Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Guðni kallar eftir samstöðu um þjóðarhagsmuni

Guðna Ágústssyni er mikið niðri fyrir og hann talar hátt og tæpitungulaust, sem "fyrrv. alþm. og ráðherra", í hugvekjandi pistli sínum í Morgunblaðinu í dag, 16.2.2012 s. 19.
Með hárri raustu spámannsins þrumar Guðni, stórhneykslaður og af skiljanlegum ástæðum, yfir stjórnmálamönnum Íslands og almenningi öllum að lufsast til að "taka hendur úr vösum" og hætta að ala leti og ómennsku upp í unga fólkinu sem eftir er í landinu en hefjast frekar handa við raunhæfar aðgerðir.

Hann ryður brothættum stólum, borðum og skurðgoðum um koll og það gustar um sali. Að minnsta kosti sumir lesendur skilja vafalaust hvað hann er að hrópa um í eyðimörkinni. Það eru þeir sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra og eitthvað þar á milli og réttvísandi kompás sem vísar í segulnorðurátt en ekki upp á sker við Evrópu eða stjórnmálagrænar staðleysur utan mannheima.

Guðni sparkar m.a. í hornsúlur verðtryggingarkerfisins, er sé að hluta til við haldið af verkalýðshreyfingu í matadorleik, og skekur fílabeinsturna rangeygra prófessora er séu "gallaðir pólitískir doktorar" sem sjái ekkert nema ESB. Þá hneykslast Guðni á skattlagningaróðri ríkisstjórn er ætli sér að kippa samkeppnis-forsendum undan sjávarútveginum með þjóðnýtingu á honum.
Síðast en ekki síst fer hann ófögrum orðum um afhendingu ríkisstjórnar fólksins á tveimur af nýreistum stórbönkum landsins til erlendra vogunarsjóða, "braskara og áhættufjárfesta". Fjármagnið sem þessir aðilar sitji fastir með á Íslandi í bili sökum óásetjanlegra gjaldeyrishafta megi ekki fara óskert úr landi og megi reyndar alls ekki fara úr landi. Þarna telur Guðni að ofurskattlagning eigi betur við en á íslenskum sjávarútvegi, fólki og fyrirtækjum.

Guðni nefnir það ekki í þessari andrá að þarna er hann í reynd að tala um upptöku svokallaðs Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa, þar undir fjármagnsútflæði úr landi. Markmið slíks skatts er jafnframt að verja gjaldmiðil landsins fyrir áhlaupum spákaupmanna. Þá leið hefur Lilja Mósesdóttir í Samstöðu bent á til að bregða böndum á snjóhengju jöklabréfa og aflandskróna og sporna við því að hinir óprúttnu erlendu braskarar er Guðni kallar svo og aðrir fjármagnseigendur er þar eiga hlut að máli komist upp með að rústa íslenskum efnahag með því að tæma gjaldeyrisvarasjóð Íslands og kalla ofurskuldsetningu gagnvart útlöndum yfir þjóðina (sbr. grein hennar í Fréttablaðinu 13.4.2012 um Afnám hafta án lífskjaraskerðingar). Reyndar tækist þeim það ekki nema með dyggum stuðningi íslenskrar ríkisstjórnar er færi feigðarleið gjaldeyrishafta alla leið þar sem viðkomandi fjármagnseigendum væri smám saman og um síðir afhentur gjaldeyrisforði þjóðarinnar ásamt ofurvöxtum í kaupbæti. Það væri í samræmi við þá vegferð sem nú þegar virðist vera hafin af núverandi ríkisstjórn í samstarfi við Seðlabanka Íslands.

 


mbl.is Guðni Ágústsson: „Hendur úr vösum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð orð gegn skálmöld

Þau sjónarmið um æskileg gildi í mannlífi sem Karl biskup bendir hér á eru góð og þess vegna sígild.

Þessi góðu gildi geta hins vegar orðið undir sé ekki lögð nægileg rækt við þau í stóru sem smáu vítt og breitt í samfélagi okkar.

Þótt ýmsir hamist við að finna íslensku þjóðkirkjunni margt til foráttu að því er hinn ytri umbúnað varðar, svo sem skipulag og stjórnsýslu, gjörðir eða aðgerðaleysi þjóna kirkjunnar í málefnum sem upp koma, að ekki sé minnst á trúarlega túlkun á helgiritum og kirkjulegri hefð, þá er það þegar allt kemur til alls grundvallarreglan, Gullna reglan, sem er sá kjarni sem allt mannlegt samfélag verður að byggja á og leggja rækt við ef ekki á illa að fara. Þar sem þessi regla er ekki í heiðri höfð og í öndvegi er stutt í upplausnarástand og skálmöld.

Í sögu Íslendinga lýsir svokölluð Sturlungaöld þannig ástandi, þar sem óprúttnir ráðamenn og auðmenn deila og drottna með eigin hagsmuni að leiðarljósi og skáka almenningi í sérhagsmunabaráttu sinni og efnahagslegu valdatafli sínu fram og til baka eftir eigin geðþótta án þess að skeyta um líf og limi undirsátanna. Þetta hefur einnig verið að gerast undanfarin ár í þjóðfélagi okkar. Í stað goða og lénsveldis eru komnir svokallaðir auðmenn, kvótahafar og fjármálakerfi.

En, nú er öldin önnur einnig að öðru leyti. Nú getur almenningur risið upp gegn efnahagslegri kúgun og breytt stríðsástandi í uppbyggingu með almannaheill og þjóðarhagsmuni að leiðarljósi. Nú getur almenningur í krafti sameinaðs átaks og samstöðu breytt þeim leikreglum sem hingað til hafa fyrst og fremst þjónað sérhagsmunaöflum og þröngum hópi.

Kirkja sem talar inn í þann veruleika og brýnir náungakærleik fyrir þjóðinni í verki á slíkum vettvangi talar röddu fólksins. Kirkja sem sinnir ekki sínu "spámannlega" hlutverki að því leyti í reynd væri ekki sönn kirkja fólksins. Slík kirkja væri ekki að fylgja fyrirmynd þess sem boðskapur hennar byggir á.

 


mbl.is Kristin gildi uppistaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ringulreið verðtryggingar

Allt réttlæti kallar á það að stökkbreytt verðtryggð lán, eins og gengistryggð lán, verði leiðrétt og höfuðstóllinn lækkaður aftur niður í það sem var áður en skriða hrunsins 2008 lagði af stað í upphafi sama árs (jafnvel fyrr) með hröðu gengisfalli og snöggvaxandi verðbólgu.

Sú leiðrétting á að ná til allra slíkra lána óháð tilgangi lántakans með notkun lánsfjárins, þ.e. hvort um var að ræða lán til kaupa á húsnæði eða öðru. Það varðar jafnræðisreglu.

Höfuðstóll umræddra lána snögg-hækkaði með útreikningi á hækkun samkvæmt viðkomandi vísitölum. Á sama hátt þarf höfuðstóllinn að snögg-lækka; Lántakar fengu ekki útborgaða neina viðbótarlánspeninga í tengslum við þann útreikning. Á sama hátt snýst málið um að framkvæma sama talnaútreikning á höfuðstóli lána með öfugum formerkjum.

Þess vegna eru hugmyndir nú um að "fjármagna" þessa lánaleiðréttingu með hinum eða þessum hætti, t.d. með því að skerða lífeyrisgreiðslur meðlima lífeyrissjóða að einhverju leyti í tengslum við þessa leiðréttingu, út í hött.
Slíkar hugmyndir byggja á misskilningi á eðli höfuðstólshækkunar verðtryggðu lánanna. Lánveitendur fengu án peningaútláta hækkun á lánsfénu með bókhaldslegum aðferðum í samræmi við vísitölutengingu lánanna. Sú hækkun byggði á algjörum forsendubresti í efnahagslífinu sem leiddi þar með í ljós ótrúlegt óréttlætið við verðtryggðu lánin þar sem öll áhætta varðandi verðbólgu hvílir á lántakendum 100% og 0% á lánveitendum.
Það er óréttlæti sem er furðulegt að skuldarar, heimili og fyrirtæki, skuli hafa látið yfir sig ganga hingað til. Á því þarf nú að verða breyting og má ekki seinna vera. Koma þarf á sanngjörnu kerfi lánamála í landinu. Vilji er allt sem þarf til að koma hreyfingu á þau mál.


mbl.is Verðtryggð lán verði lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða um íslenska almannahagsmuni í hnattvæddum heimi

Pistlahöfundurinn Páll Vilhjálmsson bendir á það í pistli sínum í dag að norskur fréttamiðill hafi metið tilsvör bankastjóra Seðlabanka Íslands nýverið um EES-samninginn að hann væri hreint “brjálæði”. Páll spyr í því ljósi hvort sama brjálæðið felist í hugsanlegum samningi við Evrópusambandið.

Þessar spurningar vekja athygli á “glóbaliseringu” eða hnattvæðingu efnahagslífsins yfirleitt og afleiðingum hennar fyrir nærsamfélagið í víðara samhengi.
Í ljósi samninga íslenskra stjórnvalda við EFTA 1970 og EES upp úr 1990 og algleymi hnattvæðingar undanfarna áratugi er við hæfi að spyrja sig hvað hafi valdið hruni iðnaðarins á t.d. Akureyri sem þar blómstraði um miðja 20. öld og enn kringum 1970.
 Hvort vildu Akureyringar og fleiri sem þannig háttar um hafa iðnaðinn sinn þar enn starfandi og blómstrandi, með heimafólki í launuðum störfum og rótgróna verkþekkingu, eða halda atvinnulausu fólki þar og annars staðar á landinu uppi með atvinnuleysisbótum og annarri félagslegri aðstoð eins og nú er?
Í hnotskurn er hið síðarnefnda (ásamt óhagræðinu af brottflutningi fólks) gjaldið sem nærsamfélagið greiðir nú fullu verði fyrir "ódýran" innflutningsvarning undanfarna áratugi.
Í ofanálag eru framleiðslutæki og verkþekking sem áður stóðu undir velmegun horfin á braut.
Sömuleiðis vald yfir eigin högum að umtalsverðu leyti.

Eftir fjármálahrunið hérlendis 2008 og gjaldeyrisþurrð ætti fólk að vera betur í stakk búið til að átta sig á raunverulegu verðmæti heimaframleiðslu þegar til lengri tíma er litið og í víðara samhengi en skammtímaávinnings.
Hverjir standa nú með pálmann, fyrrum laun og skattfé, í höndunum?
Er það atvinnulaust og sífækkandi heimafólk?
Er það vinnufólkið í Austurlöndum og víðar sem nú framleiðir hinn ódýra innflutningsvarning fyrir Vesturlönd á þrælakjörum og lúsarlaunum?
Hvað með fjölþjóðafyrirtækin? Hafa þau ekki komið hverjum þætti starfsemi sinni fyrir í þeim löndum sem þeim hentar og hagstæðast er frá þeirra eigin hagnaðarlega sjónarhorni, eðli málsins samkvæmt, allt frá öflun hráefna og úrvinnslu til sölu og dreifingar afurða og útgreiðslu arðs til eigenda sinna? Að hvaða leyti hirða þau um velferð nærsamfélagsins og þjóðríkja á hverjum stað? (Vissulega er þó ekki allt slæmt og fyrirtækin eru mismunandi að því leyti).
Að hvaða leyti hefur þessi þróun eflt nærsamfélagið á hverjum stað þar sem uppsprettur virðisaukningarinnar er að finna?

Ekki er að sjá annað en að skörp rýni hagfræðingsins John Kenneth Galbraith t.d. í bók hans Economics and the Public Purpose frá 1973 um þessi mál hafi komið illyrmislega fram í reynd síðan þá. (Galbraith var m.a. hagfræðiprófessor í Harvard og efnahagslegur ráðgjafi nokkurra forseta demókrata í Bandaríkjunum, þ.á.m. Kennedy).

Ekki er heldur hægt að segja annað en að á stefnuskrá hinna nýju stjórnmálasamtaka Samstöðu sé tekið vel á þessum og tengdum atriðum. Það sem ber að undirstrika er að efnahagsleg samskipti og viðskipti Íslands við útlönd séu á forsendum þjóðhagslegra almannahagsmuna Íslendinga.


mbl.is Samstaða er í skýjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær að mótmæla á vettvangi í alheimssjónvarpinu

Eins og fram hefur komið í máli margra um hvort Íslendingar eigi að sniðganga Eurovisionkeppnina í Aserbaídsjan, sökum meintrar spillingar og mannréttindabrota þar, er næsta öruggt að lítið myndi heyrast þar eða á opinberum vettvangi alheimsmála um andúð góðra og óspilltra Íslendinga á mannréttindabrotunum með því að mæta ekki á þann vettvang en sitja þess heldur með samanbitna jaxla úti í horni einhvers staðar í Reykjavík; Þótt halda mætti að sumir teldu hana miðpunkt alheimsathygli og viðhorf Íslendinga jafnast á við vægi ríkja með neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Vilji Páll Óskar og aðrir sem koma að væntu framlagi Íslands til Eurovision söngvakeppninnar koma á framfæri mótmælum við meint mannréttindabrot hjá gestgjöfum keppninnar í ár og láta þannig í ljós stuðning við kúgað fólk þar og annars staðar þá ætti hann og þeir að fara út og tala sem mest og víðast þar á torgum um málið. Ætla mætti að það væri áhrifaríkara en að láta ekki sjá sig þar og þegja heima.

Mér þykir afar líklegt að Páll Óskar melti þessi og þvílík rök og snúist hugur um að sniðganga keppnina. Hann er það greindur og hugrakkur maður. Ég sé hann fyrir mér djarfastan manna með gjallarhorn fyrir utan hina nýju sönghöll útskýrandi fyrir viðstöddum og í beinni útsendingu á rásum alheimssjónvarpsins að hún sé byggð á rústum heimila alþýðufólks sem rutt hafi verið í burtu undir yfirskini hátíðarhaldanna.


mbl.is Evróvisjón í skugga kúgunar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr og heftur kapítalismi

Það er löngu kominn tími til að bregðast við aðsteðjandi vanda sem hlotist hefur af skefjalausum ágangi manna og sérstaklega fyrirtækja á vistkerfi Jarðar.
Meðan ekki eru reistar viðhlýtandi og öflugar skorður við hagnýtingu auðlinda og þröngsýnum aðferðum í því sambandi halda fyrirtæki, sérstaklega fjölþjóðafyrirtæki, áfram á sömu braut og hingað til: Að starfa fyrst og fremst út frá eigin hagnaðarmarkmiði án tillits til illa bætanlegs eða óbætanlegs skaða fyrir nærsamfélag manna, umhverfið og vistkerfið í heild, sem hlýst af starfseminni.
Hefta verður og koma í veg fyrir skaðleg áhrif óhefts kapítalisma. Til að skilja það þurfa Íslendingar ekki að líta lengra en til banka- og efnahagshrunsins hérlendis 2008 sem rústaði tilvistarlegar aðstæður fjölmargra fjölskyldna og fyrirtækja sökum m.a. óprúttinna manna/fyrirtækja, of rúmra leikreglna og laga og skorti á opinberu eftirliti.

Vandi umhverfis og vistkerfis Jarðar er þó öllu alvarlegri en hið afmarkaða íslenska hrun. Það er vandi allra jarðarbúa.
Allir íbúar Jarðar eiga að hafa eitthvað um það að segja hvernig efnahagskerfið sem hver og einn býr við tekur á þessum vanda. "Markaðurinn" leysir ekki þennan vanda af sjálfsdáðum ef ekki kemur til viðeigandi kostnaðarliður vegna umhverfisáhrifa sem allir ákvörðunaraðilar innan efnahagskerfisins, allt frá einstaklingum til stærstu fjölþjóðafyrirtækja og ríkisstjórna landa, verða og neyðast til að taka tillit til við rekstur fyrirtækja sinna, hvort sem um er að ræða rekstur heimilis eða fjölþjóðafyrirtækis.

Spurningin er að hvaða leyti samræmd og viðeigandi skattlagning og regluverk í öllum löndum dugi til.
Einnig þarf að verða hugarfarsbreyting hjá öllu fólki, hvort heldur sem er í hlutverki neytanda eða starfsmanns og framleiðanda.
Huga þarf og að nærsamfélaginu alls staðar, í öllum löndum. Ef til vill er það einn besti aðilinn til að hafa með höndum virkt eftirlitshlutverk í þessu samhengi - EF það virkar sem skyldi alls staðar í öllum löndum.

En, skapandi hugur og orð eru til alls fyrst. Viðtengd frétt um umræður um "umhverfisvænan kapítalisma" á alþjóðavettvangi í minningu hinnar fjörgömlu Ríó-samþykktar frá 1992 er liður í umhverfisvænni sköpun manna.
Hefjast þarf handa áður en jarðarbúar deyja unnvörpum úr mengun, súrefnis- og matarskorti af mannavöldum.

Ýmsir aðilar hafa í gegnum aldirnar vísað til orða Biblíunnar um það ráðsmennskuhlutverk manna á Jörðu að "gera sér hana undirgefna". Þessi orð hafa löngum verið mis- og rangtúlkuð bókstaflega í réttlætingarskini með þeim hörmulegum afleiðingum að vistkerfi er stórskaðað eða eyðilagt með óafturkræfum hætti. Rangtúlkunin felst í því að það að gera jörðina sér "undirgefna" felur ekki í sér að eyðileggja hana við það.
Eða, hvaða gagn hefur maður t.d. af hesti sínum með því að temja hann og gera hann sér þannig undirgefinn og drepa hann svo strax í kjölfarið t.d. með illri meðferð?!!!


mbl.is Umhverfisvænn kapítalismi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverra hagsmuna gætir Matvælastofnun í reynd?

Sú fáránlega spurning vaknar við lestur frétta um að Matvælastofnun (MAST) hafi ákveðið að leyfa dreifingu skilgreinds iðnaðarsalts til matvælaframleiðslu, þá loks að hún áttaði sig á því hvers kyns var eftir tilvist saltsins á markaði í um 13 ár frá því árið 1998, hverra hagsmuna stofnunin gætir fyrst og fremst í reynd: Kostnaðar- og viðskiptahagsmuna innflutningsaðila umrædds salts og viðskiptavina hans, eða neytenda.

Þar sem við ættum að geta gert ráð fyrir því að virðulegir 80 starfsmenn stofnunarinnar kunni að lesa og ættu jafnframt að geta skilið að umbúðamerkingin "Industrisalt" á dönsku þýðir iðnaðarsalt á íslensku þá kemur eitthvað annað til með leyfisveitingunni.

Að stofnunin skuli, samkvæmt fréttum, hafa vísvitandi leyft áframhaldandi dreifingu iðnaðarsaltsins í mat landsmanna í nóvember s.l. í bága við reglur þar um er stórfurðulegt mál, hliðstætt og á við um málið um of mikið kadmíum í áburði sem upp kom fyrir nokkrum vikum þegar landsmenn voru fyrir löngu búnir að borða viðkomandi matarafurðir með blessun MAST. 

Semur stofnunin eigin vinnureglur við hlið laga og reglugerða sem fara í bága við lögin eða er starfsfólkið búið að vera á frívakt gagnvart þessum málaflokki undanfarin 13 ár og ekki gert eigin athuganir á innflutningnum?

Hægt væri að álykta að annað hvort séu viðmiðunarreglur um flokkun á iðnaðarsalti og matarsalti rangar (að mati stofnunarinnar) og hún því farið eftir að sínu mati á "réttum" viðmiðum, eða að skilningur stjórnenda og starfsmanna stofnunarinnar á hlutverki sínu sé rangur.
Sé hið fyrrnefnda tilfellið þarf að endurskoða viðkomandi lagasetningu um viðmiðunarmörk, en hitt stendur upp úr að samkvæmt fréttum virðist MAST ekki hafa farið eftir settum reglum - og ekki í fyrsta skipti.
Ráðherra, sem stofnunin heyrir undir, hlýtur að átta sig á því að eftirlitsstofnun sem veitir falskt öryggi er verri en engin.


mbl.is Stofnanir deila um salt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirbyggjandi eftirlit eða eftir-lit þegar skaðinn er skeður?

Það blasir auðvitað við hverjum heilvita manni að svona eftirlit, eins og Matvælastofnun á að hafa með höndum varðandi áburð, þarf að vera fyrirbyggjandi; Enda er kveðið á um það á verkefnalista stofnunarinnar, sbr. neðar.

Það er til lítils að taka sýni af áburði þegar hann er kominn í dreifingu á tún í sveitum eða greina sýni eftir á þegar áburðurinn er kominn á tún og jafnvel búið að slátra og éta búfénað sem át grasið og heyið af viðkomandi túnum og fólk búið að neyta meintra eiturefna í kjötafurðunum.

Sýni þarf að taka og greina áður en áburðurinn fer í dreifingu, alveg eins og háttar til um greiningu og athugun lyfja fyrir menn og dýr hjá Lyfjastofnun áður en lyfin fá markaðsleyfi og fara í sölu hérlendis.

Ekki ætti að vera erfiðara að hafa eftirlit með innflutningi á áburði heldur en kjötvörum, nema síður sé!

Það sem maður spyr sig um er hvort þetta meinta aðgerðaleysi, um að stöðva ekki sölu og notkun hins meinta eitraða áburðar og þagnar um málið í kjölfarið samkvæmt fréttum í dag, sé um að kenna einhverjum mistökum hjá Matvælastofnun, og hverjum þá, eða skorti á laga- og regluramma þar að lútandi. Hefur stofnuninni ekki tekist að uppfylla öll gildi sín af einhverjum ástæðum, t.d. "árvekni", sem er tilgreint þar efst á lista?
Skortir e.t.v. líka eftirlit með eftirlitsstofnuninni?

Á vefsetri MAST segir um hlutverk stofnunarinnar:

"Matvælastofnun sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla."

Um verkefni MAST segir þar ennfremur:

"MAST vinnur að matvælalöggjöf í samvinnu við ráðuneytið og á þetta við um löggjöf í allri fæðukeðjunni, þ.e. frá heilbrigði og velferð dýra, þ.m.t. sjávarafurða, plöntuheilbrigði, fóðri, vinnslu og dreifingu og þar til matur er borinn á borð neytenda. Stofnunin fer með eftirlit með frumframleiðslu búfjárafurða, sláturhúsum og kjötvinnslum sem þeim tengjast, eftirlit með sjávarafurðum og allt inn- og útflutningseftirlit með matvælum. MAST fer einnig með yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og eftirlit með störfum dýralækna sem veita almenna dýralæknaþjónustu. Einnig fer stofnunin með fóðureftirlit og önnur verkefni eins og sjá má á eftirfarandi lista yfir helstu verkefni MAST".


mbl.is Hagsmunir bænda og neytenda í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markviss merkantilismi?

Frakklandsforseti talar hér í gátum. Orð sem hann notar hér í ræðu sinni um efnahagsstefnu landsins og landa Evrópusambandsins eru afar athyglisverð fyrir þær sakir að þau virðast benda til þess að hverfa eigi aftur til markvissari merkantilisma, þ.e. einhvers konar sjálfsþurftarstefnu sem muni leiða til þess að þjóðin/þjóðirnar fari að beina neyslu sinni í innlendar vörur og þjónustu á kostnað innflutnings;
Eða, hvernig ætla þær annars að auka atvinnu heima fyrir jafnhliða því að rétta viðskiptahalla sinn af, sbr. ummæli forsetans "að losna undan skuldum, sem mun koma jafnvægi á hagkerfi eins og þörf krefur, í átt að vinnu og framleiðslu".
Ein spurning sem vaknar er hvort Evrópusambandið sé að spá í að loka sig meira af gagnvart utanaðkomandi samkeppni á neysluvörumarkaði og nýta þannig eiginleika sinn sem tollabandalag. Það þýðir m.a. að reynt yrði að loka sem mest fyrir flóð ódýrs varnings frá Asíu sem ódýrt vinnuafl þar framleiðir og framleiða í staðinn tilsvarandi vörur heima fyrir með vinnuafli sem hingað til hefur gengið atvinnu- og iðjulaust. Það er reyndar viss viska í því. Ummæli forsetans um að „ný efnahagstíð er hafin" gætu bent til þessa og vissulega yrði hún "ólík þeirri fyrri".
Það yrði athyglisvert innlegg í rökræður um frjálsa samkeppni og blandað (frekar en segja miðstýrt) hagkerfi. Er það ekki einmitt þetta sem hann á við er hann segir upp muni renna tíð "sem er eitthvað sem þróuð ríki eiga til með að fórna um of“, þ.e. lítt heft milliríkjaviðskipti leiða til þess að þau lönd sem hafa farið halloka í samkeppni við innflutning sitja uppi með gömlu framleiðslugreinarnar sínar í rúst, atvinnulaust vinnuafl og stórfelldan halla á viðskiptajöfnuði sínum. Blasir þá ekki við að skella í lás gegn innflutningi og hefja framleiðsluna í staðinn heima fyrir?

Það verður spennandi að fylgjast með hvað Frakklandsforseti er að leggja hér drög að! 


mbl.is Sarkozy: Óttinn lamar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðileggjandi hávaxtastefna

Hér stígur fram hagfræðingur, að vísu íslenskur, hjá virtri fræðastofnun erlendis með sannleikann að vopni að hætti andæfandi spámanna til forna og bendir á og færir skynsemisrök fyrir því að hávaxtastefna sú, sem rekin hefur verið hérlendis af konungum þessa lands með þrjóskufullu handafli eftir bankahrunið og eftir að AGS kom með sitt verkfærabox til bjargar íslensku efnahagskerfi, hafi verið andstæða þess sem hefði átt að gera. 

Færir hann eðlileg og hárrétt rök fyrir því að hin rökum firrta hávaxtastefna sem rekin hefur verið af Seðlabanka Íslands standist ekki skoðun, hafi markmiðið verið að koma skuldum sliguðu efnahagslífi til hjálpar. 

Þessi rök sem hagfræðingurinn bendir á ættu allir skynsamir og hugsandi menn, ekki síst hag-fræðimenn, að skilja. Á grunni þeirra hefði þvert á móti átt að reka hér lágvaxtastefnu meðan verið er að rétt af efnahagslífið og koma "hjólunum af stað" aftur. 
Nei, þvert á eðlileg viðbrögð voru vextir keyrðir í hástert, 18%, þegar allt var að koðna niður ásamt móralnum í samfélaginu við eldana á Austurvellli og í nærliggjandi húsum; Þrátt fyrir að gjaldeyrishöftum var komið á og landið þar með víggirt fyrir útflæði gjaldeyris!

Þessi stefna er enn rekin, þótt í vægara mæli sé nú en þegar verst lét, en véfréttin í Seðlabankanum hefur hótað að hefja "hækkunarferli" fyrr en seinna. Það er eins og þar hafi enginn lærdómur verið dreginn af því hvernig umrædd hávaxtastefna hefur leikið horfin og eftirlifandi heimili og fyrirtæki, enda fer hvoru tveggja fækkandi. Eftir situr vaxandi vandi við hliðina á feitum og hraðvaxandi innvaxtapúkanum sem á sama tíma hefur tútnað út á fjósbitanum í vímueimyrju véfréttarinnar sem ræður ríkjum í Seðlabankanum; Og allir skuldarar landsins eru með illu (háu vaxtastigi) látnir fóðra hann dag og nótt, alla daga. Hinir verst settu í þjóðfélaginu (skuldarar o.fl.) fóðra þá best settu (fjármagnseigendur). - Menn geta svo deilt um réttlætið og þjóðarhagsýnina í þessu framferði, en það er annað mál.

Ég hef margoft vogað mér að að leggja orð í þennan villta vaxtabelg undanfarin misseri, en ég er farinn að halda að prestar véfréttarinnar í Seðlabankanum hafi ekki tekið eftir eða skilið þau góðu og heillavænlegu ráð sem þar eru viðruð til að rétta hlut þjakaðra skuldara og lífga efnahagslíf landsins við; Þrátt fyrir að ég hef ekki sent þeim reikning fyrir heillaráðin með skilanefndataxta. Eða, ætli ólæsi sé farið að herja þar eins og í lestrarkennslusveltum grunnskólum landsins?

Nú hefur sem sé Mr. Jón Daníelsson hagfræðingur, enn einu sinni, bent á hið sama með samskonar rökum, eins og margir aðrir málsmetandi menn og konur hafa reyndar einnig gert.
Ég spyr því hvort vaxtavíman í Seðlabankanum sé búin að svæla út allt vit og vilja embættismanna og stjórnvalda til að vinna fyrir aðra þegna samfélagsins en innistæðueigendur.

Tilvísanir í nokkra fyrri pistla:

 Rökum firrtar vaxtahækkanir - enn
 Augljósar ástæður (Fjárfestar fældir frá með háum vöxtum)
 Lærdómur seðlabankamanna Íslands
 Leikur raunveruleikinn á talsmenn hávaxtastefnunnar
 Vaxtatal Darling til fyrirmyndar
 Eiga háir stýrivextir við í dag?
 Hinir illa stæðu styrkja hina vel stæðu í hruninu
 Haldlaus hávaxtarök
 Hundalógík hávaxtastefnunnar


mbl.is Lítill árangur AGS hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband