Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
5.11.2012 | 11:29
Sannfæring á fölskum forsendum
Faðir og móðir myrða táningsdóttur sína með köldu blóði á hryllilegan og hægvirkan hátt fyrir þær "sakir" að hafa "gjóað augunum á unglingspilt". Þetta gera þau að því er virðist vegna trúarsannfæringar sinnar sem þeim hefur verið innrætt í krafti trúarbragða og á vegum viðkomandi fræðara og trúarleiðtoga. Firringin kórónast síðan með því að guði er kennt um glæpinn, með því að halda því fram að hann hafi viljað að þau dræpu barn sitt! - Hvílík rökleysa!
Þetta er ógeðfellt dæmi um það er trúarbrögð "verða ill", eins og trúarbragðafræðingurinn Charles Kimball prófessor fjallar um á skilmerkilegan hátt í bók sinni When Religion Becomes Evil: Five Warning Signs (HarperSanFrancisco 2002), m.a. um blinda hlýðni eins og hér um ræðir. Trúarleiðtogar bera hér þunga ábyrgð vegna þess að það eru þeir sem réttlæta og viðhalda þeirri túlkun sem meðal annars er iðkuð á þennan harðneskjulega hátt.
Þessi blinda trúariðkun fyrirfinnst þó ekki aðeins í löndum eins og því sem sagt er frá hér í viðtengdri frétt.
Hún er líka til staðar í ýmsum sértrúarsöfnuðum á Vesturlöndum og ekki síður í hópum sem berjast fyrir einhverjum málefnum á veraldlegu sviði í krafti sannfæringar sem þeir hafa viðtekið og gert að sínum. Sem betur fer er þó ekki algengt að slík iðkun leiði til morða.
Nærtækt dæmi af því tagi er svokölluð "Teboðshreyfing" í Bandaríkjunum. Frá henni, baráttumálum hennar, starfsaðferðum og bakhjörlum var greint í athyglisverðum og sjokkerandi heimildarþætti, "The Billionaires' Tea Party", sem sýndur var í Sjónvarpinu/RÚV 31.10.2012. Þetta er kallað grasrótarhreyfing þar sem "venjulegt" fólk úr hópi almennings lætur sannfærast af pólitískum markmiðum undir merkjum frelsis sem í reynd eru andstæð velferð sama almennings en gagnast stórum fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem fjármagna m.a. öflugar auglýsingaherferðir hreyfingarinnar. Dæmi um það er barátta hreyfingarinnar gegn viðleitni núverandi forseta landsins um umbætur til handa almenningi á sviði sjúkratrygginga.
Þetta eru allt dæmi um það er einstaklingar láta af hendi sjálfstæði sitt og/eða undirgangast kúgun og þöggun við skoðanamyndun um mikilvæg málefni og gera sannfæringu og/eða boð annarra að sinni sannfæringu.
Þetta gerist þó oft og iðulega "í góðri trú" og vegna þeirrar grunnhyggni og leti eða tímaskorts að hafa ekki fyrir því að afla sér upplýsinga og þekkingar um viðkomandi málefni til að taka síðan afstöðu á gagnrýnan hátt og á eigin forsendum og í samræmi við leiðsögn eigin samvisku. Í versta falli verður persónuleg sannfæring þá mótuð á fölskum forsendum.
Segir morð á dóttur vilja guðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.7.2012 | 11:36
Athyglisvert misrétti
Prestur í kirkju baptista í Missisippi hyggst ekki gifta þeldökkt par, karl og konu, í kirkju sinni sökum þess að margir hvítir safnaðarmeðlimir séu því mótfallnir og vísi til þess að slíkt hafi aldrei verið gert í kirkjunni frá því að hún var reist á ofanverðri 19. öld; Ella muni hann missa starfið! Hann býðst þó til að gifta parið í annarri kirkju á svæðinu.
Það er augljóst að á öllum þessum tíma hefur kerfi mannasetninga ráðið ríkjum í kirkju þessari sem ekki eru í samræmi við þau boð og gildi í helgiritinu, Biblíunni, sem söfnuðurinn þykist þó byggja lífsskoðun sína á.
Það er undarlegt að svona kirkja skuli vera við lýði í dag og að fólk sem verður fyrir svona misrétti, eins og þeldökka parið og fólk af sama litarhætti, skuli ílengjast í svona söfnuði. Þess vegna mætti halda að það fólk skilji trúargildin og náungakærleikann betur en þeir sem misréttinu beita.
En, hvað um það? Láti fólkið þetta yfir sig ganga er það í raun og veru að samþykkja misréttið. Það væri athyglisvert og fróðlegt væri að heyra nánari skýringar frá málsaðilum á þeim málalyktum. Fari svo væri það dæmi um hvernig misrétti viðgengst á grundvelli tiltekinnar túlkunar trúarstofnana í skjóli trúarbragða. Þolendurnir létu það þá yfir sig ganga væntanlega í yfirþyrmandi góðri trú.
Neitar að gifta blökkufólk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.5.2012 | 15:59
Siðlaus HÁvaxtastefna gegn sumum
Á þessu bloggi hefur margoft verið andæft gegn þeirri hávaxtastefnu sem rekin hefur verið hérlendis undanfarin ár. Nú eru enn einu sinni uppi hugmyndir um það hjá Seðlabanka Íslands að hækka vexti á nýjan leik "til þess að sporna við verðbólgu"!
Er fólkinu sem fyrir þessu stendur fyrirmunað að skilja eða gegna því að vaxtahækkanir hækka kostnað fyrirtækja og einstaklinga og kynda þar með undir verðbólgunni í stað þess að draga úr henni og gera þungbæra skuldabyrði enn þyngri.
Samtímis eykur það tekjur þeirra sem best standa fjárhagslega, þ.e. fjármagnseigenda.
Ég vitna hér í fyrri pistil um þessi mál frá 12.7.2011, sem greinilega á enn við:
Furðulegar hugmyndir um að hækka stýrivexti, sem seðlabankastjóri viðrar nú í fréttum, gefa því miður vísbendingar um að hann og/eða stjórn Seðlabankans hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í kjölfar bankahrunsins 2008.
Ennfremur að fræðingar þar á bæ skelli skollaeyrum við því hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur.
Að minnsta kosti fara þeir ekki eftir hvorki grundvallar hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu, eins og hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra (í viðtengdri frétt mbl.is 12.7.2011), né heldur heilbrigðu innsæi.
Það ætti að vera augljóst hverjum manni að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, myndi gera erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og gera út af við enn fleiri.
Ef það er stefna Seðlabankans er þessi vaxtahækkunarógn af hans hálfu náttúrulega skiljanleg.
Hækkun stýrivaxta við þessar aðstæður hefði hins vegar í sjálfu sér engin áhrif til að minnka verðbólguna, en kyndir þvert á móti undir meiri verðbólgu sem einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar; Sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum.
Hækkun stýrivaxta eflir hag fjármagnseigenda hinna meiri. Hækkun stýrivaxta nú eflir fyrst og fremst þeirra hag, en er öllum skuldurum í óhag, bæði fyrirtækjum og heimilum landsins og þar með efnahagslífi landsins.
Þar sem gjaldeyrishöft eru í gildi eru það ekki gild rök að halda því fram að hækka þurfi vexti til að halda inneignum erlendra aðila kyrrum í íslenska bankakerfinu. Seðlabankinn hækkaði samt stýrivexti í ofurhæðir (eftir að hafa áður hafið lækkunarferli í kjölfar hrunsins) samkvæmt tilmælum AGS þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. Það gaf innistæðueigendunum vaxtatekjur sem sliguðum skuldurum var gert að borga í ofanálag við snögghækkaðar verðbætur lána sinna og stökkbreyttar skuldir. Þessari viti firrtu hávaxtastefnu seðlabankamanna, að því er ætla mætti lénsherra erlendra fjármálaafla, þessari aðför að skuldsettu efnahagslífi landsins, þarf að andæfa af krafti og hörku. Hvar eru talsmenn Íslendinga?
Spá stýrivaxtahækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.4.2012 | 14:35
Góð orð gegn skálmöld
Þau sjónarmið um æskileg gildi í mannlífi sem Karl biskup bendir hér á eru góð og þess vegna sígild.
Þessi góðu gildi geta hins vegar orðið undir sé ekki lögð nægileg rækt við þau í stóru sem smáu vítt og breitt í samfélagi okkar.
Þótt ýmsir hamist við að finna íslensku þjóðkirkjunni margt til foráttu að því er hinn ytri umbúnað varðar, svo sem skipulag og stjórnsýslu, gjörðir eða aðgerðaleysi þjóna kirkjunnar í málefnum sem upp koma, að ekki sé minnst á trúarlega túlkun á helgiritum og kirkjulegri hefð, þá er það þegar allt kemur til alls grundvallarreglan, Gullna reglan, sem er sá kjarni sem allt mannlegt samfélag verður að byggja á og leggja rækt við ef ekki á illa að fara. Þar sem þessi regla er ekki í heiðri höfð og í öndvegi er stutt í upplausnarástand og skálmöld.
Í sögu Íslendinga lýsir svokölluð Sturlungaöld þannig ástandi, þar sem óprúttnir ráðamenn og auðmenn deila og drottna með eigin hagsmuni að leiðarljósi og skáka almenningi í sérhagsmunabaráttu sinni og efnahagslegu valdatafli sínu fram og til baka eftir eigin geðþótta án þess að skeyta um líf og limi undirsátanna. Þetta hefur einnig verið að gerast undanfarin ár í þjóðfélagi okkar. Í stað goða og lénsveldis eru komnir svokallaðir auðmenn, kvótahafar og fjármálakerfi.
En, nú er öldin önnur einnig að öðru leyti. Nú getur almenningur risið upp gegn efnahagslegri kúgun og breytt stríðsástandi í uppbyggingu með almannaheill og þjóðarhagsmuni að leiðarljósi. Nú getur almenningur í krafti sameinaðs átaks og samstöðu breytt þeim leikreglum sem hingað til hafa fyrst og fremst þjónað sérhagsmunaöflum og þröngum hópi.
Kirkja sem talar inn í þann veruleika og brýnir náungakærleik fyrir þjóðinni í verki á slíkum vettvangi talar röddu fólksins. Kirkja sem sinnir ekki sínu "spámannlega" hlutverki að því leyti í reynd væri ekki sönn kirkja fólksins. Slík kirkja væri ekki að fylgja fyrirmynd þess sem boðskapur hennar byggir á.
Kristin gildi uppistaðan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2011 | 14:42
Um ófærur
Um hvern er biskup yfir Íslandi eiginlega að tala er hann tekur svo til orða prédikun sinni á þjóðhátíðardegi Íslands, þegar spjót sumra og furðu lostinna þegna landsins standa á stjórn og skipulagsmálum þjóðkirkjunnar:
Hann var maður, með sína bresti og takmarkanir. Hvorki hann, né nokkur annar maður, karl eða kona, á kröfu til ginnhelgi og dýrkunar. Oft hefur krafan um ofurmennið, goðumlíka leiðtogann sem öll ráð og lausnir hefur í hendi sér, leitt þjóðir undir ný ánauðarok og helsi. Það eru ófærur."
Er hér verið að reyna að nota sjálfa sjálfstæðisþjóðhetju Íslendinga, persónu hans og afrek, á 200 ára ártíð hans til afsökunar á mannlegum brestum kirkjunnar manna og þeirra verka þeim til upplyftingar?
Og, tengja óeigingjörn og fórnfús afrek þjóðhetjunnar í þágu íslensku þjóðarinnar þar með við einstaklingaharmleiki biskupamála svokallaðra, málsaðilum til sáluhjálpar og frelsunar hér og nú?
Er það ef til vill einnig dæmi um "ófærur" villublindu, dúandi dý og kviksyndi?
Hvað segja þegnar Íslands, ekki síst þeir sem trúa á æðri máttarvöld fremur en kennisetningar og trúarstofnanir manna?
Svara þeir og aðrir einfaldlega með úrsögn úr þjóðkirkjunni?
Biður þjóðina að horfa fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.6.2011 | 13:27
Hin díakóníska kirkja
Sr. Sigríður Guðmarsdóttir á heiður skilið fyrir það fordæmi og hugrekki sem hún sýnir með því að tjá hug sinn opinberlega um biskupa- og kirkjumálin sem nú eru efst á baugi og búin að vera að velkjast þar allt of lengi.
Ég held að kirkjunnar þjónum sé meðal annars hollt að minnast þeirra grundvallandi orða sem lögð voru í munn Jesú í Matteusarguðspjalli og sem kærleiksþjónusta kirkjunnar, hin díakóníska þjónusta, er grundvölluð á:
"Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín." (Mt 25.35-36).
Andspænis ofangreindum og meintum trúnaðarbresti innan kirkjunnar sem hér um ræðir þurfa prestar og aðrir að svara meðal annars eftirfarandi spurningu:
Hvernig verður trúverðugleiki kirkjunnar þjóna og kirkjunnar sjálfrar á til dæmis vettvangi kærleiksþjónustu best tryggður og varðveittur gagnvart skjólstæðingum kirkjunnar þannig að þeim hugnist að koma til hennar í trúnaði í leit að hjálp og huggun í framtíðinni?
Biskup þarf að segja af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2010 | 13:53
Sérhagsmunir eða almannahagur
Stjórnmálamenn, ekki síst alþingismenn og ráðherrar, ættu að temja sér að halda hagsmunum almennings á lofti fremur en sérhagsmunum. Sérstaklega er neyðarlegt ef þeir verða uppvísir að skollaleik tveggja skjalda í þeim efnum, eða að væna aðra um tiltekin óæskileg viðhorf sem þeir sjálfir hafa. Talandi um heiðarleika og réttsýni!
Þeim mun aftur á móti vel farnast ef þeir temja sér gullna reglu í samskiptum sínum við þjóðina alla.
Ég hugsa að almenningur í landinu, ekki síst kjósendur og jafnvel fjármagnseigendur, vilji ekki að efnahag tugþúsunda heimila og þar með efnahag landsins og flestra sem hér búa verði rústað og frið og samfélagssáttmála þar með einnig kastað á sorphauga bankahrunsins.
Ég trúi því líka að fjármagnseigendur eins og aðrir eigi ættingja og vini sem hafa orðið fyrir barðinu á bresti íslenska fjármálakerfisins og þeim einstaklingum sem því ollu í gjörðum sínum eða vangjörðum og þeirri trú og siðferðisleysi sem þar kynti undir.
Er fjármagnseigendum og talsmönnum þeirra hjartanlega sama um það fólk sitt líka?
Þá færi að húma að í íslensku samfélagi og hugmyndir um nánara (efnahags)samband við siðrænar þjóðir yrðu ekki svo vitlausar. "Þjóðin" myndi þá hvort eð er ekki eiga neitt val. Það yrði uppboð.
Segir sveiattan" við málflutningi Gylfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.4.2010 | 17:02
Fjallræða sr. Gunnars
Frábært uppátæki hjá sr. Gunnari Kristjánssyni að brydda upp á þessari nýjung í Esjuhlíðum.
Ég er illa svikinn ef hann hefur ekki komið inn á upplífgandi sæluboð Fjallræðunnar í ræðu sinni þar. Oft var þörf en nú er nauðsyn, á þessum dögum þar sem margir telja sig sjá lítið annað í lífi sínu en pínu og píslir, reyk og eimyrju. Fólk þarf því að leggja rækt við að lifa fremur en að líða.
Ekki var þó "dökka díla" að sjá í náttúruferskri Mývatnssveitinni í dag, eftir fréttum að dæma, þar sem fólk á "píslargöngu" og væntanlega í minningu frelsara síns baðaði sig í kyrrðinni og rónni í Guðs hvítri snjóupplýstri náttúrunni.
Veðurbarinn hópurinn fáliðaði sem hlýddi á fjallræðu sr. Gunnars í dag hefur greinilega haft meiri áhuga á því sem þar kom úr því efra og frá Reynivöllum heldur en því sem kemur úr því neðra í suðurhálsum!
Messaði við Esju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2010 | 16:21
Engin píslarganga
Þetta er vonandi engin píslarganga hjá fólkinu á þessum yndislega stað, að ganga úti í Guðs hvítri náttúrunni í kyrrð og ró; Hver með sjálfum sér og því sem býr hið innra og í góðu samfélagi hið ytra.
Og, hvergi sér á "dökkan díl"! Píslir og pína eru sem betur fer foknar út í veður og vind - og koma ekki aftur nema opnað sé fyrir þeim í huganum eða annars staðar.
Það er eins og vera ber.
Betra er að tileinka sér það viðhorf á lífsins gangi að lifa fremur en að líða, sbr. pistil minn um það fyrr í dag.
Píslarganga við Mývatn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2010 | 12:53
Lifa fremur en líða
sr. Friðrik J. Bergmann (1858-1918) flutti brott af Íslandi 1875 til Bandaríkjanna þá 17 ára og lagði þar stund á guðfræði og einnig, eftir tveggja ára hlé, í "Kristjaníu" (Osló) Noregi 1883-85. Vann hann í millitíðinni fyrir farar- og dvalareyri sínum sjálfur eins og dugmikilla Íslendinga var enn siður einni öld síðar að því er sumarvinnu varðar.
Aðhylltist hann svokallaða frjálslynda guðfræði sem þá var víða að ryðja sér til rúms og koma í stað 17. aldar rétttrúnaðar sem þá var enn ríkjandi víða og byggði á gamalli guðfræði. Friðrik var sílesandi eftir því sem honum vannst tími til og lagði áherslu á að afla sér sem mestrar þekkingar á trú, trúmálum og guðfræði. Varð hann prestur og kennari meðal Vestur-Íslendinga í Bandaríkjunum en síðan í Winnipeg í Kanada. Hann átti þar viðburðaríkan starfsferil og lenti m.a. í trúfræðideilum við suma samlanda sína sem fyrir voru og aðhylltust rígfasta bókstafstrú. Greinir hann frá þessum og fleiri málum í bók sinni Trú og þekking (Reykjavík, 1916).
Friðrik kom í heimsókn til Íslands 1899 og fór víða til að fræðast um hagi landsmanna, m.a. í trúmálum, og skoðaði land og lýð með augum guðfræðingsins. Hann gerir um það athugasemd í bók sinni Ísland um aldamótin (Reykjavík, 1901) að kristindómurinn á Íslandi hafi lagt áherslu á þjáninguna, að líða fremur en að lifa. Þótti honum það mjög miður. Bendir hann á að liður í að viðhalda þeirri áherslu hafi einmitt verið Passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar. Þar hafi sálmaskáldið góða hins vegar einbeitt sér að "einni viku í lífi frelsarans", þ.e. píslarsögunni samkvæmt guðspjöllum Nýja testamentisins, en ekki að öllu lífi hans og starfi!
Þetta finnst mér afar athygliverð athugasemd hjá Friðriki og vert að íhuga vandlega í dag. Við erum hér til að lifa lífinu hér og nú og í framtíðinni eins og okkur endist aldur til, sjálfum okkur og öðrum til uppbyggingar og blessunar. Það er gott ef við megnum að skilja eftir okkur spor sem eftirlifendur okkar og afkomendur geta glaðst yfir og þakkað okkur fyrir, ánægðir með samfylgdina. Þá höfum við lifað vel hvað það varðar. Þess vegna er það mikilvægt að beina augum sínum að lífinu og hvernig við getum lifað því sem best í því ljósi. Lifa í anda þess hvað beri að gera.
Í því sambandi eru jákvæðar leiðbeiningar um hvernig lifa ber lífinu í þeim tilgangi uppbyggilegri en neikvæðar hugrenningar um eilífar þjáningar, syndir og skammir sem henta til að brjóta niður sálarþrek þess sem á hlustar og hneppa í sektarfjötra.
Hvar er þá jákvæða leiðsögn að finna í kristindóminum um hvernig lifa á lífinu?, kann einhver að spyrja.
Þar má benda til dæmis á hina einföldu Gullnu reglu sem inniheldur öll þau sannindi sem eru lykillinn að friðsömu og kærleiksríku samfélagi ef eftir henni væri farið í reynd. Þessi sama regla er ennfremur megininntak annarra stórra heimstrúarbragða.
Og, í stað þrumandi þjáningarorða um synd, pínu og fórnardauða væri líklega meira upplífgandi og leiðbeinandi að hlusta á sæluboð hins lifandi frelsara og fræðara, sem honum eru lögð í munn og sagt er frá í svokallaðri Fjallræðu. Þessi boð má t.d. túlka á eftirfarandi hátt:
Sælir eru hógværir, hjartahreinir, friðflytjendur og miskunnsamir, þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því þeirra laun eru mikil blessun sem sérstaklega þeir sjálfir finna fyrir við sína góðu breytni og fylgir þeim eilíflega.
Þá þurfa heldur ekki þeir að örvænta sem eru "fátækir í anda", þeir sem syrgja, þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, né þeir sem eru smánaðir og ofsóttir eða bornir upplognum sökum vegna sannfæringar sinnar eða annars, því þeim veitist andleg upplyfting og friður í hjarta við skilning á ríki Guðs hið innra, og styrkur og hughreysting frá kærleiksríku samferðafólki á lífsins gangi sem þannig hlýðir guðlegu kalli hið innra og eru samverkamenn Guðs á jörðu við að hugsa um náunga sinn eins og sjálfa sig.
Passíusálmar lesnir í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)