Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
24.3.2010 | 21:27
Tímabærar tillögur um lánamál
Meðal þess sem felst í þessum tillögum Framsóknarflokksins er almenn skuldaleiðrétting, vaxtalækkun og að áhættu verði skipt milli lánveitanda og lántaka.
Þetta þykir mér afar gott útspil hjá Framsóknarflokknum og er löngu kominn tími til að svona tillögur sjáist á Alþingi varðandi skuldaleiðréttingu, vaxtalækkun og ekki síst að áhættu verði skipt milli lánveitenda og lántakenda.
Um þetta allt og þau markmið sem að baki liggja hef ég ritað og fært rök fyrir í fyrri pistlum mínum og er ánægjulegt að sjá fleiri og málsmetandi fólk taka undir þessi markmið með merkjanlegum hætti. Þau eru til þess fallin að gera bæði heimilum og fyrirtækjum í landinu kleift að sigrast á þeim fjárhagslegu hindrunum sem hingað til hafa verið að hrannast upp frá árinu 2008, sérstaklega eftir bankahrunið. Bráðnauðsynlegt er að efla framleiðslukerfi landsins en í því felst viðsnúningur til hins betra fremur en að byggja á hinni röngu og rakalausu hávaxtastefnu með tilsvarandi skuldsetningarhugmyndum tengt gömlu IMF-áætluninni fyrir Ísland.
Ég er margoft búinn að benda á fáránleikann í hávaxtastefnunni, sbr. t.d. nýlega pistla mína um haldlaus hávaxtarök og hundalógík hávaxtastefnunnar.
Einnig hef ég oftar en einu sinni rætt um ósanngirni þess að lántakendur einir beri alla áhættu af verðbólgu og lánveitendur enga.
Þvert á móti er einmitt sanngjarnara og engin rök til annars en að þessir aðilar skipti með sér þessari áhættu, sérstaklega því sem bætt hefur verið við höfuðstól lána í formi verðbóta. Það er óverjandi að lántakandinn beri einn þá áhættu, sbr. pistil minn um það efni.
Ég fagna því svo sannarlega löngu tímabærum tillögum Framsóknarflokksins um þessi efni.
Það er tilefni til þess að óska tillöguflytjendum og flokknum og þjóðinni allri, sérstaklega langþjáðum skuldurum, til hamingju með þessar tillögur.
Þjóðarsátt Framsóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2010 | 23:20
Hundalógík hávaxtastefnunnar
Já, vissulega er svigrúm til frekari vaxtalækkunar. Það sem meira er, þá er hægt að skapa þær forsendur, en Seðlabankinn vill ekki viðurkenna þann möguleika sökum trúfesti sinnar við ídealiseruð hagfræðilíkön sem byggja á tilsvarandi ídealiseruðum forsendum. Þær forsendur eiga ekki við þær aðstæður sem eru í efnahagskerfi Íslands núna. Hér eru í gildi gjaldeyrishöft og gengi krónunnar er ekki ákvarðað á fullkomnum markaði framboðs og eftirspurnar. Auk þess eru hendur þorra almennings þrælbundnar með skuldafjötrum þannig að flestir geta sig lítið hrært í neyslu og fjárfestingum nema til daglegra nauðsynja; sumir alls ekki neitt! Hér er því ekki fyrirliggjandi hætta á ofþenslu með tilheyrandi verðbólguhvata, nema síður sé. Á þetta hafa margir bent, margsinnis, en það er eins og að tala við dauðan svartan stein.
Það er bráðnauðsynlegt að skera á þann Gordionshnút hávaxtastefnu sem Seðlabankinn hefur rígbundið efnahagskerfi landsins í, atvinnulífi og heimilum til óbóta. Hún er varin með óviðeigandi rökum sem hvíla á forsendum sem ekki eiga við í íslensku atvinnulífi núna. Það er ekki mikil hætta á að efnahagskerfið snöggræsist og þjóti í ofþenslu við hressilega vaxtalækkun niður í svipað stig og er í viðskiptalöndum Íslands.
Hvernig væri að menn ryfjuðu upp það dæmi þegar verðbólgu hérlendis var nánast kippt úr tveggja stafa tölu, er hún snarlækkaði við það að tekin var ákvörðun um að lækka vexti í 5% ? Þar var minnkuð verðbólga afleiðing af snarlækkuðu vaxtastigi og væntingum um að það héldist lágt.
Í dag virðist Seðlabankinn hins vegar alfarið vinna eftir þeirri hugmynd að verðbólguvæntingar eigi að stjórna vaxtaákvörðunum. Miðað við íslenskar aðstæður núna og undanfarið ár eru hér höfð endaskipti á hlutunum.
Ekki er furða að hægt gangi að koma þessu hvorutveggja niður á við, verðbólguvæntingunum og vöxtunum, meðan svona "hundalógík" ræður ríkjum.
Svigrúm til frekari lækkunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2010 | 14:48
Haldlaus hávaxtarök
Ein meginskýringin sem virðuleg peningastefnunefnd Seðlabankans gefur fyrir ákvörðun sinni um sýndarlækkun stýrivaxta nú er óvissan um aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, auk styrkingar krónunnar undanfarið.
Meginástæðan fyrir ákvörðuninni að mati nefndarinnar skín þó í gegn, sem er sú að ekki er búið að samþykkja Icesave-kröfur Breta og Hollendinga vegna "tafa á lausn deilunnar". Þarna er viðhafður sami söngurinn og af hálfu fjármála- og forsætisráðherra undanfarið ár.
Þarna er raulaður sami textinn og almennar hagfræðiformúlur kveða á um sem gilda einvörðungu að gefnum ákveðnum forsendum og undir tilteknum kringumstæðum.
Þær forsendur eru ekki til staðar í efnahagslífi Íslands nú. Hér eru í gildi gjaldeyrishöft og þar að auki er gengið á íslensku krónunni ekki ákvarðað með gegnsæum hætti á "fullkomnum" markaði framboðs og eftirspurnar.
Margir hafa á það bent, einnig sá er hér ritar í fyrri pistlum, (einnig t.d. hér og hér) að rökin fyrir háum vöxtum til að halda erlendu fjármagni í landinu eiga ekki við undir gjaldeyrishöftum, eðli málsins samkvæmt.
Háir vextir gagnast fyrst og fremst innistæðueigendum, innlendum sem erlendum, og bönkunum sjálfum. Þeir sem borga fyrir eru allir skuldarar landsins, heimili og fyrirtæki. Einmitt núna þurfa þeir síst á því að halda að borga okurvexti. Nær væri að þeir sem eru aflögufærir, innistæðueigendur, legðu þar meira fram í stað þess að sópa til sín enn meiru en fyrir bankahrunið í formi vaxta og verðbóta.
Það er því með öllu ótækt að háum vöxtum skuli vera viðhaldið undir þessum kringumstæðum.
Það er athyglivert að Samtök atvinnulífsins og jafnvel ASÍ skuli ekki hafa látið meira til sín taka í málinu og hrópað hærra en reyndin sýnir. Aðeins hafa heyrst hjáróma raddir forystumanna þeirra samtaka og nánast helst á vaxtaákvörðunardögum þegar Seðlabankinn hefur tilkynnt um óbreytta háa stýrivexti eða aðeins örlitla lækkun. Síðan líður og bíður og lítið gerist í þessum málum.
Eru þessir aðilar málsvarar fyrirtækja og launafólks almennt eða innistæðueigenda, lífeyrissjóða og banka fyrst og fremst?
Ofangreindu óviðeigandi rök peningastefnunefndarinnar fyrir tregðu í vaxtalækkun hafa verið notuð fyrir háum stýrivöxtum af hálfu stjórnvalda í meira en ár, en Íslendingar eru þó enn lifandi þótt búsettum hérlendis hafi fækkað nokkuð. Hræðsluáróður um köld kol og viðskiptabann útlendinga á Ísland hefur ekki reynst á rökum reistur.
Eftirlifandi fyrirtækjum og flestum heimilum hérlendis blæðir stöðugt vegna alltof hárra vaxta. Það er röng fullyrðing talsmanna hávaxtastefnunnar að vextir þurfi að vera svona háir núna. Hækkun þeirra úr 12% í 18% fyrir rúmu ári síðan var vitfirring þar sem hlaupið var til í paník sökum ógnandi raka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og þeirra sem tóku undir þau rök. Þetta var þvert á hagsmuni íslensks efnahagslífs. Í staðinn átti að halda áfram að lækka vextina svo um munaði til að styðja þar með við grundvöll efnahagslífsins hérlendis, fyrirtækin og heimilin, framleiðslukerfið, launafólk og neytendur. Ef eitthvað óhlutdrægt vit er í mati erlendra matsfyrirtækja á stöðu efnahags og efnahagshorfum á Íslandi hefði það væntanlega hækkað vegna þess er frá leið í stað þess að lækka eins og reyndin varð á.
Í viðtali við svokallaða Skuggabankastjórn í Fréttablaðinu 16.3.2010, s. 12, kemur fram samdóma álit meðlima hennar að vextir eru og hafa verið allt of háir hérlendis. Í þeim hópi eiga nú sæti Ásta Dís Óladóttir forseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar og Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Arionbanka, allt fagfólk á sínu sviði geri ég ráð fyrir. Ásgeir fullyrðir þar að stýrivextina hefði átt að lækka í stað þess að hækka þá í 18% á sínum tíma 2008, sem gert var í samræmi við tilmæli AGS. Þórður Kauphallarstjóri er nokkuð hógværari í yfirlýsingum sínum, en telur þó að vextir verði að vera komnir í 6-7% fyrir mitt ár 2010. Ásta Dís viðskiptadeilarforseti talar í kennisetningum, sjáandi þó að vextir séu of háir, og ber við óvissu um að ekki sé hægt að gera það sem gera þarf.
Ég tel að ein helsta ástæðan fyrir þeirri óvissu sem hér ræður ríkjum og ummæli Skuggabankastjórnarinnar vitna um er einfaldlega þessi misvísandi hávaxtastefna Seðlabankans og sá heilaþvottur sem talsmenn hans og þeirrar stefnu hafa ástundað því til stuðnings.
Enginn nógu málsmetandi aðili hefur þorað að andmæla þessari röngu stefnu af hræðslu við hótanir kennisetninga, AGS og "alþjóðasamfélagsins". Það er eins og menn haldi að erlent lánsfé og erlendar fjárfestingar sæki til Íslands einvörðungu ef vextir eru nógu háir og margfalt hærri en í viðskiptalöndum okkar. Það er blekking í stöðunni í dag, þótt það eigi við almennt séð í kennisetningum og viðeigandi forsendum í fræðaheimi.
Erlendir innleggjendur og innistæðueigendur hafa brennt sig nóg á Íslensku fjárvörslukerfi við bankahrunið og fýsir lítt að geyma fé sitt hér þrátt fyrir háa vexti.
Hins vegar eru erlendir fjárfestar þeim mun líklegri til að fjárfesta í fyrirliggjandi og nýjum fyrirtækjum hérlendis ef rekstrargrundvöllur þeirra er ekki fyrirfram óásetjanlegur með okurvöxtum eins og nú er.
Lágir vextir eru því ein af forsendum fyrir því að stuðla að erlendum fjárfestingum hérlendis, en ekki háir vextir.
Við Íslendingar (a.m.k. margir) viljum fá hingað inn í landið erlendar fjárfestingar í föstum fjármunum sem skapa atvinnu og verðmæti og skattatekjur en ekki bara erlendar innistæður á banka sem sveifla gengi krónunnar fram og til baka eftir geðþótta hinna erlendu innleggjenda.
Öflugt framleiðslu- og efnahagskerfi er forsendan fyrir batnandi hag landsmanna.
Á meðan Seðlabankinn lemur fræðahausum starfsmanna sinna við sama hávaxtasteininn hamast ríkisstjórnin við að deila við Breta og Hollendinga um ósanngjarnan og óréttmætan málatilbúnað þeirra í stað þess að einbeita sér fyrst og fremst að viðreisn efnahagskerfisins innanlands á fyrirliggjandi forsendum. Einnig skortir mikið á að leitað sé nýrra leiða til úrlausnar á vandanum og nýrra viðskiptasambanda fyrir Ísland til lengri tíma litið.
Heimili og fyrirtæki, forráðamenn fyrirtækja og fólkið í landinu geta ekki horft upp á þetta ráðaleysi lengur. Það er ávísun á sömu deyfðina og framtaksleysið sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf og niðurdrepandi orðræðu hérlendis undanfarið ár.
Hér þarf kjark og dug til að lækka vextina niður á svipað stig og er í viðskiptalöndunum umsvifalaust. Það er helsta ráðið til að koma digrum innistæðum í bönkunum í vinnu og ávöxtunar í arðsömum rekstri fyrirtækja og lífvænlegrar atvinnusköpunar. Þar með fengju a.m.k. innlendir fjármagnseigendur vissu fyrir því að framkvæmdir og rekstur væru fýsilegri til ávöxtunar fjárins en að geyma það hreyfingalaust á, sem þá yrði, "lágum" vöxtum í bönkum.
Lækka vegna gengishækkunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2010 | 14:12
Þekking og læsi
Þekkingin lætur ekki að sér hæða! Bókvitið og skynsemin verða í askana látin, með einhverjum hætti. - Flott hjá sveitastjóranum.
En, það er ekki síður athyglivert við þessa frétt að tveir Kínverjar skuli vera á ferðalagi (einir síns liðs) í víðáttum Íslands úti í sveit um hávetur á athygliverðum stað.
Er það bara af ævintýraþrá einstaklinganna, eða voru þetta embættismenn kínverska ríkisins eða starfsmenn kínversks fyrirtækis (kínverska ríkisins!) að huga að aðstæðum fyrir atvinnurekstur? T.d. tengt hugsanlegri opnun nýrra siglingaleiða um Norður-Íshaf?
Ef svo er, hvar er þá íslenska ríkið?
Íslenska ríkisstjórnin ætti að vera á höttunum eftir fleiri valkostum fyrir áætlun B, ef ekki fara saman leiðir hagsmuna landsins með AGS og "alþjóðasamfélaginu" við Atlantshaf.
Eða, eru Þingeyingar svona framsýnir og læsir á aðstæður að hafa nú þegar á að skipa sveitastjóra sem getur talað við Kínverjana milliliðalaust þegar þeir "koma", burtséð frá því hvað ríkisstjórar Íslands eru ekki að pæla?
Um vöntun á skoðun fleiri valkosta fyrir stefnu Íslands í utanríkis-viðskiptamálum, m.a. tengslum við Kína, hef ég ritað í öðrum pistli.
Sveitamaður ávarpaði Kínverjana á mandarínsku! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2010 | 14:07
Sannleikann þarf að orða frammi fyrir heiminum
Helst er von til þess að sannleikurinn komi fram að um hann sé rætt.
Þöggunin í þjóðfélaginu bæði inn á við og út á við, studd af undirlægjuhætti og þrælsótta við meint yfirvöld af hvers kyns tagi, er til þess fallin að dylja sannleikann.
Hér sem á mörgum öðrum sviðum er helst til ráða að benda á og orða sannleikann í votta viðurvist frammi fyrir þeim sem sannleikann þarf að heyra og viðurkenna þurfa hann opinberlega, rétt eins og lýst er svo vel í sögunni um nýju fötin keisarans.
Það er lýsandi dæmi um hvernig blekkingar, kúgun, þöggun og meðvirkni eru hagnýtt með óprúttnum hætti af sérhagsmunaseggjum til þess að níðast á almenningi, þjóðinni, og gera hann að féþúfu og kúguðum lýð sem er gert að blæða blóði, svita og tárum við að borga fyrir velferð annarra.
Slíkan sannleika er forseti Íslands að orða frammi fyrir nágrannaþjóðum okkar, frændþjóðum á Norðurlöndum sem og öðrum Evrópuþjóðum og heiminum öllum.
Eins og hann nefnir sjálfur í athugasemdum sínum er óþægilegt að koma fram með slíkar ábendingar, enda óþægilegt fyrir þá sem skyldu taka þær til sín.
Á meðan situr ríkisstjórn landsins í brothættri skel sinni og hæðist að þjóðinni með því að kalla þjóðaratkvæðagreiðslu hennar markleysu og lætur hjá líða enn einu sinni að nýta það tækifæri sem gafst til að ná eyrum alþjóðlegra fjölmiðla. Það er hneisa og til skammar fyrir hana og erfitt fyrir almenning að útskýra slíkt aðgerðar- og ráðaleysi eigin ríkisstjórnar frammi fyrir furðu lostnum erlendum fréttaspyrlum.
Þessa ríkisstjórn batt meirihluti þjóðarinnar vonir sínar við fyrir síðustu kosningar og gaf henni dýrmæt atkvæði sín. Ekki er að furða að fylgi við ríkisstjórnina fer minnkandi ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Það er hörmulegt ef ríkisstjórnin ætlar ekki að standa undir væntingum og réttmætum kröfum kjósenda sinna og þjóðarinnar allrar.
Niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010 sýnir svo ekki verður um villst, nema fyrir veruleikafirrta einstaklinga, að meira en níu af hverjum tíu kjósenda eru ósammála þeirri lausn sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á í Icesave-málinu og neytt upp á almenning gegnum naumt samþykki Alþingis í tvígang. Slíkum málalyktum hafnar þjóðin í því máli með skýrum og skiljanlegum hætti.
Segir Norðurlöndin hafa beitt Ísland þrýstingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2010 | 18:49
Gangast ekki við eigin lögum!
Skrýtið mál Icesave! Meira að segja þeir sem harðast gengu fram í samþykkt laganna, forsætisráðherra og ekki síst fjármálaráðherra, ætla síðan ekki að mæta á kjörstað og greiða atkvæði sitt með þeim! Fjármálaráðherran lagði jafnvel embætti sitt að veði s.l. sumar við að lögin yrðu samþykkt þá.
Ekki er furða að aðrir kjósendur skuli hugsa sinn gang og hugleiða að mæta á kjörstað og kjósa NEI, fyrir hagsmunum þjóðarinnar.
Forsætisráðherra rataðist þó eitt rétt orð í munn í þessu ömurlega viðtali. Hún sagði að sér fyndist það "dapurlegt" að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan (í sögu lýðveldisins) skuli snúast um svona "markleysu".
Það er hárrétt! Það er afskaplega dapurlegt fyrir þjóðina að ríkisstjórnin skuli hafa klúðrað málarekstrinum kringum Icesave svo kyrfilega að þessi staða kom upp.
Steingrímur: Ólíklegt að ég kjósi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.3.2010 | 12:09
Kæruleysi íslensku ríkisstjórnarinnar - lýsandi dæmi
Þessi niðurstaða sýnir augljóslega enn og aftur hversu illa ríkisstjórnin heldur á málum og málstað Íslendinga um Icesave-málið á erlendum vettvangi. Það er til hróplegrar skammar. Íslenskur almenningur á það ekki skilið að landstjórnin klúðri þessu máli svona ítrekað. Það er auk þess of dýrkeypt fyrir þjóðina.
það er margbúið að benda ráðalausum ráðamönnum á hvað beri að gera, bæði af vandvirkum og hugsandi bloggurum hér og greinarhöfundum í landsblöðunum, bæði íslenskum og erlendum. Allt kemur fyrir ekki. Maður spyr sig: Kynna ráðherrar ríkisstjórnarinnar sér ekki það sem fram kemur í umræðunni, né heldur ráðgjafar þeirra, eða skilja þau ekki hvað er um að ræða og hvað er mikilvægt? Eða, það sem ekki er betra, vilja þau ekki hlusta og skilja? Eftir hvaða viti og kompás er þá farið?
Hér hefur margoft verið bent á að koma þurfi umfjölluninni um Icesave-málið upp úr því snarvitlausa hjólfari sem það hefur verið í þar sem ríkisstjórnin hefur fjallað um málið á forsendum Breta og Hollendinga; það er kolröng stefna sem felst í skilningsleysi íslensku ríkisstjórnarinnar eða undirlægjuhætti, þrælsótta og þjónkun við stórveldi, eða einhverjum annarlegum sjónarmiðum sem ekki eru íslenskum almenningi í hag. Þarna hefur ríkisstjórnin spólað endalaust og árangurslaust frá upphafi valdatíma síns. Það sem verra er, hún virðist halda því áfram, ef marka má viðræður hennar við Breta og Hollendinga undanfarna daga og að því er virðist einleik hennar á svig við stjórnarandstöðuna sem hún þó þykist hafa með í ráðum.
Enn ein ábendingin um að ríkisstjórnin er að vinna á vitlausum forsendum er grein í Morgunblaðinu í dag eftir þau Ann Pettifor og Jeremy Smith hjá Advocacy International, "Hvað gerist eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna?", Mbl. 4.3.2010, s. 17.
Þar er um að ræða trúverðuga grein með innlegg í þetta mál sem er málstað Íslands til framdráttar, gagnstætt stefnu ríkisstjórnar Íslands.
Í samræmi við þær skoðanir sem margoft hafa verið viðraðar á þessu bloggi benda þau á að gagnvart Icesave-málinu er um sameiginlega ábyrgð ríkjanna þriggja að ræða, en ekki Íslands eins. Ennfremur ber ekki að samþykkja ríkisábyrgð á upphæðinni, sem er uppátekt Breta og Hollendinga að kalla "lán" sem Ísland "skuldi". Þeir leystu málið þannig upp á sitt einsdæmi í upphafi hrunsins án samráðs og undirskriftar Íslendinga. Síðan hafa þeir hamast við að klína "skuldinni" upp á Íslendinga með því að beita styrk stærðar sinnar gagnvart smáþjóð. Þetta kalla greinarhöfundar "afturvirkt ofbeldi" af hendi Breta og Hollendinga, og er það réttnefni.
Þetta sé ennfremur mál ESB og reyndar fjármálaheimsins alls, sem að öllu samantöldu er ósanngjarnt að Ísland verði látið bera eitt landa. Greinarhöfundar benda ennfremur á að gott dæmi um svívirðilegt framferði Breta og Hollendinga í þessu máli séu kröfur þeirra um vexti á "skuldinni", sem eru margfalt hærri (5,55%) en grunnvextir Englandsbanka (0,5%-1%).
Loks benda greinarhöfundar á þá augljósu staðreynd að íslenska ríkisstjórnin hefur síður en svo sinnt nægilega vel því hlutverki sínu að kynna málstað Íslendinga á erlendum vettvangi, sérstaklega í Bretlandi og Hollandi fyrir almenningi þar. Þar í felist þó hluti lykilsins að farsælari lausn málsins fyrir Íslendinga. Einnig benda þau á að íslenskur almenningur mætti láta meira í sér heyra á þessum vettvangi.
Í ljósi þess að Bretum og Hollendingum hefur tekist að hræða allt samningsvit úr íslensku ríkisstjórninni, strax í upphafi valdatíma hennar þar sem hún fór umsvifalaust á taugum í málinu, og borin von virðist að hún muni halda réttum málstað Íslands á lofti, þá stefnir í það að við íslenskur almenningur verðum að taka til okkar ráða og vinna sjálf þá vinnu sem við í góðri trú fólum ríkisstjórn og opinberum embættismönnum fyrir okkar hönd að vinna en sem hópurinn hefur ekki sinnt með jákvæðum árangri; reyndar engum árangri vegna þess að við stöndum nánast í sömu sporum enn í málinu. Ríkisstjórninni og hennar liði tókst meira að segja næstum því að koma klafanum að ósekju á Íslendinga með því að samþykkja lög um ríkisábyrgð á Icesave-upphæðinni, þetta sem þjóðin á nú að segja álit sitt á í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010! Hvílíkur árangur fyrir hagsmuni Íslands, eða hitt þó heldur!
Við þurfum sem sé sjálf að fara í víking erlendis með kynningarstarf á málstað Íslendinga og reyna sjálf að leiða almenningi þar sannleikann fyrir sjónir um málið. Ríkisstjórnin og hennar lið eru greinilega algjörlega blind í þessu máli og aðhafast ekki með réttu ráði né réttum hætti fyrir Íslands hönd. Eða er einhver von til þess að ríkisstjórnin sjái að sér og vakni af dáleiðslu Breta, Hollendinga og "alþjóðasamfélagsins" og segi NEI! við kúguninni?
Maður spyr sig hvaða réttlæti það er að greiða þessu liði laun fyrir að sinna ekki málinu af viti. Það sem þó er gert sem virðist því miður vera þvert á hagsmuni Íslands, sem er þetta:
Ríkisstjórnin vill semja við Breta og Hollendinga um "skuld" sem þeir sjálfir bjuggu til og rukka Íslendinga um að ósekju, í stað þess að fá fyrst úr því skorið hver "sekt" Íslands er í málinu. Hvaða vit er í þessum málarekstri ríkisstjórnarinnar fyrir hagsmuni Íslands?
Telja Íslendinga eiga að borga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2010 | 00:30
Málefnastaða Íslands
.. í Icesavemálinu er sterkari en margir Íslendingar halda, ekki síst í ríkisstjórn Íslands. Þetta er órækt merki þess að Bretar vilja ekki standa fyrir slæmu máli sínu í réttarsal berskjaldaðir með kúgandi athæfi sitt gagnvart Íslandi í málinu frammi fyrir heiminum.
Athugasemd Sigmundar framsóknarmanns í fréttunum í gær hefur e.t.v. skotið þeim skelk í bringu til viðbótar við klúðrið á fundinum í gær þar sem íslenska sendinefndin ásamt öðrum "gengu af fundi" snubbóttum. Þar hafa Bretar e.t.v. gert sér grein fyrir því að Íslendingum væri nokkur alvara í því núna að minnka undirlægjuhátt sinn og þrælsótta, jafnvel láta varanlega af honum í þessu máli.
Betur ef svo væri, enda löngu tímabært.
Leynifundur um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2010 | 02:43
Sibert segir ekki allan sannleikann
Erlendar skuldir eru greiddar með gjaldeyri sem aflað er með útflutningi landsmanna. Þess vegna skiptir hlutfall skulda af útflutningstekjum meira máli en hlutfall af upphæð landsframleiðslu.
Útflutningstekjur Íslendinga eru miklu lægri en upphæð landsframleiðslu, eðli málsins samkvæmt. Þess vegna er hlutfall tiltekinnar upphæðar "Icesave-skuldar" af útflutningstekjum miklu hærra en þessi 14% sem fram kemur í fréttinni. Sá klafi er óárennilegur að standa undir ásamt öðru sem nýta þarf útflutningstekjur landsins til. Það yrði harla lítið eftir til nauðsynlegra aðfanga á vörum og þjónustu til landsins ef taka þarf drjúgan hluta teknanna til greiðslu á "Icesave-skuld" sem í þokkabót er ekki réttmætt að lendi á Íslandi að greiða. (Hroðvirknisleg fréttamennska mbl afhjúpar sig við það að ekki er getið upphæðar "Icesave-skuldar" sem Anne Sibert miðar við í sínu dæmi þar sem hún fær út 14% sem hlutfall af landsframleiðslu. Sú tala kemur reyndar ekki beint fram í greininni á VoxEU, sem er greinarhöfundi ekki fagur vitnisburður, en fréttamaður hefði þá átt að grennslast nánar fyrir um það hjá höfundinum).
Ég fagna upplýstri umræðu, en Sibert ver framtak sitt með þeim rökum. Hins vegar er ekki heppilegt að koma fram með yfirlýsingar sem setja mikilvæga þætti máls ekki í sanngjarnt samhengi. Slíkt er ekki allur sannleikurinn og getur villt um fyrir þeim sem grípa slíkt á lofti hrátt. Í þessu tilfelli getur slík yfirsjón skaðað málstað Íslendinga í hugum erlendra aðila og almennings þar.
Sibert tekur ekki fram í grein sinni í VoxEU hvert hlutfall "Icesave-skuldar" yrði af útflutningstekjum og er það til þess fallið að gefa ranga mynd af hversu íþyngjandi fyrir íslenskan efnahag sú byrði yrði, sbr. greinin öll sem útdráttur er birtur af nánast á forsíðu vefritsins).
Í dæmi sínu í greininni sundurliðar Sibert útreikninga sína ekki nægilega vel. Hún gefur sér þá forsendu að 75%-90% endurheimtist af eignum gamla Landsbankans sem gengju til greiðslu á "Icesave-skuldinni" þannig að "aðeins" um 630þús kr (3.600 evrur) með 5,55% vöxtum að núvirði lendi á hverjum íbúa Íslands, þ.e. rúmlega 200 milljarðar kr alls samkvæmt því. Ef Sibert hefði gefið sér lægra endurheimtuhlutfall á Landsbankaeignunum hefði hún fengið út tilsvarandi þyngri byrði á hvern íbúa. Hún færir ekki rök fyrir því hvort og þá hvers vegna 75%-90% endurheimtuhlutfall geti talist líkleg niðurstaða. Í því sambandi vísar hún aðeins í "recent estimates"! Hvaða mat? Erlendir lesendur virðast einfaldlega eiga að taka þessar tölur góðar og gildar umyrðalaust!
Sibert rekur hins vegar, reyndar afar stuttlega, að ágreiningur ríki meðal ESB-landa um regluverkið kringum tilskipun 94/19/EC og hverjum beri að borga innistæðueigendum í tilfelli bankakerfishruns eins og þess er varð á Íslandi. Hún dregur síðan fram þá staðhæfingu að "Iceland has expressed a willingness to repay if the terms are reasonable" og bendir í því sambandi á orð forsætisráðherrans þar um. Hún sleppir hér að minnast á óvilja þjóðarinnar til þess arna og að 60.000 Íslendingar hafi í undirskriftasöfnun hvatt forsetann til að hafna lögum sem þingið samþykkti naumlega um ríkisábyrgð á "Icesave-skuldinni".
Það, að Sibert skuli undrast hörð viðbrögð við grein sinni, sýnir að hún gerir sér ekki grein fyrir þessari hlið málsins í þeirri stöðu sem það stendur í núna. Eða, að hún riti og birti greinar erlendis um þessi málefni Íslands þrátt fyrir það. Þá er ekki von á góðu, þ.e. fyrir Ísland. (Anne Sibert er prófessor við háskóla í London, en situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sem fulltrúi Samfylkingarinnar).
Sibert undrast hörð viðbrögð Sigmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2010 | 22:49
Þegja um rök Lipietz gegn nýlenduveldunum
Það er athyglivert að úr því að hollensk (og líkast til einnig bresk) stjórnvöld eru svona vel upplýst um umræðuna um Icesave-málið í fjölmiðlum á Íslandi að þau skuli ekki víkja einu orði að grein Alain Lipietz í Morgunblaðinu í dag, 12.2.2010, s. 19, "Íslendingar skulda ekkert". Þar heldur Lipietz fram ítrekað því rökstudda mati sínu að íslenska ríkinu beri ekki að yfirtaka skuldbindingar einkabankanna. Ennfremur að bresk og hollenstk stjórnvöld séu að kúga smáþjóðina Ísland með órétti.
Skyldi þess þögn bresku og hollensku kúgaranna vera vegna þess að þeir vita að rök Lipietz eru sannleikanum samkvæmt?
Vita þeir ekki fullvel að ekki er hægt að mæla þeim í mót þótt íslenskir ráðamenn hafi snúið út úr þeim og virðast ekki geta lesið Tilskipun ESB 94/19 hvorki upp á eigin spýtur né með aðstoð hlutdrægra lögspekinga?
Aftur á móti má svo enn og aftur spyrja hvað leikmennirnir í íslensku ríkisstjórninni halda að þeir viti betur en sérfræðingurinn Lipietzt um viðkomandi regluverk ESB, úr því að þeir hafa ólmir viljað láta undan kúgunum gömlu nýlenduveldanna í þessu máli. Þetta er óskiljanleg þrjóska, enda virðist ríkisstjórnin leitast við að starfa undir huliðshjálmi ógegnsæis.
Áform um Icesave í Frakklandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |