"Strandhögg"

Í fréttagrein í Morgunblaðinu í dag, 28.4.2012 s. 2, reiðir Gylfi Arinbjarnarson hátt til höggs í nafni ASÍ varðandi strandveiðar og leggur til að þeim verði hætt þar sem þær tilheyri þeim hluta kerfisins "þar sem hagkvæmni er minnst".
Ekki fylgir þó með tölulegur rökstuðningur fyrir þessari afdráttarlausu og alvarlegu yfirlýsingu, fremur en algengt er um sleggjudóma sem þessa.
Ómögulegt er því að átta sig á því á hverju yfirlýsing Gylfa byggir og í hverju meint óhagkvæmni strandveiða felst, sem færa ferskan fisk á land með hlutfallslega litlum kostnaði samanborið við frystitogarana sem brenna rándýrri innfluttri olíu við frystingu og hringsól á hafi úti.
Fellur yfirlýsingin því í þann flokk upphrópana sem marklausar verða að teljast, að minnsta kosti þar til úr er bætt með haldbærum rökum.
Óskandi er að þau komi fram svo að hægt sé að ræða um málið með vitrænum hætti á gagnsæum grunni.

Reyndar er yfirlýsing Gylfa hliðstæðu marki brennd og fiskveiðistjórnunarfrumvarpið sem hann er að gagnrýna, þar sem slíkan ítarlegan og bitastæðan rökstuðning vantar með frumvarpinu sjálfu að umtalsverðu leyti varðandi veigamikil grundvallaratriði í dæminu, svo sem um raunverulegan fjármagnskostnað og afskriftir bæði í útgerð og fiskvinnslu í bráð og lengd. Að ekki sé minnst á fjármögnunar- og lánamál núverandi fyrirtækja í stöðunni.

Hvort tveggja, rakalausar yfirlýsingar og gloppóttur frumvarpsrökstuðningur, er lýsandi dæmi um orðræðuna hérlendis um svona mikilvæga þætti í efnahagsmálum landsins, þar sem oft skortir á fullnægjandi og hlutlægt mat á málefnum sem til umfjöllunar eru og stjórnvöld eru í þann veginn að taka afdrifaríkar ákvarðanir um.

Hvað ræður úrslitum í þeim tilvikum þegar töluleg og hlutlæg rök eru af skornum skammti?
Hlutlægir hagsmunir almennings og þjóðarhagur, pólitískur meirihlutavilji sitjandi valdhafa eða önnur sjónarmið?
Vonandi hið fyrst nefnda, en maður óttast að svo sé ekki alltaf tilfellið ef rökum staðreynda og talna er áfátt.


mbl.is Strandveiðum verði hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Gylfi er búinn að vera.

Níels A. Ársælsson., 28.4.2012 kl. 18:12

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þræðir LÍÚ liggja víða!!

Sigurður I B Guðmundsson, 28.4.2012 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband