Leikur raunveruleikinn á talsmenn hávaxtastefnunnar?

Því er haldið fram sem rökum fyrir háum vöxtum hér að þeir séu fallnir til þess að laða að erlent fjármagn og halda því sem fyrir er kyrru hérlendis. Þetta eru kennslubókakenningar sem því miður virka ekki á Íslandi nú um stundir.

Seðlabankinn hefur haldið uppi landeyðandi vaxtastefnu undanfarið og er enn að. Svo virðist sem þessi stefna virki ekki allskostar vel. Fréttir af fjölda gjaldþrota fyrirtækja og hörmulegum greiðsluerfiðleikum heimila, afleiðingum þeirra og slæmum horfum á þeim vettvangi og fólksflutningar úr landi eru sterkar vísbendingar um það. Það eru því illyrmislegar hliðarverkanir af þessari stefnu, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Hávaxtarökin eru ekki trúverðug í ljósi þess, að ég held að þurfi eitthvað meira en bara háa vexti í þessu fjárhagslega volaða landi til að halda innistæðum útlendinga hér kyrrum í landinu ef, eða þegar, gjaldeyrishöftin verða afnumin eins og áformað er í haust. Þeir hafa brennt sig illa á bankahruninu.

Ég bar fram þá spurningu á blogginu hér í júlí s.l. hvort viti bornir menn héldu virkilega að hinir erlendu fjármagnseigendur vilji ótilneyddir geyma peningana sína áfram hérlendis þótt á okurvöxtum sé! Ekki taldi ég það líklegt. Bresk skoðanakönnun meðal 60 stærstu fjármálafyrirtækja nú nýverið sýnir að nákvæmlega þetta er viðhorf erlendra fjárfesta, a.m.k. þar! Í dúr við það eru nýjar upplýsingar um stórskaðaða ímynd Íslands erlendis.
Einnig fjallaði ég um mismunandi forsendur fyrir tiltekinni virkni og óvirkni stýrivaxta í pistli hér í maí s.l.
Frosti Sigurjónsson bendir á harða gagnrýni á hávaxtastefnu Seðlabankans í bloggi sínu með tilvitun í grein Ragnars Þórissonar í Morgunblaðinu í dag. Margir aðrir hafa gagnrýnt hávaxtastefnuna og ber allt að sama brunni.

Þótt sárt sé að ganga gegn almennum hagfræðikenningum fræðimanna á þessu sviði verður svo að vera þegar sýnt er að þær eiga ekki við í tilteknu hagkerfi þar sem aðstæður og virkni passa ekki við forsendur viðkomandi almennu kenninga. Nær væri þá að þróa og halda á lofti kenningum sem eiga betur við slíkar aðstæður.
Kenningaleg rök fyrir háum vöxtum á Íslandi núna segja m.a. að fjárfestar ættu að sjá sér hag í því að halda fé sínu kyrru á Íslandi, en málið er að þeir vilja það einfaldlega ekki af öðrum ástæðum! Þeim finnst það ekki áhættunnar virði auk þess sem þeir hafa ekki ráðstöfunarrétt yfir fé sínu vegna gjaldeyrishaftanna. Það er ekki torskilið.
Enn og aftur: Þess vegna duga ekki okurvextir einir sér á Íslandi núna í þeim tilgangi. Það eru gjaldeyrishöftin sem halda inneignum útlendinga hér núna en ekki hinir háu vextir.

Hins vegar færir hávaxtastefnan þeim sem eiga fé inni í bönkunum háa inneignarvexti, sem eru í reynd blóðpeningar sem millifærðir eru með harðri hendi frá örvæntingarfullum einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum sem skulda lán á enn hærri vöxtum og verðbótum vísitalna og gengis í ofanálag.

Er í þessu ljósi hægt að segja að hefðbundnar aðferðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hernámslið hans og talsmenn hérlendis staglast á (e.t.v. gegn betri vitund) og þáttur hans í að halda uppi vaxtaokrinu séu uppbyggilegar fyrir Ísland og almenning í landinu? Fjarri fer því!
Fyrir hverja er þá slíkur úlfur í sauðagæru að vinna hér á landi í reynd?
(Vísbending: Hverjir og hvaða lönd stjórna sjóðnum?)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband