Spennandi hermilíkan um lífheim

Svona hermilíkan er afar spennandi hugmynd. Við það að tengja saman þekkingu úr öllum heimshornum, greina hana, túlka og öðlast skilning á þeim gagnvirku ferlum sem að baki liggja í samfélagi manna á hverjum "stað" er opnuð leið við þróun aðferða til að spá og/eða sjá fyrir um meginatburði sem líklegir eru að koma til vegna undirliggjandi þróunar í lífheimi jarðar háð tíma. Það gefur mönnum aftur á móti möguleika á því að bregðast við fyrirfram eftir föngum og grípa inn í óheillavænlega þróun.
Þá komum við að því praktíska atriði að hvaða leyti mönnum mismunandi stétta, þjóða, menningarsvæða og landsvæða tekst að koma sér saman um aðgerðir í því sambandi.

Orð eru til alls fyrst. Þegar grundvöllur upplýsinga og þekkingar um hnattræn ferli batnar með þessum aðferðum og tilheyrandi rannsóknarvinnu batna horfur á því að mannkyni sem heild farnist betur en ella.
Hitt er annað að samfara svona greiningartæki kemur líka hætta á því að stórveldi notfæri sér upplýsingar á þeim grunni í sérhagsmunaskyni, t.d. varðandi álitamál hernaðarlegs eðlis.

Við verðum að vona það besta. Notkunarmöguleikarnir á grunni svona hermilíkans eru óteljandi. Rannsóknarvinna við gerð þess býður einnig upp á alþjóðlegt samstarf á þessum vettvangi þar sem hver þjóð getur lagt sinn skerf á sviði bæði raunvísinda og hugvísinda á vogarskálar.
Í samhengi hnattræns líkans fyrir ýmis gagnvirk hegðunarmynstur í lífheimi vega ekki síst hugvísindi á sviði t.d. hagfræði, sálfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og trúarbragðafræða þungt; sérstaklega vegna þess að erfiðara er að kveða á um virkni mannlegra þátta heldur en vélrænna lögmála á sviði raunvísinda. Mannlegir og vélrænir þættir spila svo aftur á móti saman t.d. við mat á þróun mengunar og nýtingu náttúruauðlinda.
Þar eru þó alltaf túlkunarvandamál til staðar, eins og verkefni upp úr 1970 á vegum Rómarklúbbsins svokallaða um útreikninga á takmörkum og endingu náttúruauðlinda jarðar og afleiðingum mengunar er dæmi um (sbr. tímamótabók Meadows o.fl. The Limits to Growth 1972, í danskri þýðingu Jörgen Jakobsen Grænser for Vækst 1974, Kaupmannahöfn, Gyldendal. Sbr. einnig önnur skýrsla Rómarklúbbsins um sömu mál í bók Mesarovic og Pestel Mankind at the Turning Point 1974, í danskri þýðingu Jakobsen Hvilke Grænser for Vækst? 1975, Kbh., Gyldendal). Nýrra dæmi eru reiknilíkön um gróðurhúsaáhrif. Sameiginlegt með þessum greiningum öllum var að þær kölluðu á viðbrögð bæði fræðimanna og almennings og hugleiðingar þeirra og umræðu um þessi alvarlegu málefni sem varða forsendur fyrir áframhaldandi lífi hér á jörð.

Spennandi viðfangsefni!


mbl.is Líkan sem hermir eftir öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

PS: Þess má geta að t.d. Daninn Mogens Boserup, prófessor í þjóðhagfræði, brást hart við skýrslu Rómarklúbbsins sem fram kom í ofangreindri bók The Limits to Growth. Ritaði hann bókina Vor Voksende Verden 1974 (Kbh, Forum) þar sem hann ræðir á gagnrýninn hátt um ótta við heimsendi í tengslum við knappar auðlindir og orku mannkyns, hagvöxt, vaxandi mengun og fólksfjölgun í hnattrænu samhengi.

Taldi Boserup m.a. að tæknin yrði til þess að nýjar auðlindir og aðferðir yrðu nýtilegar eftir því sem hinar hefðbundnu yrðu meira af skornum skammti og verð á afurðum þeirra hækkaði. Í þeim skilningi yrðu hefðbundnar auðlindir "aldrei" uppurnar, heldur yrðu þær fyrir rest óhagkvæmari í samanburði við aðrar áður óhagkvæmar vannýttar auðlindir sem þess vegna kæmu þá í staðinn.

Um hagvöxt sagði Boserup m.a. að í stað hugmynda um að stöðva hagvöxt í þróuðu löndunum sem ylli því að hratt gengi á takmarkaðar auðlindir jarðar þá þyrftu þau þvert á móti að auka framleiðslu sína en draga hins vegar á móti úr eigin neyslu. Með því móti yrði meira til aflögu og ráðstöfunar fyrir vanþróuðu ríkin með slíkri tilfærslu gæða til þeirra.
(Hvenær gæti svona "sjálfviljug" tilfærsla átt sér stað? (aths. KSJ)).
Boserup taldi hættur fyrir mannkyn fremur stafa af pólitísk-siðferðislegum völdum en vera af tæknilegum og hagrænum toga. Nefndi hann í því sambandi hættuna á kjarnorkustríði og misnotkun á sviði erfðavísinda í tengslum við tilraunir með stjórnun á erfðaþáttum manna.

Í tengslum við báðar þessar hættur getur umrætt hermilíkan um lífheim jarðar í víðu samhengi (m.a. pólitísku) komið að góðum fyrirbyggjandi notum.

Hins vegar benti sænski hag-heimspekingurinn Karl-Henrik Pettersson á í bók sinni Det Herrelöse Industrisamfund (1974, Kbh., Gyldendal) að iðnaðarsamfélagið virtist vera stjórnlaust og þróaðist ekki í samræmi við óskir og hugmyndir meirilhluta almennings. Hann leitar þar svara við spurningum hvað valdi þessu, hvaða undirliggjandi drifkraftar búi að baki og "stjórni" ferlinu, og hvernig koma megi í veg fyrir það feigðarflan sem af þeim hljótist að óbreyttu.
Hann bendir sérstaklega á tæknina og tækniþróunina almennt séð í iðnaðarsamfélögunum sem sem orsakavald og mótandi afl.
Félagsleg atriði tengjast því náið, svo sem stjórnskipulag. Hann bendir m.a. á hugmyndir um "hagrænt lýðræði" (ökonomisk demokrati) sem leið til lausnar er gagnist almenningi og þjóðfélaginu í heild. Þar sé tekið tillit til heildaráhrifa af tækniframförum og nýtingu þeirra í tengslum við framleiðslu og áhrifum á umhverfi og mannlegt samfélag. Þetta krefjist þó aðgerða í hnattrænu samstarfi þjóða heims.

Þetta er ekki andskotalaust fremur en svo margt annað!

Kristinn Snævar Jónsson, 29.12.2010 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband