Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Bankastjóri gamla Kaupþings segir sannleikann

Batnandi mönnum er best að lifa! Nú hefur sannleikurinn loksins sloppið út hjá fyrrverandi bankastjóra gamla Kaupþings, Hreiðari Má, um það sem er að saxa íslensku þjóðina í spað eftir að ofskuldsetning gömlu einkabankanna lagði hana ásamt þeim sjálfum að velli:
Okurvextir samkvæmt núverandi vaxtastefnu Seðlabankans eru sem sé "á villigötum", segir hann, í viðtali sem birt er á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Forsíðufréttastjóri blaðsins færir þetta meira segja í stílinn þar sem yfirskrift forsíðufréttarinnar er til þess fallin að lýsa á líflegan hátt þeim sem um er rætt, þ.e. höfundum og ábyrgðarmönnum vaxtastefnunnar, en þar segir: "Hreiðar Már segir vaxtastefnu vitleysu"!
Auðvitað er þetta vit-leysa. Það er hárrétt hjá bankastjóranum fyrrverandi. 

Reyndar ber öllu heldur að segja að það eru forsendurnar sem á er byggt sem eru óraunsæjar og því rangar. Rökin að baki hávaxtastefnunni eru á þá leið að hún eigi að bjarga íslensku efnahagskerfi í stöðunni, en því miður er hún að drepa það og þjóðina með! Hún verður löngu dauð áður en hávaxtaráðin virka eins og haldið er uppi vörnum fyrir af Seðlabankanum og öðrum sem hafa þau að ófrávíkjanlegri trúarsetningu.
Lyf sem drepur sjúkling þjónar ekki tilgangi sínum, þ.e. að halda sjúklingnum á lífi og bæta líðan hans. Hvers vegna er það samt notað áfram? Gagnast það e.t.v. einhverjum öðrum en sjúklingnum sjálfum? Til dæmis þeim sem hirða fé hans?! - Er nema von að spurt sé?
Þótt það standi einhvers staðar í ófullkominni kennslubók að hávaxta-"lyfið" eigi að virka við tilteknar útópískar forsendur, þá eru þær aðstæður ekki til staðar hér núna og hávaxtalyfið virkar því eðli málsins samkvæmt ekki á Íslandi í dag. Um það hef ég fjallað í pistlum hér um hávaxtastefnuna, eins og fjölda margir aðrir bæði lærðir og leikir.

Þessa villutrú þarf að uppræta í hinu myrka Seðlabankahúsi og setja hina misvísandi svörtu kennslubók með þessar villukenningar, sem enn virðist notuð þar innan luktra dyra, niður í dýpstu og öruggustu geymslu í kjallara Seðlabankahússins þar sem engir starfsmenn komast í hana. Þar verði hún einungis til sýnis síðar meir til söguskýringa á þeirri plágu sem hún og hennar líkar orsakaði.
Starfsmennirnir verða nú að opna augun og draga tjöldin frá dökkum rúðum á skrifstofum sínum í sínum myrka vinnustað og gá til veðurs í hinu raunverulega íslenska efnahagslífi og fara að beita hyggjuviti sínu og skynsemi sem þeim var gefin í vöggugjöf eins og öðrum Íslendingum, sem reyna nú samviskusamlega af fremsta megni að leita uppi handbærar krónur til að borga okurvextina sem kveðið er á um í þessu húsi. Í besta falli er einhver afgangur eftir hjá fólki til að kaupa mat fyrir; ennþá.

Ég bendi háttvirtum starfsmönnum á að líta t.d. út um frádregna glugga á norðvestur hlið hússins, en þeim til upplýsingar gefur þar á að líta dæmi um rústir góðrar trúar og bjartsýni eftir þær fjárhagslegu hamfarir sem riðið hafa yfir þjóðina undanfarið ár. Þar blasir við sýnishorn af þeim stirðnandi efnahagsveruleika sem við er að eiga.
Reyndar sýnir það dæmi enn fáránlegri rökleysu, vegna þess að af öllum málum sem úr var að velja til að láta leifarnar af fjármagni ríkis og borgar í var tónlistarhús væntanlegra tónleikagesta valið, en ekki t.d. aðgerðir til að rétta við stöðu almennings eða draga úr skerðingum til menntamála; Síðan er spurning hvort íslenskur almenningur komi til með að geta sótt það með erlendum gestum sínum þegar þar að kemur, en það er nú önnur saga.

En, áfram með forsíðustórfréttina í Fréttablaðinu í dag: Þar er sem sé haft eftir hinum uppljómaða og endurleysta fyrrverandi bankastjóra að það sem þurfi að gera í efnahagsstjórn Íslands sé m.a. að afnema verðtryggingar, lækka stýrivexti og breyta lánum í erlendri mynt í krónur. Þarna ratast honum satt orð í munn og sannast hér hið fornkveðna að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott! Þegar meira að segja úthúðaður fyrrverandi bankastjóri, reynslunni ríkari, sér sannleikann í þessum málum,  ásamt sauðsvörtum og þrautpíndum almúganum, þar á meðal skynsömum bloggurum og pistlahöfundum sem lifa í hinum raunverulega íslenska veruleika, þótt sýndarveruleiki sé, en ekki í staðleysu kennslubókardæmis Seðlabankans, þá hlýtur eitthvað að vera til í þessu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband