Endurskilgreining á sjálfstæði þjóðar í samhengi samtímans

Þátturinn Silfur Egils í gær, 31.10.2010, er allrar athygli verður. Ekki síst fyrir þá sem fyrirfram hafa tekið upp þá skoðun að vera á móti ESB og jafnvel á móti umræðum um kosti þess og galla, sem er enn verri afstaða og hættuleg hagsmunum þjóðarinnar. Slík afstaða manna virðist mótast af rómantískum tilfinningum einum saman en ekki raunsæi.
Eða, hvernig er hægt að taka vitræna afstöðu um þýðingarmikil mál án þess að skoða þau á sem hlutlausastan hátt áður en tilfinningum er hleypt að dómarasætinu?!

Heitustu þjóðernissinnarnir ganga ekki erinda föðurlandsvinarins Einars Þveræings um að halda "sjálfstæði" landsins, telji þeir svo, með því að hafna samstarfi við stórveldin umhverfis. Þvert á móti.
Við stöndum frammi fyrir því nú að endurskilgreina hvað felst í "sjálfstæði" þjóðar í heimsþorpinu Jörð, efnahagslega og stjórnmálalega séð, og hvernig því sjálfstæði í skilningi samtímans verður helst náð og varðveitt til lengri tíma litið í friði.

Ég er að sjálfsögðu fylgjandi sem mestri og bestri upplýstri umræðu um ESB-aðild. Viðmælendur Egils í þættinum í dag drógu upp afar þýðingarmikil atriði, sem ekki hafa verið áberandi í "umræðunni" (gagnstæðum upphrópunum) hérlendis hingað til:
Að hugsa til framtíðar í langtímasamhengi og láta af "stórveldið Ísland"-hugsunarhættinum.

Einnig held ég að almenningur geri sér ekki fulla grein fyrir því að núverandi stefnuleysi og óvissa um efnahagslegan ramma um atvinnulífið á Íslandi, séð frá bæjardyrum hugsanlegra erlendra fjárfesta og viðskiptaaðila, er þess valdandi að þeir halda að sér höndum. Stöðnunin og afturförin hérlendis undanfarin tvö ár sannar það.
Hér mun ekkert afgerandi gerast til að koma framleiðslu- og gjaldeyrisskapandi atvinnulífi landsins á gott og uppbyggilegt skrið fyrr en þessir þættir eru komnir í fastar og trúverðugar skorður. Tal um annað er blekking! Eða, hver vill stinga hendinni í bullandi suðupott, þar sem ekki sést einu sinni hvað er verið að sjóða?

Það er auðvitað hárrétt sem Michel Rocard, fyrrv. forsætisráðherra Frakklands, bendir á að Ísland er peð á vettvangi stjórnunar alþjóðlegra efnahagsmála og stjórnmála. Það mun lítið verða um meint sjálfstæði og fullveldi Íslands utan stórra sambanda í því kapphlaupi og keppni stórþjóða sem er í uppsiglingu hér á norðurslóðum nú þegar og í sívaxandi mæli í framtíðinni. Hrokafullur þjóðarrembingur frá Íslands hálfu mun mega sín lítils í þeim leik.
Halda menn til dæmis að þorskastríð Íslendinga við Breta á áttunda áratug 20. aldar hefði verið eins “friðsælt” ef bæði löndin hefðu ekki verið í sama hernaðarbandalaginu?

Þeir sem hafna raunverulegri umræðu um ESB-aðild og allri hjálp til að efla þá umræðu og fela sig á bak við lítt ígrundaða eða órökræna sleggjudóma ættu að hugsa sinn gang og íhuga hina miklu ábyrgð sína. Þar er um að ræða aðila bæði til sjávar og sveita. Þeir ættu einnig að íhuga það alvarlega hvort farsælla sé að finna bestu lausnina fyrir þjóðarheildina og almenning í landinu eða halda sérhagsmunum til streitu. Hvernig er vænlegast að varðveita sið og frið í landinu?

Ég held að það sé ekki fleipur sem hinn reyndi stjórnmálamaður Rocard hélt fram um að horft verði til reynslu og hæfni Íslendinga í hinum ýmsu málefnum sem varða veru og lífsbjargir á norðurslóðum, ekki síður en Norðmanna. Þetta áréttaði hann í fyrirlestri í dag í Háskóla Íslands og bætti við þeirri ráðleggingu til okkar Íslendinga, að hvað svo sem við ákvæðum að gera í utanríkismálum og á alþjóðlegum vettvangi að þá þyrftum við að fylkja okkur í liði einhverrar stórrar efnahagsheildar svo ekki yrði einfaldlega vaðið yfir okkur og hagsmuni okkar.
Í fyrirliggjandi viðhorfum stórvelda um mikilvægi norðurslóða liggja ýmis spennandi tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf á flestum sviðum efnahagslífsins. Hvernig væri að fara að huga markvisst að þeim möguleikum og uppbyggingu þar að lútandi til lands og sjávar í samvinnu við viðeigandi þjóðir? Það er ekki seinna vænna.

Og, gera einnig eitthvað róttækt í því að fá hærra og sanngjarnara verð fyrir raforkuna, sem hingað til hefur farið fyrir slikk ofan í einhæfa arðránshít þar sem málmbræðslurnar eru. Þar verður að huga að öðrum kostum án tafar. Úrelt hreppapólitík skammsýnna stjórnmálamanna og annarra ráðamanna um “álver heim í hérað”, eins og ríkti um kaup skuttogara hér fyrir nokkrum áratugum án tillits til heildarhagkvæmni, verður að víkja.

Það er tímabær og grafalvarleg áminningin sem röksnjall Njörður P. Njarðvík benti á í lokin í umræðuþætti Egils um það hvers vegna "dýrin" á bænum urðu um síðir að taka völdin: Láta lífið ella!
Vilja stjórnmálamenn og ráðandi öfl í þjóðfélaginu framkalla slíkt ástand á Íslandi? (Það er að vísu þegar brostið á í formi atgervisflótta frá landinu eins og Andri Geir benti á!). Ég held ekki, en þau gera sér ef til vill ekki grein fyrir þeim möguleika; sjá ef til vill ekki út fyrir hina háu múrveggi sérhagsmunanna að tímar slíkra þröngsýnna sjónarmiða meðal lítillar þjóðar eru taldir.


mbl.is Össur fundaði með Rocard
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

1.11.2010 | 17:10

Yfirlögfræðingur Alþingis Íslands biðst undan að svara einfaldri spurningu sem gæti sýnt fram á að Umsókn vegna Inngöngu í ESB sé ólögleg. Forseti Íslands átti að skrifa undir hana en það gleymdist í hamaganginum á Alþingi Íslands

Þetta er hið versta mál og ef ekkert er hægt að gera vegna þessa galla á umsókninni sem er efni til þess að draga hana til baka hvar eru við þá stödd. Fyrst eru gerð landráð samkvæmt kafla X greinar 86/87/88 síðan eru brotin stjórnarskrár lög grein 18 og grein 19 ég spyr verðum við fólkið ekki að láta taka þessa ráðherra fasta fyrir brot á stjórnarskránni. 

18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum. Sjá umsókn http://www.mbl.is/media/79/1579.pdf

Samkvæmt stjórnarskránni þá er umsókn ólöglegt plagg en þetta er stjórnarerindi og er ekki gilt nema forseti Íslands skrifi undir það.

Valdimar Samúelsson, 1.11.2010 kl. 23:05

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Ef rétt reynist þá er fokið í flest skjól stjórnarmyndarinnar ef hún getur ekki einu sinni gengið rétt og sómasamlega frá einföldustu skrifborðsmálum!

Kristinn Snævar Jónsson, 1.11.2010 kl. 23:46

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sammála þér Kristinn. Betur væri ef menn kynntu sér málin og taki síðan afstöðu án þess að verða stimplaðir sem landráðamenn. Auðlindir sjávar eru háðar góðri umgengni og þar getum við haft forystu. Við höfum ekki farið vel með þær og alltaf gengur á fiskistofnana. Íslenski landbúnaðurinn er það einstakur vegna norðlægrar legu landsins, það eru verðmæti fyrir ESB að halda í hann, hreinan og án smitsjúkdóma.

Flestar umbætur félags- og efnahagslegar höfum við sótt til Evrópu og því ættum við að vera hræddir við þá.

Sigurður Antonsson, 2.11.2010 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband