Velferðarstefna eða helferðarstefna

Sífellt fleiri taka undir þessar leiðir sem Lilja ásamt Samstöðu hefur bent á til að losna við þann yfirvofandi skaðvald sem 1000 milljarða "snjóhengja" af innlyksa fé hérlendis er, ef viðkomandi fjármagnseigendur sjá ekki sóma sinni í því að fjárfesta þá hér viljugir til langs tíma.

Þennan púka þarf að losna við sem fyrst vegna þess að meðan ekkert er aðhafst heldur hann áfram að mala sér gull í formi inneignarvaxta með hávaxtamaskínu peningastefnunefndar Seðlabankans. 

Til að halda þessari gífurlegu fjárupphæð "sjálfviljugri" hérlendis þarf reyndar markvisst að bjóða upp á fjárfestingarkosti á móti. 
Þar duga ekki sýndaráform eins og nýlega voru kynnt af ríkisstjórninni sem á að hrinda í framkvæmd einhvern tímann eftir fyrirsjáanlega lífdaga hennar, enda gerast "bjargráðin" varla hallærislegri.

Ekkert annað en ömurleg helferð fyrir íslenskan almenning fylgir þeirri hugmynd og áformum Samfylkingar að einhvers konar (ennþá óljós) fyrirgreiðsla ESB muni leysa vandann, v.þ.a. þar er reiknað með að greiða niður alla þessa fjárhæð á einhverjum ótilteknum tíma með vöxtum.
Hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um snögga afléttingu gjaldeyrishafta þar sem fjárhæðin yrði leyst út með lánsfé gjaldeyrisforða Seðlabankans er heldur ekkert annað en snögg kollsteypuhelferð. Gjaldeyrisforði landsins yrði þá upp urinn og hátt í jafnháar vaxtaberandi skuldir sætu eftir hliðstætt og á við um afleiðingar hörmungarstefnu Samfylkinngar.

Það sem blasir við að þurfi að gera ef komast á hjá efnahagslegri helferð Íslendinga er einmitt þetta sem Lilja með Samstöðu að bakhjarli bendir á.
Fari snjóhenguféð ekki með góðu í langtíma raunfjárfestingar hérlendis getur það heldur aldrei farið óskert úr landi.

 


mbl.is Vill hóta eigendum snjóhengjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlaus HÁvaxtastefna gegn sumum

Á þessu bloggi hefur margoft verið andæft gegn þeirri hávaxtastefnu  sem rekin hefur verið hérlendis undanfarin ár. Nú eru enn einu sinni uppi hugmyndir um það hjá Seðlabanka Íslands að hækka vexti á nýjan leik "til þess að sporna við verðbólgu"!
Er fólkinu sem fyrir þessu stendur fyrirmunað að skilja eða gegna því að vaxtahækkanir hækka kostnað fyrirtækja og einstaklinga og kynda þar með undir verðbólgunni í stað þess að draga úr henni og gera þungbæra skuldabyrði enn þyngri.
Samtímis eykur það tekjur þeirra sem best standa fjárhagslega, þ.e. fjármagnseigenda.

Ég vitna hér í fyrri pistil um þessi mál frá 12.7.2011, sem greinilega á enn við:

Furðulegar hugmyndir um að hækka stýrivexti, sem seðlabankastjóri viðrar nú í fréttum, gefa því miður vísbendingar um að hann og/eða stjórn Seðlabankans hafi ekkert lært af afleiðingum hávaxtastefnunnar sem komið var á af þeim fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í kjölfar bankahrunsins 2008.
Ennfremur að fræðingar þar á bæ skelli skollaeyrum við því hvernig vextir virka á rekstur fyrirtækja og heimila og neytendur.
Að minnsta kosti fara þeir ekki eftir hvorki grundvallar hagfræðikenningum um mismunandi viðbrögð við mismunandi tegundum verðbólgu, eins og hagfræðingur Arion banka og Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor benda á og útskýra (í viðtengdri frétt mbl.is 12.7.2011), né heldur heilbrigðu innsæi. 

Það ætti að vera augljóst hverjum manni að hækkun vaxta nú, þegar mikill slaki er á efnahagskerfinu og atvinnuleysi mikið og fjárfestingar í lágmarki, myndi gera erfiðan róður fyrirtækja og heimila enn erfiðari og gera út af við enn fleiri.
Ef það er stefna Seðlabankans er þessi vaxtahækkunarógn af hans hálfu náttúrulega skiljanleg.
Hækkun stýrivaxta við þessar aðstæður hefði hins vegar í sjálfu sér engin áhrif til að minnka verðbólguna, en kyndir þvert á móti undir meiri verðbólgu sem einn kostnaðaraukinn til viðbótar við aðrar kostnaðarhækkanir sem áhrif hafa á neysluvöruvísitöluna til hækkunar; Sem síðan leiðir til enn meiri hækkunar á lánum, afborgunum og vaxtagreiðslum.

Hækkun stýrivaxta eflir hag fjármagnseigenda hinna meiri. Hækkun stýrivaxta nú eflir fyrst og fremst þeirra hag, en er öllum skuldurum í óhag, bæði fyrirtækjum og heimilum landsins og þar með efnahagslífi landsins.
Þar sem gjaldeyrishöft eru í gildi eru það ekki gild rök að halda því fram að hækka þurfi vexti til að halda inneignum erlendra aðila kyrrum í íslenska bankakerfinu. Seðlabankinn hækkaði samt stýrivexti í ofurhæðir (eftir að hafa áður hafið lækkunarferli í kjölfar hrunsins) samkvæmt tilmælum AGS þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. Það gaf innistæðueigendunum vaxtatekjur sem sliguðum skuldurum var gert að borga í ofanálag við snögghækkaðar verðbætur lána sinna og stökkbreyttar skuldir. Þessari viti firrtu hávaxtastefnu seðlabankamanna, að því er ætla mætti lénsherra erlendra fjármálaafla, þessari aðför að skuldsettu efnahagslífi landsins, þarf að andæfa af krafti og hörku. Hvar eru talsmenn Íslendinga?


mbl.is Spá stýrivaxtahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keppinautar frystir

Nóbelsverðlaunahafinn Nouriel Roubini, Doktor Dómsdagur eins og dárungarnir kalla hann, bendir hér á vandamál evru-myntkerfisins í Evrópu sem hann telur að muni fyrr en síðar splundrast niður í upphaflegar frumeindir sínar, eigin gjaldmiðla landanna.
Þetta muni fyrst gerast hjá þeim löndum sem eigi nú erfiðast með að aðlagast nýjum veruleika á lánsfjármörkuðum þar sem þau standa á tánum í skuldasúpu sinni  upp í háls.

Þessi erfiða og sársaukafulla staða verst settu landanna á evrusvæðinu er ekki síst sökum þess að þau hafa ekki eigin gjaldmiðil til að nýta til að bregðast versnandi samkeppnisstöðu.
Hvað það var, sem helst orsakaði verri samkeppnisstöðu sumra evrulanda í samanburði við önnur evrulönd eftir upptöku þeirra á hinni sameiginlegu mynt, þá blasir sú nakta staðreynd við núna að þau geta ekki gripið til gengisfellingar til að laga samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum löndum þar sem þau hafa ekki eigin mynt; Eðli málsins samkvæmt.

Það blasir auðvitað við að með þátttöku í sameiginlegu myntbandalagi og með því að taka upp sameiginlega mynt eins og evru er búið að frysta þetta fljótvirka samkeppnistæki, taka það úr umferð hjá meðlimalöndunum.
Það kemur sér vel fyrir þau lönd sem standa sterkast í bandalaginu og hafa öflugustu og hagkvæmustu framleiðslukerfin. Það er óskastaða fyrir þau að geta í krafti sameiginlegrar myntar fryst samkeppnisstöðu keppinautanna hvað það varðar.
Það er hliðstætt því og að losna á einu bretti við hættu af hugsanlegum skæruhernaði í stríði. Og, þetta er stríð, efnahagslegt stríð um markaði og áhrif og önnur tengd atrið milli landanna.


mbl.is Dr. dómsdagur spáir efnahagslegu stórslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forvarnareftirlit Alþingis - Umboðsmaður kjósenda - Alþingiseftirlitið

Á þessum þýðingarmiklu dæmum sem hér eru tíunduð af Eygló Harðardóttur og fréttamanni mbl.is sést að löngu virðist tímabært að stofna enn eitt eftirlitsapparatið, jafnvel þrjú, og væri það til þjóðþrifa í ljósi reynslunnar á störfum hins opinbera og embættismanna þess:

Forvarnareftirlit Alþingis:
Sér til þess að kanna allar hugsanlegar afleiðingar af lagafrumvörpum áður en þau eru samþykkt. Þetta varðar: 1) Útreikninga á fjárhagslegum afleiðingum fyrir ríki, atvinnulíf, heimili og einstaklinga, þ.e. alla hlutaðeigandi hagsmunaaðila, hópa og tengda aðila sem lögin taka til. 2) Könnun á hvort ákvæði stjórnarskráar eða fyrirliggjandi laga séu  brotin. 3) Annað sem máli skiptir, o.s.frv.

AlþingsEftirlitið:
Fylgist með að alþingimenn fylgist með úrskurðum dómsvaldsins, sérstaklega þeim tilvikum þar sem lög og/eða (stórkostlegir) gjörningar fyrirtækja og annarra eru dæmd ólögleg. Sér til þess að Alþingi bregðist við og grípi inn í framvindu mála eins og lög og stjórnarskrá mæla fyrir um. O.s.frv.

Umboðsmaður kjósenda:
Tekur við ábendingum kjósenda um ólögmætt og óréttmætt athæfi löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds.
Fylgist með hvernig stjórnmálaflokkar vinna að því að efna kosningaloforð sín og gefur einkunn fyrir framvindu hvers málefnaflokks pr. flokk með tilliti til þess sem lofað er fyrir kosningar. Staða mála samkvæmt slíkum einkunnum skulu ávallt vera aðgengilegar almenningi á Netinu. Orð skulu standa.
Skerpa á þeirri grundvallarreglu sem hér á að liggja til grundvallar og tíunduð er undir lið númer 8 í fornum ættbálkalögum sem kennd eru við Móse (Þetta var um síðir fært í letur í riti sem kallað er Önnur Mósebók 20.16, og ítrekað í Fimmtu Mósebók 5.20 ef þetta skyldi hafa farið fram hjá einhverjum við lestur á ritröðinni; á sínum tíma). Þessir fornmenn gerðu sér góða grein fyrir því hvað þurfti til að halda friði og sátt í mannlegu samfélagi. (Að vísu er mikilvægt útfærsluatriði hvernig þeim reglum verði best framfylgt, með boðvaldi eða brýningu).

Þetta er sannarlega ekkert grín.


mbl.is Hætti að innheimta ólögmæt lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðnýting á tapi

Hér virðast lífeyrissjóðir hafa fundið sniðuga leið til að varpa hluta af tapi sínu yfir á yfir á almenna skattborgara, a.m.k. tímabundið þar til betur árar hjá þeim: 
Skerða áunnin réttindi, líklega tímabundið, en án þess að greiðslur skerðist í heildina að heitið getur til viðkomandi lífeyrisþega þar sem Tryggingastofnun  ríkisins hækkar þá sínar greiðslur á móti sökum tvíeggjaðra skerðingarreglna hennar.

Skerðingarreglurnar virka í báðar áttir, bæði til lækkunar og í þessu dæmi til hækkunar á bótum þar sem tekjur lífeyrisþeganna skerðast vegna lækkunar á lífeyrissjóðsgreiðslunum.

Þetta er í reynd þjóðnýting á hluta taps lífeyrissjóðsins sem hann hefur bakað sér undanfarin ár, væntanlega tengt fjárfestingastefnu hans.
Að vísu, og vonandi, mun þetta væntanlega ganga til baka með hlilðstæðum hætti þegar lífeyrissjóðurinn verður búinn að vinna upp tapið sem orsakaði lífeyrisskerðinguna þannnig að hann hætti lífeyrisgreiðslur sínar aftur, ef skerðingarreglurnar breytast ekki með afgerandi hætti í millitíðinni.
En, á meðan verður hinn lánsfjárbústni ríkissjóður að fjármagna tap lífeyrirsjóðsins að hluta með þessum hætti.


mbl.is Áunnin réttindi lækki um 7,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaðar nætur

Þær eru dulmagnaðar næturnar í tunglskini, ekki síst þegar horft er út um húsgluggann yfir trjátoppana í kjarri vöxnum dal og alls kyns hugrenningar taka á sig mynd í skímunni.

Þannig háttaði tímamótaárið 2000 á húmfagurri júlínótt í þvölu daggarröku bláberjalyngi og puntstráum sem bærðust í hægum andvaranum af heiðinni niður dalinn, fjarri amstri hins daglega lífs þar sem tárin streyma.
Varð þá til eitt versið í lagi mínu Lífsins gangur á samnefndri plötu, sem hlusta má á hér á spilaranum mínum í flutningi KrisJons:

Tunglið yfir trjánum skín
töfrandi um nætur.
Trúföst móðir tárin sín
tregablandin lætur.

"En, það líður allt sína leið ..." Ekki seinna vænna að búast til þjónustu fyrir land og þjóð, gott fólk.

 

 


mbl.is Ofurmáni á himni í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Strandhögg"

Í fréttagrein í Morgunblaðinu í dag, 28.4.2012 s. 2, reiðir Gylfi Arinbjarnarson hátt til höggs í nafni ASÍ varðandi strandveiðar og leggur til að þeim verði hætt þar sem þær tilheyri þeim hluta kerfisins "þar sem hagkvæmni er minnst".
Ekki fylgir þó með tölulegur rökstuðningur fyrir þessari afdráttarlausu og alvarlegu yfirlýsingu, fremur en algengt er um sleggjudóma sem þessa.
Ómögulegt er því að átta sig á því á hverju yfirlýsing Gylfa byggir og í hverju meint óhagkvæmni strandveiða felst, sem færa ferskan fisk á land með hlutfallslega litlum kostnaði samanborið við frystitogarana sem brenna rándýrri innfluttri olíu við frystingu og hringsól á hafi úti.
Fellur yfirlýsingin því í þann flokk upphrópana sem marklausar verða að teljast, að minnsta kosti þar til úr er bætt með haldbærum rökum.
Óskandi er að þau komi fram svo að hægt sé að ræða um málið með vitrænum hætti á gagnsæum grunni.

Reyndar er yfirlýsing Gylfa hliðstæðu marki brennd og fiskveiðistjórnunarfrumvarpið sem hann er að gagnrýna, þar sem slíkan ítarlegan og bitastæðan rökstuðning vantar með frumvarpinu sjálfu að umtalsverðu leyti varðandi veigamikil grundvallaratriði í dæminu, svo sem um raunverulegan fjármagnskostnað og afskriftir bæði í útgerð og fiskvinnslu í bráð og lengd. Að ekki sé minnst á fjármögnunar- og lánamál núverandi fyrirtækja í stöðunni.

Hvort tveggja, rakalausar yfirlýsingar og gloppóttur frumvarpsrökstuðningur, er lýsandi dæmi um orðræðuna hérlendis um svona mikilvæga þætti í efnahagsmálum landsins, þar sem oft skortir á fullnægjandi og hlutlægt mat á málefnum sem til umfjöllunar eru og stjórnvöld eru í þann veginn að taka afdrifaríkar ákvarðanir um.

Hvað ræður úrslitum í þeim tilvikum þegar töluleg og hlutlæg rök eru af skornum skammti?
Hlutlægir hagsmunir almennings og þjóðarhagur, pólitískur meirihlutavilji sitjandi valdhafa eða önnur sjónarmið?
Vonandi hið fyrst nefnda, en maður óttast að svo sé ekki alltaf tilfellið ef rökum staðreynda og talna er áfátt.


mbl.is Strandveiðum verði hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða ungs fólks til fyrirmyndar

Hér tekur ungt, hugsandi, þjóðhollt, ábyrgt og jákvætt fólk höndum saman um að efla samstöðu sína og meðal þjóðarinnar allrar um uppbyggilegar úrlausnir á þeim vandamálum sem við blasa og landsstjórnir undanfarinna ára hafa komið okkur í.

Þetta unga samstöðufólk hefur greinilega vaknað til meðvitundar um að þörf er á að taka til höndum í stjórnmálum á Íslandi á forsendum almennings og þjóðarhags með það fyrir augum að finna og greina lausnir sem eru til þess fallnar að rétta við hag almennings og þjóðarinnar allrar til lengri tíma litið, en ekki einvörðungu að grípa til skammtímalausna sem hygla tilteknum hópi á kostnað heildarinnar eða viðhalda óréttlátum sérréttindum til langframa.

Þetta unga fólk finnur, eins og aðrir sem fylkt hafa sér saman undir merkjum samstöðu, að óráð og miskunnarlaus sérhagsmunagæsla hinna gömlu stjórnmálaflokka og þeirra afla sem búa þeim að baki eins og púki á fjósbita og toga  þar í strengi, deilandi og drottnandi, hafa leitt þjóðina í miklar ógöngur.

Allir, sem vaknað hafa upp við þann vonda draum sem við stöndum nú frammi fyrir og upplifum í reynd enn sem hina verstu martröð, gera sér grein fyrir því að nú verður að taka upp nýja hugsun og grípa til nýrra úrræða með það að markmiði að efla kjör og hag allra og þar með þjóðarhag til lengri tíma litið.
Albert Einstein mælti af mikilli speki þegar hann benti á að það væri vitfirring að búast við breyttri útkomu ef áfram væru notaðar sömu gömlu aðferðirnar. 

Í þessu sambandi má benda á vandamál við afnám gjaldeyrishafta, en núverandi hefðbundin stefna í þeim málum felur í sér að almenningur greiði allan kostnað og byrðar vegna afleiðinga af henni.

Vonandi hefur almenningur á Íslandi ennþá lifandi hugsun og dómgreind til að gera sér grein fyrir þessu þannig að hann leggi af blinda trú á gömlu innantómu og innistæðulausu slagorðin hjá gömlu flokkunum.

Vonandi fer fólk almennt, eins og þetta unga samstöðufólk gerir, að taka sér tíma til að íhuga alvarlega hvað hefur raunverulega verið á seyði og í hvað stefnir að óbreyttu.


mbl.is Ungliðar mynda samtök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sinubruni hjá bændum í Borgarfirði

Nú brennur sina í Borgarfirði og leggur þykkan dauðmengandi reykjamökk upp eftir Norðurárdal í hægum andvara af suð-suðvestan.

Dimmir verulega í lofti og sést varla til sólar, sem skein glatt á heiðskírum himni áður en ófögnuðurinn gaus upp.

Ekki kemur fram í lélegri fréttinni hvort bændur hafi sjálfir kveikt ósómann eða hvort eldur hafi kviknað fyrir slysni.

Hafi þetta verið vísvitandi gert af bændum eru viðkomandi  varla með fullu viti og búnir að gleyma stórbrunanum í gróðri á Borgarfjarðarmýrum fyrir nokkrum árum. Einnig kæra þeir sig þá kollótta og sauðflekkótta um það að einmitt um helgar eru hinir fjölmörgu sumarbústaðir í hinum fagra Borgarfirði sneisafullir af fólki sem komið er langt að til að njóta paradísarinnar þar í sveit og súrefni; Hefði þá verið viti nær að brenna sinu ekki um helgar af tillitssemi við gestina.

Spurningin er: Kveiktu bændur umhverfismengandi og lífeyðandi ófriðarbálið af ásetningi?


mbl.is Sinueldur í Borgarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðsluaðstoð við lántakendur leysir ekki verðtryggingarvandann

Guðbjartur Hannesson viðurkennir hér tilvist vanda lántakenda sem stafar af verðtryggingarkerfinu.
Ekki er nóg að viðurkenna vandann eins og Guðbjartur í Samfylkingunni gerir hér og Kristján Þór Júlíusson í Sjálfstæðisflokki gerði í skv. viðtali við hann í gær. Viðeigandi viðbrögð og verk verða  að fylgja.
Eins og kunnugt er hvílir áhætta vegna verðbólgu á verðtryggðum lánum 100% á herðum lántakenda og 0% á lánveitendum. Við Hrunið kom afhjúpaðist vel hversu óréttlátt það fyrirkomulag er gagnvart lántakendum.
Hið snarasta verður að ganga í það verk að leiðrétta hin stökkbreyttu verðtryggðu lán heimilanna sem hlóðu reiknuðum verðbótum á herðar viðkomandi lántakenda við Hrunið og í aðdraganda þess 2008, en við það voru með tilsvarandi hætti sömu reiknuðu upphæðir tekjufærðar hjá lánveitendum á móti. Afleiðingar þessara hækkana á verðtryggðum lánum og þeim forsendubresti sem þar er að baki verður að leiðrétta og bakfæra þessar stökkbreyttu hækkanir um að minnsta kosti helming.

Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að bregðast við þessum hraðvaxandi vanda núna með því aðhækka barnabætur og tilteknar niðurgreiðslur til lántakenda í vanda taka ekki á rót vandans. Verðbólgan heldur samt áfram að hlaða ofan á verðtryggðu lánin og færa fé frá lánþegum til lánveitenda eins og áður með óréttlátum hætti. Ríkisstjórnin væri aðeins að viðhalda þeirri peningamyllu og örva flæði peninga frá lántakendum, almenningi og skattgreiðendum til lánveitenda.

Aðstoð ríkisins við lánþega í greiðslu- og skuldavanda til að halda áfram að greiða af verðtryggðum lánum í stað þess að stuðla að skuldaleiðréttingu er eins og að líma plástur á graftarkýli í stað þess að ráðast að rótum meinsemdarinnar og fjarlægja eyðileggingarmátt hennar.


mbl.is Skuldamál heimila í biðstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband