Segullinn að Bifröst

Bifrestingar, núverandi, fyrrverandi og verðandi: Til hamingju með nýjan rektor. Allar góðar óskir í hið gamla og virðulega hlað Bifrastar um jákvæðan árangur við uppbyggingarstarfið sem framundan er.

Það er hins vegar hörmulegt að hin gamla og fagra götumynd Bifrastar sem blasir við á meðfylgjandi mynd fréttarinnar skyldi að miklu leyti hafa verið eyðilögð með þeim kassalaga húsablokkum sem reistar voru illu heilli þvert fyrir framan gamla skólahúsið. Það lítur þó alltaf út eins og nýtt í glæsileik sínum innan um þá fáu birkirunna sem eftir standa í kring. Það ber af eins og gull; enda var ævigull fólgið í námsdvöl þar.

Algjörlega nauðsynlegt er að bæta úr því sem hægt er úr því sem komið er varðandi hina nýju götumynd skólans. Gamla götumyndin er nánast horfin á þessum stað nema þétt upp við skólahúsið og í æpandi stílbroti standa nú tvær 2ja hæða L-laga íbúðablokkir þar sem hinir stoltu runnar standa á myndinni og girða gamla skólahúsið af eins og virkisveggir. Í stað grænna birkirunna í náttúrulegum forgrunni skólahússins blasa nú við tveir húsakassar með neon-græna spanskgrænutauma lekandi niður veggi (það hefur e.t.v. verið "snilldarhugmynd" arkitektanna með því að hafa málmfleka á veggjum). 
Ganga þarf sómasamlega frá í kringum nýju blokkirnar, en aðkoman er enn hryllilega fráhrindandi. Fjarlægja þarf drasl sem þar er enn að finna gestum og íbúum til ama, ganga frá jarðveginum umhverfis og móta tilhlýðilega og planta gróðri eins og líflegum og bústnum birkirunnum í staðinn. Lífga umhverfið!
Gera þarf aðkomuna sem mest aðlaðandi þrátt fyrir þann skaða sem orðinn er og reyna að lágmarka hann sem mest að þessu leyti.

Ég fullyrði að gamla og magnaða götumyndin að Bifröst sem blasti við langt að er keyrt var upp Norðurárdalinn og opinberaðist í skrúða sínum er nær dró átti drjúgan þátt í því að laða nemendur að skólanum, að þeim töfrum sem þar voru fólgnir á staðnum og í því samfélagi nemenda og starfsfólks sem þar vann hverju sinni. Dvöl á staðnum í nærsamfélaginu þar var yndislegt dæmi um "paradís á jörð", sem þeir skildu best er það upplifðu; ef til vill þeir einir! Sá skilningur kom ekki síst eftirá. Námsdvöl þarna var einstök gæfa þeirra er hennar nutu og lagði grunninn að svo mörgu í lífinu.
Svo getur enn orðið!

Ef nýjum skólayfirvöldum tekst að laga þessi atriði og stuðla að öðru leyti að því að endurvekja töfra staðarins og dvalar þar getur hann aftur orðið sá segull sem hann var. Þá verða umsækjendur um námsvist í staðarnámi aftur fleiri en hægt verður að taka á móti.


mbl.is Bryndís verður rektor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband