Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
19.2.2012 | 15:27
Ringulreið verðtryggingar
Allt réttlæti kallar á það að stökkbreytt verðtryggð lán, eins og gengistryggð lán, verði leiðrétt og höfuðstóllinn lækkaður aftur niður í það sem var áður en skriða hrunsins 2008 lagði af stað í upphafi sama árs (jafnvel fyrr) með hröðu gengisfalli og snöggvaxandi verðbólgu.
Sú leiðrétting á að ná til allra slíkra lána óháð tilgangi lántakans með notkun lánsfjárins, þ.e. hvort um var að ræða lán til kaupa á húsnæði eða öðru. Það varðar jafnræðisreglu.
Höfuðstóll umræddra lána snögg-hækkaði með útreikningi á hækkun samkvæmt viðkomandi vísitölum. Á sama hátt þarf höfuðstóllinn að snögg-lækka; Lántakar fengu ekki útborgaða neina viðbótarlánspeninga í tengslum við þann útreikning. Á sama hátt snýst málið um að framkvæma sama talnaútreikning á höfuðstóli lána með öfugum formerkjum.
Þess vegna eru hugmyndir nú um að "fjármagna" þessa lánaleiðréttingu með hinum eða þessum hætti, t.d. með því að skerða lífeyrisgreiðslur meðlima lífeyrissjóða að einhverju leyti í tengslum við þessa leiðréttingu, út í hött.
Slíkar hugmyndir byggja á misskilningi á eðli höfuðstólshækkunar verðtryggðu lánanna. Lánveitendur fengu án peningaútláta hækkun á lánsfénu með bókhaldslegum aðferðum í samræmi við vísitölutengingu lánanna. Sú hækkun byggði á algjörum forsendubresti í efnahagslífinu sem leiddi þar með í ljós ótrúlegt óréttlætið við verðtryggðu lánin þar sem öll áhætta varðandi verðbólgu hvílir á lántakendum 100% og 0% á lánveitendum.
Það er óréttlæti sem er furðulegt að skuldarar, heimili og fyrirtæki, skuli hafa látið yfir sig ganga hingað til. Á því þarf nú að verða breyting og má ekki seinna vera. Koma þarf á sanngjörnu kerfi lánamála í landinu. Vilji er allt sem þarf til að koma hreyfingu á þau mál.
Verðtryggð lán verði lækkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2012 | 13:47
Hverra hagsmuna gætir Matvælastofnun í reynd?
Sú fáránlega spurning vaknar við lestur frétta um að Matvælastofnun (MAST) hafi ákveðið að leyfa dreifingu skilgreinds iðnaðarsalts til matvælaframleiðslu, þá loks að hún áttaði sig á því hvers kyns var eftir tilvist saltsins á markaði í um 13 ár frá því árið 1998, hverra hagsmuna stofnunin gætir fyrst og fremst í reynd: Kostnaðar- og viðskiptahagsmuna innflutningsaðila umrædds salts og viðskiptavina hans, eða neytenda.
Þar sem við ættum að geta gert ráð fyrir því að virðulegir 80 starfsmenn stofnunarinnar kunni að lesa og ættu jafnframt að geta skilið að umbúðamerkingin "Industrisalt" á dönsku þýðir iðnaðarsalt á íslensku þá kemur eitthvað annað til með leyfisveitingunni.
Að stofnunin skuli, samkvæmt fréttum, hafa vísvitandi leyft áframhaldandi dreifingu iðnaðarsaltsins í mat landsmanna í nóvember s.l. í bága við reglur þar um er stórfurðulegt mál, hliðstætt og á við um málið um of mikið kadmíum í áburði sem upp kom fyrir nokkrum vikum þegar landsmenn voru fyrir löngu búnir að borða viðkomandi matarafurðir með blessun MAST.
Semur stofnunin eigin vinnureglur við hlið laga og reglugerða sem fara í bága við lögin eða er starfsfólkið búið að vera á frívakt gagnvart þessum málaflokki undanfarin 13 ár og ekki gert eigin athuganir á innflutningnum?
Hægt væri að álykta að annað hvort séu viðmiðunarreglur um flokkun á iðnaðarsalti og matarsalti rangar (að mati stofnunarinnar) og hún því farið eftir að sínu mati á "réttum" viðmiðum, eða að skilningur stjórnenda og starfsmanna stofnunarinnar á hlutverki sínu sé rangur.
Sé hið fyrrnefnda tilfellið þarf að endurskoða viðkomandi lagasetningu um viðmiðunarmörk, en hitt stendur upp úr að samkvæmt fréttum virðist MAST ekki hafa farið eftir settum reglum - og ekki í fyrsta skipti.
Ráðherra, sem stofnunin heyrir undir, hlýtur að átta sig á því að eftirlitsstofnun sem veitir falskt öryggi er verri en engin.
Stofnanir deila um salt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.12.2011 | 01:00
Markviss merkantilismi?
Frakklandsforseti talar hér í gátum. Orð sem hann notar hér í ræðu sinni um efnahagsstefnu landsins og landa Evrópusambandsins eru afar athyglisverð fyrir þær sakir að þau virðast benda til þess að hverfa eigi aftur til markvissari merkantilisma, þ.e. einhvers konar sjálfsþurftarstefnu sem muni leiða til þess að þjóðin/þjóðirnar fari að beina neyslu sinni í innlendar vörur og þjónustu á kostnað innflutnings;
Eða, hvernig ætla þær annars að auka atvinnu heima fyrir jafnhliða því að rétta viðskiptahalla sinn af, sbr. ummæli forsetans "að losna undan skuldum, sem mun koma jafnvægi á hagkerfi eins og þörf krefur, í átt að vinnu og framleiðslu".
Ein spurning sem vaknar er hvort Evrópusambandið sé að spá í að loka sig meira af gagnvart utanaðkomandi samkeppni á neysluvörumarkaði og nýta þannig eiginleika sinn sem tollabandalag. Það þýðir m.a. að reynt yrði að loka sem mest fyrir flóð ódýrs varnings frá Asíu sem ódýrt vinnuafl þar framleiðir og framleiða í staðinn tilsvarandi vörur heima fyrir með vinnuafli sem hingað til hefur gengið atvinnu- og iðjulaust. Það er reyndar viss viska í því. Ummæli forsetans um að ný efnahagstíð er hafin" gætu bent til þessa og vissulega yrði hún "ólík þeirri fyrri".
Það yrði athyglisvert innlegg í rökræður um frjálsa samkeppni og blandað (frekar en segja miðstýrt) hagkerfi. Er það ekki einmitt þetta sem hann á við er hann segir upp muni renna tíð "sem er eitthvað sem þróuð ríki eiga til með að fórna um of, þ.e. lítt heft milliríkjaviðskipti leiða til þess að þau lönd sem hafa farið halloka í samkeppni við innflutning sitja uppi með gömlu framleiðslugreinarnar sínar í rúst, atvinnulaust vinnuafl og stórfelldan halla á viðskiptajöfnuði sínum. Blasir þá ekki við að skella í lás gegn innflutningi og hefja framleiðsluna í staðinn heima fyrir?
Það verður spennandi að fylgjast með hvað Frakklandsforseti er að leggja hér drög að!
Sarkozy: Óttinn lamar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2011 | 10:59
Eyðileggjandi hávaxtastefna
Hér stígur fram hagfræðingur, að vísu íslenskur, hjá virtri fræðastofnun erlendis með sannleikann að vopni að hætti andæfandi spámanna til forna og bendir á og færir skynsemisrök fyrir því að hávaxtastefna sú, sem rekin hefur verið hérlendis af konungum þessa lands með þrjóskufullu handafli eftir bankahrunið og eftir að AGS kom með sitt verkfærabox til bjargar íslensku efnahagskerfi, hafi verið andstæða þess sem hefði átt að gera.
Færir hann eðlileg og hárrétt rök fyrir því að hin rökum firrta hávaxtastefna sem rekin hefur verið af Seðlabanka Íslands standist ekki skoðun, hafi markmiðið verið að koma skuldum sliguðu efnahagslífi til hjálpar.
Þessi rök sem hagfræðingurinn bendir á ættu allir skynsamir og hugsandi menn, ekki síst hag-fræðimenn, að skilja. Á grunni þeirra hefði þvert á móti átt að reka hér lágvaxtastefnu meðan verið er að rétt af efnahagslífið og koma "hjólunum af stað" aftur.
Nei, þvert á eðlileg viðbrögð voru vextir keyrðir í hástert, 18%, þegar allt var að koðna niður ásamt móralnum í samfélaginu við eldana á Austurvellli og í nærliggjandi húsum; Þrátt fyrir að gjaldeyrishöftum var komið á og landið þar með víggirt fyrir útflæði gjaldeyris!
Þessi stefna er enn rekin, þótt í vægara mæli sé nú en þegar verst lét, en véfréttin í Seðlabankanum hefur hótað að hefja "hækkunarferli" fyrr en seinna. Það er eins og þar hafi enginn lærdómur verið dreginn af því hvernig umrædd hávaxtastefna hefur leikið horfin og eftirlifandi heimili og fyrirtæki, enda fer hvoru tveggja fækkandi. Eftir situr vaxandi vandi við hliðina á feitum og hraðvaxandi innvaxtapúkanum sem á sama tíma hefur tútnað út á fjósbitanum í vímueimyrju véfréttarinnar sem ræður ríkjum í Seðlabankanum; Og allir skuldarar landsins eru með illu (háu vaxtastigi) látnir fóðra hann dag og nótt, alla daga. Hinir verst settu í þjóðfélaginu (skuldarar o.fl.) fóðra þá best settu (fjármagnseigendur). - Menn geta svo deilt um réttlætið og þjóðarhagsýnina í þessu framferði, en það er annað mál.
Ég hef margoft vogað mér að að leggja orð í þennan villta vaxtabelg undanfarin misseri, en ég er farinn að halda að prestar véfréttarinnar í Seðlabankanum hafi ekki tekið eftir eða skilið þau góðu og heillavænlegu ráð sem þar eru viðruð til að rétta hlut þjakaðra skuldara og lífga efnahagslíf landsins við; Þrátt fyrir að ég hef ekki sent þeim reikning fyrir heillaráðin með skilanefndataxta. Eða, ætli ólæsi sé farið að herja þar eins og í lestrarkennslusveltum grunnskólum landsins?
Nú hefur sem sé Mr. Jón Daníelsson hagfræðingur, enn einu sinni, bent á hið sama með samskonar rökum, eins og margir aðrir málsmetandi menn og konur hafa reyndar einnig gert.
Ég spyr því hvort vaxtavíman í Seðlabankanum sé búin að svæla út allt vit og vilja embættismanna og stjórnvalda til að vinna fyrir aðra þegna samfélagsins en innistæðueigendur.
Tilvísanir í nokkra fyrri pistla:
Rökum firrtar vaxtahækkanir - enn
Augljósar ástæður (Fjárfestar fældir frá með háum vöxtum)
Lærdómur seðlabankamanna Íslands
Leikur raunveruleikinn á talsmenn hávaxtastefnunnar
Vaxtatal Darling til fyrirmyndar
Eiga háir stýrivextir við í dag?
Hinir illa stæðu styrkja hina vel stæðu í hruninu
Haldlaus hávaxtarök
Hundalógík hávaxtastefnunnar
Lítill árangur AGS hér á landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2011 | 17:07
Kamelljón kemur í ljós
Bankasýslan var sett á laggirnar til að annast mikilvæg málefni í fjármálum ríkisins þar sem ekki þótti við hæfi að ráðherra færi með þau á pólitískum forsendum hverju sinni. Bankasýslan skyldi réttilega vera skipuð fagfólki og taka ákvarðanir í umsýslu sinni um eignarhluti ríkisins á faglegum forsendum og með þjóðhagslega hagvæmni og heildarhagsmuni að leiðarljósi.
Nú er komið í ljós að bæði starfandi fjármálaráðherra, sem þó skipaði sjálfur í stjórn Bankasýslunnar, og fjöldi þingmanna bæði í liði ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, gagnrýnir að hennar mati faglega ákvörðun stjórnar Bankasýslunnar um ráðningu forstjóra hennar, þrátt fyrir faglegan rökstuðning stjórnarinnar. Sú gagnrýni byggist því greinilega á pólitískum skoðunum viðkomandi aðila og mati þeirra á forstjórakandidatinum á þeim forsendum.
Það virðist því nokkuð ljóst að rekstrarforsendur Bankasýslunnar að því er stjórn hennar og ráðstafanir varðar hafa verið yfirskinið eitt; Alltaf hafi átt að ráða ráðum út frá pólitískum sjónarmiðum stjórnvalda fremur en faglegum. Þess háttar skollaleikur átti að heita liðin tíð eftir bankahrunið. Stjórn Bankasýslunnar hefur samkvæmt þessu misskilið hlutverk sitt frá upphafi, en í góðri trú á grunni formlegrar starfslýsingar, og fyrst nú gert sér það ljóst. Þá sagði hún náttúrulega umsvifalaust af sér, eðli málsins samkvæmt.
Við hljótum að kalla eftir því að stjórnvöld og komi fram eins og þau eru klædd, en ekki eins og kamelljón með tilheyrandi sóun fjármuna. Hið sama á við um Alþingismenn almennt.
Eða, hanga einhver fleiri atriði á spýtunni sem almenningur veit ekki og má ekki vita um að mati stjórnvalda en skipta sköpum í þessu máli til betri vegar fyrir almenning, t.d. þjóðhagslega séð?
Páll tekur ekki starfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.9.2011 | 16:23
Rökum firrtar vaxtahækkanir - enn
Það er eins og að bera í bakkafullan bæjarlækinn að hafa uppi enn einu sinni mótbárur við þeirri þráhyggju Seðlabankamanna að vilja hækka vexti sökum hræðslu þeirra við ofþenslu í hagkerfinu sem þeir telja líkur á nú í ördeyðunni.
Þessi fræðilega stefna þeirra, sem jaðrar við ímyndunarveiki og bókstafstrú, er þeim mun öfugmælakenndari við núverandi stöðu efnahagsmála hérlendis þar sem enn ríkir slaki í atvinnulífinu með atvinnuleysi í sögulegum hæðum, hækkuðum neyslusköttum, tekjuskatti og launaskatti (tryggingagjaldi launagreiðenda og einyrkja sem fer til greiðslu atvinnuleysisbóta) og miklum afturkipp í einkaneyslu og, ekki síst, stóraukinnu greiðslubyrði heimila og fyrirtækja vegna fjármagnskostnaðar. Hækkun vaxta við þessar aðstæður eykur fyrst og fremst kostnað heimila og fyrirtækja og dregur enn meira úr þegar stórminnkaðri neyslu- og fjárfestingagetu þeirra.
Seðlabankamenn vilja að því er virðist alls ekki viðurkenna raunveruleikann í þessum staðreyndum heldur halda rígfast í fræðilegar kenningar um "venjuleg" viðbrögð seðlabanka við yfirvofandi hættu á (of)þenslu í efnahagslífinu. Með hefðbundnum klisjukenndum "rökum" sínum fyrir vaxtahækkun í núverandi stöðu mála afhjúpa þeir veruleikafirringu sína um að það þurfi enn að þyngja róðurinn hjá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum landsins til að koma í veg fyrir hina meintu ofþenslu í hagkerfinu. Þeir virðast byggja fremur á hæpnum væntingum sínum og getgátum um framtíðarþróun hagkerfisins á tilteknum forsendum en staðreyndum sem við blasa hér og nú.
Samtímis tala margir, ef ekki allir, pólitíkusar og skynsamir menn fyrir því að létta þurfi byrðarnar á hinum sömu til að "koma hjólum atvinnulífsins af stað" og til að forða stórum hluta almennings og fyrirtækja frá sárri neyð. Enda vita allir heilvita menn að hækkun vaxta nú myndi gera þunga lífsbaráttuna enn þyngri hjá öllum skuldurum, en lífið samsvarandi þeim mun léttara hjá þeim sem eiga sjóði í ávöxtun hjá bankakerfinu.
Þeir sem verst eru settir að þessu leyti borga þannig fyrir tilsvarandi vaxtatekjuauka fjármagnseigenda við þessar ömurlegu aðstæður.
Þetta er vægast sagt þverstæðukennt, ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin segist reka jafnaðarstefnu í efnahagslegu og félagslegu tilliti.
Því má spyrja hvort Seðlabankinn sé orðinn slíkt ríki í ríkinu við mörkun efnahagsstefnu sem lætur sig fyrst og fremst hag fjármagnseigenda varða, eins og vaxtastefnan undanfarin tæplega þrjú ár vitnar um. Er þetta þá samkvæmt vilja löggjafans í landinu?
Þó má segja að Seðlabankamenn hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti um vaxandi neyslu og kaupgetu innan samfélagsins, en það takmarkast við þá sem tilheyra best settu tekjuhópum og eignafólki landsins. Löggjafinn hefur hins vegar í hendi sér að leggja snörur sínar fyrir eitthvað af fé þeirra "til að sporna við ofþenslu" með öðrum hætti en almennum vaxtahækkunum, svo sem gegnum skattkerfið; Ef löggjafanum býður svo við að horfa.
Vaxtahækkanir auka (vaxta)tekjur þessa hóps og skerðir ekki kaupgetu fjármagnseigenda, og ýtir þannig undir kaupgetu þeirra og "ofþenslu" í hagkerfinu af þeirra völdum, þvert á yfirlýst markmið Seðlabankamanna með vaxtahækkuninni!
Auk margra annarra hefur bloggari margoft bent á rökleysuna fyrir háum vöxtum og vaxtahækkuninni eftir bankahrunið 2008 í ljósi gjaldeyrishaftanna sem þá var komið á, svo sem í pistlunum Lærdómur Seðlabankamanna og Leikur raunveruleikinn á talsmenn hávaxtastefnunnar?
Fátt réttlætir vaxtahækkanir Seðlabankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.9.2011 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2011 | 00:10
Viðvörun Einars Þveræings
Þessi fréttaskýring Financial Times minnir vel á röksemdafærslu Einars Þveræings forðum er hann varaði Íslendinga við að selja nafna Grímsstaða á Fjöllum, Grímsey á hafi úti, til erlends konungsríkis. Benti hann m.a. á að þar gæti erlendur her komið sér fyrir í tengslum við undirbúning á innrás í landið án þess að Íslendingar gætu fengið við það ráðið.
Það er opin spurning hvort svo er í pottinn búið nú og virðist sem svo að við stöndum nú í sömu sporum og landar Þveræingsins varðandi hvað gera skuli. Var þetta rætin þjóðernishyggja hjá Einari sem átti sér ekki stoð í raunveruleikanum eða raunveruleg ógn?
Ekki skal ég segja um hvort "landtaka" vaki fyrir Kínverjum, þ.e. kínverska ríkinu, sem efalítið tengjast einkaframtaki Nubo meira en minna. Hitt er annað að mjög líklega yrði hér um að ræða "innrás" kínversks vinnuafls í tengslum við uppbyggingu aðstöðu þeirrar sem Nubo segist muni ráðast í fái hann landið til eignar. Það yrði bara að koma í ljós hve stór hluti það yrði af heildarmannafla á svæðinu til skemmri og lengri tíma.
Hér er væntanlega ekki einungis um að ræða uppbyggingu ferðamannaaðstöðu á Grímsstöðum til skamms tíma litið heldur hlýtur Nubo og þeir sem að baki honum standa að horfa til þess að skipaleið um Norður-Íshaf opinist í náinni framtíð með umskipunarhöfnum og tilheyrandi uppbyggingu í tengslum við það á Norð-Austurlandi í kjölfarið. Einnig gæti það tengst auðlindanýtingu á austurströnd Grænlands er þá kæmi til. Þá kemur sér vel að hafa land til umráða í grennd þar sem hægt er að byggja upp heilan kaupstað, heilan "her" íbúa. Spurning er hvort íbúar þeirrar byggðar yrðu (kínverskir) ferðamenn eða starfsmenn.
Þá er einnig óljóst ennþá hvernig háttar til með nýtingu auðlinda á svæðinu, svo sem vatns.
Það er rétt hjá innanríkisráðherranum að hér þarf að skoða mál frá öllum hliðum, bæði kosti og galla til bæði skamms og langs tíma og taka síðan yfirvegaða ákvörðun á þeim grunni. Þar koma sjálfsagt einnig tilfinningaleg rök til álita ásamt þeim pólitísku.
Hitt er annað að ekki ber að slá spennandi möguleika út af borðinu fyrirfram að óathuguðu máli vegna pólitískra fordóma. Menn skulu ekki gleyma því að ef á annað borð er óskað eftir almennum erlendum fjárfestingum hérlendis þá verður ekki bæði haldið og sleppt.
Ef kemur á daginn við athugun að þetta snúist einfaldlega um uppbyggingu einstakrar ferðamannaparadísar á fjöllum eins og Nubo talar um sem laðar að gull er verður að grænum skógum, en ekki aðstöðu fyrir "innrásarher" a la Einar Þveræing eða auðlindatöku án fyrirfram gerðra nýtingarsamninga við íslenska ríkið, þá virðist þetta spennandi kostur.
Nú þarf að leggjast undir feld - en samt ekki lengur en í "þrjá daga". M.a. þarf að huga að lögum og hugsanlegri viðbótar lagasetningu er varða nýtingu erlendra aðila á auðlindum og aðstöðu hérlendis, svo að hagsmunir Íslendinga verði ekki (óvart) fyrir borð bornir.
Gæti aukið áhrif Kínverja í N-Atlantshafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.8.2011 | 21:44
Löngu tímabært
Það var kominn tími til að hátt settir fulltrúar íslenska ríkisins tali formlega við Kínverja um gagnkvæm viðskipti milli landanna. Hér er seint betra en allt of seint og fagnaðarefni að loksins skuli hafa orðið af þessu, þótt hér sé "einungis" um einkaaðila að ræða.
Það var hins vegar bagalegt að forsætisráðherrann okkar gat ekki fundið tíma til að hitta æðsta mann Kína í sumar með formlegum hætti til eflingar á viðskiptum og samskiptum milli þjóðanna. Þar tapaðist dýrmætur tími til uppbyggingar viðskipta, að því er séð verður.
En, hér fær utanríkisráðherra vor plús fyrir sína fyrirhöfn. Gott er að hann skuli hafa fundið tíma til þess nú frá annríki sínu á öðrum vettvangi.
Funduðu um fjárfestingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.7.2011 | 16:51
Hvers vegna keypti ríkið?
Það eru allt góðar og afar gildar spurningar sem Guðlaugur Þór Þórðarson alþm. viðrar varðandi ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og umboðsmanns hennar Seðlabankans um málefni varðandi inngrip ríkisins í að bjarga Sjóvá frá formlegu gjaldþroti.
Hitt er annað hvers vegna ríkið bjargaði Sjóvá yfirhöfuð. Fjármálaráðherrann virtist á sínum tíma, m.a. í fréttaviðtali við rúv, verja þann gjörning með því að þar með væri verið að bjarga þáverandi viðskiptavinum Sjóvá frá meintum vandræðum ef fyrirtækið yrði látið róa sinn feigðarsjó til enda. Einnig að koma með því í veg fyrir hættu á samþjöppun á tryggingamarkaðnum ef svo færi. Loks væri þetta ekki styrkur ríkisins heldur "fjárfesting" í starfandi atvinnufyrirtæki sem myndi skila sér síðar er það yrði selt. Kjósendur þögðu við þessi rök að svo komnu máli í trausti á dómgreind ráðherrans.
En, hversu gild og góð voru þessi rök ráðherrans?
Nú er komið á daginn að ekki reyndist þetta góð fjárfesting út af fyrir sig fyrir ríkið, eins og Guðlaugur ræðir um samkvæmt fréttum þar um: Ríkið tapar um 4 milljörðum króna á tiltækinu og kallar Seðlabankastjóri það góð kaup í fréttum gærdagsins á rúv, í sjálfdæmi sínu um árangur Seðlabankans við söluna á Sjóvá.
Virk samkeppnisyfirvöld hefðu væntanlega komið í veg fyrir að eftirlifandi keppinautar hefðu sópað umyrðalaust til sín gömlum viðskiptavinum Sjóváar úr þrotabúi þess í meira mæli en hægt væri við að una, þannig að ekki er hægt að segja að það hræðsluefni fjármálaráðherra hafi átt við rök að styðjast. Þvert á móti bjagaði ríkið markaðsaðstæður á tryggingamarkaði með inngripi sínu með því að bjarga fyrirtæki fjárglæframanna á kostnað þeirra tryggingafyrirtækja sem virtu leikreglur og hefðu fremur átt að fá umbun fyrir árvekni sína og heilbrigða viðskiptahætti með því að uppskera svikna viðskiptavini hins gjaldþrota fyrirtækis.
Þá hefur fjármálaráðherrann, svo ég viti til, ekki gert tilhlýðilega grein fyrir meintum "ávinningi" ríkisins eða þjóðarinnar af því að bjarga Sjóvá frá stöðvun að því er varðar önnur atriði en ætlaðan "ágóða" (sem nú reynist vera neikvæður um 33%) af fjárfestingunni sjálfri.
Hrópandi spurning liggur því í loftinu: Hvers vegna bjargaði ríkið Sjóvá?
Hæsta tilboðinu ekki tekið í Sjóvá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2011 | 12:21
Lærdómur seðlabankamanna Íslands
Furðulegar hugmyndir um að hækka stýrivexti, sem seðlabankastjóri viðrar nú í fréttum, gefa því miður vísbendingar um að hann og/eða stjórn Seðlabankans hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í kjölfar bankahrunsins 2008.
Ennfremur að fræðingar þar á bæ hafi ekki einu sinni skilið hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur.
Að minnsta kosti fara þeir ekki eftir hvorki grundvallar hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu, eins og hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra, né heldur heilbrigðu innsæi.
Það ætti að vera augljóst hverjum manni að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, myndi gera erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og gera út af við enn fleiri. Ef það er stefna Seðlabankans þá eru þessar ógnandi yfirlýsingar seðlabankastjóra náttúrulega skiljanlegar.
Hækkun stýrivaxta við þessar aðstæður hefði hins vegar í sjálfu sér engin áhrif til að minnka verðbólguna, en kyndir þvert á móti undir meiri verðbólgu sem einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar; Sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum.
Það sem skín í gegnum þessar yfirlýsinggar seðlabankastjóra er hins vegar uppeldislærdómur hans hjá AGS um umsýslu fjármagns til að efla hag fjármagnseigenda hinna meiri.
Hækkun stýrivaxta nú eflir fyrst og fremst þeirra hag, en er öllum skuldurum í óhag, bæði fyrirtækjum og heimilum landsins og þar með efnahagslífi landsins.
Þar sem gjaldeyrishöft eru í gildi eru það ekki gild rök að halda því fram að hækka þurfi vexti til að halda inneignum erlendra aðila kyrrum í íslenska bankakerfinu.
Seðlabankinn hækkaði samt stýrivexti í ofurhæðir (eftir að hafa áður hafið lækkunarferli í kjölfar hrunsins) samkvæmt tilmælum AGS þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. Það gaf innistæðueigendunum vaxtatekjur sem sliguðum skuldurum var gert að borga í ofanálag við snögghækkaðar verðbætur lána sinna og stökkbreyttar skuldir.
Þessari viti firrtu hávaxtastefnu seðlabankamanna, lénsherra erlendra fjármálaafla, þessari aðför að skuldsettu efnahagslífi landsins, þarf að andæfa af krafti og hörku. Hvar eru talsmenn Íslendinga?
Stýrivaxtahækkanir nú gætu leitt til meiri verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)