Góð orð gegn skálmöld

Þau sjónarmið um æskileg gildi í mannlífi sem Karl biskup bendir hér á eru góð og þess vegna sígild.

Þessi góðu gildi geta hins vegar orðið undir sé ekki lögð nægileg rækt við þau í stóru sem smáu vítt og breitt í samfélagi okkar.

Þótt ýmsir hamist við að finna íslensku þjóðkirkjunni margt til foráttu að því er hinn ytri umbúnað varðar, svo sem skipulag og stjórnsýslu, gjörðir eða aðgerðaleysi þjóna kirkjunnar í málefnum sem upp koma, að ekki sé minnst á trúarlega túlkun á helgiritum og kirkjulegri hefð, þá er það þegar allt kemur til alls grundvallarreglan, Gullna reglan, sem er sá kjarni sem allt mannlegt samfélag verður að byggja á og leggja rækt við ef ekki á illa að fara. Þar sem þessi regla er ekki í heiðri höfð og í öndvegi er stutt í upplausnarástand og skálmöld.

Í sögu Íslendinga lýsir svokölluð Sturlungaöld þannig ástandi, þar sem óprúttnir ráðamenn og auðmenn deila og drottna með eigin hagsmuni að leiðarljósi og skáka almenningi í sérhagsmunabaráttu sinni og efnahagslegu valdatafli sínu fram og til baka eftir eigin geðþótta án þess að skeyta um líf og limi undirsátanna. Þetta hefur einnig verið að gerast undanfarin ár í þjóðfélagi okkar. Í stað goða og lénsveldis eru komnir svokallaðir auðmenn, kvótahafar og fjármálakerfi.

En, nú er öldin önnur einnig að öðru leyti. Nú getur almenningur risið upp gegn efnahagslegri kúgun og breytt stríðsástandi í uppbyggingu með almannaheill og þjóðarhagsmuni að leiðarljósi. Nú getur almenningur í krafti sameinaðs átaks og samstöðu breytt þeim leikreglum sem hingað til hafa fyrst og fremst þjónað sérhagsmunaöflum og þröngum hópi.

Kirkja sem talar inn í þann veruleika og brýnir náungakærleik fyrir þjóðinni í verki á slíkum vettvangi talar röddu fólksins. Kirkja sem sinnir ekki sínu "spámannlega" hlutverki að því leyti í reynd væri ekki sönn kirkja fólksins. Slík kirkja væri ekki að fylgja fyrirmynd þess sem boðskapur hennar byggir á.

 


mbl.is Kristin gildi uppistaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband