Eyðileggjandi hávaxtastefna

Hér stígur fram hagfræðingur, að vísu íslenskur, hjá virtri fræðastofnun erlendis með sannleikann að vopni að hætti andæfandi spámanna til forna og bendir á og færir skynsemisrök fyrir því að hávaxtastefna sú, sem rekin hefur verið hérlendis af konungum þessa lands með þrjóskufullu handafli eftir bankahrunið og eftir að AGS kom með sitt verkfærabox til bjargar íslensku efnahagskerfi, hafi verið andstæða þess sem hefði átt að gera. 

Færir hann eðlileg og hárrétt rök fyrir því að hin rökum firrta hávaxtastefna sem rekin hefur verið af Seðlabanka Íslands standist ekki skoðun, hafi markmiðið verið að koma skuldum sliguðu efnahagslífi til hjálpar. 

Þessi rök sem hagfræðingurinn bendir á ættu allir skynsamir og hugsandi menn, ekki síst hag-fræðimenn, að skilja. Á grunni þeirra hefði þvert á móti átt að reka hér lágvaxtastefnu meðan verið er að rétt af efnahagslífið og koma "hjólunum af stað" aftur. 
Nei, þvert á eðlileg viðbrögð voru vextir keyrðir í hástert, 18%, þegar allt var að koðna niður ásamt móralnum í samfélaginu við eldana á Austurvellli og í nærliggjandi húsum; Þrátt fyrir að gjaldeyrishöftum var komið á og landið þar með víggirt fyrir útflæði gjaldeyris!

Þessi stefna er enn rekin, þótt í vægara mæli sé nú en þegar verst lét, en véfréttin í Seðlabankanum hefur hótað að hefja "hækkunarferli" fyrr en seinna. Það er eins og þar hafi enginn lærdómur verið dreginn af því hvernig umrædd hávaxtastefna hefur leikið horfin og eftirlifandi heimili og fyrirtæki, enda fer hvoru tveggja fækkandi. Eftir situr vaxandi vandi við hliðina á feitum og hraðvaxandi innvaxtapúkanum sem á sama tíma hefur tútnað út á fjósbitanum í vímueimyrju véfréttarinnar sem ræður ríkjum í Seðlabankanum; Og allir skuldarar landsins eru með illu (háu vaxtastigi) látnir fóðra hann dag og nótt, alla daga. Hinir verst settu í þjóðfélaginu (skuldarar o.fl.) fóðra þá best settu (fjármagnseigendur). - Menn geta svo deilt um réttlætið og þjóðarhagsýnina í þessu framferði, en það er annað mál.

Ég hef margoft vogað mér að að leggja orð í þennan villta vaxtabelg undanfarin misseri, en ég er farinn að halda að prestar véfréttarinnar í Seðlabankanum hafi ekki tekið eftir eða skilið þau góðu og heillavænlegu ráð sem þar eru viðruð til að rétta hlut þjakaðra skuldara og lífga efnahagslíf landsins við; Þrátt fyrir að ég hef ekki sent þeim reikning fyrir heillaráðin með skilanefndataxta. Eða, ætli ólæsi sé farið að herja þar eins og í lestrarkennslusveltum grunnskólum landsins?

Nú hefur sem sé Mr. Jón Daníelsson hagfræðingur, enn einu sinni, bent á hið sama með samskonar rökum, eins og margir aðrir málsmetandi menn og konur hafa reyndar einnig gert.
Ég spyr því hvort vaxtavíman í Seðlabankanum sé búin að svæla út allt vit og vilja embættismanna og stjórnvalda til að vinna fyrir aðra þegna samfélagsins en innistæðueigendur.

Tilvísanir í nokkra fyrri pistla:

 Rökum firrtar vaxtahækkanir - enn
 Augljósar ástæður (Fjárfestar fældir frá með háum vöxtum)
 Lærdómur seðlabankamanna Íslands
 Leikur raunveruleikinn á talsmenn hávaxtastefnunnar
 Vaxtatal Darling til fyrirmyndar
 Eiga háir stýrivextir við í dag?
 Hinir illa stæðu styrkja hina vel stæðu í hruninu
 Haldlaus hávaxtarök
 Hundalógík hávaxtastefnunnar


mbl.is Lítill árangur AGS hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband