Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Farsinn um Fjármálaeftirlitið

Sífellt tekur farsinn um Fjármálaeftirlitið á sig ótrúlegri myndir.

Því miður held ég að starsmenn FME, a.m.k. þeir sem voru sagðir starfa þar og stjórna fyrir bankahrun, haldi að meint mannekla og tímaleysi hjá þeim séu haldbær rök sem afsaki þá af öllum yfirsjónum sínum og syndum.
Með þessari frétt er enn að koma á daginn að það sem fram fór innan FME fyrir bankahrunið hafi einmitt verið ekkert annað en yfirsjón.
Allir læsir menn sjá strax á lögunum um bann við gjaldeyristengingu lána að slík tenging er ólögleg, þótt til þess settir embættismenn og ráðuneytisfólk hafi ekki kunnað eða kært sig um að lesa þau rétt. Meira að segja alþingismennirnir sem settu þó lögin virðast hafa steingleymt því eða ekki skilið hvað þeir voru að samþykkja árið 2001 og ekki fattað hvaða lögleysu bankarnir voru að framkvæma fyrir opnum tjöldum varðandi gjaldeyristengd bílalán.

Það hlýtur að hafa verið og vera algjör lágmarkskrafa að starfsmenn FME væru og séu kunnugir þeim lagagrunni sem eftirlitið átti og á að starfa eftir.
Það hefði ekki verið nema dagsverk fyrir sæmilega greindan mann þar innan veggja að rita greinargerð um lögbrot bankanna í þessum efnum og leggja inn opinbera kæru. Eða senda viðskiptaráðherra ábendingu um málið úr því að hann/hún gerði ekkert í málinu af eigin frumkvæði eins og ráðherra ber þó að gera.
Ástæðan fyrir því að starfsmenn FME gerðu það ekki getur því ekki verið önnur en sú að þeir hafi alls ekki sinnt starfi sínu og komist upp með það, eða verið bannað að gera það, ef við útilokum að þetta hafi verið helberir heimskingjar sem vissu ekki til hvers þeir voru á launum hjá eftirlitinu.

Almenningur á Íslandi sem nú geldur fyrir yfirsjónir Fjármálaeftirlitsins, eins og það var mannað fram yfir bankahrunið, á greinilega margt vantalað við þá sem þar réðu málum.

Reyndar er spurning hvers vegna Fjármálaeftirlitið eins og það er mannað núna tók heldur ekki upp þráðinn um þetta tiltekna mál.
Vantar ennþá réttan kompás fyrir starfsemina?
Hvaða stakk hefur núverandi viðskiptaráðherra sniðið starfseminni? Hann virðist síðustu daga ekki yfir sig hrifinn af dómi Hæstaréttar í málinu og er það afar athyglivert fyrir almenning að íhuga ástæður þess, sem ekki hafa verið útskýrðar með tölulegum rökum sem skyldi hingað til.
Ræður e.t.v. hræðsla um hugsanlegar geigvænlegar afleiðingar uppljóstrana Fjármálaeftirlitsins um brot á reglum í fjármálaheimi Íslands því hvað eftirlitið aðhefst eða öllu heldur aðhefst ekki?


mbl.is FME skoðaði aldrei gengislánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver eru rökin gegn eflingu Alþingis?

Mér sýnist Vigdís Hauksdóttir færa hér skilmerkileg rök fyrir máli sínu til að efla störf Alþingis.
Ef þær forsendur eru réttar, sem hún bendir á í rökstuðningi sínum, fyrir því að efla sjálfstæði Alþingis í mati á lagalegum atriðum við gerð frumvarpa og öðru í þeim dúr þá eru það mjög góðar og uppbyggilegar hugmyndir sem hún ber hér fram.
Það sætir reyndar furðu að svona skuli vera í pottinn búið með starfsumhverfi Alþingismanna og löngu tímabært að bæta þar úr og í þessa veru sem Vigdís ræðir um ef ástandið er svona slæmt. Það væri til þess fallið að styrkja lýðræðislega stjórnarhætti. Vilja stjórnmálaflokkar það e.t.v. ekki?

Maður spyr sig því hver mótrökin eru gegn þessum að því er virðist góðu hugmyndum.


mbl.is Sagði þingmann hafa fallið á prófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabærar tillögur um lánamál

Meðal þess sem felst í þessum tillögum Framsóknarflokksins er almenn skuldaleiðrétting, vaxtalækkun og að áhættu verði skipt milli lánveitanda og lántaka.

Þetta þykir mér afar gott útspil hjá Framsóknarflokknum og er löngu kominn tími til að svona tillögur sjáist á Alþingi varðandi skuldaleiðréttingu, vaxtalækkun og ekki síst að áhættu verði skipt milli lánveitenda og lántakenda.

Um þetta allt og þau markmið sem að baki liggja hef ég ritað og fært rök fyrir í fyrri pistlum mínum og er ánægjulegt að sjá fleiri og málsmetandi fólk taka undir þessi markmið með merkjanlegum hætti. Þau eru til þess fallin að gera bæði heimilum og fyrirtækjum í landinu kleift að sigrast á þeim fjárhagslegu hindrunum sem hingað til hafa verið að hrannast upp frá árinu 2008, sérstaklega eftir bankahrunið. Bráðnauðsynlegt er að efla framleiðslukerfi landsins en í því felst viðsnúningur til hins betra fremur en að byggja á hinni röngu og rakalausu hávaxtastefnu með tilsvarandi skuldsetningarhugmyndum tengt gömlu IMF-áætluninni fyrir Ísland.

Ég er margoft búinn að benda á fáránleikann í hávaxtastefnunni, sbr. t.d. nýlega pistla mína um haldlaus hávaxtarök og hundalógík hávaxtastefnunnar.

Einnig hef ég oftar en einu sinni rætt um ósanngirni þess að lántakendur einir beri alla áhættu af verðbólgu og lánveitendur enga.
Þvert á móti er einmitt sanngjarnara og engin rök til annars en að þessir aðilar skipti með sér þessari áhættu, sérstaklega því sem bætt hefur verið við höfuðstól lána í formi verðbóta. Það er óverjandi að lántakandinn beri einn þá áhættu, sbr. pistil minn um það efni.

Ég fagna því svo sannarlega löngu tímabærum tillögum Framsóknarflokksins um þessi efni.

Það er tilefni til þess að óska tillöguflytjendum og flokknum og þjóðinni allri, sérstaklega langþjáðum skuldurum, til hamingju með þessar tillögur.


mbl.is Þjóðarsátt Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundalógík hávaxtastefnunnar

Já, vissulega er svigrúm til frekari vaxtalækkunar. Það sem meira er, þá er hægt að skapa þær forsendur, en Seðlabankinn vill ekki viðurkenna þann möguleika sökum trúfesti sinnar við ídealiseruð hagfræðilíkön sem byggja á tilsvarandi ídealiseruðum forsendum. Þær forsendur eiga ekki við þær aðstæður sem eru í efnahagskerfi Íslands núna. Hér eru í gildi gjaldeyrishöft og gengi krónunnar er ekki ákvarðað á fullkomnum markaði framboðs og eftirspurnar. Auk þess eru hendur þorra almennings þrælbundnar með skuldafjötrum þannig að flestir geta sig lítið hrært í neyslu og fjárfestingum nema til daglegra nauðsynja; sumir alls ekki neitt! Hér er því ekki fyrirliggjandi hætta á ofþenslu með tilheyrandi verðbólguhvata, nema síður sé. Á þetta hafa margir bent, margsinnis, en það er eins og að tala við dauðan svartan stein.

Það er bráðnauðsynlegt að skera á þann Gordionshnút hávaxtastefnu sem Seðlabankinn hefur rígbundið efnahagskerfi landsins í, atvinnulífi og heimilum til óbóta. Hún er varin með óviðeigandi rökum sem hvíla á forsendum sem ekki eiga við í íslensku atvinnulífi núna. Það er ekki mikil hætta á að efnahagskerfið snöggræsist og þjóti í ofþenslu við hressilega vaxtalækkun niður í svipað stig og er í viðskiptalöndum Íslands.

Hvernig væri að menn ryfjuðu upp það dæmi þegar verðbólgu hérlendis var nánast kippt úr tveggja stafa tölu, er hún snarlækkaði við það að tekin var ákvörðun um að lækka vexti í 5% ? Þar var minnkuð verðbólga afleiðing af snarlækkuðu vaxtastigi og væntingum um að það héldist lágt.
Í dag virðist Seðlabankinn hins vegar alfarið vinna eftir þeirri hugmynd að verðbólguvæntingar eigi að stjórna vaxtaákvörðunum. Miðað við íslenskar aðstæður núna og undanfarið ár eru hér höfð endaskipti á hlutunum.

Ekki er furða að hægt gangi að koma þessu hvorutveggja niður á við, verðbólguvæntingunum og vöxtunum, meðan svona "hundalógík" ræður ríkjum.


mbl.is Svigrúm til frekari lækkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haldlaus hávaxtarök

Ein meginskýringin sem virðuleg peningastefnunefnd Seðlabankans gefur fyrir ákvörðun sinni um sýndarlækkun stýrivaxta nú er óvissan um aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, auk styrkingar krónunnar undanfarið.
Meginástæðan fyrir ákvörðuninni að mati nefndarinnar skín þó í gegn, sem er sú að ekki er búið að samþykkja Icesave-kröfur Breta og Hollendinga vegna "tafa á lausn deilunnar". Þarna er viðhafður sami söngurinn og af hálfu fjármála- og forsætisráðherra undanfarið ár.
Þarna er raulaður sami textinn og almennar hagfræðiformúlur kveða á um sem gilda einvörðungu að gefnum ákveðnum forsendum og undir tilteknum kringumstæðum.
Þær forsendur eru ekki til staðar í efnahagslífi Íslands nú. Hér eru í gildi gjaldeyrishöft og þar að auki er gengið á íslensku krónunni ekki ákvarðað með gegnsæum hætti á "fullkomnum" markaði framboðs og eftirspurnar.

Margir hafa á það bent, einnig sá er hér ritar í fyrri pistlum, (einnig t.d. hér og hér) að rökin fyrir háum vöxtum til að halda erlendu fjármagni í landinu eiga ekki við undir gjaldeyrishöftum, eðli málsins samkvæmt.

Háir vextir gagnast fyrst og fremst innistæðueigendum, innlendum sem erlendum, og bönkunum sjálfum. Þeir sem borga fyrir eru allir skuldarar landsins, heimili og fyrirtæki. Einmitt núna þurfa þeir síst á því að halda að borga okurvexti. Nær væri að þeir sem eru aflögufærir, innistæðueigendur, legðu þar meira fram í stað þess að sópa til sín enn meiru en fyrir bankahrunið í formi vaxta og verðbóta.

Það er því með öllu ótækt að háum vöxtum skuli vera viðhaldið undir þessum kringumstæðum.
Það er athyglivert að Samtök atvinnulífsins og jafnvel ASÍ skuli ekki hafa látið meira til sín taka í málinu og hrópað hærra en reyndin sýnir. Aðeins hafa heyrst hjáróma raddir forystumanna þeirra samtaka og nánast helst á vaxtaákvörðunardögum þegar Seðlabankinn hefur tilkynnt um óbreytta háa stýrivexti eða aðeins örlitla lækkun. Síðan líður og bíður og lítið gerist í þessum málum.
Eru þessir aðilar málsvarar fyrirtækja og launafólks almennt eða innistæðueigenda, lífeyrissjóða og banka fyrst og fremst?

Ofangreindu óviðeigandi rök peningastefnunefndarinnar fyrir tregðu í vaxtalækkun hafa verið notuð fyrir háum stýrivöxtum af hálfu stjórnvalda í meira en ár, en Íslendingar eru þó enn lifandi þótt búsettum hérlendis hafi fækkað nokkuð. Hræðsluáróður um köld kol og viðskiptabann útlendinga á Ísland hefur ekki reynst á rökum reistur.
Eftirlifandi fyrirtækjum og flestum heimilum hérlendis blæðir stöðugt vegna alltof hárra vaxta. Það er röng fullyrðing talsmanna hávaxtastefnunnar að vextir þurfi að vera svona háir núna. Hækkun þeirra úr 12% í 18% fyrir rúmu ári síðan var vitfirring þar sem hlaupið var til í paník sökum ógnandi raka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og þeirra sem tóku undir þau rök. Þetta var þvert á hagsmuni íslensks efnahagslífs. Í staðinn átti að halda áfram að lækka vextina svo um munaði til að styðja þar með við grundvöll efnahagslífsins hérlendis, fyrirtækin og heimilin, framleiðslukerfið, launafólk og neytendur. Ef eitthvað óhlutdrægt vit er í mati erlendra matsfyrirtækja á stöðu efnahags og efnahagshorfum á Íslandi hefði það væntanlega hækkað vegna þess er frá leið í stað þess að lækka eins og reyndin varð á.

Í viðtali við svokallaða Skuggabankastjórn í Fréttablaðinu 16.3.2010, s. 12, kemur fram samdóma álit meðlima hennar að vextir eru og hafa verið allt of háir hérlendis. Í þeim hópi eiga nú sæti Ásta Dís Óladóttir forseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar og Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Arionbanka, allt fagfólk á sínu sviði geri ég ráð fyrir. Ásgeir fullyrðir þar að stýrivextina hefði átt að lækka í stað þess að hækka þá í 18% á sínum tíma 2008, sem gert var í samræmi við tilmæli AGS. Þórður Kauphallarstjóri er nokkuð hógværari í yfirlýsingum sínum, en telur þó að vextir verði að vera komnir í 6-7% fyrir mitt ár 2010. Ásta Dís viðskiptadeilarforseti talar í kennisetningum, sjáandi þó að vextir séu of háir, og ber við óvissu um að ekki sé hægt að gera það sem gera þarf.

Ég tel að ein helsta ástæðan fyrir þeirri óvissu sem hér ræður ríkjum og ummæli Skuggabankastjórnarinnar vitna um er einfaldlega þessi misvísandi hávaxtastefna Seðlabankans og sá heilaþvottur sem talsmenn hans og þeirrar stefnu hafa ástundað því til stuðnings.
Enginn nógu málsmetandi aðili hefur þorað að andmæla þessari röngu stefnu af hræðslu við hótanir kennisetninga, AGS og "alþjóðasamfélagsins". Það er eins og menn haldi að erlent lánsfé og erlendar fjárfestingar sæki til Íslands einvörðungu ef vextir eru nógu háir og margfalt hærri en í viðskiptalöndum okkar. Það er blekking í stöðunni í dag, þótt það eigi við almennt séð í kennisetningum og viðeigandi forsendum í fræðaheimi.
Erlendir innleggjendur og innistæðueigendur hafa brennt sig nóg á Íslensku fjárvörslukerfi við bankahrunið og fýsir lítt að geyma fé sitt hér þrátt fyrir háa vexti.
Hins vegar eru erlendir fjárfestar þeim mun líklegri til að fjárfesta í fyrirliggjandi og nýjum fyrirtækjum hérlendis ef rekstrargrundvöllur þeirra er ekki fyrirfram óásetjanlegur með okurvöxtum eins og nú er.
Lágir vextir eru því ein af forsendum fyrir því að stuðla að erlendum fjárfestingum hérlendis, en ekki háir vextir.
Við Íslendingar (a.m.k. margir) viljum fá hingað inn í landið erlendar fjárfestingar í föstum fjármunum sem skapa atvinnu og verðmæti og skattatekjur en ekki bara erlendar innistæður á banka sem sveifla gengi krónunnar fram og til baka eftir geðþótta hinna erlendu innleggjenda.
Öflugt framleiðslu- og efnahagskerfi er forsendan fyrir batnandi hag landsmanna.

Á meðan Seðlabankinn lemur fræðahausum starfsmanna sinna við sama hávaxtasteininn hamast ríkisstjórnin við að deila við Breta og Hollendinga um ósanngjarnan og óréttmætan málatilbúnað þeirra í stað þess að einbeita sér fyrst og fremst að viðreisn efnahagskerfisins innanlands á fyrirliggjandi forsendum. Einnig skortir mikið á að leitað sé nýrra leiða til úrlausnar á vandanum og nýrra viðskiptasambanda fyrir Ísland til lengri tíma litið.
Heimili og fyrirtæki, forráðamenn fyrirtækja og fólkið í landinu geta ekki horft upp á þetta ráðaleysi lengur. Það er ávísun á sömu deyfðina og framtaksleysið sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf og niðurdrepandi orðræðu hérlendis undanfarið ár.

Hér þarf kjark og dug til að lækka vextina niður á svipað stig og er í viðskiptalöndunum umsvifalaust. Það er helsta ráðið til að koma digrum innistæðum í bönkunum í vinnu og ávöxtunar í arðsömum rekstri fyrirtækja og lífvænlegrar atvinnusköpunar. Þar með fengju a.m.k. innlendir fjármagnseigendur vissu fyrir því að framkvæmdir og rekstur væru fýsilegri til ávöxtunar fjárins en að geyma það hreyfingalaust á, sem þá yrði, "lágum" vöxtum í bönkum.


mbl.is Lækka vegna gengishækkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skima frekar eftir reykingum

Ég er ekki frá því að fyrr ætti að ráðast með harkalegum hætti gegn reykingum fólks heldur en eyða fjármunum í svona skimun sem vísbendingar eru um að ekki gagnast sem skyldi, nema þeim sem selja slíka þjónustu.

Bæði er þörf á sterkum áróðri og upplýsingamiðlun gegn reykingum og öflugu forvarnarstarfi gegn því að börn, unglingar og aðrir hefji reykingar. Fremur bæri því að skima eftir því hvar reykingar eru stundaðar og bregðast við með viðeigandi hætti.

Reykingar eru almennasti sjúkdómsvaldur sem um getur, enda ekki nema von þar sem í tóbaki finnast á fjórða þúsund eða um 4000 eiturefni. Um 4000!

Ef fólk hugsar sig vandlega um þá ætti það að svara eftirfarandi spurningu, hver fyrir sig:

"Vil ég anda að mér banvænum og hægdrepandi eiturefnum af fúsum og frjálsum vilja, oft á dag?" Eiturefnum, sem eru einn helsti sjúkdómsvaki af hvers kyns tagi, svo sem lungnasjúkdóma, blóð- og æðasjúkdóma, taugasjúkdóma, geðröskunarsjúkdóma, krabbameins og margra fleiri sjúkdóma. - Hvað getur þú nefnt til viðbótar? - Að ekki sé minnst á kostnaðinn og lífshættulega mengunina fyrir aðra en bara sjálfan reykjandann.

Einn óbeinn "kostur" við reykingar eru þó sá að hann styrkir framleiðendur og seljendur tóbaks fjárhagslega. Væri samt þeirri fjárhagsaðstoð ekki betur varið til góðgerðarsamtaka, eða bara fjölskyldunnar sjálfrar. Ekki veitir henni og "náunganum" í samfélaginu af stuðningi. Tóbaksframleiðendur eiga nú þegar digra sjóði eftir dyggan stuðning fórnarlamba sinna, reykingaþrælanna og -fiktaranna, lífs og liðinna gegnum árin.

Því hefur verið haldið fram að helsta og öflugasta og almennasta atriðið til þess að skera niður kostnað í heilbrigðiskerfi lands til lengri tíma litið sé að stemma stigu við reykingum fólks og stuðla að minnkun þeirra. Í kjölfarið minnkar afleiddur kostnaður vegna hvers kyns krankleika fólks af völdum reykinga.
Þeim fjármunum sem þannig sparast væri betur varið til annarra hluta, t.d. lækninga og meðferðar á "óumbeðnum" sjúkdómum og öðrum aðkallandi heilsufars- og þjónustumálum.


mbl.is Skimun fyrir blöðruhálskrabba sætir gagnrýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikann þarf að orða frammi fyrir heiminum

Helst er von til þess að sannleikurinn komi fram að um hann sé rætt.

Þöggunin í þjóðfélaginu bæði inn á við og út á við, studd af undirlægjuhætti og þrælsótta við meint yfirvöld af hvers kyns tagi, er til þess fallin að dylja sannleikann.

Hér sem á mörgum öðrum sviðum er helst til ráða að benda á og orða sannleikann í votta viðurvist frammi fyrir þeim sem sannleikann þarf að heyra og viðurkenna þurfa hann opinberlega, rétt eins og lýst er svo vel í sögunni um  nýju fötin keisarans.
Það er lýsandi dæmi um hvernig blekkingar, kúgun, þöggun og meðvirkni eru hagnýtt með óprúttnum hætti af sérhagsmunaseggjum til þess að níðast á almenningi, þjóðinni, og gera hann að féþúfu og kúguðum lýð sem er gert að blæða blóði, svita og tárum við að borga fyrir velferð annarra.

Slíkan sannleika er forseti Íslands að orða frammi fyrir nágrannaþjóðum okkar, frændþjóðum á Norðurlöndum sem og öðrum Evrópuþjóðum og heiminum öllum.
Eins og hann nefnir sjálfur í athugasemdum sínum er óþægilegt að koma fram með slíkar ábendingar, enda óþægilegt fyrir þá sem skyldu taka þær til sín.

Á meðan situr ríkisstjórn landsins í brothættri skel sinni og hæðist að þjóðinni með því að kalla þjóðaratkvæðagreiðslu hennar markleysu og lætur hjá líða enn einu sinni að nýta það tækifæri sem gafst til að ná eyrum alþjóðlegra fjölmiðla. Það er hneisa og til skammar fyrir hana og erfitt fyrir almenning að útskýra slíkt aðgerðar- og ráðaleysi eigin ríkisstjórnar frammi fyrir furðu lostnum erlendum fréttaspyrlum.

Þessa ríkisstjórn batt meirihluti þjóðarinnar vonir sínar við fyrir síðustu kosningar og gaf henni dýrmæt atkvæði sín. Ekki er að furða að fylgi við ríkisstjórnina fer minnkandi ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Það er hörmulegt ef ríkisstjórnin ætlar ekki að standa undir væntingum og réttmætum kröfum kjósenda sinna og þjóðarinnar allrar.

Niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010 sýnir svo ekki verður um villst, nema fyrir veruleikafirrta einstaklinga, að meira en níu af hverjum tíu kjósenda eru ósammála þeirri lausn sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á í Icesave-málinu og neytt upp á almenning gegnum naumt samþykki Alþingis í tvígang. Slíkum málalyktum hafnar þjóðin í því máli með skýrum og skiljanlegum hætti.


mbl.is Segir Norðurlöndin hafa beitt Ísland þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gangast ekki við eigin lögum!

Skrýtið mál Icesave! Meira að segja þeir sem harðast gengu fram í samþykkt laganna, forsætisráðherra og ekki síst fjármálaráðherra, ætla síðan ekki að mæta á kjörstað og greiða atkvæði sitt með þeim! Fjármálaráðherran lagði jafnvel embætti sitt að veði s.l. sumar við að lögin yrðu samþykkt þá.

Ekki er furða að aðrir kjósendur skuli hugsa sinn gang og hugleiða að mæta á kjörstað og kjósa NEI, fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Forsætisráðherra rataðist þó eitt rétt orð í munn í þessu ömurlega viðtali. Hún sagði að sér fyndist það "dapurlegt" að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan (í sögu lýðveldisins) skuli snúast um svona "markleysu".
Það er hárrétt! Það er afskaplega dapurlegt fyrir þjóðina að ríkisstjórnin skuli hafa klúðrað málarekstrinum kringum Icesave svo kyrfilega að þessi staða kom upp.


mbl.is Steingrímur: Ólíklegt að ég kjósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eftir sínu viti"!

Ekki er að furða að varnarbandalagið furði sig á furðulegum orðum forsætisráðherra, enda eru þau merkingarlaus og hljómuðu hjá ráðherranum eins og rulla sem samin er fyrirfram af leikritsskáldi sem leikarinn skilur ekki hvað þýðir en þylur bara með tilburðum.

Forsætisráðherrann okkar sagði í fréttaviðtali við já-fréttamann á rúv að þetta væri skoðun sín samkvæmt "sínu viti". - Það er nú svo. Þar fór í verra. Ja, Guð blessi Ísland! Ekki veitir af.

Ekki er að furða að ástand landsmála er eins dapurlegt og það er; Landstjórnin spólandi á einu hjóli í sama hjólfarinu í Icesave-málinu og enginn um borð í ríkisstjórnarlimósínunni veit hvað gera þarf, enda tekur stjórnin ekki góðum ráðum þar að lútandi. Áttar sig ekki á því hvað góð ráð eru. Hefur bara "sitt vit" að leiðarljósi.

 


mbl.is Furðar sig á ummælum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur markleysa frá kjósendum - og fagmennskan uppmáluð frá RÚV?

Það er merkilegt að þegar forsætisráðherra Íslands er tekinn tali um Icesave-málið og fullyrðir að áformuð þjóðaratkvæmagreiðsla á laugardaginn, 6. mars 2010, sé "markleysa", án þess að telja nein rök því til stuðnings, þá þegir fréttamaður þunnu hljóði og spyr ekki hvaða ástæður eru fyrir þeirri skoðun ráðherrans!
Þetta væri skiljanlegt ef um væri að ræða leikþátt hjá Spaugstofunni eða þess háttar, en þegar RÚV á í hlut þá blöskrar manni. Ekki síst þegar nýbúið er að skipta út reyndu fólki þar fyrir væntanlega enn hæfara fólk! Eða hvað?

Yfirlýsing forsætisráðherra stendur þó upp úr og er hún ekki boðleg þjóðinni, sem samkvæmt leikreglum lýðræðisins og stjórnarskrá landsins á að fara að tjá sig formlega um mikilvægt málefni. Er forsætisráðherra að segja að markleysa komi frá kjósendum?!


mbl.is Kosningarnar blasa við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband