Færsluflokkur: Sjónvarp

Lítil skref

Að mínu mati er lagið "Lítil skref" áberandi flottasta lagið, meðal annarra flottra og góðra laga í riðlinum í gærkveldi, 7.2.2015; Gott "grúv", hlý og glaðleg og blæbrigðagóð melódía og góður söngur.

Söngurinn og sviðsframkoman eiga bara eftir að styrkjast og magnast með þrotlausum æfingum fram að lokakeppninni í Eurovision ytra.

Já, lagið Lítil skref er stórt skref í áttina að hlutdeild Íslendinga í lokatónleikum EuroVision í Austurríki í vor.


mbl.is 4 af 6 lögum áfram (MYNDIR)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannfæring á fölskum forsendum

Faðir og móðir myrða táningsdóttur sína með köldu blóði á hryllilegan og hægvirkan hátt fyrir þær "sakir" að hafa "gjóað augunum á unglingspilt". Þetta gera þau að því er virðist vegna trúarsannfæringar sinnar sem þeim hefur verið innrætt í krafti trúarbragða og á vegum viðkomandi fræðara og trúarleiðtoga. Firringin kórónast síðan með því að guði er kennt um glæpinn, með því að halda því fram að  hann hafi viljað að þau dræpu barn sitt! - Hvílík rökleysa!

Þetta er ógeðfellt dæmi um það er trúarbrögð "verða ill", eins og trúarbragðafræðingurinn Charles Kimball prófessor fjallar um á skilmerkilegan hátt í bók sinni When Religion Becomes Evil: Five Warning Signs (HarperSanFrancisco 2002), m.a. um blinda hlýðni eins og hér um ræðir. Trúarleiðtogar bera  hér þunga ábyrgð vegna þess að það eru þeir sem réttlæta og viðhalda þeirri túlkun sem meðal annars er iðkuð á þennan harðneskjulega hátt.

Þessi blinda trúariðkun fyrirfinnst þó ekki aðeins í löndum eins og því sem sagt er frá hér í viðtengdri frétt.
Hún er líka til staðar í ýmsum sértrúarsöfnuðum á Vesturlöndum og ekki síður í hópum sem berjast fyrir einhverjum málefnum á veraldlegu sviði í krafti sannfæringar sem þeir hafa viðtekið og gert að sínum. Sem betur fer er þó ekki algengt að slík iðkun leiði til morða.
Nærtækt dæmi af því tagi er svokölluð "Teboðshreyfing" í Bandaríkjunum. Frá henni, baráttumálum hennar, starfsaðferðum og bakhjörlum var greint í athyglisverðum og sjokkerandi heimildarþætti, "The Billionaires' Tea Party", sem sýndur var í Sjónvarpinu/RÚV 31.10.2012. Þetta er kallað grasrótarhreyfing þar sem "venjulegt" fólk úr hópi almennings lætur sannfærast af pólitískum markmiðum undir merkjum frelsis sem í reynd eru andstæð velferð sama almennings en gagnast stórum fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem fjármagna m.a. öflugar auglýsingaherferðir hreyfingarinnar. Dæmi um það er barátta hreyfingarinnar gegn viðleitni núverandi forseta landsins um umbætur til handa almenningi á sviði sjúkratrygginga.

Þetta eru allt dæmi um það er einstaklingar láta af hendi sjálfstæði sitt og/eða undirgangast kúgun og þöggun við skoðanamyndun um mikilvæg málefni og gera sannfæringu og/eða boð annarra að sinni sannfæringu.
Þetta gerist þó oft og  iðulega "í góðri trú" og vegna þeirrar grunnhyggni og leti eða tímaskorts að hafa ekki fyrir því að afla sér upplýsinga og þekkingar um viðkomandi málefni til að taka síðan afstöðu á gagnrýnan hátt og á eigin forsendum og í samræmi við leiðsögn eigin samvisku. Í versta falli verður persónuleg sannfæring þá mótuð á fölskum forsendum.


mbl.is Segir morð á dóttur „vilja guðs“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt jákvætt tón-fréttastef í Sjónvarpinu

Ég vonaði að kynnt yrði nýtt fréttastef í Sjónvarpinu á ársafmæli hrunsins. Sú von brást - í bili. Þess vegna vek ég athygli á eftirfarandi atriðum og legg fram tillögu til úrbóta, fólkinu í landinu til heilla.

Ástæðan er sú að mér finnst þetta drungalega, ömurlega og niðurdrepandi dómsdagsstef vera samnefnari og boðberi hrollvekjandi tíðinda í hvert einasta sinn sem það heyrist á undan fréttatímum í Sjónvarpinu. Sérstaklega endastefið með dimmmmmmmu hamarshöggunum-mmmm á lágu bassanótunum á píanóinu.
Þetta varð einhvern veginn samofið kvíðvænlegum fréttum oft á dag við hrunið síðasta haust. Í hvert sinn sem það heyrist í aðdraganda fréttatíma taka magavöðvarnir kipp, skrokkurinn stífnar, köldum svita slær út um allan líkamann og stjarfir eða titrandi og á nálum setjast sjónvarpsáhorfendur sem negldir fyrir framan tæki sín eins og fórnarlömb sem bíða dómsins. Þetta er ekki uppbyggilegt fyrir fólk og mál og þörf að linni.

Núna erum við búin að hafa þennan ömurlega og ógnvekjandi drungatón hamrandi í eyrunum í heilt ár sem sífelldan boðbera óheillavænlegra og neikvæðra frétta. Nú er nóg komið. Nú eru tímamót.
Nú þarf að breyta til og skipta yfir í jákvæðari, uppbyggilegri og glaðlegri tón sem vekur bjartsýni og eykur kraft og dug.
Nú þurfum við boðbera góðra frétta klingjandi í eyrunum daglega, oft á dag, sem boðar og undirstrikar nýja,  batnandi og betri tíma. Tíð uppbyggingar.

Undir öllum kringumstæðum er þjóðþrifamál að breyta um tónstef hið snarasta og segja þar með skilið við þetta stikkorðs-ígildi hrunsins.

Væri til of mikils mælst, kæra rúv, að hugleiða málið og fá snjalla tónstefjahöfunda til að framleiða skemmtileg stef í jákvæðum og glaðværum anda í ljósi ofangreindra atriða og taka það í notkun eins fljótt og mögulegt er? Stefin mega gjarnan vera fleiri en eitt, til að hafa til skiptis eftir tilefni.

Hvernig væri til dæmis að efna til samkeppni um svona fréttastef og láta þjóðina síðan kjósa sín stef með því að velja á milli frambærilegra tillagna?

PS. Ég tek það fram, að fyrst þegar umrætt tónstef var tekið upp í Sjónvarpinu fannst mér stefið mjög flott og töff og viðeigandi inngangsstef fyrir fréttatíma, enda er það frábært út af fyrir sig sem slíkt og höfundi sínum til sóma; það er ekki málið. Ég er einungis að benda á að nú finnst mér þetta magnaða stef orðið svo samgróið öllum hinum neikvæðu tilfinningum í tengslum við hrunið, hliðstætt því er góð kvikmyndatónlist nær að magna upp hughrif undir dramatískum og óhugnanlegum atburðum í viðkomandi kvikmyndaratriðum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband