Nýr og heftur kapítalismi

Það er löngu kominn tími til að bregðast við aðsteðjandi vanda sem hlotist hefur af skefjalausum ágangi manna og sérstaklega fyrirtækja á vistkerfi Jarðar.
Meðan ekki eru reistar viðhlýtandi og öflugar skorður við hagnýtingu auðlinda og þröngsýnum aðferðum í því sambandi halda fyrirtæki, sérstaklega fjölþjóðafyrirtæki, áfram á sömu braut og hingað til: Að starfa fyrst og fremst út frá eigin hagnaðarmarkmiði án tillits til illa bætanlegs eða óbætanlegs skaða fyrir nærsamfélag manna, umhverfið og vistkerfið í heild, sem hlýst af starfseminni.
Hefta verður og koma í veg fyrir skaðleg áhrif óhefts kapítalisma. Til að skilja það þurfa Íslendingar ekki að líta lengra en til banka- og efnahagshrunsins hérlendis 2008 sem rústaði tilvistarlegar aðstæður fjölmargra fjölskyldna og fyrirtækja sökum m.a. óprúttinna manna/fyrirtækja, of rúmra leikreglna og laga og skorti á opinberu eftirliti.

Vandi umhverfis og vistkerfis Jarðar er þó öllu alvarlegri en hið afmarkaða íslenska hrun. Það er vandi allra jarðarbúa.
Allir íbúar Jarðar eiga að hafa eitthvað um það að segja hvernig efnahagskerfið sem hver og einn býr við tekur á þessum vanda. "Markaðurinn" leysir ekki þennan vanda af sjálfsdáðum ef ekki kemur til viðeigandi kostnaðarliður vegna umhverfisáhrifa sem allir ákvörðunaraðilar innan efnahagskerfisins, allt frá einstaklingum til stærstu fjölþjóðafyrirtækja og ríkisstjórna landa, verða og neyðast til að taka tillit til við rekstur fyrirtækja sinna, hvort sem um er að ræða rekstur heimilis eða fjölþjóðafyrirtækis.

Spurningin er að hvaða leyti samræmd og viðeigandi skattlagning og regluverk í öllum löndum dugi til.
Einnig þarf að verða hugarfarsbreyting hjá öllu fólki, hvort heldur sem er í hlutverki neytanda eða starfsmanns og framleiðanda.
Huga þarf og að nærsamfélaginu alls staðar, í öllum löndum. Ef til vill er það einn besti aðilinn til að hafa með höndum virkt eftirlitshlutverk í þessu samhengi - EF það virkar sem skyldi alls staðar í öllum löndum.

En, skapandi hugur og orð eru til alls fyrst. Viðtengd frétt um umræður um "umhverfisvænan kapítalisma" á alþjóðavettvangi í minningu hinnar fjörgömlu Ríó-samþykktar frá 1992 er liður í umhverfisvænni sköpun manna.
Hefjast þarf handa áður en jarðarbúar deyja unnvörpum úr mengun, súrefnis- og matarskorti af mannavöldum.

Ýmsir aðilar hafa í gegnum aldirnar vísað til orða Biblíunnar um það ráðsmennskuhlutverk manna á Jörðu að "gera sér hana undirgefna". Þessi orð hafa löngum verið mis- og rangtúlkuð bókstaflega í réttlætingarskini með þeim hörmulegum afleiðingum að vistkerfi er stórskaðað eða eyðilagt með óafturkræfum hætti. Rangtúlkunin felst í því að það að gera jörðina sér "undirgefna" felur ekki í sér að eyðileggja hana við það.
Eða, hvaða gagn hefur maður t.d. af hesti sínum með því að temja hann og gera hann sér þannig undirgefinn og drepa hann svo strax í kjölfarið t.d. með illri meðferð?!!!


mbl.is Umhverfisvænn kapítalismi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband