20.4.2012 | 14:06
Ríkið eykur niðurgreiðslur sínar til lánveitenda - Plástur á graftarkýli
Kristján Þór Júlíusson talar hér um þann vanda sem stafar af verðtryggingu sem er með 100% ábyrgð lántakenda og 0% áhættu lánveitenda. Eitt er að viðurkenna vandann eins og Kristján gerir og mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar vilji þeir kallast trúverðugir gagnvart kjósendum sínum.
Viðeigandi viðbrögð og verk verða þó að fylgja þessari vandaviðurkenningu.
Hið snarasta verður að ganga í það verk að leiðrétta hin stökkbreyttu verðtryggðu lán heimilanna sem hlóðu reiknuðum verðbótum á herðar viðkomandi lántakenda við Hrunið og aðdraganda þess 2008. Að sama skapi hlóðu þau reiknuðum upphæðum inn á tekjureikninga lánveitenda. Afleiðingar þessa forsendubrests verður að leiðrétta og bakfæra.
Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að bregðast við þessum hraðvaxandi vanda núna með því að hækka barnabætur og tilteknar niðurgreiðslur taka ekki á rót vandans. Verðbólgan heldur áfram að hlaða ofan á verðtryggðu lánin og færa fé frá lánþegum til lánveitenda eins og áður með óréttlátum hætti. Ríkisstjórnin væri aðeins að viðhalda þeirri peningamyllu og örva flæði peninga frá almenningi og skattgreiðendum til lánveitenda þegar greiðslugeta lántakenda er þrotin.
Aðstoð ríkisins við lánþega í greiðslu- og skuldavanda til að halda áfram að greiða af verðtryggðum lánum í stað þess að stuðla að skuldaleiðréttingu er eins og að líma plástur á graftarkýli í stað þess að ráðast að rótum meinsemdarinnar og fjarlægja eyðileggingarmátt henar.
Skuldarar geti skilað lyklunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.4.2012 | 13:01
Grunnhyggin ályktun
Fagnandi ályktun bæjarfulltrúa Samfylkingar í Reykjanesbæ um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld virðist vægast sagt afar grunnhyggin og byggja á blindri trú fremur en þekkingu á grundvelli viðeigandi upplýsingaöflunar.
Þar er einungis horft til væntra tekna af veiðigjaldi og kvótaþingi samkvæmt frumvarpsdrögum um stjórnun fiskveiða og veiðigjald.
Þar er ekki hugað að forsendum fyrir útreikningi umrædds veiðigjalds og raunhæfum möguleikum útgerðarinnar til að standa undir því ásamt greiðslubyrði af núverandi skuldbindingum hennar auk raunverulegs rekstrarkosnaðar á hverjum tíma.
Veiðigjaldsfrumvarpið og greinargerð með því ber þess ekki merki að hugmyndasmiðir þess séu meðvitaðir um grundvallaratriði fiskihagfræði að því er varðar myndun auðlindarentu við nýtingu fiskiauðlindarinnar og hámörkun hennar út frá þjóðhagslegu sjónarmiði og sjálfbærni ("bionomic equilibrium"). Ef svo væri hefðu tillögurnar verið útfærðar með öðrum hætti og þar af leiðandi verið með aðrar niðurstöður.
Að því leyti er hægt að taka undir ábendingar og gagnrýni Ragnars Árnasonar prófessors í fiskihagfræði um frumvarpið (sbr. viðtal við hann í Morgunblaðinu í dag 18.4.2012 s. 12 (að hluta, en það er annað mál)).
Til dæmis má benda á að í aðferðum við útreikning á veiðigjaldsstofni er ekki miðað við raunverulegan fjármagnskostnað og afskriftir á hverjum (og fyrirsjáanlegum) tíma, heldur áætlaðan eða reiknaðan heildar-fjármunakostnað til lengri tíma litið sem innihaldi bæði ávöxtunarkröfu eigenda og notkun/fyrningu rekstrarfjármuna; Þar er sagt miðað við uppgjörsaðferðir Hagstofu Íslands í því sambandi þar sem lagt er mat á afkomu útgerðarinnar, en þær aðferðir byggja á áætluðum fjármagns- eða ávöxtunarkostnaði að hluta til.
Það ætti að gefa augaleið að slíkir útreikningar gefa allt aðrar niðurstöður um hagnað í útgerðinni en raunverulegur árlegur heildarkostnaður útgerðarinnar á hverjum tíma. Ekki er hægt að horfa fram hjá núverandi og fyrirliggjandi aðstæðum í atvinnugreininni og fjármögnun hennar; Enda hafa margir aðilar, sem tjáð hafa sig um frumvarpið, þegar bent á það atriði.
Útgerð og fiskvinnsla eflast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2012 | 11:13
Skynsamlegt fiskveiðikerfi?
Athyglisverð tillaga Magnúsar Thoroddsen skv. grein hans í Morgunblaðinu í dag, 17.4.2012 s.19, felur í sér þá grundvallarforsendu að allar aflaheimildir yrðu settar á uppboð á frjálsum markaði. Það myndi fullnægja "ákvæðum mannnréttinda um atvinnufrelsi og jafnrétti allra manna".
Þetta væri hægt að útfæra þannig að heimildum væri fyrirfram skipt í fjóra jafna aflaflokka eftir tegund útgerðar:
1) Togarar
2) Trillubátar
3) Fiskiskip önnur en togarar og trillubátar, öll þar á milli.
4) Strandveiðar landsfjórðungum og löndun eftir þeirri svæðaskiptingu.
Magnús bendir réttilega á að í slíku uppboðskerfi byðu útvegsmenn og -fyrirtæki í aflaheimildir hver eftir sinni getu og kostnaðarstrúktúr og myndi það væntanlega tryggja hámarksleiguverð fyrir ríkið. Ekki væri um pólitíska úthlutun að ræða og möguleikar opnir fyrir nýliðun, eðli málsins samkvæmt. Leigutími aflaheimilda yrði að vera til nægilega langs tíma, t.d. 15-20 ára, og heimildir til framsals aflaleyfa væru eðlilegar innan hvers útgerðarflokks.
Þá telur Magnús rétt að skylda beri að allur landaður afli fari á fiskmarkað til að tryggja jafna aðstöðu hlutaðeigandi aðila.
Sú skynsemi felst í ofangreindum tillögum að svipaðar hugmyndir hefur bloggari hlerað í umræðum við nokkra sjómenn, bæði varðandi skiptingu aflaheimilda eftir útgerðaflokkum og það réttlætismál að allur afli fari á markað.
Magnús Thoroddsen: Pólitískt möndl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2012 | 13:44
Guðni kallar eftir samstöðu um þjóðarhagsmuni
Guðna Ágústssyni er mikið niðri fyrir og hann talar hátt og tæpitungulaust, sem "fyrrv. alþm. og ráðherra", í hugvekjandi pistli sínum í Morgunblaðinu í dag, 16.2.2012 s. 19.
Með hárri raustu spámannsins þrumar Guðni, stórhneykslaður og af skiljanlegum ástæðum, yfir stjórnmálamönnum Íslands og almenningi öllum að lufsast til að "taka hendur úr vösum" og hætta að ala leti og ómennsku upp í unga fólkinu sem eftir er í landinu en hefjast frekar handa við raunhæfar aðgerðir.
Hann ryður brothættum stólum, borðum og skurðgoðum um koll og það gustar um sali. Að minnsta kosti sumir lesendur skilja vafalaust hvað hann er að hrópa um í eyðimörkinni. Það eru þeir sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra og eitthvað þar á milli og réttvísandi kompás sem vísar í segulnorðurátt en ekki upp á sker við Evrópu eða stjórnmálagrænar staðleysur utan mannheima.
Guðni sparkar m.a. í hornsúlur verðtryggingarkerfisins, er sé að hluta til við haldið af verkalýðshreyfingu í matadorleik, og skekur fílabeinsturna rangeygra prófessora er séu "gallaðir pólitískir doktorar" sem sjái ekkert nema ESB. Þá hneykslast Guðni á skattlagningaróðri ríkisstjórn er ætli sér að kippa samkeppnis-forsendum undan sjávarútveginum með þjóðnýtingu á honum.
Síðast en ekki síst fer hann ófögrum orðum um afhendingu ríkisstjórnar fólksins á tveimur af nýreistum stórbönkum landsins til erlendra vogunarsjóða, "braskara og áhættufjárfesta". Fjármagnið sem þessir aðilar sitji fastir með á Íslandi í bili sökum óásetjanlegra gjaldeyrishafta megi ekki fara óskert úr landi og megi reyndar alls ekki fara úr landi. Þarna telur Guðni að ofurskattlagning eigi betur við en á íslenskum sjávarútvegi, fólki og fyrirtækjum.
Guðni nefnir það ekki í þessari andrá að þarna er hann í reynd að tala um upptöku svokallaðs Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa, þar undir fjármagnsútflæði úr landi. Markmið slíks skatts er jafnframt að verja gjaldmiðil landsins fyrir áhlaupum spákaupmanna. Þá leið hefur Lilja Mósesdóttir í Samstöðu bent á til að bregða böndum á snjóhengju jöklabréfa og aflandskróna og sporna við því að hinir óprúttnu erlendu braskarar er Guðni kallar svo og aðrir fjármagnseigendur er þar eiga hlut að máli komist upp með að rústa íslenskum efnahag með því að tæma gjaldeyrisvarasjóð Íslands og kalla ofurskuldsetningu gagnvart útlöndum yfir þjóðina (sbr. grein hennar í Fréttablaðinu 13.4.2012 um Afnám hafta án lífskjaraskerðingar). Reyndar tækist þeim það ekki nema með dyggum stuðningi íslenskrar ríkisstjórnar er færi feigðarleið gjaldeyrishafta alla leið þar sem viðkomandi fjármagnseigendum væri smám saman og um síðir afhentur gjaldeyrisforði þjóðarinnar ásamt ofurvöxtum í kaupbæti. Það væri í samræmi við þá vegferð sem nú þegar virðist vera hafin af núverandi ríkisstjórn í samstarfi við Seðlabanka Íslands.
Guðni Ágústsson: Hendur úr vösum" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.5.2016 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2012 | 14:35
Góð orð gegn skálmöld
Þau sjónarmið um æskileg gildi í mannlífi sem Karl biskup bendir hér á eru góð og þess vegna sígild.
Þessi góðu gildi geta hins vegar orðið undir sé ekki lögð nægileg rækt við þau í stóru sem smáu vítt og breitt í samfélagi okkar.
Þótt ýmsir hamist við að finna íslensku þjóðkirkjunni margt til foráttu að því er hinn ytri umbúnað varðar, svo sem skipulag og stjórnsýslu, gjörðir eða aðgerðaleysi þjóna kirkjunnar í málefnum sem upp koma, að ekki sé minnst á trúarlega túlkun á helgiritum og kirkjulegri hefð, þá er það þegar allt kemur til alls grundvallarreglan, Gullna reglan, sem er sá kjarni sem allt mannlegt samfélag verður að byggja á og leggja rækt við ef ekki á illa að fara. Þar sem þessi regla er ekki í heiðri höfð og í öndvegi er stutt í upplausnarástand og skálmöld.
Í sögu Íslendinga lýsir svokölluð Sturlungaöld þannig ástandi, þar sem óprúttnir ráðamenn og auðmenn deila og drottna með eigin hagsmuni að leiðarljósi og skáka almenningi í sérhagsmunabaráttu sinni og efnahagslegu valdatafli sínu fram og til baka eftir eigin geðþótta án þess að skeyta um líf og limi undirsátanna. Þetta hefur einnig verið að gerast undanfarin ár í þjóðfélagi okkar. Í stað goða og lénsveldis eru komnir svokallaðir auðmenn, kvótahafar og fjármálakerfi.
En, nú er öldin önnur einnig að öðru leyti. Nú getur almenningur risið upp gegn efnahagslegri kúgun og breytt stríðsástandi í uppbyggingu með almannaheill og þjóðarhagsmuni að leiðarljósi. Nú getur almenningur í krafti sameinaðs átaks og samstöðu breytt þeim leikreglum sem hingað til hafa fyrst og fremst þjónað sérhagsmunaöflum og þröngum hópi.
Kirkja sem talar inn í þann veruleika og brýnir náungakærleik fyrir þjóðinni í verki á slíkum vettvangi talar röddu fólksins. Kirkja sem sinnir ekki sínu "spámannlega" hlutverki að því leyti í reynd væri ekki sönn kirkja fólksins. Slík kirkja væri ekki að fylgja fyrirmynd þess sem boðskapur hennar byggir á.
Kristin gildi uppistaðan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2012 | 11:15
Taktu af skarið!
Við þessu á ég eitt svar í texta sem ég samdi við eitt laga minna. Það svar felst í nafni lagsins:
"Taktu af skarið",
með því að hefjast handa t.d. við undirbúning!
(sbr. vefsetur mitt á gogoyoko.com þar sem hægt er að hlýða á þá hvatningu á plötunni Kveikjur: http://www.gogoyoko.com/artist/KrisJons )
Hættum að fresta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2012 | 15:27
Ringulreið verðtryggingar
Allt réttlæti kallar á það að stökkbreytt verðtryggð lán, eins og gengistryggð lán, verði leiðrétt og höfuðstóllinn lækkaður aftur niður í það sem var áður en skriða hrunsins 2008 lagði af stað í upphafi sama árs (jafnvel fyrr) með hröðu gengisfalli og snöggvaxandi verðbólgu.
Sú leiðrétting á að ná til allra slíkra lána óháð tilgangi lántakans með notkun lánsfjárins, þ.e. hvort um var að ræða lán til kaupa á húsnæði eða öðru. Það varðar jafnræðisreglu.
Höfuðstóll umræddra lána snögg-hækkaði með útreikningi á hækkun samkvæmt viðkomandi vísitölum. Á sama hátt þarf höfuðstóllinn að snögg-lækka; Lántakar fengu ekki útborgaða neina viðbótarlánspeninga í tengslum við þann útreikning. Á sama hátt snýst málið um að framkvæma sama talnaútreikning á höfuðstóli lána með öfugum formerkjum.
Þess vegna eru hugmyndir nú um að "fjármagna" þessa lánaleiðréttingu með hinum eða þessum hætti, t.d. með því að skerða lífeyrisgreiðslur meðlima lífeyrissjóða að einhverju leyti í tengslum við þessa leiðréttingu, út í hött.
Slíkar hugmyndir byggja á misskilningi á eðli höfuðstólshækkunar verðtryggðu lánanna. Lánveitendur fengu án peningaútláta hækkun á lánsfénu með bókhaldslegum aðferðum í samræmi við vísitölutengingu lánanna. Sú hækkun byggði á algjörum forsendubresti í efnahagslífinu sem leiddi þar með í ljós ótrúlegt óréttlætið við verðtryggðu lánin þar sem öll áhætta varðandi verðbólgu hvílir á lántakendum 100% og 0% á lánveitendum.
Það er óréttlæti sem er furðulegt að skuldarar, heimili og fyrirtæki, skuli hafa látið yfir sig ganga hingað til. Á því þarf nú að verða breyting og má ekki seinna vera. Koma þarf á sanngjörnu kerfi lánamála í landinu. Vilji er allt sem þarf til að koma hreyfingu á þau mál.
Verðtryggð lán verði lækkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2012 | 12:30
Samstaða um íslenska almannahagsmuni í hnattvæddum heimi
Pistlahöfundurinn Páll Vilhjálmsson bendir á það í pistli sínum í dag að norskur fréttamiðill hafi metið tilsvör bankastjóra Seðlabanka Íslands nýverið um EES-samninginn að hann væri hreint brjálæði. Páll spyr í því ljósi hvort sama brjálæðið felist í hugsanlegum samningi við Evrópusambandið.
Þessar spurningar vekja athygli á glóbaliseringu eða hnattvæðingu efnahagslífsins yfirleitt og afleiðingum hennar fyrir nærsamfélagið í víðara samhengi.
Í ljósi samninga íslenskra stjórnvalda við EFTA 1970 og EES upp úr 1990 og algleymi hnattvæðingar undanfarna áratugi er við hæfi að spyrja sig hvað hafi valdið hruni iðnaðarins á t.d. Akureyri sem þar blómstraði um miðja 20. öld og enn kringum 1970.
Hvort vildu Akureyringar og fleiri sem þannig háttar um hafa iðnaðinn sinn þar enn starfandi og blómstrandi, með heimafólki í launuðum störfum og rótgróna verkþekkingu, eða halda atvinnulausu fólki þar og annars staðar á landinu uppi með atvinnuleysisbótum og annarri félagslegri aðstoð eins og nú er?
Í hnotskurn er hið síðarnefnda (ásamt óhagræðinu af brottflutningi fólks) gjaldið sem nærsamfélagið greiðir nú fullu verði fyrir "ódýran" innflutningsvarning undanfarna áratugi.
Í ofanálag eru framleiðslutæki og verkþekking sem áður stóðu undir velmegun horfin á braut.
Sömuleiðis vald yfir eigin högum að umtalsverðu leyti.
Eftir fjármálahrunið hérlendis 2008 og gjaldeyrisþurrð ætti fólk að vera betur í stakk búið til að átta sig á raunverulegu verðmæti heimaframleiðslu þegar til lengri tíma er litið og í víðara samhengi en skammtímaávinnings.
Hverjir standa nú með pálmann, fyrrum laun og skattfé, í höndunum?
Er það atvinnulaust og sífækkandi heimafólk?
Er það vinnufólkið í Austurlöndum og víðar sem nú framleiðir hinn ódýra innflutningsvarning fyrir Vesturlönd á þrælakjörum og lúsarlaunum?
Hvað með fjölþjóðafyrirtækin? Hafa þau ekki komið hverjum þætti starfsemi sinni fyrir í þeim löndum sem þeim hentar og hagstæðast er frá þeirra eigin hagnaðarlega sjónarhorni, eðli málsins samkvæmt, allt frá öflun hráefna og úrvinnslu til sölu og dreifingar afurða og útgreiðslu arðs til eigenda sinna? Að hvaða leyti hirða þau um velferð nærsamfélagsins og þjóðríkja á hverjum stað? (Vissulega er þó ekki allt slæmt og fyrirtækin eru mismunandi að því leyti).
Að hvaða leyti hefur þessi þróun eflt nærsamfélagið á hverjum stað þar sem uppsprettur virðisaukningarinnar er að finna?
Ekki er að sjá annað en að skörp rýni hagfræðingsins John Kenneth Galbraith t.d. í bók hans Economics and the Public Purpose frá 1973 um þessi mál hafi komið illyrmislega fram í reynd síðan þá. (Galbraith var m.a. hagfræðiprófessor í Harvard og efnahagslegur ráðgjafi nokkurra forseta demókrata í Bandaríkjunum, þ.á.m. Kennedy).
Ekki er heldur hægt að segja annað en að á stefnuskrá hinna nýju stjórnmálasamtaka Samstöðu sé tekið vel á þessum og tengdum atriðum. Það sem ber að undirstrika er að efnahagsleg samskipti og viðskipti Íslands við útlönd séu á forsendum þjóðhagslegra almannahagsmuna Íslendinga.
Samstaða er í skýjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2012 | 15:11
Nær að mótmæla á vettvangi í alheimssjónvarpinu
Eins og fram hefur komið í máli margra um hvort Íslendingar eigi að sniðganga Eurovisionkeppnina í Aserbaídsjan, sökum meintrar spillingar og mannréttindabrota þar, er næsta öruggt að lítið myndi heyrast þar eða á opinberum vettvangi alheimsmála um andúð góðra og óspilltra Íslendinga á mannréttindabrotunum með því að mæta ekki á þann vettvang en sitja þess heldur með samanbitna jaxla úti í horni einhvers staðar í Reykjavík; Þótt halda mætti að sumir teldu hana miðpunkt alheimsathygli og viðhorf Íslendinga jafnast á við vægi ríkja með neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Vilji Páll Óskar og aðrir sem koma að væntu framlagi Íslands til Eurovision söngvakeppninnar koma á framfæri mótmælum við meint mannréttindabrot hjá gestgjöfum keppninnar í ár og láta þannig í ljós stuðning við kúgað fólk þar og annars staðar þá ætti hann og þeir að fara út og tala sem mest og víðast þar á torgum um málið. Ætla mætti að það væri áhrifaríkara en að láta ekki sjá sig þar og þegja heima.
Mér þykir afar líklegt að Páll Óskar melti þessi og þvílík rök og snúist hugur um að sniðganga keppnina. Hann er það greindur og hugrakkur maður. Ég sé hann fyrir mér djarfastan manna með gjallarhorn fyrir utan hina nýju sönghöll útskýrandi fyrir viðstöddum og í beinni útsendingu á rásum alheimssjónvarpsins að hún sé byggð á rústum heimila alþýðufólks sem rutt hafi verið í burtu undir yfirskini hátíðarhaldanna.
Evróvisjón í skugga kúgunar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2012 | 16:16
Nýr og heftur kapítalismi
Það er löngu kominn tími til að bregðast við aðsteðjandi vanda sem hlotist hefur af skefjalausum ágangi manna og sérstaklega fyrirtækja á vistkerfi Jarðar.
Meðan ekki eru reistar viðhlýtandi og öflugar skorður við hagnýtingu auðlinda og þröngsýnum aðferðum í því sambandi halda fyrirtæki, sérstaklega fjölþjóðafyrirtæki, áfram á sömu braut og hingað til: Að starfa fyrst og fremst út frá eigin hagnaðarmarkmiði án tillits til illa bætanlegs eða óbætanlegs skaða fyrir nærsamfélag manna, umhverfið og vistkerfið í heild, sem hlýst af starfseminni.
Hefta verður og koma í veg fyrir skaðleg áhrif óhefts kapítalisma. Til að skilja það þurfa Íslendingar ekki að líta lengra en til banka- og efnahagshrunsins hérlendis 2008 sem rústaði tilvistarlegar aðstæður fjölmargra fjölskyldna og fyrirtækja sökum m.a. óprúttinna manna/fyrirtækja, of rúmra leikreglna og laga og skorti á opinberu eftirliti.
Vandi umhverfis og vistkerfis Jarðar er þó öllu alvarlegri en hið afmarkaða íslenska hrun. Það er vandi allra jarðarbúa.
Allir íbúar Jarðar eiga að hafa eitthvað um það að segja hvernig efnahagskerfið sem hver og einn býr við tekur á þessum vanda. "Markaðurinn" leysir ekki þennan vanda af sjálfsdáðum ef ekki kemur til viðeigandi kostnaðarliður vegna umhverfisáhrifa sem allir ákvörðunaraðilar innan efnahagskerfisins, allt frá einstaklingum til stærstu fjölþjóðafyrirtækja og ríkisstjórna landa, verða og neyðast til að taka tillit til við rekstur fyrirtækja sinna, hvort sem um er að ræða rekstur heimilis eða fjölþjóðafyrirtækis.
Spurningin er að hvaða leyti samræmd og viðeigandi skattlagning og regluverk í öllum löndum dugi til.
Einnig þarf að verða hugarfarsbreyting hjá öllu fólki, hvort heldur sem er í hlutverki neytanda eða starfsmanns og framleiðanda.
Huga þarf og að nærsamfélaginu alls staðar, í öllum löndum. Ef til vill er það einn besti aðilinn til að hafa með höndum virkt eftirlitshlutverk í þessu samhengi - EF það virkar sem skyldi alls staðar í öllum löndum.
En, skapandi hugur og orð eru til alls fyrst. Viðtengd frétt um umræður um "umhverfisvænan kapítalisma" á alþjóðavettvangi í minningu hinnar fjörgömlu Ríó-samþykktar frá 1992 er liður í umhverfisvænni sköpun manna.
Hefjast þarf handa áður en jarðarbúar deyja unnvörpum úr mengun, súrefnis- og matarskorti af mannavöldum.
Ýmsir aðilar hafa í gegnum aldirnar vísað til orða Biblíunnar um það ráðsmennskuhlutverk manna á Jörðu að "gera sér hana undirgefna". Þessi orð hafa löngum verið mis- og rangtúlkuð bókstaflega í réttlætingarskini með þeim hörmulegum afleiðingum að vistkerfi er stórskaðað eða eyðilagt með óafturkræfum hætti. Rangtúlkunin felst í því að það að gera jörðina sér "undirgefna" felur ekki í sér að eyðileggja hana við það.
Eða, hvaða gagn hefur maður t.d. af hesti sínum með því að temja hann og gera hann sér þannig undirgefinn og drepa hann svo strax í kjölfarið t.d. með illri meðferð?!!!
Umhverfisvænn kapítalismi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)