Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

"Alþjóðleg Samtök RaforkuFramleiðenda" ala OPEC

Það er löngu kominn tími til að þjóðir sem framleiða og selja raforku í stórum stíl til orkufreks iðnaðar stofni með sér alþjóðleg samtök til að leitast við með því að koma í veg fyrir óréttlát og stórskaðleg undirboð á raforkuverði milli landa og það arðrán á eigendum viðkomandi orkulinda, þ.e. viðkomandi þjóða, sem af undirboðunum hlýst.

Ísland ætti vel heima í slíkum samtökum.

Með öðrum orðum væri markmið slíkra samtaka að hafa stjórn á "heimsverði" raforku sem í boði er til alþjóðlegra stórfyrirtækja sem reisa vilja orkufrek fyrirtæki eins og álver og hverskyns málmbræðslur. Einnig vegna útflutnings á hreinni raforku um rafstrengi.

Þetta væru hliðstæð samtök og OPEC (Organization of the Petroleum Exporting Countries), Samtök olíuútflutningslanda, sbr. lýsing á hlutverki þeirra:

"OPEC's mission is to coordinate and unify the petroleum policies of Member Countries and ensure the stabilization of oil markets in order to secure an efficient, economic and regular supply of petroleum to consumers, a steady income to producers and a fair return on capital to those investing in the petroleum industry." (Heimild vefsíðan http://www.opec.org/home/ ).

Það er vægast sagt afar svekkjandi fyrir almenning á Íslandi og í öðrum löndum raforkuútflytjenda að verða af ómældum tekjum vegna of lágs raforkuverðs til orkufreks iðnaðar alþjóðafyrirtækja sökum hræðslu við undirboð annarra landa á því sviði.
Með hækkandi verði á olíu í framtíðinni, eins og er til umræðu í skýrslu Bransons og félaga, verður þetta meira aðkallandi og um leið á sinn hátt auðveldara þar sem þrýstingur í eftirspurn eftir öðrum orkugjöfum vex. Það rímar við grein mína um Lífslindir og lífsstíl.

Eins og er og verið hefur hafa alþjóðleg fyrirtæki í orkufrekum iðnaði verið í stöðu til að etja orkuseljendum upp á móti hverjum öðrum með því að hóta því að staðsetja nýjar iðnaðarstarfsstöðvar "annars staðar".
Neyðarbrauð landanna eins og Íslands hefur verið að selja raforku sína á miklu lægra verði en ella væri og veita umfangsmiklar skattalegar ívilnanir í kaupbæti.
Þar að auki er hinum alþjóðlegu fyrirtækjum auðveldur leikur að haga kostnaði og "hagnaði" á hverjum stað eftir eigin hentisemi þannig að hagnaður og þar með skattastofn fyrirtækis þess í framleiðslulandinu verði minni en vera ber og hagnaðurinn síðan tekinn út í svokölluðum "skattaparadísum".
Þar með verður framleiðslulandið, eins og Ísland, af gríðarlega miklum tekjum.
Og, yfirvöld horfa "hjálparvana" og aðgerðalaus á.

Í bók Evu Joly Hversdagshetjur, sem út kom fyrir jólin 2009, eru margar frásagnir um hvernig alþjóðafyrirtæki nýta sér skattaparadísir til að skjóta hagnaði sínum undan "óþarfa" skattlagningu. Sem dæmi má nefna frásögn John Christiansen frá Jersey (s. 12-28) um hlutverk skattaparadísanna á Jersey og Guernsey í fjármagnsflutningum alþjóðlegra fyrirtækja. Það er lestur sem "fær hárin til að rísa".


mbl.is Vara við olíuskorti fyrir 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boycott og fjögurhundruðþúsundkallar

Erlendir lánardrottnar sem urðu eigendur Arion banka átta sig ef til vill ekki á því að Íslendingar hafa styrk og burði til að "boycotta" þau fyrirtæki sem þeim hugnast ekki þannig að það geri út af við þau.

Þessu ættu þeir nú þegar átta sig á, sem og íslenskir eigendur bankanna, er þeir ráðstafa fyrirtækjum sem þeir sitja uppi með eftir bankahrunið svo að ekki fari enn verr fyrir þeim.

Ef fyrirtækjum er ráðstafað til "hruns"-eigenda sem líklegir eru til að fá þungar "ákúrur" í væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og eins og nú virðist vera að koma í ljós, og þannig að almenningi yrði gróflega misboðið þá mun almenningur sé hann samkvæmur sjálfum sér sniðganga viðkomandi fyrirtæki meðan einhver annar valkostur býðst á landinu á viðkomandi vöru- og þjónustusviði. Þar með talið þann banka sem á þátt í slíku. Einn fjögurhundruðþúsundkall og tugþúsundir til viðbótar gera stóra innlánsupphæð þegar saman safnast!

Þá munu og rökréttar raddir m.a. raunverulegs samvinnurekstrar almennings fá byr undir báða vængi, eins og heyra má reyndar nú þegar. Hliðstætt hefur gerst áður í verslunarsögu Íslands. Mun þá einhver segja: "Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!"


mbl.is Ákvörðun Arion banka misbýður samfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirsást mikilvægasta atriðið? Lausafjárstaðan!

Þetta virðist hafa verið einhvers konar bankavírus sem hefur grasserað, og sem lýsti sér í blindu gagnvart mikilvægasta atriði í rekstri banka, lausafjárstöðu þeirra;
Ekki bara í fjármálaeftirlitinu á Íslandi, heldur líka því hollenska og þá líka því breska, þó breski prófessorinn Robert Wade nefni það ekki af tillitssemi við landa sína. Það skín þó í gegnum kurteislegt rósamál hans og lætur hann öðrum um að draga þá ályktun.
mbl.is Vanræksla hollenska seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voldugan sáttasemjara eins og Kanada í málið

Ég fagna þessari frétt, enda ritaði ég pistil um að fá sáttasemjara í málið í ágúst s.l. þegar Icesave-málið var enn að klúðrast í þinginu og menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð og ríkisstjórnin virtist veigra sér við að ræða við Breta og Hollendinga ein sér - og virðist það reyndar enn þar sem lítið hefur verið um frumkvæði að halda málastöðu Íslands á lofti á þeim bæ!
Þetta ítrekaði ég í viðbótarpistli 10.jan. s.l.

Utanaðkomandi sáttasemjari er orðinn nauðsynlegur nú í ljósi þess að Evrópulöndin eru smám saman að viðurkenna það opinberlega að þetta snertir þau öll.
Fleiri lönd eru þar samsek, ekki síst Bretland og Holland.
Líka þau lönd (t.d. Þýskaland) þar sem bankar gátu að því er virðist óáreittir lánað einkabönkum í landi eins og Íslandi upphæðir á við margfalda landsframleiðslu landsins.
Þessir erlendu bankar máttu vita að íslensku bankarnir gátu aldrei endurgreitt þessi lán snögglega ef skyndilega lokaðist fyrir lánalínur þeirra eins og gerðist.
Spyrja má ennfremur í því sambandi hvort túlka megi þessi botnlausu lán þeirra sem atlögu að efnahagskerfi Íslands og hvort þeir (ásamt bankaráðum og stjórnendum íslensku einkabankanna) séu hreinlega skaðabótaskyldir gagnvart íslenska ríkinu sem situr uppi með skaðann af glæfralegum fjármálagjörningum þeirra!
Í öðrum pistli 28.1.2010 set ég spurningamerki við heiðarleika matsfyrirtækja eins og S&P þegar þau birta dóma sína um greiðsluhæfi landa.
Undir þessi sjónarmið tekur fréttaskýrandinn Max Keiser í viðtali í Silfri Egils í dag.

Ég tel að heppilegt sé og líklegra til hlutleysis en ella að fá annan aðila en Evrópuríki til að miðla málum, t.d. einmitt Kanada.

Ríkisstjórnin sér ekki á spil sín fyrir ESB-menguðu andrúmsloftinu og blekkingareyk breskra og hollenskra stjórnvalda ásamt snarvitlausum bresk-hollenskum gleraugum sem ríkisstjórnin hefur tekið við möglunarlaust af Bretlandi og Hollandi og meðvirkandi löndum. Með þeim gleraugum hefur ríkisstjórnin lesið allt öfugt í þessu máli eins og af misvísandi kompás. Nú þarf hún að fleygja þessum gleraugum og tileinka sér réttvísandi baráttuanda fyrir hagsmunum Íslendinga og segja nei við kúgun sem leiðir efnahag almennings til glötunar.


mbl.is Kanadískur sáttasemjari?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar eru yfirleitt viðkvæmir

Flestir bankar eru eins og glerhús á ósýnilegum fótum. Þeir eru afar háðir væntingum lánardrottna sinna til greiðslugetu þeirra hverju sinni.
Bresti tiltrú lánardrottnanna loka þeir "á einu augabragði" fyrir lánalínur sínar til viðkomandi banka sem veldur keðjuverkun og bankinn fer í þrot ef Seðlabanki landsins eða ríkið vill ekki eða getur ekki hlaupið undir bagga. Þetta kannast almenningur á Íslandi við eftir bankahrunið í október 2008.

Flestir bankar eru alveg háðir væntingum og tiltrú lánardrottna sinna, þ.e. annarra banka og fjármálastofnana, vegna þess að innlán frá viðskiptavinum þeirra (almenningi og fyrirtækjum) eru að mestu leyti bundin í útlánum til annarra aðila. Ekki er nægilega stór varasjóður fyrirliggjandi af handbæru fé og ekki hagar þannig til að Seðlabanki viðkomandi lands geti í tæka tíð lánað fé í innlendri mynt og enn síður í gjaldeyri t.d. ef upp kemur glundroði í fjármálalífi landsins og almenningur missir trú á bönkunum almennt og gerir áhlaup á bankana til að taka út innistæður sínar þar samtímis, eða ef bankar fá ekki áframhaldandi lánafyrirgreiðslu hjá sínum lánardrottnum af einhverjum ástæðum þegar standa þarf skil á háum afborgunum sem þeir eiga ekki peninga og gjaldeyri fyrir; sbr. staða íslensku einkabankanna haustið 2008 sem leiddi til "skyndilegs" gjaldþrots þeirra almenningi að óvörum.

Tiltrú á tiltekinn banka til lengri tíma litið fer eftir því hversu heilbrigða útlánastefnu hann stundar og hefur stundað hverju sinni. Ef hann heldur sig við varkára stefnu og lánar til traustra fyrirtækja til raunverulegra og arðsamra fjárfestinga og framkvæmda er hann að öðru jöfnu í góðum málum, sbr. ónefndur sparisjóður á Norð-Austurlandi hérlendis sem stóð keikur þegar óvarkárir bankar hrundu hver á fætur öðrum vegna brostinnar lánafyrirgreiðslu. Ef banki ástundar ekki heilbrigða útlánastefnu til lengri tíma litið er hann feigur. Fjármálaeftirlit landsins á að fylgjast með að stefna bankanna sé heilbrigð og a.m.k. gera viðvart ef stefnir í óefni. Að öðrum kosti er verið að blekkja almenning og stjórnvöld.

Ef í ljós koma upplýsingar um að banki eða bankar almennt í tilteknu landi hafa ekki stundað heilbrigða útlána- og fjárfestingastefnu er ekki von á góðu. S&P virðist hafa fengið slæmar fréttir um stöðu mála í Bretlandi eða getur ekki lengur látið hjá líða að bregðast við vitneskju um hana sem þeir hafa væntanlega gert sér grein fyrir um skeið.

Hitt er annað, að matsfyrirtæki eins og S&P, sem mark er tekið á, geta í sjálfu sér verið mótandi fyrir væntingar til fjármálakerfis lands. Það er e.t.v. í lagi ef þau byggja á réttum upplýsingum og spá eða meta rétt stöðu mála. Það er hins vegar hrikalegt ef þau setja fram rangar eða óraunhæfar matsgerðir.
Það er til dæmis opin spurning að hve miklu leyti matsfyrirtækin mögnuðu upp bjartsýnar væntingar til íslensku einkabankanna í uppsveiflu þeirra sem gerðu skellinn þeim mun afdrifaríkari til hins verra þá loks að hann kom í bláköldum raunveruleikanum og almenningi í góðri trú í opna skjöldu.


mbl.is Breska bankakerfið ekki lengur það stöðugasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er rökstuðningurinn?

Á hvaða rökum hvíla þessar fullyrðingar?

Hverjir yrðu gjaldþrota? Hvaða hópur útgerðarmanna?

Af hverju yrðu þeir gjaldþrota?

Af hverju eru þeir ekki þegar gjaldþrota, eða eru þeir kannske þegar gjaldþrota í raun?

Hvers vegna skuldar sjávarútvegurinn um 550 milljarða króna?

Hvernig stendur á því að viðkomandi fyrirtæki gátu skuldsett sig svo óheyrilega mikið?


mbl.is Vara við hugmyndum um fyrningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SamkeppnisÓhæfni falin með sameiginlegri mynt

Þeir sem mælt hafa með Evrunni hér og nú hafa yfirleitt, margir hverjir, aðeins litið á aðra hliðina á málinu, þ.e. kostina. Einnig hverjir kostirnir HEFÐU verið fyrir Ísland EF það hefði þegar verið komið með hana fyrir hrun.

Þegar lönd taka upp sameiginlega mynt eru þau öðrum þræði að viðurkenna leti sína og hræðslu við að standa sig ekki í samkeppninni við nágrannaþjóðir sínar í alþjóðaviðskiptum.
Ástæðan er sú að eitt fljótvirkasta tækið til að hafa áhrif á samkeppni lands er að breyta genginu á einkamynt landsins í samræmi við stöðu efnahagsmála í landinu og samkeppnisstöðu á erlendum mörkuðum.

Það er t.d. hægt að fella gengið fyrirvaralaust, en um leið eru vörur og þjónusta landsins orðin þeim mun ódýrari samanborið við vörur annarra landa sem keppa á sömu mörkuðum.
Ein forsendan fyrir því að slík aðgerð gagnist landinu þjóðhagslega séð er að framleiðslukerfi landsins geti afkastað meiru og afgreitt meira magn af vörum en fyrir gengisfellingu.
Önnur forsenda er sú að útflytjendur hækki ekki vörur sínar samsvarandi í innlendri mynt og haldi verðinu á erlendu mörkuðunum óbreyttu og hirði þannig ágóðann af gengisfellingunni sjálfir í innlendri mynt í stað þess að lækka erlenda verðið eitthvað í reynd vegna svigrúmsins sem skapast eins og til er ætlast af stjórnvöldum.

Lönd sem taka upp sameiginlega mynt, eins og evru-löndin, eru þar með að komast hjá því að löndin í hópnum geti beitt þessu tæki innbyrðis. Þetta er því samkeppnishamlandi og jafnframt gert til að halda hærra verði á afurðum landsins bæði á heimamörkuðum og viðkomandi erlendu mörkuðum. Þeir sem borga eru neytendur. Þeir sem taka við þeirri borgun eru framleiðendur og atvinnurekendur í landinu og svæðinu öllu, en reyndar launafólk og skattayfirvöld að einhverju (en yfirleitt minna) leyti.
Löndin sem taka þátt í mynthópnum gera það ekki síst vegna þess að þau telja sig myndu fara halloka í samkeppninni ef hvert land væri með sína (gömlu) mynt; Að minnsta kosti bera þá rýrari hlut úr býtum,
Jafnframt taka aðgerðir sem lúta að stjórnun á hinni sameiginlegu mynt eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst mið af hagsmunum stærstu eða efnahagslega sterkustu landanna í hópnum hverju sinni þannig að þau lönd sem minni eru og veikari borga fyrir þann hag þeirra.

Þær þjóðir sem sækjast eftir aðild að hópi landa með sameiginlega mynt halda að þær geti þar með tryggt sér skemmri leið að velsæld en ella. Þær fá hins vegar ekki aðgang að hópnum nema það sé þeim löndum í hag sem fyrir eru. Það er engin góðgerðarstarfsemi sem ræður þar að  baki.

Einn stærsti ókosturinn fyrir fámennar þjóðir í evru-hópnum (eða þeirra sem sækja um inngöngu) í samanburði við stærstu þjóðirnar er að þá missa þær þann sveigjanleika til viðbragða sem eigin mynt býr yfir þegar þörf er á t.d. hraðri aðlögun að ríkjandi efnahagslegum aðstæðum og alþjóðlegri samkeppnisstöðu.
Þessu atriði hafa Írar, Spánverjar og fleiri þjóðir kvartað sárlega undan eins og sést hefur í fréttum undanfarin misseri eftir að fjármagnskreppan gerði vart við sig. Helsta ráðið sem þær geta þá gripið til er að lækka laun landsmanna og skera niður m.a. í opinberum kostnaði eins og heilbrigðiskerfinu til að lækka tilkostnað og þar með verðið á framleiðsluvöru sinni á erlendum mörkuðum til að bæta samkeppnisstöðu sína. Slíkar aðgerðir eru lítt fallnar til vinsælda meðal almennings í þeim löndum.

Það er þetta atriði sem veldur ótta framkvæmdastjórn ESB, sem rætt er um í viðhengdri frétt. Myntsambandið rofnar af sjálfu sér þegar ástandið er orðið nógu alvarlegt í löndunum sem farið hafa halloka í mynthópnum og sem eru ekki nógu efnahagslega sterk til að standa af sér þá kreppu sem hefur verið að gera sérstaklega þeim lífið leitt undanfarið vegna ósveigjanlegrar sameiginlegrar myntar, evrunnar. Þær munu eins fljótt og þær megna tæknilega séð draga sig úr hópnum og taka upp eigin mynt á nýjum grunni. Það mun verða gert á grundvelli þjóðarsáttar í viðkomandi landi um gengi á hinni nýju mynt gagnvart evrunni.

Rauði þráðurinn í dæminu öllu og lykillinn að velfarnaði undir öllum kringumstæðum í hverju landi fyrir sig er að nauðsynlegt er að efla framleiðslukerfi landsins og leitast við að gera framleiðsluna ódýrari á erlendum mörkuðum en vörur samkeppnislandanna. Þeim löndum sem tekst það þurfa ekki að fela neina leti né ótta við að fara halloka í samkeppninni með því að hugsa um að taka upp erlenda mynt í samkeppnishamlandi tilgangi.
Sterkur efnahagur sem er í jafnvægi og haldið er í jafnvægi af stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum landsins, en ekki leyft að splundrast eins og gerðist með árás einkabankanna hérlendis á efnahag Íslands fram að bankahruninu hér, hann er grundvöllur að heilbrigðri samkeppnisstöðu og samkeppnishæfni landsins gagnvart erlendum mörkuðum. Það er grunnurinn að sterkri eigin mynt landsins. Þar sem þrýstingur til útflutnings er meiri en til innflutnings er gjaldmiðillinn sterkur.

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott! Eftir efnahagshrunið hérlendis hafa augu landsmanna opnast umtalsvert fyrir nauðsyn þess að efla innlenda framleiðslu til að keppa við innfluttar vörur og til að selja vörur og þjónustu erlendis eða til útlendinga til að skapa gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Það er algjör umsnúningur í viðhorfum fólks og er það vel.

Þar erum við að taka t.d. frændur okkar og vini Dani til fyrirmyndar. Þetta hafa þeir lagt ofuráherslu á í sínu efnahagslífi. Þeir hafa neyðst til þess ekki síst vegna þess að þeir eiga nánast engar náttúruauðlindir heima fyrir, varla möl í steypu! Þeir hafa gert sér mat úr aðföngum erlendis frá og selt það til baka aftur með góðum virðisauka í álag.
Við erum margfalt betur sett en Danir að því leyti að við eigum óhemjumiklar náttúruauðlindir - enn! Við höfum bara ekki nýtt þær sem skyldi. Við höfum látið orku frá okkur á undirverði í stað þess að gera okkur meiri mat úr henni sem grunn innlendrar framleiðslu hér heima fyrir og á vistvænan hátt.

Þennan styrk megum við ekki drepa í dróma fyrir erlend arðránsríki sem reyna leynt og ljóst að gera okkur að öðru Haíti í efnahagslegri vesæld, sbr. umfjöllun um þau mál í Morgunblaðinu í dag og undanfarna daga. Þarf frekari vitna við um það auk þess sem réttsýnir og sannleikselskandi menn og konur hafa tjáð sig um þann samanburð í fjölmiðlum og bloggi?


mbl.is Óttast að evran hrynji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnefann í borðið!

Þarna örlar á réttum málatilbúnaði hjá forsætisráðherranum, um að götóttu regluverki ESB sé um að kenna um Icesave-ófarirnar.

Ganga þarf alla leið: Hnefann í borðið og yfirlýsingu um að ESB-löndin BERI ábyrgð ekki síður en Ísland og miklu meiri.

Ísland hefur staðið og mun standa við sínar skuldbindingar.
Þær skuldbindingar innifela ekki að Íslandi einu beri að greiða alla upphæðina sem um er deilt í Icesave-málinu.

Það kann að vera að Jóhanna skilji reiði almennings í Hollandi og Bretlandi, en hún virðist ekki skilja reiði almennings á Íslandi.


mbl.is Jóhanna skilur reiði almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamast með röng vopn

Einn af bloggurum um þessa frétt ritar meðal annars:

"..og íslensk stjórnvöld vita ekki hvað þau eiga að gera til að þoka málinu af stað á ný.."

Það er málið! Það er morgunljóst hvað ríkisstjórninni ber að gera en hún þverskallast við að gera það, skilur það ekki, eða vill ekki skilja það. Hún berst ekki á réttum vígvelli og í stað rökréttra vopna sem bíta notar hún uppgjafarsöng og afsakandi bros þá sjaldan að hún opnar munninn við útlendinga.

Í þessari frétt er sagt frá því að utanríkis- og fjármálaráðherrar Íslands hafi verið að ræða við starfsbræður sína erlendis. Stóra spurningin er um hvað þeir eru að ræða, hvort það sé sami undirlægju- og uppgjafarsöngurinn eða hvort þeir séu að útskýra forsendur Íslands um að Íslendingar séu ekki hinir einu sem greiða eiga Icesave-kröfur, heldur ber götótt regluverk ESB þar sök.
Margar ábendingar hafa komið um það sem ríkisstjórn Íslands ber að gera til að reynast starfi sínu og ábyrgð vaxin og bendi ég á eina grundvallarnálgun í pistli mínum Win-Win-Win fyrir Ísland, Holland og Bretland.
Þetta þarf ríkisstjórnin að vinda sér í að gera og hætta útburðarvæli sínu Bretlandi og Hollandi til dýrðar "yfir kaffibolla" heima fyrir, eins og það heitir í hádegisfréttunum af henni í dag 14. jan. 2010.


mbl.is Stopp í Icesave-málinu þessa dagana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullandi meðvirkni með feluleik stórþjóðanna

Samkvæmt þessari frétt virðast sum Norðurlöndin ásamt fleiri óuplýstum aðilum vera í bullandi meðvirkni með stórveldunum og virðast ekki hafa kynnt sér um hvað "þrjóska" sumra Íslendinga snýst í Icesave-málinu.

Þessir aðilar virðast vaða í þeim villta misskilningi að Íslandi beri að borga það sem ríkisstjórnir Breta og Hollendinga hafa sett upp einhliða í Icesave-málinu með hótunar-byssuhlaup sín á höfðum skjálfandi "viðsemjendanna",  íslensku ríkisstjórninni.

Þessir aðilar virðast ekki skilja að vafi leikur á um hverja skyldur Íslendinga og Breta og Hollendinga sjálfra eru raunverulega í þessu máli í ljósi þágildandi lagaákvæða um innistæðutryggingasjóði í löndum í ESB og EES er Icesave-kerfið var sett á laggirnar í Bretlandi og Hollandi fyir bankahrun.
Í reynd er enginn vafi þar á; Ísland uppfyllti skyldur sínar í því tilliti samkvæmt reglunum. Bretland og Holland þverskallast við að viðurkenna það. Litlu þjóðirnar nágrannar okkar og önnur lönd í ESB og EES sitja bara rjóð hjá og segja já og amen við stóru viðskiptaþjóðir sínar, Bretland og Holland, í meðvirkni sinni.

Þessir aðilar virðast ennfremur halda að Íslendingar ætli sér heimta lán frá nágrannaþjóðum með það fyrir augum að borga þau ekki til baka. Hvílíkir fordómar og sleggjudómar og glópska! Svona viðhorf sæmir ekki siðuðum þjóðum, sbr. þetta sem fram kemur í þessari frétt. Íslendingar geta ekki setið undir svona rakalausum, villandi og mannorðsmeiðandi aðdróttunum þegjandi og hljóðalausir á erlendum vettvangi.

Þetta er enn einn vitnisburðurinn um að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í að halda málstað Íslands á lofti og koma umræddum þjóðum í réttan skilning um málavöxtu hvort sem þær vilja eða vilja ekki. Þeim á ekki að lýðast að hylma yfir sannleikann í þessu máli og væna svo allan íslenskan almenning um glæpaeðli og glæpsamlega tilburði á erlendum lánamörkuðum núna.
(Svo virðist sem sumir Danir og Bretar nýti sér báglegt ástand Íslands núna til að sparka í það með rætnum hætti út af fyrri ágreiningsefnum þegar Ísland fór með sigur af hólmi yfir þeim, af öðrum fréttum í dag að dæma, sbr. þorskastríðin við Breta og sambandsslitin við Danmörku. Lúalegt athæfi atarna eða dæmi um afar kaldan húmor við óviðeigandi aðstæður).

Eftir að forseti Íslands vakti ríkisstjórnina harkalega af Þyrnirósarsvefni sínum í heimagarði með því að synja samþykki á lögum um meðvirkandi kúgunarskilyrði Bretlands og Hollands gegn Íslandi hefur hún núna möguleika á að reka af sér slyðruorðið og breyta hugarfari sínu í meðferð hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi. Það má ekki seinna vera.
Núna þarf hún að hrista af sér þrælsóttann og slenið og sækja fram af hugrekki og málafestu og koma umheiminum í skilning um um hvað málið snýst: Réttlæti!

Eða snýst samheldni þjóðanna í ESB um að iðka óréttlæti gagnvart þjóðum utan bandalagsins og svína á hagsmunum annarra til að redda eigin skinni? Ég vil ekki trúa því fyrr en yfir lýkur. Auðvitað er meðal almennings þar mikið af heiðarlegu venjulegu fólki eins og á Íslandi. Það eru ESB-kjötkatlastjórarnir og slíkir sem við eigum í höggi við, ekki síst flokkslegir hagsmunir og pólitískir sérhagsmunir og þau öfl sem þeir þjóna.

Mér er ekki grunlaust um að það séu einmitt þessi atriði sem eru meginástæðan fyrir hörku, óbilgirni og hroka Breta og Hollendinga í garð Íslendinga, þar sem þau vilja ekki að þessi mál komi til umræðu í dagsljósi. Þess vegna reyna þeir að beina athyglinni í aðra átt, sem sé að væna íslensku þjóðina um óreiðumennsku.

Í því sambandi er afar upplýsandi og hrollvekjandi að lesa skýrslu Evu Joly í bók hennar Hversdagshetjur þar sem hún lýsir hvernig Bretland gætir viðskiptahagsmuna sinna og hylmir yfir næsta ólöglega viðskiptahætti þar í landi t.d. á sviði vopnaframleiðslu og á fjármálasviði.
Joly bendir á að sérstaklega eitt atriði skipti Bretland höfuðmáli: Að varðveita orðspor sitt. Ef efnahagslegt stórveldi fái það orðspor á sig að þar ríki spilling þá steypir það efnahagslífi þess í voða í alþjóðlegum viðskiptum. Ef Bretland fái þann stimpil á sig, nánar tiltekið, að "lítið eftirlit sé með fyrirtækjum" þar, þá "hittir það efnahagskerfið í hjartastað", segir Joly (s. 47-48).

Það skyldi þó ekki vera að þetta sé hin raunverulega ástæða hörku Bretlands gegn Íslandi í Icesave-málinu, þ.e. að láta líta svo út sem öll sökin liggi hjá Íslandi en ekki hjá Bretlandi! Holland væri þá undir sömu sök selt og meðvirkar í því máli af sömu ástæðu til að verja eigið efnahagskerfi. Afleiðingin er sú að Íslandi, efnahagskerfi þess og lífsafkomu íslenskra þegna, er fórnað til að bjarga stórþjóðunum!

Þetta getum við ekki látið viðgangast. Eva Joly og hennar líkar eru að berjast af heiðarleika og réttsýni og hugrekki gegn svona kúgun og einnig Serious Fraud Office (SFO) í Bretlandi. Tony Blair og ríkisstjórn hans stöðvaði hins vegar rannsókn hennar þegar hún var byrjuð að afhjúpa spillinguna í hergagnaviðskiptum landsins og draga nöfn hlutaðeigandi fram (s. 57).


mbl.is Segja að Íslendingar verði að standa við skuldbindingar sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband