Fleiri leiðir en sýndarleiðir?

Hvað táknar þessi yfirlýsing seðlabankastjóra raunverulega, um að ekki þurfi að taka öll umrædd lán?
Að hann sé hér að hugsa svolítið út fyrir kassann sem Seðlabankinn formaði svör sín í fyrir forsætisráðherrann og þjóðinni var hótað með í gær?
Að hugmyndafræðin kringum risavaxinn lánaðan og vaxtasligaðan gjaldeyrisvarasjóð sé e.t.v. ekki það eina sem viðeigandi sé að halda á lofti til að bregðast við skuldavandanum?
Að hægt sé að bregðast við yfirvofandi ógn um veikingu krónunnar með öðrum hætti en að veifa láns-gjaldeyrissjóði framan í umheiminn?
Að hægt sé að stuðla að vaxandi tiltrú umheimsins á efnahagskerfi Íslands með öðrum hætti en að leika blekkingarleik með sýndar-gjaldeyrisvarasjóð? Til dæmis með því að leggja áherslu á styrkleika efnahagskerfisins, styrkingu framleiðslukerfis landsins og aðrar aðgerðir til að bæta enn batnandi viðskiptajöfnuð?

Þeir talsmenn ríkisstjórnarinnar sem leggja áherslu á að byggja þurfi upp "stóran" gjaldeyrisvarasjóð, í bili með vaxtaberandi lánum frá AGS, hafa haldið því fram að gjaldeyrisvarasjóðinn eigi aðeins að sýna en ekki nota í reynd til uppkaupa á krónum til að verja gengið, þ.e. þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt að einhverju leyti.
Þá má spyrja: Hvað á að gera ef umfram-eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri myndast strax á fyrsta degi afnáms gjaldeyrishaftanna, eða jafnvel strax á fyrstu mínútunum?
Hætta við tilraunina án þess að selja neitt umfram það sem inn kynni að koma?;
Eða selja nokkrum aðilum sem verða svo heppnir að vera nógu framarlega í röðinni og loka svo? Ganga þannig raunverulega á gjaldeyrisvarasjóðinn?;
Eða leyfa genginu að falla eins og verkast vill við það að ganga ekki á sjóðinn?

Undir hvaða forsendum halda menn að gengið styrkist þvert á móti?
Við að hafa sýndar-gjaldeyrisvarasjóð sem í raun yrði ekki notaður þegar á reyndi? En, þá sér umheimurinn náttúrulega strax að þetta er ekki raunverulegur gjaldeyrisvarasjóður og gjaldeyrishöftin í reynd til staðar áfram, þar eð gjaldeyrir væri "uppseldur" þarna strax í upphafi!

Þetta hugmyndalíkan um virkni gjaldeyrisvarasjóðs til að styðja við gengið held ég að virki ekki í samræmi við kenningarnar í efnahagsástandinu á Íslandi hér og nú. Þetta er svo augljós blekkingarleikur sem umheimurinn áttar sig strax á, ef gjaldeyrisvarasjóðurinn verður ekki notaður samstundis til að kaupa krónur samkvæmt eftirspurninni í upphafi.
En, það er einmitt það sem talsmenn gjaldeyrissjóðsleiðar AGS fullyrða að yrði ekki gert með sjóðinn! Ef staðið yrði við þá fullyrðingu þegar á reyndi gengur dæmið samkvæmt kenningarlíkaninu ekki upp, þar sem loka yrði fyrir gjaldeyrissöluna strax og umframeftirspurn myndast. - Þetta gerði Seðlabankinn meira að segja tilraun með haustið 2008 þegar opnað var fyrir sölu á gjaldeyri á föstu gengi. Þeirri tilraun var fljótlega hætt þegar greinilegt var í hvað stefndi með hraðminnkandi gjaldeyrissjóð, eins og vita mátti. (Það er önnur saga hverjum heppnaðist að fá gjaldeyri á þessu tímabili á "gjaf"verði).

Þessar pælingar leiða til þeirrar ályktunar að treysta verður á annað heldur en sýndar-gjaldeyrisvarasjóð til að styrkja gengið.
Það verður best gert með því að styrkja framleiðslukerfi landsins og þar með auka atvinnu á nýjan leik og bæta batnandi viðskiptajöfnuð enn meir. Þar með er umheiminum sýnt með áþreifanlegum hætti að íslenskt efnahagskerfi er á setjandi og hægt að treysta til að eiga viðskipti við og veita lánafyrirgreiðslu í því sambandi. Einnig að það bjóði upp á gagnkvæman ávinning, þótt á íslenskum forsendum sé.
Í leiðinni er komist hjá miklum óþarfa vaxtakostnaði vegna sýndargjaldeyris í gjaldeyrisvarasjóði sem "aldrei verður notaður".

Hitt er svo annað mál, en þessu tengt, að meðan gjaldeyrishöft eru við lýði þarf ekki að halda vöxtum háum "til að komast hjá frekari veikingu gengisins", eins og klisjan hljóðar því til varnar. Þeir sem vilja koma krónueign sinni í gjaldeyri ef þeim byðist það myndu þá láta sig litlu varða háa vexti; þeir vilja út úr landi með eign sína meðan þeir óttast að íslenska efnahagskerfið nái sér ekki nógu fljótt á strik aftur. Hinir háu vextir gagnast því fyrst og fremst bönkunum og öðrum fjármagnseigendum sem eiga ríflega til hnífs og skeiðar, en hinir sem eru neyddir til að herða sultarólina, sligaðir lántakendur, borga fyrir með háum vaxtagreiðslum og verðbótum í ofanálag! Það er nú réttlætið á Íslandi í dag! Um það hef ég skrifað í fyrri pistlum mínum.

Það ber allt að sama brunni: Styrking á íslenska efnahagslífnu á að vera forgangsatriði. Á því hvíla forsendur fyrir styrkingu á gengi krónunnar og lækkun vaxta. Þetta er reyndar gagnverkandi þar sem vextir eru í sjálfu sér tæki til að örva framkvæmdagleði í efnahagslífinu, þ.e. vaxtalækkanir. Undanfarið hefur verið farin þveröfug leið!

Um aðra valkosti, plan "B" eða C: 

Það er bæði ergilegt og forkastanlegt að ríkisstjórnin, og stjórnarandstöðuflokkarnir ekki síður, skuli ekki hafa notað tímann í sumar til að greina aðra valkosti fyrir Ísland, þ.e. aðra en þá að hengja sig í ESB og ekkert annað ella.
Hvers vegna er ekki búið að nýta tímann til að skipuleggja og undirbúa aðgerðir af öðrum toga en að hanga á spýtu ESB og AGS? Þá á ég við að ræða við aðrar viðskiptablokkir í heiminum, t.d. í Asíu og Ameríkunum báðum. Það eru fleiri aðilar en ESB-þjóðirnar sem hefðu áhuga á að eiga gagnkvæm viðskipti við Íslendinga og taka þátt í uppbyggingu hérlendis af ýmsum toga á grundvelli þess sem við höfum að bjóða og höfum (ennþá) full yfirráð yfir. Það hefði komið sér vel að hafa slíkt plan "B" eða C til reiðu á takteinum núna til að svara kúgandi "tilboðum" ESB-þjóðanna varðandi Icesave-málið! 
Skilgreining á og vinna á forsendum slíkra valkosta er dæmi um það sem myndi leiða til styrkingar á íslensku efnahagslífi og þar með gengi krónunnar.
En, þarf allt öðruvísi stjórn en þær sem ríkt hafa hingað til til að koma auga á skynsemina í slíkum valkostum? Eða, snýst þetta bara um fólk í ríkisstjórninni hverju sinni, skynsemi þess réttsýni og vilja?

Meira á þessum nótum í öðrum pistli um fleiri valkosti.


mbl.is Þarf ekki að taka öll lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband