Færsluflokkur: Umhverfismál

Lofsvert framtak

Þetta lýsir framsýnni uppbyggingarstefnu í framkvæmd. Þökk sé aðstandendunum.

Svona aðgerðir eru vel til þess fallnar að byggja upp vistvæn gildi hjá upprennandi kynslóðum landsins og vekja hjá þeim tilfinningar fyrir verðmæti þess sem slíku, þar á meðal ósnortinni náttúru, og nauðsyn á þess háttar umgengni um það sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Ekki veitir af því.
Það er þó ekki síður gott sjálfra þeirra vegna persónulega, að þau öðlist slíka reynslu og þekkingu við eigin skynjun fremur en bara af afspurn.

- Eða, eins og ég orti í texta við lagið "Landið sem lengi var" á plötunni minni Kveikjur (sbr. afrit í tónspilaranum á bloggsíðunni minni):

"Þá börnunum okkar við bjóðum stað,
þar sem bergmálar aldanna kyrrð.
Þeim ómetanlegt er að upplifa það,
sem ósnortið kom úr ára firð."

Lifið heil!


mbl.is Vaxandi vinsældir náttúrulegra leiksvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stemning í Skrúði og Dýrafirði

Skrúður er dásamlegur garður í mögnuðu umhverfi. Ég mæli eindregið með að ferðafólk geri lykkju á leið sína um Dýrafjörð og keyri út að Núpi, þar sem garðurinn er. Þarna eru ótrúlega margar plöntur, tré, runnar og blóm í öllum regnbogans litum. Þarna hefur verið vel hirt og nostrað við hlutina. Ekkert er sambærilegt við það að setjast niður í svona umhverfi og láta hugann reika á glöðum sumardegi innan um gróðurinn og ilminn. Þarna öðlast maður kærkomna hvíld frá glímunni við þjóðveginn, þótt ekki sé dokað lengi við.

Þá er stutt í yndislega mýrina neðan við gamla skólastjórabústaðinn að Núpi. Þar er hægt að ganga um vegarslóða, talsverðan spotta, niður í fjöru og inn að ós litlu árinnar sem þar rennur í sjóinn. (Umferð er að vísu takmörkuð yfir varptímann). Á þeirri gönguferð skiptir litlu máli hvernig veðrið er ef maður er viðeigandi klæddur. Gróðurilmurinn allsstaðar, villt blómin bærast fyrir golunni innan um puntstráin og hápunkturinn er þegar spói vellir sjóðbullandi í fjarska úti í mýrinni.

Ef farið er enn utar með ströndinni, og ekki skeytt um slæma færð, er komið í Arnarnes. Þar er nánast dulmagnað svæði, skáhallt á móti Haukadal sem er hinum megin við fjörðinn, þar sem meginvettvangur Gísla sögu Súrssonar er. Fjaran við Arnarnes er fjölskrúðug og römm. Þögult umhverfið og fallin mannvirki vitna um fyrri tíma. Ofan við rísa ógnvekjandi, þverhníptir hamrarnir.

Ef komið er við á Þingeyri er upplagt að skreppa út með ströndinni í Haukadal og ganga þar um og dálítið upp í dalinn um kindatroðninga. Það er einkar áhrifaríkt að virða fyrir sér staðháttu, hafa bókina um Gísla sögu Súrssonar meðferðis og lesa yfir kafla þar sem staðháttum er lýst og þannig nánast upplifa söguna með sögusviðið ljóslifandi fyrir augum sér. Mannlýsingar sögunnar eru krydd á dvölina þarna og fá dalinn til að lifna við. Þarna sést hóllinn þar sem bærinn stóð forðum, samkvæmt sögunni, hlíðarnar sem kotin stóðu á og seftjörnin ofan við fjöruna sem einnig er minnst á. Magnað! Þótt deila megi um sannleiksgildi sögunnar eru staðháttalýsingarnar í henni í samræmi við raunveruleikann. - Þarna er líka stutt í skemmtilegan golfvöll! Góða ferð!


mbl.is Garðurinn Skrúður í Dýrafirði 100 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heima er von, ef ...

Undursamleg mynd um heimkynni mannkyns, Home, var sýnd hnípnum landsmönnum í kvöld, sem varla hafa verið búnir að jafna sig eftir fréttir dagsins og var það þó ærið álag.
Þar er dregin upp mynd af örlagaríkum inngripum manna í lífkeðju jarðar, sérstaklega undanfarinn mannsaldur. Eftir þá dökku sýn sem vakin er athygli á um miðbik myndarinnar er í síðasta hluta hennar blessunarlega bent á jákvæða hluti sem eru þó að gerast í sumum löndum víða um heim þrátt fyrir allt og þeir gefa vissulega VON. Á henni þarf fólk á þessari jörð að halda nú sem aldrei fyrr. En vissulega þarf að bregðast hraðar við aðsteðjandi vanda en hingað til, áður en náttúran hreinlega neyðir menn til breytinga; til að lifa næsta dag!
Einn vandinn í þessu sambandi er þó sá, að baráttan um breytingar fyrir lífvænlegri umgengni um viðkvæma náttúru og auðlindir hennar á sér stað á vettvangi stjórnmálamanna þróuðu ríkjanna og skoðanamyndun og siðferðisstyrk í heilabúi þeirra manna. Spurningin er hverju þeir greiði atkvæði með: þröngum hagsmunum, eða víðsýni sem tekur tillit til samverkandi lífkerfis náttúrunnar í hnattrænu samhengi í ljósi þess að áframhaldandi siðmenntað líf er háð sjálfbærum lifnaðarháttum.

Hér og nú er þörf á endurnýjun hugarfarsins að þessu leyti og að hugað verði að gjörbreyttum lifnaðarháttum í þessum anda. Annars eiga afkomendur okkar ekki von um lífvænlega framtíð.

Það gleðilega fyrir Íslendinga er að það er býsna margt sem hér er hægt að gera til að sporna við þessari ógnvænlegu þróun samhliða því að ráðin væri bót á öðrum aðkallandi vandamálum, svo sem að stemma stigu við atvinnuleysinu, auka framleiðslu innan lands sem kæmi í vaxandi mæli í stað innflutnings og yki útflutningstekjur, yki eftirspurn eftir húsnæði (fyllti jafnvel allt það tóma og ókláraða húsnæði sem er fyrirliggjandi núna) og væri fyrirmynd fyrir það hvernig takast má á við aðsteðjandi erfiðleika og tekjurýrnun í þjóðarbúskapnum.
Málið snýst um að beina vinnufúsum höndum og hugum í uppbyggilega farvegi, sem vissulega eru fyrir hendi ef vel er að gáð.

Þessi atriði er auðvelt að útfæra, sérstaklega ef hugsað er örlítið, jafnvel talsvert, út fyrir þröngsýnan "kassann" (og væri hægt að halda því áfram hér). En, hvar eru allir ráðgjafarnir og ráðþegarnir á vegum hins opinbera? Stjórnarandstaðan kvartar undan því undanfarna daga að lítið bitastætt heyrist úr þeim ranni til úrlausnar á bráðavanda þjóðarinnar!
Hið hryggilega er að lítið fer fyrir umræðu í slíka veru á opinberum vettvangi og virðast menn og aðilar félagssamtaka stjarfir við að horfa á hraðminnkandi atvinnuleysistryggingasjóði og sóa þar með dýrmætum tíma í vonlitla bið og aðgerðaleysi og karp í stað þess að nýta m.a. það fé og verkefnalausan mannafla til uppbyggilegri hluta.

Sem sagt: Við þurfum að bregðast viturlega við sem fyrst, bæði heima fyrir og hnattrænt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband