Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Forsetinn synjar ólögunum um samþykki!

Það er með öllu ótækt út af fyrir sig að almenningur sé að taka á sig þessa gífurlegu fjárhagslegu áhættu sem fylgir samþykki á Icesave-samningnum.
Þar væri verið að skuldbinda þjóðina, almenning, til margra áratuga. Ríkisstjórn sem í mesta lagi tórir í um tvö ár til viðbótar og alþingismenn sem hafa ekki lengra umboð eiga ekki að hafa leyfi til að binda almenning, íbúa og skattgreiðendur Íslands, mörg (10?) kjörtímabil inn í framtíðina og rýra við það með stórkostlegum hætti lífskjörin.
Þess vegna verður ákvörðun um þetta að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Rök sumra um að ákvarðanir um ríkisútgjöld henti ekki til þjóðaratkvæðagreiðslna eiga því ekki við í svona risavöxnu máli sem hefur afleiðingar í marga áratugi eða til allrar framtíðar.


Hefur fólk ekki tekið eftir dæminu um kúgunina á almenningi á Haíti og afleiðingum hennar fyrir efnahag þess lands, eftir mergsjúgandi arðrán á þjóðinni þar í á aðra öld vegna óréttmætra skaðabótakrafna Frakklands? Efnahagur landsins er þar í rúst og var það áður en jarðskjálftinn þar rústaði það sem þó var til.


mbl.is Blaðamannafundur undirbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugarfarsbreytingar er þörf um kjarasamninga

Blasir ekki við hið augljósa að allherjarviðræður launamannasamtaka við samtök atvinnulífsins í "einum pakka" er aðferð sem gengur ekki? Sú aðferð er órökræn.
Ástæðan er einfaldlega sú að mismunandi atvinnugreinar eru mismunandi vel á sig komnar efnahagslega séð á hverjum tíma. Sumar hafa meira borð fyrir báru til hækkunar launagreiðslna en aðrar, en á öðrum tíma getur dæmið hafa snúist við. Það er því vitfirring að ætla sér semja fyrir alla heildina um sömu kjarabætur samtímis og halda því fram að þá sé réttlæti fullnægt.

Það verður að brjóta þetta upp og semja um kjör á hverjum vettvangi fyrir sig. Ef samið er fyrir alla heildina um sömu kjarabætur á sama tíma rústar það einfaldlega þeim fyrirtækjum sem ekki hafa forsendur til að verða við þeim á þeim tíma. Vilja launþegar það?
Á hinn bóginn sleppa vel stæð fyrirtæki með mun minni kjarabætur til síns starfsfólks en þau gætu með réttu staðið undir. Það launafólk verður því af kjarabótum í það skiptið vegna niðurkeyrðra miðjumoðs-heildarsamninga. Vilja (þeir) launþegar það?

Við þurfum að losna út úr þeim hugsunarhætti að ef einn aðili ætti og getur með rétti fengið góða kjarabót í formi launahækkana þá eigi allir aðrir launþegahópar að fá sömu launahækkun án tillits til getu viðkomandi fyrirtækja og stofnana til að standa undir því.
Slík meðaltals-pólitík felur í sér landeyðandi stefnu sem rústar mörgum fyrirtækjum og efnahag viðkomandi starfsfólks í leiðinni, eða heldur öllum niðri í launum ella.

Þessi aðferð heildarsamninga hefur á hinn bóginn fært atvinnurekendum þá vígstöðu að geta viðhaft þá hræðslupólitík að allt fari á hliðina sökum óðaverðbólgu ef orðið yrði við "of háum" launakröfum tiltekinna hópa; á þeirri forsendu "að þá muni þetta ganga yfir allar stéttir launafólks". Viðmælandinn í þessari frétt viðhefur þau rök. Hann hefur að vísu rétt fyrir sér ef þetta myndi gerast.
Þannig er reynt að halda öllum niðri í launum, líka þeim sem með réttu hafa forsendur til þess að fá meira á tilteknum tíma.

Hver hópur launamanna verður því að semja fyrir sig til að ná raunverulegum árangri og án þess að keyra fyrirtæki sín í þrot vegna launahækkana.
Hins vegar geta hópar verið mismunandi samansettir: Þeir geta verið bundnir við allt starfsfólk tiltekins eins fyrirtækis, tiltekinnar og einsleitrar atvinnugreinar, staðar, og jafnvel afmarkaðrar stéttar launafólks sem fylgir lægri töxtum kjarasamninga starfsgreinar. En, ekki alla þjóðina samtímis!
Nema þá og því aðeins að allar atvinnugreinar blómstri samtímis og hafi því sömu forsendur til sömu kjarabóta samtímis. Það væru náttúrulega kjöraðstæður fyrir góða heildarsamninga með réttu.


mbl.is Fá ekki meiri hækkanir en aðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tal í gátum utan taflborðs hins bandalagavædda heims

Hér talar Steingrímur fjármálaráðherra í gátum eins og véfréttarmiðill. Það er ekki í fyrsta sinn. Það er í samræmi við þær gerðir núverandi stjórnvalda og mikilvægra undirstofnana þeirra er þau slengja fram skoðunum sínum, ætlunarverkum og tilmælum án þess að færa fyrir þeim viðhlýtandi rök.

Helst grillir hér í þau rök fjármálaráðherra að litla og fallega íslenska krónan hafi gagnast vel til að vinna þjóðina út úr afleiðingum bankahrunsins 2008. Þar er til skamms tíma litið og bent á hefðbundnar gengisfellingar sem öflugt tæki til viðbragða þegar í óefni er komið. Ekki beint uppbyggileg stefna til lengri tíma litið!
Hann sleppir því hins vegar að ræða um hvaða þátt litla og fallega og ofurviðkvæma og tilfinningaríka íslenska krónan átti ásamt handónýtu og blekkingarkenndu "eftirlitskerfi" hins opinbera í þeirri atburðarás sem leiddi til hrunsins. Að óbreyttu mun sagan endurtaka sig. Hverjir vilja það?

Á sama hátt lætur hann sem fyrr hjá líða að tefla fram öðrum valkostum sem hann ef til vill álítur hentugri og farsælli en aðild að ESB. Hverjir eru þeir þá?
Telur hann ef til vill eins og svo margir áberandi og rakalitlir og úrræðalausir úrtölumenn um ESB-aðild að hag smáríkisins Íslands í heimi stórþjóða og ríkjabandalaga, sem í vaxandi mæli munu takast á um þverrandi auðlindir heimsins þar sem öllum brögðum er beitt, sé betur borgið utan allra mögulegra bandalaga? Telur Steingrímur ráðherra að stórbandalögin láti sig hag smáþjóðar utan þeirra einhverju skipta, ættbálkaþjóðar sem bíður örlaga sinna ein sér í gósenlandi sínu varnarlaus og vinalaus og utan mikilsmetandi efnahagsliðsheilda? Höfum við ekki þegar fengið þráan smörþefinn af viðhorfum erlendra ríkja til Íslands sem það er ekki í viðeigandi liði með?
Hvað heldur fjármálaráðherra að utangátta Ísland eitt og sér hafi þar helst að vopni í hinum harða heimi? "Tæra snilld" og blekkingarmátt ofurfólksins sem þar býr í fiskibeinsturni sínum?!

Þær spurningar sem hér eru viðraðar hefði hinn snjalli "fréttmaður" átt að knýja svör við hjá hinum tungulipra ráðherra, en hann hefði allt eins getað látið ráðherrann tala í símsvara til beinar endursagnar úr því að hann hafði ekki tilburði til að ganga á ráðherrann með skýringar og ábendingar um hver stefna hans væri nákvæmlega í þessu máli. Svona vinnubrögð eru ekki ný af nálinni hér. 
Hvar vill Steingrímur skipa Íslandi á ofangreindu taflborði hins bandalagavæðandi heims?
Vill hann og ráðvilltir föðurlandsvinir taka Íslandspeðið af taflborðinu fyrirfram?
Þetta verða eftirgangssamir fréttamenn að fá á hreint hjá stjórnvöldum og málsmetandi aðilum á sviði þjóðmála.
Við þolum ekki meira bull og blekkingar, né moðreyk og ráðvillu í húsum ráðamanna.


mbl.is Afstaða til ESB-aðildar óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagleg heimska?

Íslenskur almenningur sýpur seyðið af því að hafa treyst í blindni á embættismannakerfi sitt, sérstaklega fjármála"eftirlits"kerfið, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og viðskiptaráðherra og ríkisstjórn í aðdraganda bankahrunsins 2008.
Eftirlitskerfi þetta, sérstaklega Fjármálaeftirlitið, reyndist handónýtt og þar á bæ hafa embættismenn afsakað sig að því er virðist með "heimsku" sinni, þ.e. að hafa látið upplýsingar bruggaðar af bönkunum sjálfum duga til "eftirlits" með þeim hinum sömu í stað þess að gera eigin "ad hoc" athuganir, t.d. á lausafjárstöðu bankanna og horfum á þeim vettvangi sem er grundvallaratriði fyrir rekstur banka frá degi til dags! (Sbr. pistil minn um það atriði hjá FME)
Löggiltir endurskoðendur bankanna (a.m.k. Glitnis og Landsbankans) skreyttir alþjóðlegu fyrirtækislógói í þokkabót virðast einnig ætla að afsaka sig með sams konar "faglegri heimsku" eða upplýsingaleysi, enda hefur það dugað íslenskum embættismönnum alla leið upp í ráðherrastóla vel fram að þessu, þ.e. þeirra sem fóru með þessi mál.
Það ætti að vera augljóst mál að hafi löggiltir endurskoðendur bankanna ekki fengið mikilvægar upplýsingar frá fyrirtækjunum þá hefðu þeir aðeins af þeirri ástæðu ekki átt að skrifa upp á ársreikninga! Það hefði væntanlega stöðvað bankana í meintum blekkingaleik þeirra.

Þó tekur steininn úr þegar forsvarsmaður umrædds endurskoðunarfyrirtækis gagnrýnir hina erlendu sérfræðinga sem hafa verið að skoða reikningsskil bankanna árin fyrir hrun á vegum embættis sérstaks saksóknara.
Reynist grunur og rök sérfræðinganna um stórkostlega "vangá" á rökum reist er viðkomandi endurskoðunarfyrirtæki síst í stakk búið til að hafa skoðun á gæðum þess mats.


mbl.is Vilja að ríkið höfði mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilvita menn og hávaxtastefna

Þeir sem sjá vilja og hafa efni til hugsunar milli eyrnanna og skynsemi til að nýta það gera sér grein fyrir því að þær forsendur sem sagðar hafa verið fyrir hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands frá því skömmu eftir bankahrunið í október 2008 hafa ekki átt við rök að styðjast, svo vægt sé til orða tekið. 
Klifað hefur verið á því af hálfu Seðlabankans og stjórnvalda að verja þyrfti gengið með því að halda uppi háu vaxtastigi.
Á móti þeim rökum hefur margoft verið bent á að meðan gjaldeyrishöft eru við lýði þarf ekki jafnframt himinháa vexti til þess.
Þetta var vitað mál fyrirfram og reynslan sannar þá skoðun.
Það er ekki seinna vænna en að málsmetandi aðilar fari að andmæla þessari vitleysu. (Það eru náttúrulega aðrir en þeir sem hagnast hafa á hávaxtastefnunni).

Á þessari bloggsíðu hefur margoft verið bent á hugsunarvilluna sem hefur verið allsráðandi um vaxtastefnuna hjá Seðlabankanum. Stefna Seðlabankans hefur verið þveröfug við gamlar og góðar kenningar um fjármála- og vaxtastefnu hins opinbera, sem og heilbrigða skynsemi.
Þar má benda á pistil um Hundalógik hávaxtastefnunnar og pistil um Haldlaus hávaxtarök.

Heilvita menn sjá þessa vitleysu, eins og hún snýr að almenningi og skuldugum heimilum og skuldugum fyrirtækjum ekki síður.
Mér dettur ekki í hug annað en að gefa mér þá forsendu að starfsmenn og stjórnendur Seðlabankans séu bæði þrælmenntað og skynsamt fólk.
Í ljósi þess verður að spyrja: Hvers vegna hefur þá hávaxtastefnan verið við lýði úr því að gjaldeyrishöftin hafa staðið óhögguð áfram?

Ef við útilokum að þekkingarleysi og dómgreindarleysi  í Seðlabankanum valdi, þá hlýtur Seðlabankinn að vera undir aga og stjórn annarra aðila.
Hverjir gætu þeir þá verið?
Er það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða fjármagnseigendur, innlendir og erlendir, sem eiga fé og digra sjóði á háum innlánsvöxtum eða "traustum" hávaxtaberandi skuldabréfum íslenska ríkissjóðsins? Hvað um það, afleiðingin er sú sama fyrir skuldara.

Með hávaxtastefnunni hafa allir skuldarar á Íslandi, heimili og fyrirtæki, verið að greiða þeim sem best eru staddir fjárhagslega háar vaxtagreiðslur, þegar síst skyldi í þokkabót.
Vaxtagreiðslurnar hafa nánast verið millifærðar beint frá þrælpíndum skuldurum (skuldaþrælum) til innistæðueigenda. Það sem kórónar vitleysuna er svo verðtrygging lána sem hingað til hefur verið útfærð þannig að allri áhættu af verðlagsþróun er velt yfir á skuldara 100%.
Þetta er það réttlæti sem almenningi á Íslandi í góðri trú hefur verið boðið upp á.

Almenningur, skuldugu heimilin og skuldugu fyrirtækin, geta ekki staðið undir þessu til lengdar. Hvers vegna ættu þau að gera það?


mbl.is Telja eitthvað bogið við íslenska peningastefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bull-siður án tölulegra raka

Enn á ný koma úr þessum ranni afdrifaríkar yfirlýsingar fyrir almenning þessa lands, sérstaklega skuldug heimili og fyrirtæki án þess að töluleg gögn fylgi með til rökstuðnings
Skemmst er að minnast yfirlýsinga viðskipta- og efnahagsráðherra og seðlabankastjóra sjálfs um þessi mál án þess að þeir styddu þær með tölulegum gögnum til sannindamerkis.

Þetta virðist orðinn algjör siður hjá þeim og mörgum öðrum að tala út í loftið í krafti embættis síns án þess að styðja mál sitt (bulla) og ákvarðanir með tölulegum rökum sem sýni fram á hvers vegna þeir haldi skoðun sinni fram "í þágu almannahagsmuna".
Einungis á grunni tölulegra gagna er hægt að ræða efnislega um málið jafnt sem siðferðis- og tilfinningalega, ekki síst til að forðast óþarfa misskilning.

Þetta er ólíðandi og að óbreyttu kyndir það undir hugmyndum um ekki sé allur sannleikurinn sagður í málinu.
Er það gert af "tillitssemi" við almenning til að forða honum frá óþarfa skelfingu eða er verið að svína á almenningi? Það er spurning dagsins.


mbl.is Í þágu almannahagsmuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drekarnir eiga samleið

Það er hið besta mál að efla samskiptin við Kína, og þó fyrr hefði verið.
Auk þess væntanlega að fela í sér ávinning fyrir báða aðila gerir það stöðu Íslands sterkari í margumræddu "alþjóðasamfélagi", sem ekki hefur verið okkur allt of hliðhollt upp á síðkastið hér vestra.
Hér hafa bæði innlendir og erlendir óskaplega óprúttnir fjárglæframenn og fyrirtæki þeirra og bankar í vestrænum fjármálaheimi leikið efnahag Íslands grátt og kenna svo skammsýnum íslenskum almenningi um allt saman.
Þess vegna er afar mikilvægt að Ísland skapi sér sterkari samningsstöðu út á við með því að efla viðskipti og vinsamleg samskipti við fleiri blokkir en þá evrópsku. Þar erum við að ræða um t.d. Kína og NAFTA.

Kína er mjög athygliverður kostur vegna þess að ég held að við eigum samleið að ýmsu leyti í menningarlegu tilliti auk hins viðskiptalega. Sú samleið er djúpstæð og felst í gömlum menningararfi og þjóðareinkennum sem að sumu leyti eru afar frábrugðin, en að öðru leyti svipuð.


mbl.is Ræddi drekasvæðið í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérhagsmunir eða almannahagur

Stjórnmálamenn, ekki síst alþingismenn og ráðherrar, ættu að temja sér að halda hagsmunum almennings á lofti fremur en sérhagsmunum. Sérstaklega er neyðarlegt ef þeir verða uppvísir að skollaleik tveggja skjalda í þeim efnum, eða að væna aðra um tiltekin óæskileg viðhorf sem þeir sjálfir hafa. Talandi um heiðarleika og réttsýni!

Þeim mun aftur á móti vel farnast ef þeir temja sér gullna reglu í samskiptum sínum við þjóðina alla.

Ég hugsa að almenningur í landinu, ekki síst kjósendur og jafnvel fjármagnseigendur, vilji ekki að efnahag tugþúsunda heimila og þar með efnahag landsins og flestra sem hér búa verði rústað og frið og samfélagssáttmála þar með einnig kastað á sorphauga bankahrunsins.

Ég trúi því líka að fjármagnseigendur eins og aðrir eigi ættingja og vini sem hafa orðið fyrir barðinu á bresti íslenska fjármálakerfisins og þeim einstaklingum sem því ollu í gjörðum sínum eða vangjörðum og þeirri trú og siðferðisleysi sem þar kynti undir.

Er fjármagnseigendum og talsmönnum þeirra hjartanlega sama um það fólk sitt líka?
Þá færi að húma að í íslensku samfélagi og hugmyndir um nánara (efnahags)samband við siðrænar þjóðir yrðu ekki svo vitlausar. "Þjóðin" myndi þá hvort eð er ekki eiga neitt val. Það yrði uppboð.


mbl.is Segir „sveiattan" við málflutningi Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsinn um Fjármálaeftirlitið

Sífellt tekur farsinn um Fjármálaeftirlitið á sig ótrúlegri myndir.

Því miður held ég að starsmenn FME, a.m.k. þeir sem voru sagðir starfa þar og stjórna fyrir bankahrun, haldi að meint mannekla og tímaleysi hjá þeim séu haldbær rök sem afsaki þá af öllum yfirsjónum sínum og syndum.
Með þessari frétt er enn að koma á daginn að það sem fram fór innan FME fyrir bankahrunið hafi einmitt verið ekkert annað en yfirsjón.
Allir læsir menn sjá strax á lögunum um bann við gjaldeyristengingu lána að slík tenging er ólögleg, þótt til þess settir embættismenn og ráðuneytisfólk hafi ekki kunnað eða kært sig um að lesa þau rétt. Meira að segja alþingismennirnir sem settu þó lögin virðast hafa steingleymt því eða ekki skilið hvað þeir voru að samþykkja árið 2001 og ekki fattað hvaða lögleysu bankarnir voru að framkvæma fyrir opnum tjöldum varðandi gjaldeyristengd bílalán.

Það hlýtur að hafa verið og vera algjör lágmarkskrafa að starfsmenn FME væru og séu kunnugir þeim lagagrunni sem eftirlitið átti og á að starfa eftir.
Það hefði ekki verið nema dagsverk fyrir sæmilega greindan mann þar innan veggja að rita greinargerð um lögbrot bankanna í þessum efnum og leggja inn opinbera kæru. Eða senda viðskiptaráðherra ábendingu um málið úr því að hann/hún gerði ekkert í málinu af eigin frumkvæði eins og ráðherra ber þó að gera.
Ástæðan fyrir því að starfsmenn FME gerðu það ekki getur því ekki verið önnur en sú að þeir hafi alls ekki sinnt starfi sínu og komist upp með það, eða verið bannað að gera það, ef við útilokum að þetta hafi verið helberir heimskingjar sem vissu ekki til hvers þeir voru á launum hjá eftirlitinu.

Almenningur á Íslandi sem nú geldur fyrir yfirsjónir Fjármálaeftirlitsins, eins og það var mannað fram yfir bankahrunið, á greinilega margt vantalað við þá sem þar réðu málum.

Reyndar er spurning hvers vegna Fjármálaeftirlitið eins og það er mannað núna tók heldur ekki upp þráðinn um þetta tiltekna mál.
Vantar ennþá réttan kompás fyrir starfsemina?
Hvaða stakk hefur núverandi viðskiptaráðherra sniðið starfseminni? Hann virðist síðustu daga ekki yfir sig hrifinn af dómi Hæstaréttar í málinu og er það afar athyglivert fyrir almenning að íhuga ástæður þess, sem ekki hafa verið útskýrðar með tölulegum rökum sem skyldi hingað til.
Ræður e.t.v. hræðsla um hugsanlegar geigvænlegar afleiðingar uppljóstrana Fjármálaeftirlitsins um brot á reglum í fjármálaheimi Íslands því hvað eftirlitið aðhefst eða öllu heldur aðhefst ekki?


mbl.is FME skoðaði aldrei gengislánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndar-innlánatrygging?

Hvaða raunhæfa trygging felst í þessu fyrirkomulagi í litlu ör-hagkerfi eins og því íslenska?!

Hér eru ekki fleiri þúsund viðskiptabankar eins og t.d. í Bandaríkjunum, þar sem ekki er stórt mál þótt nokkrir bankar fari á hausinn (í fréttum fyrir nokkrum dögum kom fram að um 700 bankar væru á válista eftirlitsaðila þar í landi).

Hér eru tiltölulega fáar lánastofnanir, fjórir bankar og nokkrir sparisjóðir. Hver aðili, sérstaklega bankarnir,  vegur það mikið af heildar innlánsupphæð að ef einn af þeim verður gjaldþrota dugir þessi tryggingasjóður með 0,3% árlegt iðgjald af heildarinnlánum skammt til að tryggja innistæður viðkomandi viðskiptavina eins og gefið er í skyn að séu tryggar með þessum hætti.

Það tekur áratugi að byggja upp tryggingasjóð sem staðið gæti undir gjaldþroti eins banka, hvað þá margra samtímis; Er ekki frekar lítið í sjóðnum í dag? (Og, Icesave-málið enn óafgreitt!).

Innistæðueigendur í bönkum á Íslandi eru óvarðir á meðan, nema:

* Ríkisábyrgð komi til (myndi það duga m.v. stöðu íslenska ríkisins í dag?!), eða

* Viðskiptabankarnir séu í eigu erlendra banka á EES-svæðinu með stórt og fjölmennt bakland viðskiptavina í sínum heimalöndum sem dugir til að dekka innistæður.
Viðkomandi erlendu bankar mættu þó ekki vera "of stórir" í hlutfalli við tryggingasjóð í viðkomandi landi/löndum, þannig að sá tryggingasjóður að baki þeirra gæti líka staðið undir innistæðutryggingum viðskiptavina uppi á litla Íslandi ef þeir færu á hausinn.


mbl.is Hver ber ábyrgð á innstæðum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband