Um huglægan sköpunarmátt að fornu og nýju

Yfirskrift þessa pistils er undirtitill lokaritgerðar minnar í Cand.theol. námi, á sviði nýjatestamentisfræða, við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands (maí 2011), en yfirtitill hennar er:

"Túlkun á valentínsku upprunamýtunni og sálarlegum þáttum hennar í ljósi árangursfræða".

Eftirfarandi er ágrip af innihaldi ritgerðarinnar, sem er 70 bls. að lengd:

Ritgerðin er annars vegar greinargerð um tiltekið sjónarhorn á valentínsku upprunamýtuna þar sem aðaláherslan hvílir á sköpunarþætti hennar og útgeislunum guðdómsins í því sambandi, svokölluðum Fullnustufræðum (e. Pleromatology), sem og sálarlegum þáttum. Einnig er byggt á hugmyndum gnóstíkea um sjálfsþekkingu eða þekkingu, gnósis, sem var keppikefli þeirra að öðlast, en þeir héldu því einnig fram að þekking á guðdóminum væri leið manna til að öðlast endurlausn hér og nú.
Hins vegar er gerð grein fyrir grundvallaratriðum í svokölluðum árangursfræðum, sem áberandi eru í nútímanum, er snerta sjálf, meðvitund og undirmeðvitund mannsins og huglægan sköpunarmátt og sálfræðileg atriði í tengslum við það.
Í því sambandi eru hliðstæður greindar með valentínsku upprunamýtunni og kenningum í nútímanum um sjálf manna, þar sem meðal annars er komið inn á aðferðir árangursfræða. Sérstaklega eru túlkanir þeirra og forsendur um huglægan sköpunarmátt og „beitingu“ hans við sköpun bornar saman.
Ekki er reynt að færa rök fyrir sanngildi túlkananna, eðli málsins samkvæmt, heldur að draga fram rök fyrir því að varðandi túlkun á sjálfum sköpunarmættinum sé um sambærilegt fyrirbæri að ræða sem byggi á hliðstæðum grunni, enda hafa viðkomandi höfundar litið á hann sem guðlegan sköpunarkraft og andlegt lögmál.
Varðandi árangursfræði er fjallað um hvernig umræddur huglægi sköpunarmáttur tengist og felist í sjálfsþekkingu manna og beitingu þeirrar þekkingar til að ná bættum alhliða árangri í lífi sínu út frá persónulegum markmiðum. Fjallað er um hvernig sú vegferð tengist viðleitni manna til að öðlast sjálfsstjórn og tileinka sér betri lífsstíl, líkt og stóíkear og fleiri skólar kenndu til forna, en fræðimenn hafa sýnt fram á hvernig mýtan hefur verið notuð sem tæki í þeim tilgangi.
Hliðstæður varðandi sálarlega þætti í þessu sambandi eru greindar milli hinnar fornu mýtu og árangursfræða nútímans í ljósi þeirra kenninga sem í þeim felast um guðlegan og huglægan sköpunarmátt.

(Höfundur útskrifaðist með lærdómstitilinn Cand.theol. til embættisprófs, þ. 11. júní 2011).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Kristinn

Vonandi hefur verið farið inn á svið vöggugjafa sem hver og einn kemur með í þetta líf til að láta gott af sér leiða á margan hátt en sé svo ekki bendi ég þér á að sækja stund hjá mér og séra Pálma Matthiassyni 4 júlí nkm í Bústaðakirkju þar sem ég nýti þessa gjöf öðrum til heilla í gegn um bænina.   Einhver ástæða er fyrir því að kirkjan er yfirfull í hvert skipti og ótrúlegir góðir hlutir gerast bara við það að sitja í friði með sjálfum sér og hlusta.

með kveðju

Þór Gunnlaugsson

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 13.6.2011 kl. 18:12

2 identicon

Fyrirgefðu er með heimasíðu www.heilun.blogcentral.is

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 13.6.2011 kl. 18:13

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Sæll Þór og takk fyrir að hafa samband. Ég tók eftir smá umfjöllun um þig í einu dagblaðanna fyrir nokkrum mánuðum og fannst afar athyglisvert það sem greint var frá að þú værir að sinna. Á þessu efni hef ég mikinn áhuga og hef haft undanfarna áratugi. Það samrýmist vel því sem ég hef verið að stúdera eftir leiðum guðfræðináms, en þar hef ég m.a. leitast við að rannsaka hliðar sem liggja til þessarar áttar. Í BA-ritgerð minni glími ég við verkefnið: "Hvað er sannleikur? Þekkingin í Sannleiksguðspjallinu og spurningin um trú". Það var glíma sem tók á og dróst á langinn, enda sjónarhornin mörg.

Þú minnist á útdeilingu vöggugjafa. Um þær er ég þér hjartanlega sammála og mörgum "stjórnandanum" hefur brugðist bogalistin við að nýta hæfileika starfsmanna sinna á sem bestan hátt þar sem þeir njóta sín best. Það sem er þó sorglegra er það þegar fólk fer ekki eftir hjarta sínu við val á viðfangsefnum og vettvangi í lífinu. En, það getur lært það og oft dugir ein hnitmiðuð ábending frá öðrum til þess; Til dæmis ábending um hæfileika sem viðkomandi hefur e.t.v. ekki tekið eftir sjálfur eða gert lítið úr. 
Takk fyrir ábendinguna um fjórða júlí.

Kristinn Snævar Jónsson, 14.6.2011 kl. 00:27

4 identicon

sæll aftur og þakka undirtektir

Já það hafa verið frá 280-500 manns sem hafa komið á þessi kvöld og gríðarlega sterk orka sem kemur og þeir gestir sem eru næmir finna það svo sannarlega og lýsa litum og hvernig þetta skeður í tölvupóstum til mín og séra Pálma.

Allt sem skrifað er á heimasíðu mína er frá þeim komið en Guðfræðibækur hef ég ekki stúderað þar sem slíkt myndi rugla mig í ríminu þar sem öll mín fræðsla kemur frá þeim. Þarna er meðal annars 3 erindi um sköpun heimsins hvað skeður við brottför og fleira.

Sem rannsakari í dulrænum fræðum ertu velkomin til mín hvenær sem þér hentar til þess að finna orku kærleikans og mátt hennar.

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband