Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kæruleysi íslensku ríkisstjórnarinnar - lýsandi dæmi

Þessi niðurstaða sýnir augljóslega enn og aftur hversu illa ríkisstjórnin heldur á málum og málstað Íslendinga um Icesave-málið á erlendum vettvangi. Það er til hróplegrar skammar. Íslenskur almenningur á það ekki skilið að landstjórnin klúðri þessu máli svona ítrekað. Það er auk þess of dýrkeypt fyrir þjóðina.

það er margbúið að benda ráðalausum ráðamönnum á hvað beri að gera, bæði af vandvirkum og hugsandi bloggurum hér og greinarhöfundum í landsblöðunum, bæði íslenskum og erlendum. Allt kemur fyrir ekki. Maður spyr sig: Kynna ráðherrar ríkisstjórnarinnar sér ekki það sem fram kemur í umræðunni, né heldur ráðgjafar þeirra, eða skilja þau ekki hvað er um að ræða og hvað er mikilvægt? Eða, það sem ekki er betra, vilja þau ekki hlusta og skilja? Eftir hvaða viti og kompás er þá farið?

Hér hefur margoft verið bent á að koma þurfi umfjölluninni um Icesave-málið upp úr því snarvitlausa hjólfari sem það hefur verið í þar sem ríkisstjórnin hefur fjallað um málið á forsendum Breta og Hollendinga; það er kolröng stefna sem felst í skilningsleysi íslensku ríkisstjórnarinnar eða undirlægjuhætti, þrælsótta og þjónkun við stórveldi, eða einhverjum annarlegum sjónarmiðum sem ekki eru íslenskum almenningi í hag. Þarna hefur ríkisstjórnin spólað endalaust og árangurslaust frá upphafi valdatíma síns. Það sem verra er, hún virðist halda því áfram, ef marka má viðræður hennar við Breta og Hollendinga undanfarna daga og að því er virðist einleik hennar á svig við stjórnarandstöðuna sem hún þó þykist hafa með í ráðum.

Enn ein ábendingin um að ríkisstjórnin er að vinna á vitlausum forsendum er grein í Morgunblaðinu í dag eftir þau Ann Pettifor og Jeremy Smith hjá Advocacy International, "Hvað gerist eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna?", Mbl. 4.3.2010, s. 17.

Þar er um að ræða trúverðuga grein með innlegg í þetta mál sem er málstað Íslands til framdráttar, gagnstætt stefnu ríkisstjórnar Íslands.
Í samræmi við þær skoðanir sem margoft hafa verið viðraðar á þessu bloggi benda þau á að gagnvart Icesave-málinu er um sameiginlega ábyrgð ríkjanna þriggja að ræða, en ekki Íslands eins. Ennfremur ber ekki að samþykkja ríkisábyrgð á upphæðinni, sem er uppátekt Breta og Hollendinga að kalla "lán" sem Ísland "skuldi". Þeir leystu málið þannig upp á sitt einsdæmi í upphafi hrunsins án samráðs og undirskriftar Íslendinga. Síðan hafa þeir hamast við að klína "skuldinni" upp á Íslendinga með því að beita styrk stærðar sinnar gagnvart smáþjóð. Þetta kalla greinarhöfundar "afturvirkt ofbeldi" af hendi Breta og Hollendinga, og er það réttnefni.
Þetta sé ennfremur mál ESB og reyndar fjármálaheimsins alls, sem að öllu samantöldu er ósanngjarnt að Ísland verði látið bera eitt landa. Greinarhöfundar benda ennfremur á að gott dæmi um svívirðilegt framferði Breta og Hollendinga í þessu máli séu kröfur þeirra um vexti á "skuldinni", sem eru margfalt hærri (5,55%) en grunnvextir Englandsbanka (0,5%-1%).

Loks benda greinarhöfundar á þá augljósu staðreynd að íslenska ríkisstjórnin hefur síður en svo sinnt nægilega vel því hlutverki sínu að kynna málstað Íslendinga á erlendum vettvangi, sérstaklega í Bretlandi og Hollandi fyrir almenningi þar. Þar í felist þó hluti lykilsins að farsælari lausn málsins fyrir Íslendinga. Einnig benda þau á að íslenskur almenningur mætti láta meira í sér heyra á þessum vettvangi.

Í ljósi þess að Bretum og Hollendingum hefur tekist að hræða allt samningsvit úr íslensku ríkisstjórninni, strax í upphafi valdatíma hennar þar sem hún fór umsvifalaust á taugum í málinu, og borin von virðist að hún muni halda réttum málstað Íslands á lofti, þá stefnir í það að við íslenskur almenningur verðum að taka til okkar ráða og vinna sjálf þá vinnu sem við í góðri trú fólum ríkisstjórn og opinberum embættismönnum fyrir okkar hönd að vinna en sem hópurinn hefur ekki sinnt með jákvæðum árangri; reyndar engum árangri vegna þess að við stöndum nánast í sömu sporum enn í málinu. Ríkisstjórninni og hennar liði tókst meira að segja næstum því að koma klafanum að ósekju á Íslendinga með því að samþykkja lög um ríkisábyrgð á Icesave-upphæðinni, þetta sem þjóðin á nú að segja álit sitt á í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010! Hvílíkur árangur fyrir hagsmuni Íslands, eða hitt þó heldur!
Við þurfum sem sé sjálf að fara í víking erlendis með kynningarstarf á málstað Íslendinga og reyna sjálf að leiða almenningi þar sannleikann fyrir sjónir um málið. Ríkisstjórnin og hennar lið eru greinilega algjörlega blind í þessu máli og aðhafast ekki með réttu ráði né réttum hætti fyrir Íslands hönd. Eða er einhver von til þess að ríkisstjórnin sjái að sér og vakni af dáleiðslu Breta, Hollendinga og "alþjóðasamfélagsins" og segi NEI! við kúguninni?
Maður spyr sig hvaða réttlæti það er að greiða þessu liði laun fyrir að sinna ekki málinu af viti. Það sem þó er gert sem virðist því miður vera þvert á hagsmuni Íslands, sem er þetta: 
Ríkisstjórnin vill semja við Breta og Hollendinga um "skuld" sem þeir sjálfir bjuggu til og rukka Íslendinga um að ósekju, í stað þess að fá fyrst úr því skorið hver "sekt" Íslands er í málinu. Hvaða vit er í þessum málarekstri ríkisstjórnarinnar fyrir hagsmuni Íslands?


mbl.is Telja Íslendinga eiga að borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegja um rök Lipietz gegn nýlenduveldunum

Það er athyglivert að úr því að hollensk (og líkast til einnig bresk) stjórnvöld eru svona vel upplýst um umræðuna um Icesave-málið í fjölmiðlum á Íslandi að þau skuli ekki víkja einu orði að grein Alain Lipietz í Morgunblaðinu í dag, 12.2.2010, s. 19, "Íslendingar skulda ekkert". Þar heldur Lipietz fram ítrekað því rökstudda mati sínu að íslenska ríkinu beri ekki að yfirtaka skuldbindingar einkabankanna. Ennfremur að bresk og hollenstk stjórnvöld séu að kúga smáþjóðina Ísland með órétti.

Skyldi þess þögn bresku og hollensku kúgaranna vera vegna þess að þeir vita að rök Lipietz eru sannleikanum samkvæmt? 
Vita þeir ekki fullvel að ekki er hægt að mæla þeim í mót þótt íslenskir ráðamenn hafi snúið út úr þeim og virðast ekki geta lesið Tilskipun ESB 94/19 hvorki upp á eigin spýtur né með aðstoð hlutdrægra lögspekinga?

Aftur á móti má svo enn og aftur spyrja hvað leikmennirnir í íslensku ríkisstjórninni halda að þeir viti betur en sérfræðingurinn Lipietzt um viðkomandi regluverk ESB, úr því að þeir hafa ólmir viljað láta undan kúgunum gömlu nýlenduveldanna í þessu máli. Þetta er óskiljanleg þrjóska, enda virðist ríkisstjórnin leitast við að starfa undir huliðshjálmi ógegnsæis.


mbl.is Áform um Icesave í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Alþjóðleg Samtök RaforkuFramleiðenda" ala OPEC

Það er löngu kominn tími til að þjóðir sem framleiða og selja raforku í stórum stíl til orkufreks iðnaðar stofni með sér alþjóðleg samtök til að leitast við með því að koma í veg fyrir óréttlát og stórskaðleg undirboð á raforkuverði milli landa og það arðrán á eigendum viðkomandi orkulinda, þ.e. viðkomandi þjóða, sem af undirboðunum hlýst.

Ísland ætti vel heima í slíkum samtökum.

Með öðrum orðum væri markmið slíkra samtaka að hafa stjórn á "heimsverði" raforku sem í boði er til alþjóðlegra stórfyrirtækja sem reisa vilja orkufrek fyrirtæki eins og álver og hverskyns málmbræðslur. Einnig vegna útflutnings á hreinni raforku um rafstrengi.

Þetta væru hliðstæð samtök og OPEC (Organization of the Petroleum Exporting Countries), Samtök olíuútflutningslanda, sbr. lýsing á hlutverki þeirra:

"OPEC's mission is to coordinate and unify the petroleum policies of Member Countries and ensure the stabilization of oil markets in order to secure an efficient, economic and regular supply of petroleum to consumers, a steady income to producers and a fair return on capital to those investing in the petroleum industry." (Heimild vefsíðan http://www.opec.org/home/ ).

Það er vægast sagt afar svekkjandi fyrir almenning á Íslandi og í öðrum löndum raforkuútflytjenda að verða af ómældum tekjum vegna of lágs raforkuverðs til orkufreks iðnaðar alþjóðafyrirtækja sökum hræðslu við undirboð annarra landa á því sviði.
Með hækkandi verði á olíu í framtíðinni, eins og er til umræðu í skýrslu Bransons og félaga, verður þetta meira aðkallandi og um leið á sinn hátt auðveldara þar sem þrýstingur í eftirspurn eftir öðrum orkugjöfum vex. Það rímar við grein mína um Lífslindir og lífsstíl.

Eins og er og verið hefur hafa alþjóðleg fyrirtæki í orkufrekum iðnaði verið í stöðu til að etja orkuseljendum upp á móti hverjum öðrum með því að hóta því að staðsetja nýjar iðnaðarstarfsstöðvar "annars staðar".
Neyðarbrauð landanna eins og Íslands hefur verið að selja raforku sína á miklu lægra verði en ella væri og veita umfangsmiklar skattalegar ívilnanir í kaupbæti.
Þar að auki er hinum alþjóðlegu fyrirtækjum auðveldur leikur að haga kostnaði og "hagnaði" á hverjum stað eftir eigin hentisemi þannig að hagnaður og þar með skattastofn fyrirtækis þess í framleiðslulandinu verði minni en vera ber og hagnaðurinn síðan tekinn út í svokölluðum "skattaparadísum".
Þar með verður framleiðslulandið, eins og Ísland, af gríðarlega miklum tekjum.
Og, yfirvöld horfa "hjálparvana" og aðgerðalaus á.

Í bók Evu Joly Hversdagshetjur, sem út kom fyrir jólin 2009, eru margar frásagnir um hvernig alþjóðafyrirtæki nýta sér skattaparadísir til að skjóta hagnaði sínum undan "óþarfa" skattlagningu. Sem dæmi má nefna frásögn John Christiansen frá Jersey (s. 12-28) um hlutverk skattaparadísanna á Jersey og Guernsey í fjármagnsflutningum alþjóðlegra fyrirtækja. Það er lestur sem "fær hárin til að rísa".


mbl.is Vara við olíuskorti fyrir 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boycott og fjögurhundruðþúsundkallar

Erlendir lánardrottnar sem urðu eigendur Arion banka átta sig ef til vill ekki á því að Íslendingar hafa styrk og burði til að "boycotta" þau fyrirtæki sem þeim hugnast ekki þannig að það geri út af við þau.

Þessu ættu þeir nú þegar átta sig á, sem og íslenskir eigendur bankanna, er þeir ráðstafa fyrirtækjum sem þeir sitja uppi með eftir bankahrunið svo að ekki fari enn verr fyrir þeim.

Ef fyrirtækjum er ráðstafað til "hruns"-eigenda sem líklegir eru til að fá þungar "ákúrur" í væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og eins og nú virðist vera að koma í ljós, og þannig að almenningi yrði gróflega misboðið þá mun almenningur sé hann samkvæmur sjálfum sér sniðganga viðkomandi fyrirtæki meðan einhver annar valkostur býðst á landinu á viðkomandi vöru- og þjónustusviði. Þar með talið þann banka sem á þátt í slíku. Einn fjögurhundruðþúsundkall og tugþúsundir til viðbótar gera stóra innlánsupphæð þegar saman safnast!

Þá munu og rökréttar raddir m.a. raunverulegs samvinnurekstrar almennings fá byr undir báða vængi, eins og heyra má reyndar nú þegar. Hliðstætt hefur gerst áður í verslunarsögu Íslands. Mun þá einhver segja: "Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!"


mbl.is Ákvörðun Arion banka misbýður samfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðingar á hálu svelli Icesave

Hverjir eru grundvallarhagsmunir Íslands?
Hverjar eru afleiðingar samþykktar eða synjunar á Icesave-lögunum?

Tómas Ingi Olrich fyrrv. sendiherra og ráðherra skrifar athygliverða grein í Morgunblaðinu í dag 3.2.2010 undir yfirskriftinni “Hagfræðingur á hálu svelli”.
Þar er hann að svara grein Friðriks Más Baldurssonar hagfræðiprófessors við Háskólann í Reykjvík frá 2.2.2010 í Morgunblaðinu er ber yfirskriftina “Icesave: Mat á afleiðingum samþykktar og synjunar”.

Tómas bendir á það sem hann kallar veikleikana í úttekt Friðriks um mat á afleiðingum samþykktar eða synjunar á Icesave-lögunum. Þeir felist í óvissunni um þær forsendur sem Friðrik byggi útreikninga sína og mat sitt á. Í niðurstöðu sinni segir Tómas m.a.:
“Svo virðist sem prófessor Friðrik Már geri ráð fyrir að ef Íslendingar hafni lögunum um Icesave, setjist þeir með hendur í skauti sér og bíði. Það verði sem sagt ekkert aðhafst og menn bíði þess sem dæmdir að lenda í vandræðum.”

Þetta er lóðið! Auðvitað verður það ekki svo að þjóðin hætti að vinna að verðmætasköpun, vegna þess að ríkisstjórn landsins, hver sen hún verður, mun ekki lýðast til áframhaldandi lengdar að vinna ekki að uppbyggingu á efnahagslífi Íslands í sátt við þegna landsins.

Annað atriði vil ég ennfremur benda á, sem ekki kemur fram í ofangreindum greinum.
Friðrik Már bendir réttilega á ýmis atriði sem huga þarf að varðandi hugsanlegar afleiðingar af mismunandi ákvörðunum um málið.
Hins vegar snýst megin vandinn um að meta haldbærni forsendnanna sem reiknað er út frá.
Friðrik virðist ganga út frá því sem gefnu að trúverðugleiki Íslands og efnahagslífs þess muni standast og batna í augum erlendra lánardrottna verði Icesave-lögin samþykkt og að  hið gagnstæða muni gerast ella.
Þetta er afar hæpin forsenda í sjálfu sér sem hvílir að miklu leyti á tilfinningalegum rökum.

Erlendir lánardrottnar og hugsanlegir erlendir fjárfestar á Íslandi munu ekki taka ákvarðanir út frá samúð með Íslendingum eða á grundvelli tilfinningalegra atriða, heldur út frá köldu mati og áliti sínu á innviðum íslenska efnahagskerfisins, framleiðslukerfinu og tengdum þáttum og möguleikum þess og getu til að skapa verðmæti, þar með talið arð af viðkomandi fjárfestingum.

Grundvallarforsenda fyrir umsnúningi á högum Íslands hvílir því á framleiðslukerfi landsins og forsendum þess og væntri framtíð. Það verður undir öllum kringumstæðum að styrkja með ráðum og dáð, hvað svo sem verður ákveðið í Icesave-málinu.
Ef framleiðslukerfið koðnar niður, þá er voðinn vís með meiri líkum en ef Icesave-lögunum yrði hafnað.

Stjórnvöld ættu því að beina mestum kröftum sínum að uppbyggingu framleiðslukerfis landsins og innviðum efnahagslífsins og vinna í samræmi við heilbrigðan þjóðarvilja í stað þess að slást við þjóðina og halda til streitu rökum í Icesave-málinu sem hugnast bresku og hollensku ríkisstjórnunum og svokölluðu “alþjóðasamfélagi”, að því er virðist af hræðslu einni saman eða dómgreindarleysi og aðgerðarleysi varðandi það að koma málinu í annan umræðufarveg á forsendum Íslands.
Fleiri öflugar þjóðir tilheyra alþjóðasamfélaginu fyrir utan ESB-þjóðirnar, sem farsælt má telja að yrði fyrir Ísland að efla viðskipti sín við frá því sem nú er, á mörgum sviðum og á forsendum Íslands.


mbl.is Gegn hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er rökstuðningurinn?

Á hvaða rökum hvíla þessar fullyrðingar?

Hverjir yrðu gjaldþrota? Hvaða hópur útgerðarmanna?

Af hverju yrðu þeir gjaldþrota?

Af hverju eru þeir ekki þegar gjaldþrota, eða eru þeir kannske þegar gjaldþrota í raun?

Hvers vegna skuldar sjávarútvegurinn um 550 milljarða króna?

Hvernig stendur á því að viðkomandi fyrirtæki gátu skuldsett sig svo óheyrilega mikið?


mbl.is Vara við hugmyndum um fyrningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berjið ekki höfði við stein!

Forsætisráðherra og stuðningslið hennar er enn við sama heygarðshornið og eru greinilega öllsömul búin að berja höfði sínu við þann stein sér til óbóta.

Það örlar ekkert á baráttu fyrir hagsmunum Íslands og því að færa umræðuna upp úr þessu spólfari sem forsætisráðherrann klifar sífellt sömu bresk-hollensku tugguna í. Alltaf sama undanlátssemin á röngum forsendum. Á þessu verður að verða breyting áður en það verður um seinan.

Þau virðast ekki skilja eða vilja ekki skilja, nema hvort tveggja sé, að koma þarf umræðunni í þann réttsýna farveg að öll löndin sem hlut eiga að máli bera ábyrgð. Ekki bara Ísland, eins og forsætisráðherrann og skilningsvana eða forhert lið hennar klifar á í takt við kröfur Breta og Hollendinga og annarra landa sem vita sökina upp á sig.

Ríkisstjórnin skal átta sig á því að sá mikli meðbyr sem hún hafði í upphafi valdatíðar sinnar varir ekki heilt kjörtímabil við þennan andbyr hennar og aðgerðaleysi í að taka upp baráttu fyrir hagsmunum Íslendinga á erlendum vettvangi. Það er miður fyrir þann mikla hluta almennings og kjósenda sem bundu vonir um betri og breytta tíð við hana. Það voru miklar vonir og væntingar. Þær eru við að gufa upp.
Það stefnir í háan reikning sem þjóðin mun gera fráfarandi ríkisstjórn og liðsmönnum hennar við næstu kosningar ef fram fer sem horfir.

Hættið að berja höfði við stein og gjörið svo vel að bretta upp ermarnar og takið slaginn við erlendu þjóðirnar gegn ranglætinu sem þær hafa verið að bræla yfir okkur!


mbl.is Icesave skaði ekki alþjóðleg tengsl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullandi meðvirkni með feluleik stórþjóðanna

Samkvæmt þessari frétt virðast sum Norðurlöndin ásamt fleiri óuplýstum aðilum vera í bullandi meðvirkni með stórveldunum og virðast ekki hafa kynnt sér um hvað "þrjóska" sumra Íslendinga snýst í Icesave-málinu.

Þessir aðilar virðast vaða í þeim villta misskilningi að Íslandi beri að borga það sem ríkisstjórnir Breta og Hollendinga hafa sett upp einhliða í Icesave-málinu með hótunar-byssuhlaup sín á höfðum skjálfandi "viðsemjendanna",  íslensku ríkisstjórninni.

Þessir aðilar virðast ekki skilja að vafi leikur á um hverja skyldur Íslendinga og Breta og Hollendinga sjálfra eru raunverulega í þessu máli í ljósi þágildandi lagaákvæða um innistæðutryggingasjóði í löndum í ESB og EES er Icesave-kerfið var sett á laggirnar í Bretlandi og Hollandi fyir bankahrun.
Í reynd er enginn vafi þar á; Ísland uppfyllti skyldur sínar í því tilliti samkvæmt reglunum. Bretland og Holland þverskallast við að viðurkenna það. Litlu þjóðirnar nágrannar okkar og önnur lönd í ESB og EES sitja bara rjóð hjá og segja já og amen við stóru viðskiptaþjóðir sínar, Bretland og Holland, í meðvirkni sinni.

Þessir aðilar virðast ennfremur halda að Íslendingar ætli sér heimta lán frá nágrannaþjóðum með það fyrir augum að borga þau ekki til baka. Hvílíkir fordómar og sleggjudómar og glópska! Svona viðhorf sæmir ekki siðuðum þjóðum, sbr. þetta sem fram kemur í þessari frétt. Íslendingar geta ekki setið undir svona rakalausum, villandi og mannorðsmeiðandi aðdróttunum þegjandi og hljóðalausir á erlendum vettvangi.

Þetta er enn einn vitnisburðurinn um að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig í að halda málstað Íslands á lofti og koma umræddum þjóðum í réttan skilning um málavöxtu hvort sem þær vilja eða vilja ekki. Þeim á ekki að lýðast að hylma yfir sannleikann í þessu máli og væna svo allan íslenskan almenning um glæpaeðli og glæpsamlega tilburði á erlendum lánamörkuðum núna.
(Svo virðist sem sumir Danir og Bretar nýti sér báglegt ástand Íslands núna til að sparka í það með rætnum hætti út af fyrri ágreiningsefnum þegar Ísland fór með sigur af hólmi yfir þeim, af öðrum fréttum í dag að dæma, sbr. þorskastríðin við Breta og sambandsslitin við Danmörku. Lúalegt athæfi atarna eða dæmi um afar kaldan húmor við óviðeigandi aðstæður).

Eftir að forseti Íslands vakti ríkisstjórnina harkalega af Þyrnirósarsvefni sínum í heimagarði með því að synja samþykki á lögum um meðvirkandi kúgunarskilyrði Bretlands og Hollands gegn Íslandi hefur hún núna möguleika á að reka af sér slyðruorðið og breyta hugarfari sínu í meðferð hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi. Það má ekki seinna vera.
Núna þarf hún að hrista af sér þrælsóttann og slenið og sækja fram af hugrekki og málafestu og koma umheiminum í skilning um um hvað málið snýst: Réttlæti!

Eða snýst samheldni þjóðanna í ESB um að iðka óréttlæti gagnvart þjóðum utan bandalagsins og svína á hagsmunum annarra til að redda eigin skinni? Ég vil ekki trúa því fyrr en yfir lýkur. Auðvitað er meðal almennings þar mikið af heiðarlegu venjulegu fólki eins og á Íslandi. Það eru ESB-kjötkatlastjórarnir og slíkir sem við eigum í höggi við, ekki síst flokkslegir hagsmunir og pólitískir sérhagsmunir og þau öfl sem þeir þjóna.

Mér er ekki grunlaust um að það séu einmitt þessi atriði sem eru meginástæðan fyrir hörku, óbilgirni og hroka Breta og Hollendinga í garð Íslendinga, þar sem þau vilja ekki að þessi mál komi til umræðu í dagsljósi. Þess vegna reyna þeir að beina athyglinni í aðra átt, sem sé að væna íslensku þjóðina um óreiðumennsku.

Í því sambandi er afar upplýsandi og hrollvekjandi að lesa skýrslu Evu Joly í bók hennar Hversdagshetjur þar sem hún lýsir hvernig Bretland gætir viðskiptahagsmuna sinna og hylmir yfir næsta ólöglega viðskiptahætti þar í landi t.d. á sviði vopnaframleiðslu og á fjármálasviði.
Joly bendir á að sérstaklega eitt atriði skipti Bretland höfuðmáli: Að varðveita orðspor sitt. Ef efnahagslegt stórveldi fái það orðspor á sig að þar ríki spilling þá steypir það efnahagslífi þess í voða í alþjóðlegum viðskiptum. Ef Bretland fái þann stimpil á sig, nánar tiltekið, að "lítið eftirlit sé með fyrirtækjum" þar, þá "hittir það efnahagskerfið í hjartastað", segir Joly (s. 47-48).

Það skyldi þó ekki vera að þetta sé hin raunverulega ástæða hörku Bretlands gegn Íslandi í Icesave-málinu, þ.e. að láta líta svo út sem öll sökin liggi hjá Íslandi en ekki hjá Bretlandi! Holland væri þá undir sömu sök selt og meðvirkar í því máli af sömu ástæðu til að verja eigið efnahagskerfi. Afleiðingin er sú að Íslandi, efnahagskerfi þess og lífsafkomu íslenskra þegna, er fórnað til að bjarga stórþjóðunum!

Þetta getum við ekki látið viðgangast. Eva Joly og hennar líkar eru að berjast af heiðarleika og réttsýni og hugrekki gegn svona kúgun og einnig Serious Fraud Office (SFO) í Bretlandi. Tony Blair og ríkisstjórn hans stöðvaði hins vegar rannsókn hennar þegar hún var byrjuð að afhjúpa spillinguna í hergagnaviðskiptum landsins og draga nöfn hlutaðeigandi fram (s. 57).


mbl.is Segja að Íslendingar verði að standa við skuldbindingar sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinber starfsmaður tjáir sig sem sérfræðingur um Icesave

Magnús Ingi Erlingsson héraðsdómslögmaður og starfsmaður hjá Seðlabankanum  ritaði grein í Morgunblaðið þ. 29.12.2009 undir yfirskriftinni "Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum". Fjallar hann þar um óréttmæti þess að íslenska ríkið veiti ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Færir hann rök fyrir því að ekki liggi fyrir því skýr lagaheimild, hvorki hérlendis né í Evrópulöggjöfinni. Lesið endilega greinina, sem er gott innlegg í umræðuna um þessi örlagaríku mál.

Ég rita nánar um rétt opinberra starfsmanna og embættismanna til að tjá sig sem sérfræðingar um tiltekin málefni á opinberum vettvangi í bloggpistli 30.8.2009, Grímulaus skerðing tjáingarfrelsis og tjáningarleiða. Hvað segja Forman og Kant? Þar kemur m.a. eftirfarandi hvatning fram í tilvitnun í rit Immanuel Kants um hvað upplýsing er:

"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!"

Nú hefur a.m.k. Magnús Ingi brugðist við þessu. Megi það vera gott fordæmi og öðrum til hvatningar.


mbl.is Undirskriftir gegn Icesave vekja athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinberir starfsmenn tjá sig sem sérfræðingar

Hinn 30.8.2009 skrifaði ég bloggfærslu um m.a. um tjáningarfrelsi og tjáningarleiðir í tengslum við stefnu Seðlabanka Íslands í vaxtamálum og efnahagsmálin á Íslandi. Meðal annars auglýsti ég þar eftir því að fleiri opinberir starfsmenn og embættismenn tjáðu sig opinberlega sem sérfræðingar um þau málefni sem brenna á þjóðinni. Því miður hefur verið harla lítið eða nánast ekkert um það.

Á þessu var aðdáunarverð undantekning er Magnús Ingi Erlingsson héraðsdómslögmaður og starfsmaður hjá Seðlabankanum  ritaði grein í Morgunblaðið þ. 29.12.2009 undir yfirskriftinni "Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum". Fjallar hann þar um óréttmæti þess að íslenska ríkið veiti ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Færir hann rök fyrir því að ekki liggi fyrir því skýr lagaheimild, hvorki hérlendis né í Evrópulöggjöfinni. Lesið endilega greinina, sem er gott innlegg í umræðuna um þessi örlagaríku mál.

Í ofangreindum pistli mínum, Grímulaus skerðing tjáingarfrelsis og tjáningarleiða. Hvað segja Forman og Kant?, kemur m.a. eftirfarandi hvatning fram:

.. Ég bendi þessu ágæta og menntaða fólki og öðrum á grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar; Það er ritið "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), samið í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinarinnar:

"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!"

Nú hefur a.m.k. Magnús Ingi brugðist við þessu. Megi það vera gott fordæmi og öðrum til hvatningar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband