Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
6.1.2011 | 00:52
Upplýsing háskólakennara
Ég hef áður í spurn eftir umræðu háskólakennara og viðkomandi embættismanna í bloggi og dagblöðum, um t.d. efnahagsmál landsins, velt fyrir mér hvort þögn þeirra um slík mál stafi af hræðslu þeirra við að tjá sig á opinberum vettvangi af einhverjum ástæðum. Það er afleit staða. Svona á standandi fæti koma mér einungis tveir háskólaprófessorar í hug sem hafa verið áberandi og duglegir við að viðra skoðanir sínar um landsmálin á opinberum ritvangi, hvor með sína hugmyndafræði og túlkanir að vopni. Hvað eru allir hinir að hugsa?!
Almenningur á það skilið að t.d. háskólakennarar og ekki síst fólk með doktorsgráðu marki sér tíma til að rita á skiljanlegu máli á grunni menntunar sinnar um mál sem eru ofarlega á baugi hverju sinni og leitist með því að varpa fræðilegu ljósi á umræðuna og vega og meta hina margvíslegu fleti sem iðulega eru á hverju máli á grundvelli fræða sinna.
Ég óska Bryndísi Hlöðversdóttur, hinum nýja rektor Háskólans á Bifröst, til hamingu og farsældar í brautryðjandi starfi. Hún virðist samkvæmt meðfylgjandi frétt drepa tilhlýðilega á þetta mikilvæga atriði í innsetningarræðu sinni og eru slík hvatningarorð skólayfirvalda með svo áberandi hætti löngu tímabær. Hún setur hér gott fordæmi fyrir kollega sína.
Í þessu sambandi vil ég minna "þögula" háskóladoktora og -kennara á grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar. Það er ritgerðin "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), sem hann samdi í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinar sinnar:
"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!".
Takið því til máls góðir heilar! Þið hafið fullan rétt á því og eigið ekki að þurfa að óttast einhverjar refsingar af yfirmönnum.
Hvað segið þið um t.d. kosti og galla aðildar Íslands að ESB, samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og forsendur fyrir nýjum áherslum í menntunar- og atvinnumálum, og orku- og auðlindamálum Íslands svo fáein mikilvæg umræðusvið séu nefnd? Hverjar eru líklegar afleiðingar mismunandi valkosta á þessum sviðum?
![]() |
Háskólafólk óttist ekki að tjá sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.1.2011 | 11:40
Enga viðkvæmni né hálfkák við könnun á hagsmunum Íslands
Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að nýta þau fjárframlög eða styrki sem fáanlegir eru hjá ESB við könnunarviðræður og athugun á aðild.
Þá ber að nýta sem best og mest til að rannsaka á heiðarlegan og faglegan hátt kosti og galla fyrir Ísland við aðild. Allt tal um annað lýsir ótrúverðugleika viðkomandi.
Alþingismenn og ráðherrar sem gerast sekir um slíkar úrtölur og bregða jafnvel fæti fyrir faglega og hlutlausa tölulega rannsókn á afleiðingum aðildar Íslands að ESB eru með slíkri þröngsýni ekki að þjóna hagsmunum þjóðarheildarinnar og ættu í því ljósi ekki að gefa sig út fyrir að vera fulltrúar almennings.
Þeir ættu að hugsa sinn gang alvarlega út frá hagsmunum þjóðarheildar en ekki þröngsýnum sérhagsmunum tiltekinna hópa eða atvinnugreina.
Ef þeim er þetta um megn ættu þeir tafarlaust að fara úr embætti eða vera settir af ella; með kosningum ef viðkomandi stjórnmálaflokkar eru vanmegnugir eða þverskallast við að þjóna þjóðarheildinni í málinu.
Við athugun á afleiðingum aðildar Íslands að ESB ber fyrst og fremst að leggja tölulegt mat á alla þá þætti sem tækir eru til slíks (megindleg greining) og skilgreina einnig þá þætti sem síður eða ekki er hægt að setja magn- eða verðmiða á (eigindleg greining).
Þá fyrst að slíkir þættir hafa verið skilgreindir og kortlagðir á skiljanlegan hátt fyrir almenning er hægt að ræða um kosti og galla aðildar á hlutlægan hátt. Þá fyrst má hleypa tilfinningalegum og rómantískum rökum að málinu, eins og hverjum sýnist fyrir sitt leyti er fólk gerir upp hug sinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Annað er ómarkvisst kák og bull.
Þeir sem í þröngsýni sinni og sjálfsblekkingu eða vegna sérhagsmunagælu stinga höfðinu í sandinn eins og strútar og vilja ekki fá töluleg rök um staðreyndir upp á borðið og lýsa því yfir í yfirdrepsskap sínum að hafna beri öllum "mútum" frá ESB við athugun á aðild ættu að skammast sín.
Slíkt fólk er ekki hæft til að sitja á Alþingi allra landsmanna og enn síður að verma ráðherrastóla.
Slíkt fólk þverskallast með þeirri hegðun við að gæta hagsmuna almennings í landinu að því er varðar stefnumörkun og það að kanna hugsanlega valkosti er kynnu að gagnast þjóðarhag best í samfélagi þjóða.
Fólk sem fyrirfram gefur sér niðurstöðu í þessu máli sem öðrum sýnir með því óskynsamlega og ófaglega breytni og er ekki hæft til að vera fulltrúar þjóðarinnar.
Alþingismenn og ráðherrar og annað áhrifafólk sem þar að auki leggja í störfum sínum vísvitandi stein í götu hlutlægra rannsókna og athugana á kostum og göllum aðildar Íslands að ESB eru í hæsta máta ótrúverðugir og sem Þrándur í götu á vegferð þjóðarinnar í leit að hagstæðum úrræðum við stefnumörkun.
![]() |
Styrkir vegna ESB-umsóknar er viðkvæmt mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2010 | 01:45
Spennandi hermilíkan um lífheim
Svona hermilíkan er afar spennandi hugmynd. Við það að tengja saman þekkingu úr öllum heimshornum, greina hana, túlka og öðlast skilning á þeim gagnvirku ferlum sem að baki liggja í samfélagi manna á hverjum "stað" er opnuð leið við þróun aðferða til að spá og/eða sjá fyrir um meginatburði sem líklegir eru að koma til vegna undirliggjandi þróunar í lífheimi jarðar háð tíma. Það gefur mönnum aftur á móti möguleika á því að bregðast við fyrirfram eftir föngum og grípa inn í óheillavænlega þróun.
Þá komum við að því praktíska atriði að hvaða leyti mönnum mismunandi stétta, þjóða, menningarsvæða og landsvæða tekst að koma sér saman um aðgerðir í því sambandi.
Orð eru til alls fyrst. Þegar grundvöllur upplýsinga og þekkingar um hnattræn ferli batnar með þessum aðferðum og tilheyrandi rannsóknarvinnu batna horfur á því að mannkyni sem heild farnist betur en ella.
Hitt er annað að samfara svona greiningartæki kemur líka hætta á því að stórveldi notfæri sér upplýsingar á þeim grunni í sérhagsmunaskyni, t.d. varðandi álitamál hernaðarlegs eðlis.
Við verðum að vona það besta. Notkunarmöguleikarnir á grunni svona hermilíkans eru óteljandi. Rannsóknarvinna við gerð þess býður einnig upp á alþjóðlegt samstarf á þessum vettvangi þar sem hver þjóð getur lagt sinn skerf á sviði bæði raunvísinda og hugvísinda á vogarskálar.
Í samhengi hnattræns líkans fyrir ýmis gagnvirk hegðunarmynstur í lífheimi vega ekki síst hugvísindi á sviði t.d. hagfræði, sálfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og trúarbragðafræða þungt; sérstaklega vegna þess að erfiðara er að kveða á um virkni mannlegra þátta heldur en vélrænna lögmála á sviði raunvísinda. Mannlegir og vélrænir þættir spila svo aftur á móti saman t.d. við mat á þróun mengunar og nýtingu náttúruauðlinda.
Þar eru þó alltaf túlkunarvandamál til staðar, eins og verkefni upp úr 1970 á vegum Rómarklúbbsins svokallaða um útreikninga á takmörkum og endingu náttúruauðlinda jarðar og afleiðingum mengunar er dæmi um (sbr. tímamótabók Meadows o.fl. The Limits to Growth 1972, í danskri þýðingu Jörgen Jakobsen Grænser for Vækst 1974, Kaupmannahöfn, Gyldendal. Sbr. einnig önnur skýrsla Rómarklúbbsins um sömu mál í bók Mesarovic og Pestel Mankind at the Turning Point 1974, í danskri þýðingu Jakobsen Hvilke Grænser for Vækst? 1975, Kbh., Gyldendal). Nýrra dæmi eru reiknilíkön um gróðurhúsaáhrif. Sameiginlegt með þessum greiningum öllum var að þær kölluðu á viðbrögð bæði fræðimanna og almennings og hugleiðingar þeirra og umræðu um þessi alvarlegu málefni sem varða forsendur fyrir áframhaldandi lífi hér á jörð.
Spennandi viðfangsefni!
![]() |
Líkan sem hermir eftir öllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2010 | 13:26
Fagleg heimska?
Íslenskur almenningur sýpur seyðið af því að hafa treyst í blindni á embættismannakerfi sitt, sérstaklega fjármála"eftirlits"kerfið, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og viðskiptaráðherra og ríkisstjórn í aðdraganda bankahrunsins 2008.
Eftirlitskerfi þetta, sérstaklega Fjármálaeftirlitið, reyndist handónýtt og þar á bæ hafa embættismenn afsakað sig að því er virðist með "heimsku" sinni, þ.e. að hafa látið upplýsingar bruggaðar af bönkunum sjálfum duga til "eftirlits" með þeim hinum sömu í stað þess að gera eigin "ad hoc" athuganir, t.d. á lausafjárstöðu bankanna og horfum á þeim vettvangi sem er grundvallaratriði fyrir rekstur banka frá degi til dags! (Sbr. pistil minn um það atriði hjá FME)
Löggiltir endurskoðendur bankanna (a.m.k. Glitnis og Landsbankans) skreyttir alþjóðlegu fyrirtækislógói í þokkabót virðast einnig ætla að afsaka sig með sams konar "faglegri heimsku" eða upplýsingaleysi, enda hefur það dugað íslenskum embættismönnum alla leið upp í ráðherrastóla vel fram að þessu, þ.e. þeirra sem fóru með þessi mál.
Það ætti að vera augljóst mál að hafi löggiltir endurskoðendur bankanna ekki fengið mikilvægar upplýsingar frá fyrirtækjunum þá hefðu þeir aðeins af þeirri ástæðu ekki átt að skrifa upp á ársreikninga! Það hefði væntanlega stöðvað bankana í meintum blekkingaleik þeirra.
Þó tekur steininn úr þegar forsvarsmaður umrædds endurskoðunarfyrirtækis gagnrýnir hina erlendu sérfræðinga sem hafa verið að skoða reikningsskil bankanna árin fyrir hrun á vegum embættis sérstaks saksóknara.
Reynist grunur og rök sérfræðinganna um stórkostlega "vangá" á rökum reist er viðkomandi endurskoðunarfyrirtæki síst í stakk búið til að hafa skoðun á gæðum þess mats.
![]() |
Vilja að ríkið höfði mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2010 | 02:48
Hverju spáði George Orwell?
Hvað kallaði George Orwell nú þetta fyrirkomulag í skáldsögu sinni 1984?
Í hvaða tilgangi taldi hann að því yrði komið á?
En, hvað um það. Myndu flutningsmenn þessarar tillögu vilja sýna sig í beinni á þessum stöðum? Ja, þeir eru ef til vill orðnir ónæmir fyrir slíku eftir að vera búnir að bera sig í beinni útsendingu á Alþingi lon og don, þar sem allt þeirra athæfi og hljóð hefur verið opið öllum þó það hafi nú ekki allt verið til að hafa eftir.
![]() |
Vilja vefmyndavélar á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2010 | 11:36
Framsal atkvæðisréttar
Þeir sem ekki nýta kosningarétt sinn á kosningadegi ákveða þar með að framselja atkvæðisrétt sinn til þeirra sem kjósa.
Í því ljósi er það Þess vegna rökvilla og/eða lýðskrum og blekkingaleikur að halda því fram að kjörnir fulltrúar í kosningum séu einungis fulltrúar þeirra (fáu) sem kusu.
Þeir sem ekki kjósa geta því ekki leyft sér að kvarta um að "fáir hafi kosið" og að hinir kjörnu fulltrúar hafi ekki mörg atkvæði á bak við sig eða séu ekki fulltrúar "stórs hluta þjóðarinnar". Þeir skulu gera sér grein fyrir því að með heimasetu sinni veittu þeir þeim sem kusu óbeint umboð til að kjósa fyrir sig um leið eins og þeim sýndist.
Það er hins vegar dapurlegt út af fyrir sig að fólk sem telur sig lýðræðissinnað skuli ekki nýta kosningarétt sinn við lýðræðislegar kosningar.
Það er hörmulegur misskilningur á lýðræðinu og þeim rétti sem það býður upp á þegar fólk segir "það þjóni engum tilgangi" að kjósa, eins og heyra mátti á sumum viðmælendum sem teknir voru tali af handahófi af fréttastofu RÚV í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings. Slíkar yfirlýsingar veruleikafirrtra kjósenda eru sláandi dæmi um áhrifamátt andlýðræðislegs áróðurs eða kæruleysis sem þannig kemur fólki til að tala gegn sínum eigin hagsmunum sem þegnar lands sem á að heita lýðræðisríki, hafi þeir raunverulega einhvern áhuga á að láta sig stjórnun þjóðfélagsins varða.
Eða, eru heimasitjandi kjósendur sem þannig nýta ekki atkvæðisrétt sinn, að biðja um einhverskonar einræðis- eða alræðisfyrirkomulag (eða fáveldisklíku flokka) þar sem þeir þurfa ekki að hugsa um hvað þeir vilja en bara taka við því sem að þeim er rétt af valdhöfum umyrðalaust?
Þetta er eins og þegar heimilsfólk er spurt að því hvað það vilji í kvöldmatinn og það svarar: "Bara eitthvað"! Þar með er þeim sem fer í matvörubúðina gefið sjálfdæmi um hvað verður í matinn í það skiptið. Heimafólk hefur þá val um að éta það sem keypt var eða svelta ella.
Ef til vill lætur það vilja sinn í ljós næst ef það vill hafa áhrif á hvað kemur upp úr pokunum, ef það verður þá spurt yfirhöfuð!
![]() |
44% fengu ekki fulltrúa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.8.2010 | 14:25
Heilvita menn og hávaxtastefna
Þeir sem sjá vilja og hafa efni til hugsunar milli eyrnanna og skynsemi til að nýta það gera sér grein fyrir því að þær forsendur sem sagðar hafa verið fyrir hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands frá því skömmu eftir bankahrunið í október 2008 hafa ekki átt við rök að styðjast, svo vægt sé til orða tekið.
Klifað hefur verið á því af hálfu Seðlabankans og stjórnvalda að verja þyrfti gengið með því að halda uppi háu vaxtastigi.
Á móti þeim rökum hefur margoft verið bent á að meðan gjaldeyrishöft eru við lýði þarf ekki jafnframt himinháa vexti til þess.
Þetta var vitað mál fyrirfram og reynslan sannar þá skoðun.
Það er ekki seinna vænna en að málsmetandi aðilar fari að andmæla þessari vitleysu. (Það eru náttúrulega aðrir en þeir sem hagnast hafa á hávaxtastefnunni).
Á þessari bloggsíðu hefur margoft verið bent á hugsunarvilluna sem hefur verið allsráðandi um vaxtastefnuna hjá Seðlabankanum. Stefna Seðlabankans hefur verið þveröfug við gamlar og góðar kenningar um fjármála- og vaxtastefnu hins opinbera, sem og heilbrigða skynsemi.
Þar má benda á pistil um Hundalógik hávaxtastefnunnar og pistil um Haldlaus hávaxtarök.
Heilvita menn sjá þessa vitleysu, eins og hún snýr að almenningi og skuldugum heimilum og skuldugum fyrirtækjum ekki síður.
Mér dettur ekki í hug annað en að gefa mér þá forsendu að starfsmenn og stjórnendur Seðlabankans séu bæði þrælmenntað og skynsamt fólk.
Í ljósi þess verður að spyrja: Hvers vegna hefur þá hávaxtastefnan verið við lýði úr því að gjaldeyrishöftin hafa staðið óhögguð áfram?
Ef við útilokum að þekkingarleysi og dómgreindarleysi í Seðlabankanum valdi, þá hlýtur Seðlabankinn að vera undir aga og stjórn annarra aðila.
Hverjir gætu þeir þá verið?
Er það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða fjármagnseigendur, innlendir og erlendir, sem eiga fé og digra sjóði á háum innlánsvöxtum eða "traustum" hávaxtaberandi skuldabréfum íslenska ríkissjóðsins? Hvað um það, afleiðingin er sú sama fyrir skuldara.
Með hávaxtastefnunni hafa allir skuldarar á Íslandi, heimili og fyrirtæki, verið að greiða þeim sem best eru staddir fjárhagslega háar vaxtagreiðslur, þegar síst skyldi í þokkabót.
Vaxtagreiðslurnar hafa nánast verið millifærðar beint frá þrælpíndum skuldurum (skuldaþrælum) til innistæðueigenda. Það sem kórónar vitleysuna er svo verðtrygging lána sem hingað til hefur verið útfærð þannig að allri áhættu af verðlagsþróun er velt yfir á skuldara 100%.
Þetta er það réttlæti sem almenningi á Íslandi í góðri trú hefur verið boðið upp á.
Almenningur, skuldugu heimilin og skuldugu fyrirtækin, geta ekki staðið undir þessu til lengdar. Hvers vegna ættu þau að gera það?
![]() |
Telja eitthvað bogið við íslenska peningastefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.6.2010 | 14:07
Bull-siður án tölulegra raka
Enn á ný koma úr þessum ranni afdrifaríkar yfirlýsingar fyrir almenning þessa lands, sérstaklega skuldug heimili og fyrirtæki án þess að töluleg gögn fylgi með til rökstuðnings.
Skemmst er að minnast yfirlýsinga viðskipta- og efnahagsráðherra og seðlabankastjóra sjálfs um þessi mál án þess að þeir styddu þær með tölulegum gögnum til sannindamerkis.
Þetta virðist orðinn algjör siður hjá þeim og mörgum öðrum að tala út í loftið í krafti embættis síns án þess að styðja mál sitt (bulla) og ákvarðanir með tölulegum rökum sem sýni fram á hvers vegna þeir haldi skoðun sinni fram "í þágu almannahagsmuna".
Einungis á grunni tölulegra gagna er hægt að ræða efnislega um málið jafnt sem siðferðis- og tilfinningalega, ekki síst til að forðast óþarfa misskilning.
Þetta er ólíðandi og að óbreyttu kyndir það undir hugmyndum um að ekki sé allur sannleikurinn sagður í málinu.
Er það gert af "tillitssemi" við almenning til að forða honum frá óþarfa skelfingu eða er verið að svína á almenningi? Það er spurning dagsins.
![]() |
Í þágu almannahagsmuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2010 | 00:55
Drekarnir eiga samleið
Það er hið besta mál að efla samskiptin við Kína, og þó fyrr hefði verið.
Auk þess væntanlega að fela í sér ávinning fyrir báða aðila gerir það stöðu Íslands sterkari í margumræddu "alþjóðasamfélagi", sem ekki hefur verið okkur allt of hliðhollt upp á síðkastið hér vestra.
Hér hafa bæði innlendir og erlendir óskaplega óprúttnir fjárglæframenn og fyrirtæki þeirra og bankar í vestrænum fjármálaheimi leikið efnahag Íslands grátt og kenna svo skammsýnum íslenskum almenningi um allt saman.
Þess vegna er afar mikilvægt að Ísland skapi sér sterkari samningsstöðu út á við með því að efla viðskipti og vinsamleg samskipti við fleiri blokkir en þá evrópsku. Þar erum við að ræða um t.d. Kína og NAFTA.
Kína er mjög athygliverður kostur vegna þess að ég held að við eigum samleið að ýmsu leyti í menningarlegu tilliti auk hins viðskiptalega. Sú samleið er djúpstæð og felst í gömlum menningararfi og þjóðareinkennum sem að sumu leyti eru afar frábrugðin, en að öðru leyti svipuð.
![]() |
Ræddi drekasvæðið í Kína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.6.2010 | 13:53
Sérhagsmunir eða almannahagur
Stjórnmálamenn, ekki síst alþingismenn og ráðherrar, ættu að temja sér að halda hagsmunum almennings á lofti fremur en sérhagsmunum. Sérstaklega er neyðarlegt ef þeir verða uppvísir að skollaleik tveggja skjalda í þeim efnum, eða að væna aðra um tiltekin óæskileg viðhorf sem þeir sjálfir hafa. Talandi um heiðarleika og réttsýni!
Þeim mun aftur á móti vel farnast ef þeir temja sér gullna reglu í samskiptum sínum við þjóðina alla.
Ég hugsa að almenningur í landinu, ekki síst kjósendur og jafnvel fjármagnseigendur, vilji ekki að efnahag tugþúsunda heimila og þar með efnahag landsins og flestra sem hér búa verði rústað og frið og samfélagssáttmála þar með einnig kastað á sorphauga bankahrunsins.
Ég trúi því líka að fjármagnseigendur eins og aðrir eigi ættingja og vini sem hafa orðið fyrir barðinu á bresti íslenska fjármálakerfisins og þeim einstaklingum sem því ollu í gjörðum sínum eða vangjörðum og þeirri trú og siðferðisleysi sem þar kynti undir.
Er fjármagnseigendum og talsmönnum þeirra hjartanlega sama um það fólk sitt líka?
Þá færi að húma að í íslensku samfélagi og hugmyndir um nánara (efnahags)samband við siðrænar þjóðir yrðu ekki svo vitlausar. "Þjóðin" myndi þá hvort eð er ekki eiga neitt val. Það yrði uppboð.
![]() |
Segir sveiattan" við málflutningi Gylfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)