Guðni kallar eftir samstöðu um þjóðarhagsmuni

Guðna Ágústssyni er mikið niðri fyrir og hann talar hátt og tæpitungulaust, sem "fyrrv. alþm. og ráðherra", í hugvekjandi pistli sínum í Morgunblaðinu í dag, 16.2.2012 s. 19.
Með hárri raustu spámannsins þrumar Guðni, stórhneykslaður og af skiljanlegum ástæðum, yfir stjórnmálamönnum Íslands og almenningi öllum að lufsast til að "taka hendur úr vösum" og hætta að ala leti og ómennsku upp í unga fólkinu sem eftir er í landinu en hefjast frekar handa við raunhæfar aðgerðir.

Hann ryður brothættum stólum, borðum og skurðgoðum um koll og það gustar um sali. Að minnsta kosti sumir lesendur skilja vafalaust hvað hann er að hrópa um í eyðimörkinni. Það eru þeir sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra og eitthvað þar á milli og réttvísandi kompás sem vísar í segulnorðurátt en ekki upp á sker við Evrópu eða stjórnmálagrænar staðleysur utan mannheima.

Guðni sparkar m.a. í hornsúlur verðtryggingarkerfisins, er sé að hluta til við haldið af verkalýðshreyfingu í matadorleik, og skekur fílabeinsturna rangeygra prófessora er séu "gallaðir pólitískir doktorar" sem sjái ekkert nema ESB. Þá hneykslast Guðni á skattlagningaróðri ríkisstjórn er ætli sér að kippa samkeppnis-forsendum undan sjávarútveginum með þjóðnýtingu á honum.
Síðast en ekki síst fer hann ófögrum orðum um afhendingu ríkisstjórnar fólksins á tveimur af nýreistum stórbönkum landsins til erlendra vogunarsjóða, "braskara og áhættufjárfesta". Fjármagnið sem þessir aðilar sitji fastir með á Íslandi í bili sökum óásetjanlegra gjaldeyrishafta megi ekki fara óskert úr landi og megi reyndar alls ekki fara úr landi. Þarna telur Guðni að ofurskattlagning eigi betur við en á íslenskum sjávarútvegi, fólki og fyrirtækjum.

Guðni nefnir það ekki í þessari andrá að þarna er hann í reynd að tala um upptöku svokallaðs Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa, þar undir fjármagnsútflæði úr landi. Markmið slíks skatts er jafnframt að verja gjaldmiðil landsins fyrir áhlaupum spákaupmanna. Þá leið hefur Lilja Mósesdóttir í Samstöðu bent á til að bregða böndum á snjóhengju jöklabréfa og aflandskróna og sporna við því að hinir óprúttnu erlendu braskarar er Guðni kallar svo og aðrir fjármagnseigendur er þar eiga hlut að máli komist upp með að rústa íslenskum efnahag með því að tæma gjaldeyrisvarasjóð Íslands og kalla ofurskuldsetningu gagnvart útlöndum yfir þjóðina (sbr. grein hennar í Fréttablaðinu 13.4.2012 um Afnám hafta án lífskjaraskerðingar). Reyndar tækist þeim það ekki nema með dyggum stuðningi íslenskrar ríkisstjórnar er færi feigðarleið gjaldeyrishafta alla leið þar sem viðkomandi fjármagnseigendum væri smám saman og um síðir afhentur gjaldeyrisforði þjóðarinnar ásamt ofurvöxtum í kaupbæti. Það væri í samræmi við þá vegferð sem nú þegar virðist vera hafin af núverandi ríkisstjórn í samstarfi við Seðlabanka Íslands.

 


mbl.is Guðni Ágústsson: „Hendur úr vösum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband