtahækkun með þeim rökum að hún sé ætluð sem mótaðgerð við vænta þenslu í hagkerfinu birtist frétt af fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann viðrar hugmyndir sínar um skattalækkanir!
Með þessu móti væru stefnur Seðlabankans og fjármálaráðherra gagnverkandi. Segja mætti, með einfölduðum hætti, að sá kokteill feli í raun í sér tilfærslur á fé frá ríkinu og einstaklingum og fyrirtækjum, gegnum einkageirann, til bankakerfisins og fjármagnseigenda.
Þetta er þverstæðukennt og leiðir til spurninga um hvort slík víxlverkun sé skynsöm og réttlát hagstjórn á heildina litið fyrir þegna þessa lands.


mbl.is Hækka stýrivexti bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðigjöld mismunandi eftir fiskiskipategundum

Litlir bátar hafa verið þjóðhagslega hagkvæmir með hæfilegum afla, samanborið við stór fiskiskip.

Þetta á bæði við um smábáta á strandveiðum og stærri báta, jafnvel upp að 110 Brl og í sumum tilvikum upp í 200 Brl háð landshluta og veiðisvæði. Þetta sýndu umfangsmiklir útreikningar mínir á hagkvæmustu samsetningu íslenska fiskiskiptaflotans með gögnum fyrir tilkomu aflakvótakerfisins. Þar var tekið tillit til mismunandi stærðarflokka báta/togara, aflasamsetningar mismunandi veiðarfæra, fisktegunda, veiðisvæða, löndunarsvæða og vertíða. Sömuleiðis mismunandi kostnaðaraðstæðna háð þessum breytum, bæði breytilegs rekstrarkostnaðar og fasts kostnaðar, sem og aflaverðs eftir löndunarsvæðum. Fiskvinnslan var alveg þar fyrir utan að öðru leyti.
Til þess arna þróaði ég viðeigandi reiknilíkan (bestunarlíkan) sem varð verulega stórt að umfangi með tilliti til ofangreinds breytileika og hliðarskilyrða. Enda tók það nokkrar klukkustundir í keyrslu á stórri móðurtölvu (mainframe) á þeim tíma.

Auðvelt er fyrir ríkisvaldið að haga upphæð veiðigjalda eftir samsetningu fiskiskipaflotans og útgerðartegund. Þannig er hægt að láta upphæð þeirra pr. aflakíló fara eftir stærðarflokki fiskiskipategunda, útgerðartegund og fisktegund.

Með þessum hætti er hægt að taka tillit til mismunandi aðstæðna í útgerð, þar undir jafnvel þjóðhagslegrar hagkvæmni, sem og  byggðasjónarmiða.


mbl.is Hætta á fækkun smærri fyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúrupassinn fær reisupassann

Það er ekki nema von að iðnaðarráðherrann skuli gefa náttúrupassa ómöguleikans reisupassann; og er það vonum seinna.

Hvað er þá til ráða? Jú, hin eðlilega lausn: Þeir borgi sem njóta, þ.e. seljendur og/eða kaupendur þjónustu við náttúruskoðun.

Hverjir eru seljendur? Eigendur og/eða handhafar landgæðaréttinda. Þeir ættu að kosta sómasamlega þjónustuaðstöðu og viðhald hver á sínum stað, sem háð yrði opinberu eftirliti og leyfisveitingum, og hafa leyfi til að taka "hæfilegt" og "hóflegt" gjald fyrir.

Að öðrum kosti, eins og verið hefur hingað til og enn stefnir í, eru skattgreiðendur á Íslandi að niðurgreiða og/eða styrkja með óbeinum hætti starfsemi hópferðafyrirtækja og bílaleigufyrirtækja sem gera út á þessa auðlind sem íslensk náttúra er.

Hópferðafyrirtæki og aðilar sem selja (ekki síst erlendum) ferðamönnum útsýnisferðir á tiltekna staði gætu að sjálfsögðu selt kúnnum sínum aðgöngumiða á viðkomandi staði samkvæmt samkomulagi við hvern aðila eins og verkast vill.

Nú, sem áður, er bara hægt að harma að stjórnmálamenn og embættismenn skuli hafa eytt dýrmætum tíma í athafnaleysi í skipulags- og gjaldtökumálum út af vangaveltum og hugmyndum um náttúrupassa sem ekki getur virkað sem skyldi, í stað þess að drífa í að koma á nothæfu og eðlilegu fyrirkomulagi t.d. á ofangreindum nótum eins og tíðkast víða erlendis og þykir eðlilegt.

Þetta fyrirkomulag leysir þó ekki allan vandann tengt kostnaði við vinsæla og verðandi ferðamannastaði til náttúruskoðunar. Þar verður hið opinbera að kosta til og styrkja lágmarksframkvæmdir til að byrja með á hverjum stað. Það má fjármagna með gistináttagjaldi og öðru því um líku sem til þess er ætlað.


mbl.is Gefur náttúrupassa upp á bátinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útgönguskattur á krónuinnstæður hrægammasjóða

Gjaldeyrishöftum á Íslandi skal ekki aflétt fyrr en fyrir liggur að nógu hár útgönguskattur verði lagður á erlenda eigendur mörg hundruða milljarða krónuinnstæðna, svokallaða hrægammasjóði. Þeir bíða, sem kunnugt er, eftir því álengdar eins og svífandi hrægammar yfir hræi að komast út úr landinu með þetta fjármagn í erlendum gjaldeyri.

Hvað er “nógu hár” útgönguskattur á þetta fjármagn?
Hann þarf að vera það hár að gjaldeyrisforði þjóðarinnar geti staðið undir væntu og mögulegu útflæði þess hluta þessa fjármagns sem eftir stæði.

Það er afar athyglisvert sem Lilja Mósesdóttir hagfræðingur hefur haldið fram um þessi mál. Hún hefur m.a. bent á að útgönguskatturinn þurfi að vera miklu meira en 40%, sem heyrst hefur að rætt sé um núna.

Ef rétt er að hrægammasjóðir hafi keypt forgangskröfur í þrotabúin í kjölfar hrunsins á 4-30% af nafnvirði krafnanna þá "mætti" útgönguskatturinn vera upp undir 70%-90% án þess að þeir skaðist í því samhengi.

Of lágur útgönguskattur samhliða afnámi gjaldeyrishafta myndi líklegast hreinsa upp gjaldeyrisvarasjóð landsins, orsaka botnlaust gengisfall krónunnar með tilheyrandi kjararýrnum fyrir almenning og efnahagsáfalli fyrir þjóðarbúið með tilheyrandi glundroða og kalla á ný gjaldeyrishöft í kjölfarið.

Hver væri þá ávinningurinn? Hverra væri ávinningurinn?

Myndu íslensk stjórnvöld virkilega standa að slíku áfalli fyrir íslenskan almenning?


mbl.is Aðstæður til afnáms hafta aldrei betri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frosti um mál í frosti

... eða er þetta of augljóst til að verða hrint í framkvæmd?

Gott er að Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is, skuli enn einu sinni vekja máls á þessu og leitast við að halda málinu heitu.

Er nú mál að þingheimur vakni til meðvitundar um þetta mál og haldi því ekki lengur í frosti. Þessi Þyrnirósarsven þingheims kostar okkur um 800 milljónir króna mánaðarlega.


mbl.is Tugir milljarða í vexti til bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband