Sibert segir ekki allan sannleikann

Erlendar skuldir eru greiddar með gjaldeyri sem aflað er með útflutningi landsmanna. Þess vegna skiptir hlutfall skulda af útflutningstekjum meira máli en hlutfall af upphæð landsframleiðslu.

Útflutningstekjur Íslendinga eru miklu lægri en upphæð landsframleiðslu, eðli málsins samkvæmt. Þess vegna er hlutfall tiltekinnar upphæðar "Icesave-skuldar" af útflutningstekjum miklu hærra en þessi 14% sem fram kemur í fréttinni. Sá klafi er óárennilegur að standa undir ásamt öðru sem nýta þarf útflutningstekjur landsins til. Það yrði harla lítið eftir til nauðsynlegra aðfanga á vörum og þjónustu til landsins ef taka þarf drjúgan hluta teknanna til greiðslu á "Icesave-skuld" sem í þokkabót er ekki réttmætt að lendi á Íslandi að greiða. (Hroðvirknisleg fréttamennska mbl afhjúpar sig við það að ekki er getið upphæðar "Icesave-skuldar" sem Anne Sibert miðar við í sínu dæmi þar sem hún fær út 14% sem hlutfall af landsframleiðslu. Sú tala kemur reyndar ekki beint fram í greininni á VoxEU, sem er greinarhöfundi ekki fagur vitnisburður, en fréttamaður hefði þá átt að grennslast nánar fyrir um það hjá höfundinum).

Ég fagna upplýstri umræðu, en Sibert ver framtak sitt með þeim rökum. Hins vegar er ekki heppilegt að koma fram með yfirlýsingar sem setja mikilvæga þætti máls ekki í sanngjarnt samhengi. Slíkt er ekki allur sannleikurinn og getur villt um fyrir þeim sem grípa slíkt á lofti hrátt. Í þessu tilfelli getur slík yfirsjón skaðað málstað Íslendinga í hugum erlendra aðila og almennings þar. 
Sibert tekur ekki fram í grein sinni í VoxEU hvert hlutfall "Icesave-skuldar" yrði af útflutningstekjum og er það til þess fallið að gefa ranga mynd af hversu íþyngjandi fyrir íslenskan efnahag sú byrði yrði, sbr. greinin öll sem útdráttur er birtur af nánast á forsíðu vefritsins).
Í dæmi sínu í greininni sundurliðar Sibert útreikninga sína ekki nægilega vel. Hún gefur sér þá forsendu að 75%-90% endurheimtist af eignum gamla Landsbankans sem gengju til greiðslu á "Icesave-skuldinni" þannig að "aðeins" um 630þús kr (3.600 evrur) með 5,55% vöxtum að núvirði lendi á hverjum íbúa Íslands, þ.e. rúmlega 200 milljarðar kr alls samkvæmt því. Ef Sibert hefði gefið sér lægra endurheimtuhlutfall á Landsbankaeignunum hefði hún fengið út tilsvarandi þyngri byrði á hvern íbúa. Hún færir ekki rök fyrir því hvort og þá hvers vegna 75%-90% endurheimtuhlutfall geti talist líkleg niðurstaða. Í því sambandi vísar hún aðeins í "recent estimates"! Hvaða mat? Erlendir lesendur virðast einfaldlega eiga að taka þessar tölur góðar og gildar umyrðalaust!

Sibert rekur hins vegar, reyndar afar stuttlega, að ágreiningur ríki meðal ESB-landa um regluverkið kringum tilskipun 94/19/EC og hverjum beri að borga innistæðueigendum í tilfelli bankakerfishruns eins og þess er varð á Íslandi. Hún dregur síðan fram þá staðhæfingu að "Iceland has expressed a willingness to repay if the terms are reasonable" og bendir í því sambandi á orð forsætisráðherrans þar um. Hún sleppir hér að minnast á óvilja þjóðarinnar til þess arna og að 60.000 Íslendingar hafi í undirskriftasöfnun hvatt forsetann til að hafna lögum sem þingið samþykkti naumlega um ríkisábyrgð á "Icesave-skuldinni".

Það, að Sibert skuli undrast hörð viðbrögð við grein sinni, sýnir að hún gerir sér ekki grein fyrir þessari hlið málsins í þeirri stöðu sem það stendur í núna. Eða, að hún riti og birti greinar erlendis um þessi málefni Íslands þrátt fyrir það. Þá er ekki von á góðu, þ.e. fyrir Ísland. (Anne Sibert er prófessor við háskóla í London, en situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sem fulltrúi Samfylkingarinnar).


mbl.is Sibert undrast hörð viðbrögð Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband