Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Örvæntingarfullir Írar

Það er afar afhjúpandi fyrir þá stöðu mála, þegar búið er að hneppa þjóð í fjötra skulda og miskunnarlítilla lánardrottna, að sjá innslag í umræðu á írska þinginu í írskum umræðuþætti, Tonight with Wincent Browne þ. 5.4.2011 (03:15, ..)
Í þættinum er rætt við írska þingmenn um hrikalega skuldastöðu Íra og hvernig fara má að því að endursemja um eða minnka þær skuldir, sem stjórnin yfirtók af bankakerfinu þar í landi án þess að spyrja þjóð sína, í þeirri viðleitni að bjarga landinu úr sligandi kreppu. Mönnum er þar heitt í hamsi svo að minnir á kunnuglegar aðfarir viðmælenda í íslenskum viðræðuþáttum þar sem hver talar ofan í annan.
Lilja Mósesdóttir er á meðal viðmælenda og leggur þar röggsamlega meitluð orð í belg um hvernig brugðist var við á Íslandi og hvað er í gangi nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave og hvað Írar geta lært af reynslu Íslendinga í þessum málum.
Írar horfa eftirvæntingarfullir til úrslita kosninganna á Íslandi í spurn um hvernig íslenska þjóðin bregst við ofurkröfum evrópska fjármálakerfisins; hvort hún reyni að sporna við með því að hafna Icesave-lögunum þar sem hún er ekki komin með snöruna um hálsinn eins og sú írska. Að því leyti virðast þeir horfa öfundaraugum til íslensku þjóðarinnar og að eiga ennþá val.
mbl.is Hafa samúð með Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhættuþáttur við Icesave-skuldsetningu

Þrátt fyrir rök í þeim dúr sem Þór Saari hefur bent á gegn Icesave-lögunum halda meðmælendur laganna því fram að það sé á skuldsetningu íslenska ríkisins bætandi með því að samþykkja lögin! Með því væri náttúrulega þvert á móti þeim mun fastar hert á kyrkingartaki á lífrás ríkisfjámálanna, eðli málsins samkvæmt.

Ég bendi á rök um mikilvægan áhættuþátt í þessu sambandi í tengslum við Icesave-samninginn sem fram kom í panelumræðum Sjónvarpsins í gærkveldi 7.4.2011, sbr. pistil minn þar um.


mbl.is Ísland stefnir í greiðsluþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaðurinn við "þægilegt" já-Icesave

Í grein Þórs Saari í Morgunblaðinu, í dag 8.4.2011 s. 21, kemur fram hverjar afleiðingar af samþykki á Icesave-lögunum myndu hafa fyrir ríkissjóð:

"Peningar fyrir greiðslunum á Icesave eru ekki til í ríkissjóði og fást eingöngu með því að hækka skatta eða skera frekar niður og hvor sú leið eða sambland beggja myndi við núverandi aðstæður vera atlaga að grunnstoðum samfélagsins og sennilega ganga endanlega frá öllum möguleikum um hagvöxt."

Þetta ættu "latir" kjósendur að hafa í huga sem ætla sér að samþykkja lögin með já í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun, af því að þeir "nenna ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur" eða af því að þeir eru "orðnir hundleiðir á þessu Icesave". - Hvílík rökleysa og dapurlegt viðhorf! Þeir ættu að leggja það á sig að fórna nokkrum mínútum í að hugleiða það sem kemur fram í eftirfarandi, en það ætti að vekja þá til betri vitundar.

Í kosningaumræðuþættinum í Sjónvarpinu um Icesave í gærkveldi, 7.4.2011, kom fram afar mikilvægt atriði í þessu samhengi.
Í panelumræðunum í síðasta hlutanum kom fram í skýru og trúverðugu máli Jóns Helga Egilssonar verkfræðings að ef neyðarlögin yrðu felld úr gildi (mál um það er fyrir dómstólum) myndi reikningurinn til Íslands hækka samdægurs um 351 milljarð kr, en það er tíföld sú upphæð sem "Áfram-fólkið" ásamt fjármálaráðherra telur líklegt að samþykki á lögunum muni kosta. Við þetta myndu erlendar skuldir ríkisins tvöfaldast! - Þetta er hrikalega afgerandi atriði.

Sjá umræðuþáttinn á rúv: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4575504/2011/04/07/ 
Umræða Jóns Helga um þetta atriði hefst á staðnum (klst:mín) 01:21:00

Einnig koma fram í máli Jóns G. Haukssonar ritstjóra mikilvæg atriði um hræðsluáróðurinn um lánshæfismat Íslands verði skuldabagginn ekki settur á ríkið, staður 01:15:30. Um það atriði hef ég fjallað í pistli nýverið og undir það sjónarmið tekur hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.


mbl.is Þór Saari: Yfirskuldsett hagkerfi þarf ekki erlend lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki lokað á fjármagnsflæði til Íslands

Eins og fram kemur í innsæislega trúverðugri grein Jóns Gunnars Jónssonar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, 7.4.2011 s. 7. virðist blasa við að mat alþjóðlegs matsfyrirtækis eins og Moodys um lánshæfi Íslands sé rangt og byggt á vanþekkingu og þar með (e.t.v. óafvitandi) blekkingum og hins vegar, sem skiptir meira máli í reynd, að "alþjóðlegir eru galopnir fyrir íslenska ríkið", eins og segir í grein Jóns.
Kjósendur sem hafa trúað á rök meðmælenda laganna um að "lokað" verði á Ísland að því er fjármagnsflæði varðar verði lögunum hafnað, ættu því að huga að þessu atriði og leyfa sannleikanum að renna upp fyrir sér með því að lesa greinina og pæla í þessum hlutum með eigin hyggjuviti. Einnig ættu menn að velta fyrir sér hversvegna ólmustu meðmælendur laganna halda þessu fram, og hverjir gera það.

Í þessu ljósi er málflutningur Tryggva Þórs Herbertssonar alþm. í Fréttablaðinu í dag, s. 22, haldlítill þar sem hann byggir einna mest á þeirri forsendu að lánshæfismat matsfyrirtækja á Íslandi muni lækka við höfnun Icesave-laganna.
Það sem hann telur í máli sínu þar leiðréttingu á "níu staðlausum staðhæfingum um Icesave" um rök andstæðinga laganna virðist þannig byggja á röngum forsendum.


mbl.is Segir álit Moody's engu skipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hva?! Erlendir fjárfestar! Já-sinnar segja hið gagnstæða!

Frétt um að erlendir auðkýfingar hafi fjárfest í fyrirtæki á Íslandi ætti að segja íslenskum kjósendum að þær fullyrðingar meðmælenda hinna glórulausu Icesave-laga um að allur alþjóðlegi fjármálaheimurinn loki á Ísland verði lögunum hafnað er hrikalegur misskilningur, mismat, heimska eða í versta falli blekkingar einar.

Eins og ég bendi á í pistli mínum um það hvað ráði fyrst og fremst áhuga erlendra fjárfesta og fjármagnseigenda við val á fjárfestingarvalkostum er það vænt arðsemi af fjárfestingunni að teknu tilliti til áhættuþátta, en ekki tilfinningaríkur söguburður aftan úr svartri fortíð einn saman. Undir þetta sjónarmið tekur skynsamur og hreinskilinn hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.

Hið skynsama sem  ríkisstjórn Íslands þarf að gera betur er að gera rekstraumhverfið á Íslandi sem mest aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta og efnahagsumhverfið stöðugt.
Síhækkandi skattar og íþyngjandi álögur á atvinnulíf og sífellt hringl með þessi atriði fælir erlenda fjárfesta frá landinu. Þetta verður ríkisstjórnin að skilja, en tveggja ára saga hennar ber því ekki vitni að hún fatti þetta. Ef til vill getur hún ekki fattað þetta einstrengingslegra "hugsjóna" sinna vegna.
Svo virðist vera sem að það sem hún telji góðar aðgerðir fyrir þjóðarhag og réttlæti hafi þvert á móti lamandi áhrif á athafnalífið í landinu og þar með eyðileggjandi áhrif á hag almennings og fyrrum launþega sem enga atvinnu fá nú orðið. - Allt út af misskilningi eða vanþekkingu á mannlegu eðli að því er lýtur að fjárfestingum!


mbl.is Erlendir auðkýfingar inn í MP banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðileggjandi skuldsetning og ósigrandi hagfræðilögmál

Það ætti að vera öllum skynsemi gæddum mönnum og konum morgunljóst að ef íslenska ríkið tekur á sig ábyrgð á Icesave-gjaldþrotinu, með því að ábyrgjast innistæður umframávöxtunar- og áhættusækinna innleggjenda samkvæmt fyrirliggjandi samningi og tilheyrandi lögum sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl n.k., þá hlýtur lánshæfismat ríkisins að versna umtalsvert eðli málsins samkvæmt.

Þegar hugsanlegir fjárfestar og lánveitendur íhuga að streyma fjármagni til Íslands þar sem ríkið á hlut að máli er áhvílandi ábyrgðapakki ríkisins og tekjugrundvöllur það sem upp úr stendur við mat þeirra á fýslileika þess þegar frá líður, en ekki málatilbúnaður og tilfinningamál manna í aðdraganda fyrirliggjandi skuldsetningar.
Hvaða erlendir fjárfestar ætli pæli í þeim atriðum þegar frá líður? Þegar kemur að spurningum um ávöxtun (mikilla) fjármuna skiptir væntur ávinningur af ráðstöfun þess höfuðmáli, ekki einhver tilfinningamál úr fortíðinni.

Hagfræðileg lögmál eru ósigrandi til lengri tíma litið! Menn sækja í það sem ódýrast og hagkvæmast er að öðru óbreyttu og það sem felur í sér sem minnsta áhættu. (Einhver kynni að segja að glæfralegir stjórnendur hinna föllnu einkabanka á Íslandi séu undantekningar sem "sanni" þá aðalreglu, en reyndar mætti segja í ljósi atburða í kringum gjaldþrot bankanna að þeir hafi litið á aðgerðir sínar og ráðstafanir í fjármálum áhættulitla - fyrir sig sjálfa; ábyrgðin lenti á öðrum!). Þess vegna mun raunveruleg skuldsetning ríkisins vera það sem ráðstafendur fjármagns horfa á en ekki það hversu "góðir" Íslendingar kynnu að hafa verið við erlent fjármagnskerfi með því að axla glórulausar skuldaklyfjar.
Eru Íslendingar borgunarmenn og eru fyrirtæki staðsett á Íslandi hæf til tekjumyndunar og til ávöxtunar á fjárfestingum? Það er ein meginspurningin sem "erlendir fjárfestar" munu spyrja fyrst og fremst. Þeir munu gera sínar fjármálaráðstafanir í samræmi við svörin við þeirri spurningu.

Það er hörmulegt að hér skuli hafa myndast orðræða um Icesave-málið þar sem andstæðir hópar, "Já-sinnar" og "Nei-sinnar", berjast með í mörgum tilvikum innihaldslitlum og marklitlum slagorðum, andlitsmyndum og titlum í auglýsingum, í stað þess að leggja ofuráherslu á að kryfja málið til mergjar með raunsæum rökum um meintar efnahagslegar afleiðingar af mismunandi niðurstöðum í yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Halda mætti að sitjandi ríkisstjórn telji alla efnahagslega framtíð Íslands hvíla algjörlega á því að Icesave-lögin verði samþykkt þótt það feli í sér umrædda stórauknu skuldsetningu ríkisins með þeim afskaplega slæmu áhrifum sem það atriði út af fyrir sig hefur. Það er í hæsta máta þverstæðukennt.
Með þessum málflutningi meðlima ríkisstjórnarinnar með fjármálaráðherrann í broddi þröngsýnnar fylkingar er jafnframt horft fram hjá þeim málum sem hafa raunverulega þýðingu fyrir fýsileik erlenda aðila að fjárfesta á Íslandi.
Lykilatriði frá sjónarhóli þeirra sem vilja fjárfesta í raunverulegri starfsemi og fyrirtækjarekstri á Íslandi snýst um hið efnahagslega umhverfi landsins, reglufestu, þjóðfélagaslegan stöðugleika og möguleika til arðsemi af rekstri. Fjármagnið sækir þangað þar sem bestar líkur eru á góðri ávöxtun, en síður þangað þar sem sífellt er verið að breyta regluverki eins og t.d. skattalögum og íþyngjandi atriðum. Slíkar breytingar "yfir nótt" geta kollvarpað forsendum rekstrar erlendra aðila (og annarra); að ekki sé minnst á áhættu vegna gengisskráningar.

Ég held að það sé yfirdrifinn misskilningur á pólitískum forsendum að fjárfestar snúi sér frá Íslandi ef Icesave-lögin verði felld, en hin hliðin á sama peningi er einnig sá yfirdrifni og þverstæðukenndi misskilningur að hingað flykkist fjárfestar ef lögin verði samþykkt með tilheyrandi skuldsetningu ríkisins.
Er ekki fremur hætt við því að aukin skuldsetning ríkisins kalli á frekari skattheimtu til að standa undir afborgunum og fæli þar með fjárfesta frá landinu og kaupmáttarlítilli þjóð? A.m.k. ef stjórn landsins verður eins og í tíð núverandi ríkisstjórnar sem virðist lítið skilja hvað atvinnurekstur snýst um og hvaða forsendur þarf til þess að hann geti blómstrað með aukinni atvinnu og hagsæld fyrir þjóðarbúið.


mbl.is Ríkisábyrgðir aukast um helming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akkilesarhæll einvaldsins

Skín kærleikur til þjóðarinnar úr þessu viti og siðferði firrta ávarpi sjálfkjörins einræðisstjóra? - sem nú er meira að segja sakaður um þjóðarmorð - gegn eigin þjóð!
Hann talar um fólk sem sé truflað af ofskynjunarlyfjum og "svikara" sem bregðist þjóð sinni. Utanaðkomandi gætu haldið að hann hafi verið að tala við sjálfan sig í spegli eftir sjálfsskoðun inn á við! Ef þjóð hans hefur skynjað sinn vitjunartíma mun það "frelsa land sitt" eins og hann vonar.

Menn benda á að enginn viti hvað taki við þegar einræðisstjórnin fellur þar sem engir stjórnmálaflokkar séu sjáanlega fyrir hendi, enda var allt slíkt bannað af einvaldinum; nú í rúmlega þrjátíu ár frá því að umrætt land var síðast "frelsað" með byltingu.
Einhvers staðar verður að byrja lýðræðisferlið og öruggt má telja að það verði ekki undir stjórn einvaldsins sem ríkir með harðri hendi með heimaöldum og dekruðum her og embættismannakerfi - meðan þjóðin sveltur og fær ekki tilhlýðilega hlutdeild í auðæfum landsins.
Í þessari kúgun felst Akkilesarhæll einvaldanna. Þegar kúgunin stendur sem hæst er neyðin næst! Einmitt þá er sultur sverfur að almenningi sökum misskiptingar gæðanna úr hendi ráðamanna og hann gerir sér grein fyrir því óréttlæti sem hann er beittur í ljósi vellystinga einvaldanna fellur blekkingavefurinn sem einveldið hefur leitast við að hjúpa þjóðina með.
Neyðin rekur fólkið til aðgerða um síðir. Þá flykkist fólkið út á göturnar til að mótmæla og menn í lögreglu og her landsins munu ekki til lengdar skjóta á eigin þjóð; einfaldlega vegna þess að með því gætu þeir óafvitandi verið að skjóta á eigin fjölskyldur og vini sem einnig eru í mótmælendahópunum.
Þess vegna eru almenn fremur en staðbundin mótmæli líkleg til árangurs af því að þá er búið að persónugera þau gagnvart handbendum einvaldsins.
Af þeirri ástæðu og snefil af siðferðiskennd munu hermenn ekki ráðast á eigið fólk, sérstaklega ef upplýsingar berast til allrar þjóðarinnar um það sem er að gerast.
Fremur munu þeir snúast gegn skaðvaldinum, hinum kúgandi einræðisstjóra.

Þverskallist kúgarinn við að leggja niður völd og hypja sig á brott meðan hann hefur möguleika á því mun þjóð hans um síðir hjálpa honum til þess. Það verður væntanlega ekki með silkihönskum.
Kúgarar falla hver um annan þveran - um síðir!

Dreifing upplýsinga nú á upplýsingaöld er ógnvaldur kúgaranna.


mbl.is Gaddafi fer hvergi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsandi dæmi um launastefnu

Innihald meðfylgjandi fréttar um stefnu í kjaramálum og skiljanlegt og réttmætt andóf forystumanna Verkalýðsfélags Akraness er lýsandi dæmi um það sem ég fjallaði stuttlega um nýlega um að hugsunarháttur og viðhorf í kjarabaráttu þarf að breytast í grundvallaratriðum hér á landi, sbr. pistil minn "Hugarfarsbreytingar er þörf um kjarasamninga".

Komast þarf út úr þeim vítahring hugarfarsins að ekki sé hægt eða ekki megi hækka laun eða bæta kjör með öðrum hætti hjá tilteknum hópi launþega nema það sama gangi eftir fyrir alla aðra samtímis. Slík sjónarmið, og sem hafa verið ríkjandi hérlendis undanfarna áratugi, halda í reynd launum allra niðri til lengri tíma litið miðað við það sem þau gætu verið. 
Þannig kerfi er við haldið með allsherjar samtökum atvinnurekenda og launþega þar sem stefnan virðist vera að semja um einhvers konar "meðal-samninga". Þar er gjarnan tekið mið af lægstu mögulegu kjarabótum sem byggja og taka mið af lélegustu rekstrargreinum á hverjum tíma; því sem sú atvinnugrein sem verst stendur er sögð geta "varla" staðið undir.

Í þessu skjóli skáka síðan atvinnugreinarnar og fyrirtækin með bestu afkomuna sem sleppa þar með við að hækka laun og bæta kjör í samræmi við getu sína. Þannig virðist hátta með sjávarútvegsfyrirtækin núna. Ekki er nema von að launþegar og starfsmenn þeirra fyrirtækja telji sig órétti beitta.
Í næstu umferð gæti dæmið síðan hafa snúist við afkomulega séð meðal atvinnugreina og fyrirtækja.
Þannig fengju launþegar í hverri grein, stað eða fyrirtæki, kjarabætur sínar á mismunandi tímum í misstórum stökkum. Nákvæmlega þarna liggur nauðsynin á breyttu hugarfari til kjarasamninga.
Afleiðingin er augljóslega sú að í heildarsamningum eins og hér hafa tíðkast er tilhneiging til þess að kjarabætur taki ávallt mið af lélegustu greinunum hverju sinni.
Hættan við þessa stefnu er ennfremur sú að ef samtökum launþega tekst að herja í gegn t.d. meiri launahækkanir en t.d. helmingur atvinnulífsins getur staðið undir einhverju sinni leiðir það óhjákvæmilega til ófarnaðar og kreppu og í versta falli gjaldþrots þeirra fyrirtækja. Sú afleiðing er ekki góð fyrir launþega, a.m.k. til skamms tíma litið.

Niðurstaðan af þessum vangaveltum er augljóslega sú að taka ber tillit til rekstraraðstæðna og afkomuhorfa í hverri atvinnugrein, stað eða fyrirtæki, fyrir sig við kjarasamninga.
Afleiðingin er eðlilega sú að heildarsamtök og heildarsamningar eiga ekki við, sé markmarkið að hámarka kjör launþega til lengri tíma litið og þannig að fyrirtækin lifi af til frambúðar þrátt fyrir það.

Aftur á móti er annað mál að í heildarsamtökum felst mikill samtakamáttur, að sagt er.
Það er tvíbent fullyrðing. Hún er það í orði, en er hún það á borði? Hvað sýnir reynslan undanfarið? Skynsamir launþegar á hverjum stað sjá það í hendi sér að ekki er viturlegt að herja í gegn launahækkanir sem þeir sjá að fyrirtæki þeirra getur ekki með sanngjörnum hætti staðið undir til frambúðar. Þess vegna halda þeir að sér höndum þegar þannig háttar, trúir hagsmunum sínum og fyrirtækis síns sem þeir starfa hjá.
Á hinn bóginn ber þeim hinum sömu ekki sömuleiðis að halda að sér höndum í launakröfum sínum þegar betur og vel árar hjá fyrirtæki þeirra, "vegna þess að illa árar í atvinnulífinu almennt"! Að fara fram á það er ekki réttlátt.
Mýtan eða goðsögnin sem felst í slagorðinu um samtakamátt sem tæki í kjarabaráttu hefur undanfarið snúist upp í andhverfu sína þar sem sá samtakamáttur hefur stuðlað að því að halda niðri launum launþega til lengri tíma litið og rústa þeim óburðugri fyrirtækjum sem hafa ekki getað staðið undir þeim (lágu) meðaltalskjarabótum sem þó eru herjaðar út hverju sinni. Það er því bæði launþegum og atvinnurekendum, sérstaklega hinum smærri, í hag að semja á grundvelli aðstæðna í hverju tilviki. Heildarsamtök launþega þurfa í því samhengi að fylgjast með, afla upplýsinga um atvinnugreinar og fyrirtæki og styðja við bakið á staðbundnum launþegasamtökum að því leyti með ráðum og dáð og hafa eftirlit með því að réttindi launþega og möguleikar séu ekki fótum troðnir. Áherslur þurfa þannig að breytast á vettvangi heildarsamtakanna, en með markvissum hætti.

Stefna sem tekur mið af rekstrargrundvelli fyrirtækja á hverjum "stað" er lífvænlegri til lengri tíma litið, bæði fyrir fyrirtækin í heild og launþega í heild.
Í slíkri stefnu eiga litlu fyrirtækin eða þau sem ekki eru fjárhagslega sterk betri framtíðarhorfur en í núverandi "miðjumoðs"-stefnu þar sem sterkari fyrirtækin ráða för og halda á pálmanum þegar upp er staðið og til lengri tíma litið. Kennitöluflakk fyrirtækja sem umtalað er hérlendis er ef til vill að nokkru leyti ein afleiðing af þeirri allsherjar miðjumoðs-launastefnu. 

Við erum hér að tala um upplýstar og skynsamar og réttlátar ákvarðanir, bæði fyrir alla launþega og alla atvinnurekendur á hverjum tíma til lengri tíma litið.


mbl.is Vilhjálmur hótar úrsögn úr ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn synjar ólögunum um samþykki!

Það er með öllu ótækt út af fyrir sig að almenningur sé að taka á sig þessa gífurlegu fjárhagslegu áhættu sem fylgir samþykki á Icesave-samningnum.
Þar væri verið að skuldbinda þjóðina, almenning, til margra áratuga. Ríkisstjórn sem í mesta lagi tórir í um tvö ár til viðbótar og alþingismenn sem hafa ekki lengra umboð eiga ekki að hafa leyfi til að binda almenning, íbúa og skattgreiðendur Íslands, mörg (10?) kjörtímabil inn í framtíðina og rýra við það með stórkostlegum hætti lífskjörin.
Þess vegna verður ákvörðun um þetta að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Rök sumra um að ákvarðanir um ríkisútgjöld henti ekki til þjóðaratkvæðagreiðslna eiga því ekki við í svona risavöxnu máli sem hefur afleiðingar í marga áratugi eða til allrar framtíðar.


Hefur fólk ekki tekið eftir dæminu um kúgunina á almenningi á Haíti og afleiðingum hennar fyrir efnahag þess lands, eftir mergsjúgandi arðrán á þjóðinni þar í á aðra öld vegna óréttmætra skaðabótakrafna Frakklands? Efnahagur landsins er þar í rúst og var það áður en jarðskjálftinn þar rústaði það sem þó var til.


mbl.is Blaðamannafundur undirbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að slökkva á almennu andófi?

Málatilbúnaður sumra bandarískra stjórnmálamanna um að forseti landsins geti "slökkt á internetinu" virðist lýsa lítt dulbúinni ósk þeirra til að geta þar með dregið úr hugsanlegu andófi gegn ríkjandi stjórnvöldum þegar til slíks ástands kæmi. Sé svo lýsir það ólýðræðislegum hugsunarhætti í "landi lýðræðis og frelsis".

Í raunverulegu lýðræði er raunverulegt og skilvirkt tjáningarfrelsi. Útbreitt andóf þegnanna, að ekki sé talað um meirihluta þjóðarinnar þar að baki, kemur til vegna þess að þeir styðja ekki ríkjandi stjórnvöld í mikilvægum málum sem varða alla þjóðina, eðli málsins samkvæmt. Að ætla sér að reyna að þagga niður raddir fólksins með því að klippa á samskiptaleiðir þess eins og internetið undirstrikar vilja viðkomandi ríkisstjórnar til fara gegn vilja þess og halda völdum í óþökk þess. Hvað segja því tillögur eins og hér er um að ræða um þá sem bera þær fram?!!

Tilraunir til slíkrar þöggunar eru þó tvíeggjað vopn sem getur snúist í höndum stjórnvalda og þvert á væntingar kynt enn frekar undir óánægju fólksins og komið því út á göturnar til beinna aðgerða. Ef þjóðmálum er svo illa komið að þegnarnir una ekki lengur við það sem þeir upplifa sem kúgun af hálfu valdhafa t.d. af efnahagslegum toga og óréttlæti í skiptingu gæða lands og þjóðar þá dugir ekki að "slökkva á" interneti og öðrum fjölmiðlum. Það sýndi sig t.d. við fall Berlínarmúrsins 1989 og fall einræðisstjórna austantjaldslanda um þær mundir. Þá var internetið þó ekki komið til almennings. Fall kúgandi yfirvalda varð ekki lengur umflúið.
Svona þöggun gæti þó tafið hið óumflýjanlega og jafnvel aukið tilsvarandi hörmungar þjóðarinnar í því sambandi. Þetta gæti verið að gerast í tilteknum löndum hluta Mið-Austurlanda eins og fréttir hafa borist af undanfarna daga.
Við verðum að vona hið besta og að allt fari fram til lýðræðisáttar með friðsamlegum hætti án blóðsúthellinga. Viljum við ekki frið?!

 


mbl.is Forsetinn geti slökkt á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband