Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Lántakar bera alla áhættu - Sanngjarnt?

Verðtrygging lána eins og viðgengist hefur hérlendis undanfarna áratugi byggir á botnlausu óréttlæti.

Það felst í því að lántakar bera ALLA áhættuna af þróun verðlags, 100%, en lánveitendurnir, fjármagnseigendur, bera enga áhættu í því sambandi. Í ofanálag fá þeir sína vexti, sem í þokkabót eru breytilegir í mörgum tilvikum.

Sanngjarnara væri að aðilar skiptu þessari áhættu með sér með einhverjum hætti í ljósi þess að til algjörra undantekninga heyrir að verðhjöðnun eigi sér stað og þá aðeins í einn eða örfáa mánuði hverju sinni. Verðbólga er ríkjandi.

Eygló Harðardóttir alþm., Framsóknarflokki, hefur borið fram athyglisverðar tillögur í tengslum við skiptingu þessarar áhættu milli aðila, en þær virðast ekki hafa náð eyrum þingheims til frekari umræðu og ákvörðunar þar á bæ.


mbl.is Vilja afnám verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænt Prentmet

Til hamingju Prentmet og starfsfólk með merkið til staðfestingar á umhverfisvænum viðhorfum ykkar.

Það var í stíl við leiftursnögg viðbrögð ykkar við að þjónusta viðskiptavini með hagstæðum og góðum árangri að einhenda ykkur í að öðlast Svansmerkið. Þessu ber að fagna.


mbl.is Prentmet fær Svansvottun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siglir Ísland inn í nýtt umhverfi réttvísandi?

Það er gefið mál að Ísland er að sigla inn í nýtt og spennandi umhverfi í efnahagslegu tilliti í heimsbúskapnum. Spurningin er hins vegar hvort stjórnendur landsmálanna á Íslandi geri sér grein fyrir hvert heillavænlegast sé að stefna og á hverju skal byggja og hverju að hyggja?
Þessi síendurteknu tákn í fréttum af heimsviðskiptum um stórkostleg tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf og atvinnulíf eru í dúr við pælingar mínar í ýmsum pistlum um þessi efni og grein í Morgunblaðinu 11.5.2009, og koma mér því ekki á óvart. En, skyldu þau koma stjórnendum íslenskra atvinnu- og efnahagsmála á óvart?
mbl.is Ísland að sigla inn í nýtt umhverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekin tákn og gæfa Íslands

Fréttir um vaxandi eftirspurn í heiminum eftir matvælum og öðrum hráefnum og þar af leiðandi hækkandi verð á hinu sama eru endurtekin tákn um sterka og batnandi stöðu Íslands sem framleiðanda og seljanda á þeim vettvangi.
Eins og ég bendi á í "jómfrúarbloggi" mínu um þessi mál höfum við á hendi flesta framleiðsluþætti sem þarf til vaxandi hagsældar og farsældar:
Landgæði og mikla stækkunarmöguleika ræktanlegs lands til stóraukinnar matvælaframleiðslu til útflutnings, ofgnótt ferskvatns, tiltölulega litla mengun, arðbæra matarkistu í fiskiauðlindunum kringum landið sem hægt er að gera enn þjóðhagslega hagkvæmari með frekari fullvinnslu, ódýra innlenda raforku og mikla möguleika til frekari orkuöflunar, hátt menntunarstig almennings og dýrmætt verkvit, þrautsegju og vilja til að vinna. Ekki síst er lega landsins að verða sífellt mikilvægari í tengslum við alþjóðlegar siglingar um Norðurpólinn og þjónustu við þær og auðlindavinnslu á Grænlandi. Og, við erum enn frjáls og höfum enn til þess aðstæður til að gera milliríkjasamninga um viðskipti við hvaða land eða viðskiptablokk í heiminum sem er.

Hins vegar eigum við því miður líka möguleika á að klúðra þessum stórfenglegu möguleikum okkar með rangri stefnumörkum og röngum aðgerðum óviturra eða annarlegra stjórnvalda sem ekki láta stjórnast af þeirri viðleitni að hámarka framgang heildarhagsmuna þjóðarinnar eða sem eru blind á í hverju þeir hagsmunir felast.
Vonandi tekst ávallt að bægja þeirri hættu frá um framtíð alla.
Þess vegna skiptir afgerandi miklu máli að það fólk sem velst til stjórnunar á landsmálunum á Alþingi og í ríkisstjórn sé góðum kostum búið sem íslenskir þjóðfélagsþegnar.
Lítt menntað eða reynslulítið eða að öðru leyti óviturt fólk eða fólk sem er of bjagað af þröngum sérhagsmunum tiltekinna þjóðfélagshópa eða eiginn hégóma ber þó ávallt með sér þá yfirvofandi ógn að illa takist til og illa fari að óþörfu.

Vonandi bera Íslendingar gæfu til þess í framtíðinni að kjósa ávallt vel menntað, reynslumikið, víðsýnt og viturt, gott og þjóðhollt fólk til landsstjórnarinnar, sem hefur gott vit á atvinnurekstri og efnahagsmálum og velferð þjóðarinnar.


mbl.is Ísland á nýjum stað í hagkerfi heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski forsetinn og sænska konungshirðin

Sænskir blaðamenn ættu e.t.v. að skrifa um tilganginn með sænsku konungshirðinni í lýðræðisríki þeirra áður en eða jafnframt því sem þeir gagnrýna íslenska forsetann sem hefur leitast við að verða landi sínu að liði með því að styðja málstað þjóðar sinnar út á við með orðum og gjörðum; Hvort og hvaða munur geti verið þar á. Hið sama á einnig við um konungsdæmin í hinum lýðveldisríkjum Skandinavíu.
mbl.is Sænsk gagnrýni á forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvæntingarfullir Írar

Það er afar afhjúpandi fyrir þá stöðu mála, þegar búið er að hneppa þjóð í fjötra skulda og miskunnarlítilla lánardrottna, að sjá innslag í umræðu á írska þinginu í írskum umræðuþætti, Tonight with Wincent Browne þ. 5.4.2011 (03:15, ..)
Í þættinum er rætt við írska þingmenn um hrikalega skuldastöðu Íra og hvernig fara má að því að endursemja um eða minnka þær skuldir, sem stjórnin yfirtók af bankakerfinu þar í landi án þess að spyrja þjóð sína, í þeirri viðleitni að bjarga landinu úr sligandi kreppu. Mönnum er þar heitt í hamsi svo að minnir á kunnuglegar aðfarir viðmælenda í íslenskum viðræðuþáttum þar sem hver talar ofan í annan.
Lilja Mósesdóttir er á meðal viðmælenda og leggur þar röggsamlega meitluð orð í belg um hvernig brugðist var við á Íslandi og hvað er í gangi nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave og hvað Írar geta lært af reynslu Íslendinga í þessum málum.
Írar horfa eftirvæntingarfullir til úrslita kosninganna á Íslandi í spurn um hvernig íslenska þjóðin bregst við ofurkröfum evrópska fjármálakerfisins; hvort hún reyni að sporna við með því að hafna Icesave-lögunum þar sem hún er ekki komin með snöruna um hálsinn eins og sú írska. Að því leyti virðast þeir horfa öfundaraugum til íslensku þjóðarinnar og að eiga ennþá val.
mbl.is Hafa samúð með Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhættuþáttur við Icesave-skuldsetningu

Þrátt fyrir rök í þeim dúr sem Þór Saari hefur bent á gegn Icesave-lögunum halda meðmælendur laganna því fram að það sé á skuldsetningu íslenska ríkisins bætandi með því að samþykkja lögin! Með því væri náttúrulega þvert á móti þeim mun fastar hert á kyrkingartaki á lífrás ríkisfjámálanna, eðli málsins samkvæmt.

Ég bendi á rök um mikilvægan áhættuþátt í þessu sambandi í tengslum við Icesave-samninginn sem fram kom í panelumræðum Sjónvarpsins í gærkveldi 7.4.2011, sbr. pistil minn þar um.


mbl.is Ísland stefnir í greiðsluþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hva?! Erlendir fjárfestar! Já-sinnar segja hið gagnstæða!

Frétt um að erlendir auðkýfingar hafi fjárfest í fyrirtæki á Íslandi ætti að segja íslenskum kjósendum að þær fullyrðingar meðmælenda hinna glórulausu Icesave-laga um að allur alþjóðlegi fjármálaheimurinn loki á Ísland verði lögunum hafnað er hrikalegur misskilningur, mismat, heimska eða í versta falli blekkingar einar.

Eins og ég bendi á í pistli mínum um það hvað ráði fyrst og fremst áhuga erlendra fjárfesta og fjármagnseigenda við val á fjárfestingarvalkostum er það vænt arðsemi af fjárfestingunni að teknu tilliti til áhættuþátta, en ekki tilfinningaríkur söguburður aftan úr svartri fortíð einn saman. Undir þetta sjónarmið tekur skynsamur og hreinskilinn hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.

Hið skynsama sem  ríkisstjórn Íslands þarf að gera betur er að gera rekstraumhverfið á Íslandi sem mest aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta og efnahagsumhverfið stöðugt.
Síhækkandi skattar og íþyngjandi álögur á atvinnulíf og sífellt hringl með þessi atriði fælir erlenda fjárfesta frá landinu. Þetta verður ríkisstjórnin að skilja, en tveggja ára saga hennar ber því ekki vitni að hún fatti þetta. Ef til vill getur hún ekki fattað þetta einstrengingslegra "hugsjóna" sinna vegna.
Svo virðist vera sem að það sem hún telji góðar aðgerðir fyrir þjóðarhag og réttlæti hafi þvert á móti lamandi áhrif á athafnalífið í landinu og þar með eyðileggjandi áhrif á hag almennings og fyrrum launþega sem enga atvinnu fá nú orðið. - Allt út af misskilningi eða vanþekkingu á mannlegu eðli að því er lýtur að fjárfestingum!


mbl.is Erlendir auðkýfingar inn í MP banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðileggjandi skuldsetning og ósigrandi hagfræðilögmál

Það ætti að vera öllum skynsemi gæddum mönnum og konum morgunljóst að ef íslenska ríkið tekur á sig ábyrgð á Icesave-gjaldþrotinu, með því að ábyrgjast innistæður umframávöxtunar- og áhættusækinna innleggjenda samkvæmt fyrirliggjandi samningi og tilheyrandi lögum sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl n.k., þá hlýtur lánshæfismat ríkisins að versna umtalsvert eðli málsins samkvæmt.

Þegar hugsanlegir fjárfestar og lánveitendur íhuga að streyma fjármagni til Íslands þar sem ríkið á hlut að máli er áhvílandi ábyrgðapakki ríkisins og tekjugrundvöllur það sem upp úr stendur við mat þeirra á fýslileika þess þegar frá líður, en ekki málatilbúnaður og tilfinningamál manna í aðdraganda fyrirliggjandi skuldsetningar.
Hvaða erlendir fjárfestar ætli pæli í þeim atriðum þegar frá líður? Þegar kemur að spurningum um ávöxtun (mikilla) fjármuna skiptir væntur ávinningur af ráðstöfun þess höfuðmáli, ekki einhver tilfinningamál úr fortíðinni.

Hagfræðileg lögmál eru ósigrandi til lengri tíma litið! Menn sækja í það sem ódýrast og hagkvæmast er að öðru óbreyttu og það sem felur í sér sem minnsta áhættu. (Einhver kynni að segja að glæfralegir stjórnendur hinna föllnu einkabanka á Íslandi séu undantekningar sem "sanni" þá aðalreglu, en reyndar mætti segja í ljósi atburða í kringum gjaldþrot bankanna að þeir hafi litið á aðgerðir sínar og ráðstafanir í fjármálum áhættulitla - fyrir sig sjálfa; ábyrgðin lenti á öðrum!). Þess vegna mun raunveruleg skuldsetning ríkisins vera það sem ráðstafendur fjármagns horfa á en ekki það hversu "góðir" Íslendingar kynnu að hafa verið við erlent fjármagnskerfi með því að axla glórulausar skuldaklyfjar.
Eru Íslendingar borgunarmenn og eru fyrirtæki staðsett á Íslandi hæf til tekjumyndunar og til ávöxtunar á fjárfestingum? Það er ein meginspurningin sem "erlendir fjárfestar" munu spyrja fyrst og fremst. Þeir munu gera sínar fjármálaráðstafanir í samræmi við svörin við þeirri spurningu.

Það er hörmulegt að hér skuli hafa myndast orðræða um Icesave-málið þar sem andstæðir hópar, "Já-sinnar" og "Nei-sinnar", berjast með í mörgum tilvikum innihaldslitlum og marklitlum slagorðum, andlitsmyndum og titlum í auglýsingum, í stað þess að leggja ofuráherslu á að kryfja málið til mergjar með raunsæum rökum um meintar efnahagslegar afleiðingar af mismunandi niðurstöðum í yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Halda mætti að sitjandi ríkisstjórn telji alla efnahagslega framtíð Íslands hvíla algjörlega á því að Icesave-lögin verði samþykkt þótt það feli í sér umrædda stórauknu skuldsetningu ríkisins með þeim afskaplega slæmu áhrifum sem það atriði út af fyrir sig hefur. Það er í hæsta máta þverstæðukennt.
Með þessum málflutningi meðlima ríkisstjórnarinnar með fjármálaráðherrann í broddi þröngsýnnar fylkingar er jafnframt horft fram hjá þeim málum sem hafa raunverulega þýðingu fyrir fýsileik erlenda aðila að fjárfesta á Íslandi.
Lykilatriði frá sjónarhóli þeirra sem vilja fjárfesta í raunverulegri starfsemi og fyrirtækjarekstri á Íslandi snýst um hið efnahagslega umhverfi landsins, reglufestu, þjóðfélagaslegan stöðugleika og möguleika til arðsemi af rekstri. Fjármagnið sækir þangað þar sem bestar líkur eru á góðri ávöxtun, en síður þangað þar sem sífellt er verið að breyta regluverki eins og t.d. skattalögum og íþyngjandi atriðum. Slíkar breytingar "yfir nótt" geta kollvarpað forsendum rekstrar erlendra aðila (og annarra); að ekki sé minnst á áhættu vegna gengisskráningar.

Ég held að það sé yfirdrifinn misskilningur á pólitískum forsendum að fjárfestar snúi sér frá Íslandi ef Icesave-lögin verði felld, en hin hliðin á sama peningi er einnig sá yfirdrifni og þverstæðukenndi misskilningur að hingað flykkist fjárfestar ef lögin verði samþykkt með tilheyrandi skuldsetningu ríkisins.
Er ekki fremur hætt við því að aukin skuldsetning ríkisins kalli á frekari skattheimtu til að standa undir afborgunum og fæli þar með fjárfesta frá landinu og kaupmáttarlítilli þjóð? A.m.k. ef stjórn landsins verður eins og í tíð núverandi ríkisstjórnar sem virðist lítið skilja hvað atvinnurekstur snýst um og hvaða forsendur þarf til þess að hann geti blómstrað með aukinni atvinnu og hagsæld fyrir þjóðarbúið.


mbl.is Ríkisábyrgðir aukast um helming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsandi dæmi um launastefnu

Innihald meðfylgjandi fréttar um stefnu í kjaramálum og skiljanlegt og réttmætt andóf forystumanna Verkalýðsfélags Akraness er lýsandi dæmi um það sem ég fjallaði stuttlega um nýlega um að hugsunarháttur og viðhorf í kjarabaráttu þarf að breytast í grundvallaratriðum hér á landi, sbr. pistil minn "Hugarfarsbreytingar er þörf um kjarasamninga".

Komast þarf út úr þeim vítahring hugarfarsins að ekki sé hægt eða ekki megi hækka laun eða bæta kjör með öðrum hætti hjá tilteknum hópi launþega nema það sama gangi eftir fyrir alla aðra samtímis. Slík sjónarmið, og sem hafa verið ríkjandi hérlendis undanfarna áratugi, halda í reynd launum allra niðri til lengri tíma litið miðað við það sem þau gætu verið. 
Þannig kerfi er við haldið með allsherjar samtökum atvinnurekenda og launþega þar sem stefnan virðist vera að semja um einhvers konar "meðal-samninga". Þar er gjarnan tekið mið af lægstu mögulegu kjarabótum sem byggja og taka mið af lélegustu rekstrargreinum á hverjum tíma; því sem sú atvinnugrein sem verst stendur er sögð geta "varla" staðið undir.

Í þessu skjóli skáka síðan atvinnugreinarnar og fyrirtækin með bestu afkomuna sem sleppa þar með við að hækka laun og bæta kjör í samræmi við getu sína. Þannig virðist hátta með sjávarútvegsfyrirtækin núna. Ekki er nema von að launþegar og starfsmenn þeirra fyrirtækja telji sig órétti beitta.
Í næstu umferð gæti dæmið síðan hafa snúist við afkomulega séð meðal atvinnugreina og fyrirtækja.
Þannig fengju launþegar í hverri grein, stað eða fyrirtæki, kjarabætur sínar á mismunandi tímum í misstórum stökkum. Nákvæmlega þarna liggur nauðsynin á breyttu hugarfari til kjarasamninga.
Afleiðingin er augljóslega sú að í heildarsamningum eins og hér hafa tíðkast er tilhneiging til þess að kjarabætur taki ávallt mið af lélegustu greinunum hverju sinni.
Hættan við þessa stefnu er ennfremur sú að ef samtökum launþega tekst að herja í gegn t.d. meiri launahækkanir en t.d. helmingur atvinnulífsins getur staðið undir einhverju sinni leiðir það óhjákvæmilega til ófarnaðar og kreppu og í versta falli gjaldþrots þeirra fyrirtækja. Sú afleiðing er ekki góð fyrir launþega, a.m.k. til skamms tíma litið.

Niðurstaðan af þessum vangaveltum er augljóslega sú að taka ber tillit til rekstraraðstæðna og afkomuhorfa í hverri atvinnugrein, stað eða fyrirtæki, fyrir sig við kjarasamninga.
Afleiðingin er eðlilega sú að heildarsamtök og heildarsamningar eiga ekki við, sé markmarkið að hámarka kjör launþega til lengri tíma litið og þannig að fyrirtækin lifi af til frambúðar þrátt fyrir það.

Aftur á móti er annað mál að í heildarsamtökum felst mikill samtakamáttur, að sagt er.
Það er tvíbent fullyrðing. Hún er það í orði, en er hún það á borði? Hvað sýnir reynslan undanfarið? Skynsamir launþegar á hverjum stað sjá það í hendi sér að ekki er viturlegt að herja í gegn launahækkanir sem þeir sjá að fyrirtæki þeirra getur ekki með sanngjörnum hætti staðið undir til frambúðar. Þess vegna halda þeir að sér höndum þegar þannig háttar, trúir hagsmunum sínum og fyrirtækis síns sem þeir starfa hjá.
Á hinn bóginn ber þeim hinum sömu ekki sömuleiðis að halda að sér höndum í launakröfum sínum þegar betur og vel árar hjá fyrirtæki þeirra, "vegna þess að illa árar í atvinnulífinu almennt"! Að fara fram á það er ekki réttlátt.
Mýtan eða goðsögnin sem felst í slagorðinu um samtakamátt sem tæki í kjarabaráttu hefur undanfarið snúist upp í andhverfu sína þar sem sá samtakamáttur hefur stuðlað að því að halda niðri launum launþega til lengri tíma litið og rústa þeim óburðugri fyrirtækjum sem hafa ekki getað staðið undir þeim (lágu) meðaltalskjarabótum sem þó eru herjaðar út hverju sinni. Það er því bæði launþegum og atvinnurekendum, sérstaklega hinum smærri, í hag að semja á grundvelli aðstæðna í hverju tilviki. Heildarsamtök launþega þurfa í því samhengi að fylgjast með, afla upplýsinga um atvinnugreinar og fyrirtæki og styðja við bakið á staðbundnum launþegasamtökum að því leyti með ráðum og dáð og hafa eftirlit með því að réttindi launþega og möguleikar séu ekki fótum troðnir. Áherslur þurfa þannig að breytast á vettvangi heildarsamtakanna, en með markvissum hætti.

Stefna sem tekur mið af rekstrargrundvelli fyrirtækja á hverjum "stað" er lífvænlegri til lengri tíma litið, bæði fyrir fyrirtækin í heild og launþega í heild.
Í slíkri stefnu eiga litlu fyrirtækin eða þau sem ekki eru fjárhagslega sterk betri framtíðarhorfur en í núverandi "miðjumoðs"-stefnu þar sem sterkari fyrirtækin ráða för og halda á pálmanum þegar upp er staðið og til lengri tíma litið. Kennitöluflakk fyrirtækja sem umtalað er hérlendis er ef til vill að nokkru leyti ein afleiðing af þeirri allsherjar miðjumoðs-launastefnu. 

Við erum hér að tala um upplýstar og skynsamar og réttlátar ákvarðanir, bæði fyrir alla launþega og alla atvinnurekendur á hverjum tíma til lengri tíma litið.


mbl.is Vilhjálmur hótar úrsögn úr ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband