Sáttasemjara í málið

Ég tek sterklega undir þessa skoðun, enda ritaði ég pistil um að fá sáttasemjara í málið í ágúst s.l. þegar Icesave-málið var enn að klúðrast í þinginu og menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð og ríkisstjórnin virtist veigra sér við að ræða við Breta og Hollendinga ein sér - og virðist það reyndar enn þar sem lítið hefur verið um frumkvæði að halda málastöðu Íslands á lofti á þeim bæ!

Utanaðkomandi sáttasemjari er orðinn nauðsynlegur nú í ljósi þess að Evrópulöndin eru smám saman að viðurkenna það opinberlega að þetta snertir þau öll. Semja verður um lausn í málinu á forsendum um hvað telja ber skyldur landanna, ekki síst Íslands, á grunni regluverksins sem lá til grundvallar fjármálastarfsemi milli landa. Það brást ekki bara á Íslandi. Fleiri lönd eru þar samsek, ekki síst Bretland og Holland. Líka þau lönd (t.d. Þýskaland) þar sem bankar gátu að því er virðist óáreittir lánað einkabönkum í landi eins og Íslandi upphæðir á við margfalda landsframleiðslu landsins. Þessir erlendu bankar máttu vita að íslensku bankarnir gátu aldrei endurgreitt þessi lán snögglega ef skyndilega lokaðist fyrir lánalínur þeirra eins og gerðist.
Spyrja má ennfremur í því sambandi hvort túlka megi þessi botnlausu lán þeirra sem atlögu að efnahagskerfi Íslands og hvort þeir (ásamt bankaráðum og stjórnendum íslensku einkabankanna) séu hreinlega skaðabótaskyldir gagnvart íslenska ríkinu sem situr uppi með skaðann af glæfralegum fjármálagjörningum þeirra!

Sem sáttasemjara hafði mér reyndar fremur dottið í hug t.d. Frakkland, eða land sem ekki hefði orðið mikið fyrir barðinu á íslensku einkabönkunum. Þýskir bankar eru stórir kröfuhafar gagnvart þrotabúum einkabankanna og Þýskaland væri í því ljósi e.t.v. ekki heppilegur aðili auk þess að hafa verið erkióvinur Bretlands og flestra annarra Evrópuríkja í seinni heimsstyrjöldinni. Bretum og Hollendingum yrði e.t.v. ekki ljúft að láta slíkan aðila leggja sér lífsreglurnar. En, kannske er það gleymt og grafið núna þar sem þau eru jú öll samherjar innan ESB, þó mér sé það til efs. Jafnvel væri heppilegra og líklegra til hlutleysis að fá annan aðila en Evrópuríki til að miðla málum, t.d. Kanada, nema þar vegi þyngra að lönd annarra viðskiptablokka í heiminum skuli ekki blanda sér í "innansvæðismál" ESB og Evrópulanda, séð frá sjónarhóli ESB.

Hvati að ofangreindum pistli voru reyndar sumpart fréttir þá um áhuga erlendra ríkja á vaxandi mikilvægi Íslands vegna legu þess, bæði í viðskiptalegu og hernaðarlegu tilliti þegar við blasir að siglingaleiðir geti verið að opnast um Norður-Íshaf. Það er eitt af þeim vannýttu trompspilum sem Ísland hefur á hendi í Icesave-málinu, en í því sambandi virðist gallinn því miður vera sá að ríkisstjórnin sér ekki á spil sín fyrir ESB-menguðu andrúmsloftinu og blekkingareyk breskra og hollenskra stjórnvalda ásamt snarvitlausum bresk-hollenskum gleraugum sem ríkisstjórnin hefur þegið af Bretlandi og Hollandi og meðvirkandi löndum þeim til heiðurs. Með þeim gleraugum hefur ríkisstjórnin lesið allt öfugt í þessu máli. Nú þarf hún að fleygja þessum gleraugum og tileinka sér réttvísandi baráttuanda fyrir hagsmunum Íslendinga.


mbl.is Vill þýskan sáttasemjara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband